Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 17:28:01 (1651)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Eins og kunnugt er á sjávarútvegurinn nú við mikinn rekstrarvanda að etja þrátt fyrir þá staðreynd að verðlag á erlendum mörkuðum er mjög hátt. Fyrir þá sök hefur greiðslum í Verðjöfnunarsjóðinn verið haldið áfram samkvæmt skýrum lagafyrirmælum þar um. Svo stóð á við síðasta útreikning inngreiðslna í sjóðinn að samkvæmt óbreyttum reglum hefði inngreiðslan átt að hækka úr 1,6% í 2%, en með því að breyta reiknireglum innan þess ramma sem lögin heimila þá náðist að lækka inngreiðslurnar úr 1,6% niður í 1,5%. Um er að ræða mjög óvenjulega aðstöðu þar sem rekstrarvandi atvinnugreinarinnar er jafnmikill og kunnugt er á sama tíma og verðlag á mörkuðum er mjög hátt. Fyrir þá sök þykir óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til þess að stöðva við þessar aðstæður frekari inngreiðslu í sjóðinn. Kveðið er á um það í lögum um Verðjöfnunarsjóðinn að heimilt sé við sérstakar aðstæður að stöðva inngreiðslur. Það hefur hins vegar verið litið svo á að umdeilanlegt væri hvort þær aðstæður sem við stöndum nú frammi fyrir heimili eða réttlæti að því lagaákvæði sé beitt. Til þess að eyða allri óvissu og gera ákvörðun sem þessa trygga að lögum þótti nauðsynlegt að kveða á um þetta með sérstöku lagaákvæði. Því var þetta frv. flutt. Það gerir ráð fyrir því að á yfirstandandi fiskveiðiári verði ekki um frekari inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins að ræða.
    Brýnt er að þetta mál hljóti skjótan framgang í þinginu þannig að við útreikning eða áður en til ákvörðunar kemur samkvæmt gildandi reglum síðari hluta þessa mánaðar hafi lagafrv. þetta öðlast lagagildi svo áhrif þess komi til framkvæmda um næstu áramót.
    Ég sé ekki, frú forseti, ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. Það er einfalt í sniðum þó að það víki að hluta til að mjög stórum vanda í íslenskum sjávarútvegi. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.