Vatnsveitur sveitarfélaga

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 13:17:00 (2361)

     Kristín Einarsdóttir :

     Virðulegi forseti. Kjarninn í spurningu minni varðandi 7. gr. var hvað ætti að gera ef það hámarksgjald sem mætti taka dygði ekki til. Það kom fram, ef ég man rétt, á þeim fundi sem ég mætti á í félmn. að einhverjar vatnsveitur þyrftu að lækka sitt gjald, þ.e. þær hafa tekið hærra gjald en þær hafa heimild til ef þetta verður að lögum. Þá velti ég því fyrir mér og spurði reyndar áðan hvað gerðist þá. Verður það Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sem mundi koma þarna inn í eða hvað gerist ef vatnsveiturnar ráða ekki við að reka vatnsveiturnar og gjaldið sem þær mega taka dugar ekki til samkvæmt heimildum sem eru veittar í frv. því það er mjög mismunandi hvað kostar mikið að sjá fyrir vatni? Það var fyrst og fremst þetta sem ég hafði áhyggjur af varðandi þær heimildir sem hér eru og mér finnst nauðsynlegt að fá við því viðhlítandi svar hvað verður gert ef vatnsveiturnar geta ekki fullnægt þeim skyldum sem á þeirra herðar eru lagðar.
    Ég get fallist á að það sé allt í lagi að umhverfisþátturinn sé í öðrum lögum og rannsóknir á grunnvatnskerfum séu ekki beinlínis settar inn í þetta samhengi, en það verður þó að hafa í huga að það sé ekki skilið eftir, sett alveg til hliðar, vegna þess að það er mikilvægur þáttur í þessu máli. Það er þess vegna sem ég er að leggja áherslu á þetta.
    En spurningin er þá fyrst og fremst: Hvað á að gera ef vatnsveiturnar geta ekki, með þeim gjöldum sem hér eru, fullnægt þessari skyldu sinni? Er það þá Jöfnunarsjóður eða ríkissjóður sem kemur inn í málið? Það var fyrst og fremst það sem ég saknaði úr svörum 11. þm. Reykn. sem ég þakka annars fyrir.