Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 11:47:00 (1699)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég hélt að það hefði komið alveg skýrt fram hjá mér að ég get ekki orðið við þeim tilmælum hv. þm. að draga þessar tillögur til baka og ástæðan fyrir því er ofur einföld. Þótt ekki sé um neinar stórkostlegar upphæðir að ræða hefur þetta áhrif á fjárlagagerðina fyrir árið 1992 sem við erum að ganga frá núna. Í grunnskólalögunum eru skyldur lagðar á ríkisvaldið til að sjá fyrir fjárveitingum til þessara þátta sem kveðið er á um í grunnskólalögum og við erum nú að gera tillögur um frestun á. Sú ástæða nægir út af fyrir sig til þess að við hljótum að halda okkur við þessar tillögur. En eins og ég sagði líka áðan þá vonast ég til að okkur gefist tækifæri til þess að ræða almennt um skólamálastefnuna síðar á þessu þingi þar sem ég hef í hyggju að leggja fram tillögur um endurskoðun grunnskólalaganna og þá er, eins og ég sagði líka áðan, ástæða til þess að tala um ýmislegt annað en kostnað.