Leyfisveitingar til leiguflugs

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 14:03:00 (1476)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :

     Virðulegi forseti. Ég er með fsp. til hæstv. samgrh. í framhaldi af frétt sem var í Morgunblaðinu í síðustu viku þar sem skýrt er frá því og vitnað til ráðherra að hann hafi ákveðið að taka leyfisveitingar fyrir leiguflug frá flugmálastjóra og inn á borð til sín. Ég vil spyrja ráðherrann hvaða hagsmunir séu svo mikilvægir að Sjálstfl. telji réttlætanlegt að taka þessar leyfisveitingar inn á borð ráðherra og auka þar með miðstýringu og ganga þvert á það sem ég hef heyrt hæstv. samgrh. halda fram nánast hvar sem hann kemur því við. Ég vil í framhaldi spyrja að því hvaða aðilar það voru sem hafa þrýst á um það og sýnt mesta óánægju með vaxandi leiguflug, ódýrt leiguflug til landsins. Ég vil minna ráðherrann á að það er reynsla fyrir því úr kjördæmi okkar hæstv. ráðherra að þar hefði beint flug til útlanda væntanlega aldrei komið til öðruvísi en þar hefði ísinn verið brotinn af leiguflugfélögum og við höfum ekki þurft á því að halda að vera alfarið komin upp á samgöngurisann okkar þann innlenda.