Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 15:35:00 (981)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Aðeins örlítið. Mig langar til að geta þess að mér þótti eilítil þversögn í því sem hv. síðasti ræðumaður kom hér inn á í sínum málflutningi þar sem ég heyrði ekki betur en hann stillti því upp sem andstæðum, annars vegar að veita fjármagni til byggðamála af hálfu ríkisins og Byggðastofnunar og þess að landsbyggðin taki byggðamálin í sínar hendur á hverju svæði fyrir sig sé meiri stýring á því hvað gert er þar. Ég get ekki séð að þetta séu andstæður. Við búum við stjórnsýslu sem er á tveim stigum, ríki og sveitarfélög og samstarf sveitarfélaga eða landsfjórðungasamtök, eins og Áskell Einarsson þekkir mætavel, hafa ekki neina burði. Við höfum ekki þriðja stjórnsýslustigið. Meðan svo er sé ég í rauninni ekki annað en ríkisvaldið verði að koma þegar á bjátar inn í dæmið og vera sveitarfélögum þar sem þau eru samstarfssamtökum til hjálpar með einhverjum hætti. En ég tek undir orð hv. 3. þm. Reykv. að ég tel að það sé langbest að ákvarðanir séu teknar á þeim landsvæðum þar sem vandamálin eru.