Vegrið

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:08:00 (1352)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Inga Birni Albertssyni fyrir þessa fsp. sem er flutt vegna þáltill. sem Alþingi hefur þegar samþykkt. Mér er ljóst að vegrið hafa skilað miklum árangri þar sem þau eru, og veit dæmi þess að lestaðir vörubílar hafa stöðvast, og þau hafa komið í veg fyrir mikinn skaða eða alvarlegri slys.
    Ég get líka tekið undir það sem hæstv. samgrh. sagði hér um stefnumörkun í þessum efnum. Ég tel að þetta verði að koma inn í vegáætlun og verði tekið með í kostnaðaráætlun um vegi því að vissulega er það staðreynd að víða hefði mátt koma í veg fyrir slys sem orðið hafa ef vegrið hefðu verið. (Forseti hringir.) --- Tími minn er útrunninn. Ég byrjaði reyndar á rauðu ljósi og er á því enn þá, en ég virði tímamörk forseta. ( Forseti: Forseti setti grænt ljós eftir að þingmaðurinn hóf ræðu sína.)