Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 21:57:00 (1827)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. rakti ýmis dæmi um það þegar Alþingi hefur heimilað sveitarfélögum með nokkuð rúmum hætti að meta hvað þau vildu gera í skattheimtu. Ég hef hvergi séð að þeir tekjustofnar væru út af fyrir sig rengdir af dómstólum, að þeir væru innan þeirra marka sem heimilt er. Ég vil undirstrika að ég treysti mér ekki til að dæma um það hvort þetta er innan markanna, á mörkunum eða nákvæmlega hvað á að segja þar um. En ég vil benda hv. 5. þm. Vestf. á að það hafa fallið tveir dómar varðandi framsal skattheimtu á Íslandi sem ég veit um. Hv. 1. þm. Vestf. fékk á sig annan dóminn sem samgrh. út af þungaskatti sem honum hafði verið heimilað skv. reglugerð að hækka og hækkaði það ríflega að Hæstiréttur taldi að ekki stæðist að Alþingi gæti framselt svo mikla hækkun. Hitt atriðið var varðandi fóðurbætisskatt sem landbrn. hafði heimilað hækkanir á í tengslum við framleiðsluráð ef ég man þetta rétt. Í því tilfelli kom til endurgreiðslukvöð á hendur ríkisins. Ég vil leggja áherslu á að hv. 5. þm. Vestf. misskilji ekki orð mín og að ég ætla ekki í dómarasæti í þessu máli. Hins vegar voru þessir dómar að mínu viti mjög merkilegir á sínum tíma því að í þeim fólst viss atyrðing til alþingismanna um það að þeir skyldu gá að sér þegar þeir væru að framselja heimildir til skattlagningar.