Veiðiheimildir Færeyinga og Belga

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:56:00 (1371)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
     Frú forseti. Ég þakka greinargott og ítarlegt svar sjútvrh. Ég tek það fram að það kann að gegna öðru máli um fiskveiðiheimildir Belga en Færeyinga. Eins og ég gat um áðan, munu Belgar nú hafa um 4.400 tonna kvóta en þeir nýta ekki nema 1.200--1.400 tonn um þessar mundir.
    Ég tek undir með sjútvrh. að það kann að vera rétt að við íhugum að beita ákvæðum í samningum okkar við Belga til að segja upp þessum samningum ef Evrópubandalagið ætlar að nota þá samningatækni sem nú virðist komin upp í þeirra húsum. Ég vil jafnframt taka það fram að ég er þeirrar skoðunar að eins og árar í íslenskum sjávarútvegi, þá sé það nauðsynlegt að takmarka heimildir Færeyinga allverlega.
    Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það eigi í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem komin er upp í íslenskum sjávarútvegi að afnema veiðiheimildir algerlega til Færeyinga. Ég tel að til þess að treysta stöðu smábátaútgerðar í landinu, þá eigi sjútvrh. að beita sér fyrir því að þessar veiðiheimildir, alls 9.000 tonn, verði veittar til þess að auka veiðiheimildir smábáta á Íslandi, enda verði í framhaldi af því breytt reglum og lögum um það með þeim hætti að smábátum verði ekki kleift að framselja kvóta sinn nema til annarra smábáta.