Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 22:06:00 (1758)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að það sem ég sagði um stöðu þessara mála var það að sá áburður sem Seðlabankinn, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. eru að bera á hæstv. félmrh. er að af húsbréfakerfinu stafi allt hið illa í vaxtamálum Íslands. Það kom seinast fram í ræðu hæstv. viðskrh. áðan. Þess vegna vil ég að það liggi alveg ljóst fyrir að sá eini þáttur sem ég taldi hæstv. viðskrh. hafa í hendi sér sé salan á bréfunum úr landi. Og ég fagna því að það kemur fram hjá hæstv. viðskrh. að þeir skapsmunir eru til staðar að það á ekki að láta velta sér upp úr þessu heldur sýna þann manndóm að selja bréfin úr landi. Og það er athyglisvert sem hæstv. félmrh. segir hér þrisvar sinnum í ræðustól að skýrsla Seðlabankans sé ekkert annað en bull um þessa hluti. Þrisvar sinnum er því lýst yfir af ráðherranum að skýrslan sé bull og það hlýtur að leiða hugann að því: Er þá allt annað rétt sem frá stofnuninni kemur?