Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:29:00 (1425)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Forseta þykir það miður ef hv. 2. þm. Vestf. telur að forseti hafi beitt einhverja einstaka þingmenn órétti um það að gefa þeim tækifæri til að taka til máls. Forseti reynir að gæta sanngirni í hvívetna og skipta ræðutímanum þannig að bæði þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu fái tækifæri til að tjá sig. Og ef hv. 2. þm. Vestf. hefur áhuga á því, þá getur hann litið yfir mælendaskrá forseta hér á eftir og kynnt sér hvort þar hefur ríkt ósanngirni í garð hv. þm. Forseti tók það fram að því miður væru enn þingmenn á mælendaskrá og þar á meðal hv. 5. þm. Vesturl. og hv. 3. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Norðurl. e. en varð að stoppa til þess að reyna að standa við þingsköp og hafa þessa umræðu ekki lengri en þau gera ráð fyrir. Þetta vill forseti segja við hv. 2. þm. Vestf.