Samgöngumál á Austurlandi

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:42:00 (790)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Mig langar að koma því á framfæri að ég taldi það mjög virðingarvert á sínum tíma hvaða skilning Austfirðingar höfðu á jarðgangagerð á Austfjörðum og hve jákvæðir þeir voru í sinni afstöðu þegar þessum verkum var raðað niður. Hins vegar er það svo að ég hef kannski aðrar skoðanir á lífdögum þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og hef hreinlega ekki þann framtíðarvanda fyrir augum að hún muni ríkja eftir 1995, en auðvitað er allur varinn góður. Hins vegar kom það fram hjá hv. 5. þm. Austurl. að hann ætlar að tryggja hæstv. samgrh. stuðning innan ríkisstjórnarinnar og einnig innan þingsins við aukið framlag til vegamála. Má segja að hv. 1. þm. Austurl. hafi þar unnið stóran sigur því að það er í fyrsta skipti sem ég hef heyrt alþýðuslokksmann flytja jafnákveðna stuðningsyfirlýsingu við það að vegir skuli almennt lagðir á Íslandi og þykja mér það stór tíðindi og ég efa ekki að þessu verður fylgt eftir.
    Ég skil aftur á móti ekki hvernig núverandi ráðamenn ætla að standa að því að fá þjóðina til að samþykkja að hægt verði á í vegaframkvæmdum á Íslandi vegna þess að þeir telja að ekki sé fært að taka lán til vegagerðar.
    Það er rétt hjá hæstv. samgrh. að ferðamannaþjónustan er sá atvinnuvegur sem er í mestum vexti og mestu mun skila, herra forseti. Þess vegna er það undirstöðuatriði að sú atvinnugrein verði ekki svelt, menn þori að koma vegum Íslands í eðlilegt ástand og það er ekki hægt nema menn þori að taka lán til þess. ( Gripið fram í: Heyr.)