Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 18:40:00 (503)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Já, þetta var dálítið skrítinn endir á annars ágætri ræðu. En við ætluðum ekki að ræða málefni Lánasjóðsins í dag, en samt hafa málefni hans öðru hverju komið upp og menn tala finnst mér stundum eins og hugmyndir lánasjóðsnefndarinnar sem ég skipaði á sl. sumri séu nánast orðnar að lögum. Bara til að fyrirbyggja allan misskilning, þá er ekki svo. Þessi nefnd hefur sett fram sínar hugmyndir. Þær eru margar hverjar ágætar, sumar hverjar tel ég ekki framkvæmanlegar en það hefur engum manni dottið í hug, ekki heldur þeim sem tóku þátt í þessu nefndarstafi, að allar þær hugmyndir sem þar eru settar fram verði framkvæmdar. Það eru settir fram kostir sem menn hafa svo um að velja. Þetta vildi ég taka fram.
    Í öðru lagi vil ég einnig taka fram að ég mun ekki styðja tillögur sem þrengja kosti þeirra er hyggja á iðnnám. Ég held að það sé ekki skynsamlegt. Ég held að ekki sé skynsamlegt að standa þannig að málum. Það eru ýmsar leiðir til til að gera iðnnámið eftirsóknarverðara en það er og þær leiðir þurfum við að finna.