Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 15:21:00 (569)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Það lá ekki fyrir í upphafi þessa fundar hvort sú utandagskrárumræða, sem hefur verið tilkynnt úr forsetastóli að eigi að fara fram kl. 17.30, mundi fara fram í dag eða annan dag. Það varð hins vegar samkomulag við formenn þingflokkanna um að umræðan gæti farið fram kl. 17.30 í dag til þess að slíta ekki sundur þá umræðu sem hér fer fram, en gert er ráð fyrir kvöldfundi til þess að halda henni áfram.
    Forseti tekur alveg undir að það er slæmt að þurfa að víkja frá þingsköpum að þessu leyti, en þarna var fyrst og fremst um það að ræða hvenær hægt væri að tímasetja þessa umræðu, hvort hún yrði í dag eða á morgun. Það vissi forseti ekki í upphafi þessa fundar og þess vegna var það tilkynnt strax og forseti komst að til að gera það.