Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 10 . mál.


10. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 39/1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

Flm.: Stefán Guðmundsson, Steingrímur Hermannsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsso

n,

Jón Kristjánsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Guðni Ágústsson,


Ingibjörg Pálmadóttir, Finnur Ingólfsson.



1. gr.


    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Fyrirtækjum, sem greiða Verðjöfnunarsjóði, er heimilt að inna þá greiðslu af hendi til síns viðskiptabanka eða innlánsstofnunar þar sem fjármagnið verði ávaxtað enda sé fullnægt almennum reglum sem sjóðstjórn setur, m.a. um ávöxtun fjárins, sbr. 11. gr.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Þann 5. maí 1990 samþykkti Alþingi lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins sem tóku gildi 1. júní 1990.
    Hlutverk sjóðsins er, eins og segir í lögunum, að draga úr áhrifum verðsveiflna á sjávarafurðum á þjóðarbúskapinn.
    Þrátt fyrir það sem segir í 7. gr. laganna, að innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins teljist eign hans, er ekkert sem mælir gegn því að það fjármagn, sem hin ýmsu fyrirtæki sjávarútvegsins greiða til sjóðsins, sé ávaxtað í viðskiptabönkum fyrirtækjanna, enda segir í 4. gr. laganna að greiðslur skuli renna inn á verðjöfnunarreikning á nafni viðkomandi framleiðanda.
    Staða á reikningum Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins er nú um 2,6 milljarðar kr. Af því má sjá að hér er um verulegt fé að ræða sem tekið er úr rekstri fyrirtækjanna til hugsanlegrar verðjöfnunar.
    Markmið þessa frumvarps er að gefa þeim sem gert er að greiða hluta af afrakstri atvinnustarfsemi sinnar til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins rétt til að ávaxta það fjármagn þar sem framleiðslan og verðmætasköpunin hefur orðið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í lögunum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins segir að greitt skuli í sjóðinn þegar markaðsverð afurða í hverri deild er að meðaltali 3–5% hærra en staðvirt meðalverð (grundvallarverð) síðustu fimm árin og skal innborgunin vera 50% af því sem umfram er.
    Með flutningi þessa frumvarps er lagt til að það fjármagn, sem hin ýmsu sjávarútvegsfyrirtæki lögum samkvæmt greiða til Verðjöfnunarsjóðsins til hugsanlegrar sveiflujöfnunar, verði heimilt að ávaxta í viðskiptabönkum fyrirtækjanna og þá í þeim byggðarlögum þar sem framleiðslan er.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.