Umboðsmaður barna

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 14:51:00 (1489)

     Guðmundur Hallvarðsson :
     Frú forseti. Það blandast ekki nokkrum hugur um að hér er hið merkasta mál á ferðinni. Hins vegar vil ég gera örstutta athugasemd og beina því til flm. að þeir athugi í ljósi þess sem hér var sagt áðan í ræðu hv. 10. þm. Reykv. að foreldrahlutverkinu væri ekki nægur gaumur gefinn sem ég tek undir. Þegar 3. gr. þessa frv. er skoðuð, þá held ég að þar blundi það sem sagt var að foreldrahlutverkinu er ekki nægur gaumur gefinn þegar horft er til þess hverjir skuli skipa sjö manna ráð sem á að vera umboðsmanni barna til ráðgjafar og það er athyglisvert, með leyfi forseta: Það er Barnaverndarráð Íslands, Fóstrufélag Íslands, Stéttarfélag ísl. félagsráðgjafa, Kennarasamband Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Félag þroskaþjálfa og Félag uppeldisfræðinga. Ég verð að lýsa undrun minni á því að foreldrahlutverkinu skuli ekki vera betri og meiri gaumur gefinn en raun ber hér vitni og ég vil beina því til flm. að þeir athugi sinn gang þannig að foreldrar fái eitthvað um þetta merka mál að segja.