Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 15:22:00 (570)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Mér er ljóst að valdsvið forseta er ærið. Engu að síður eru því takmörk sett með þeim leikreglum sem þingsköp áskilja og 50. gr. er alveg skýlaus hvað þetta snertir. Hér stendur hvergi að það geti átt sér stað að forseti, eftir samkomulag við þingflokksformenn, hafi heimild til að brjóta 50. gr. Það er ekki ýjað að þessu einu einasta orði. Ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. forseta lesa úr forsetastóli þann texta þingskapanna sem heimilar að þverbrjóta rétt þingmanna. Ég vænti þess að hæstv. forseti geri sér grein fyrir að það kallar á storma og stríð ef þeir sem ætla að halda öðrum til aga og reglna á þingfundum telja sér ekki skylt að fara sjálfir eftir þingsköpunum.