Almenn hegningarlög

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 15:16:00 (935)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Hæstv. forseti. Ég vil þakka góðar undirtektir við megintilgang þessa frv. Það er ekki óeðlilegt að upp komi ýmsar spurningar þegar rætt er um að innleiða tilraun af þessu tagi sem felur óneitanlega í sér nýjungar að því er varðar viðurlög við afbrotum. Það er til að mynda álitaefni hvaða mörk á að setja varðandi þau brot sem til greina kemur að breyta í samfélagsþjónustu. Hér hefur komið fram sú athugasemd hjá hv. 4. þm. Suðurl. að eðlilegra væri að miða við sex mánaða dóma eða skemmri í stað tíu mánaða dóma og skemmri. Vitaskuld eru spurningar af þessu tagi álitaefni sem ég tel eðlilegt að nefndin fjalli um.
    Þá er spurt að því hvaða störf hér eru höfð í huga. Um það hafa ekki verið teknar ákvarðanir. Ætlunin er að Fangelsismálastofnun hafi umsjón með höndum, annist það verkefni að útvega störf sem hæfa í þessu skyni. En við það hefur verið miðað að hér væri um að ræða aðstoðarstörf af ýmsu tagi, einkanlega hjá opinberum aðilum í þeim tilvikum þar sem ekki er verið að ýta til hliðar fólki sem ráðið hefur verið til opinberra starfa eða koma í veg fyrir að fullgildir starfsmenn fái atvinnu. Það liggur í augum uppi að hér er um vandasamt verk að ræða en ég treysti hins vegar mætavel Fangelsismálastofnun og starfsmönnum hennar til að annast það verk og leiða það til lykta með farsælum hætti.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum af því að um það var spurt hver reynsla annarra þjóða hafi verið af þessu, þá benda þau gögn sem ráðuneytið hefur undir höndum til þess að almennt hafi þessi reynsla verið góð. Menn hafa litið svo á að í mörgum tilvikum hafi refsingar af þessu tagi fært brotamenn inn á nýjar brautir í sínu lífsmynstri. Það er meginniðurstaðan. Ugglaust eru undantekningar þar frá eins og gefur að skilja í málaflokki sem þessum, en meginniðurstaðan mun vera þessi.
    Ég ítreka svo þakklæti mitt fyrir undirtektir þingmanna við frv. og vænti þess að hv. nefnd vinni hratt og örugglega að framgangi þess og taki til athugunar þær athugasemdir sem hér hafa komið fram.