Ferill 33. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 33 . mál.


33. Tillaga til þingsályktunar



um gæðamál og sölumeðferð á ferskum fiski.

Flm.: Jóhann Ársælsson, Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að grípa þegar í stað til ráðstafana til að tryggja aðgang innlendrar fiskvinnslu að hráefni á Íslandsmiðum og bæta meðferð afla.
    Settar verði í þessu skyni reglur um að allur fiskur, er ekki fer beint til vinnslu hérlendis, skuli boðinn til sölu innan lands á fiskmarkaði eða með öðrum viðurkenndum hætti. Einnig verði settar strangar reglur um meðferð og ferskleika afla sem ætlaður er til sölu á mörkuðum þar sem m.a. verði kveðið á um hve langur tími má líða frá því fiskur veiðist þar til sala fer fram.

Greinargerð.


    Í tillögu þessari felst að vegna aðstæðna í sjávarútveginum og byggðarlögunum og hins mikla aflasamdráttar, sem fyrirsjáanlegur er, verði þegar í stað gripið til sérstakra aðgerða sem gildi meðan sú endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar fer fram sem lög gera ráð fyrir.
    Tilgangur aðgerðanna er að tryggja fiskvinnslunni hér innan lands betri möguleika til að ná auknum hlut í vinnslu þess afla sem kemur af Íslandsmiðum og jafnframt að bæta meðferð aflans almennt.
    Óþarft er að fjölyrða um þýðingu þess fyrir byggðarlögin við sjávarsíðuna að sem mest af þeim afla sem að landi kemur sé tekinn þar til vinnslu og skapi þannig atvinnu og umsvif. Enn frekar nú, þegar afli dregst saman og efnahags- og atvinnuhorfur eru jafnískyggilegar og raun ber vitni, er nauðsynlegt að allt sé gert sem hægt er til að stuðla að slíkri þróun.
    Algengt er talið að fiskur sé seldur á erlendum mörkuðum fyrir lægra verð en fæst á sama tíma hér innan lands. Sjálfsagt hlýtur því að vera að gefa íslenskum kaupendum tækifæri til að gera tilboð í fiskinn áður en ráðist er í að selja hann óunninn erlendis. Ísaður fiskur, sem seldur er á erlendum mörkuðum, er að stærstum hluta orðinn mjög gamall, 7 til 18 daga, og þess vegna ekki fyrsta flokks vara. Talið er að ísaður fiskur sé ekki fyrsta flokks vara nema í 6 daga frá því að hann er veiddur. Benda má á að samræmdar reglur um sölu á ferskum fiski eru í gildi á mörkuðum í Evrópu. Fiskur, sem seldur er á EB-mörkuðum, er flokkaður í þrjá flokka, þ.e. E (excellent), A og B. Fjögurra daga gamall fiskur og yngri fer í E-flokk, 7 daga og yngri í A-flokk og fiskur eldri en 7 daga fer í B-flokk. Meiri hluti þess íslenska afla sem seldur er ferskur erlendis flokkast í B-flokk vegna þess hversu gamall hann er. Sjálfsagt hlýtur að teljast að gera nú sérstakt átak til betri meðferðar afla og ná þannig meiri arði af þeim fiski sem til ráðstöfunar er.
    Fiskmarkaðir eru nú sem óðast að taka til starfa hér á landi. Ástæða er til að gera ráð fyrir að verulegur hluti afla af miðunum við landið verði seldur á þeim innan tiltölulega skamms tíma. Mjög mikilvægt er að eðlilegar kröfur verði gerðar til starfsemi þessara markaða. Nú þegar fiskur fer í auknum mæli til sölu með þessum hætti hér innan lands er eðlilegt að setja markið hátt og stefna að því að vinna íslenskum fiski háan sess sem góðri vöru.



Fylgiskjal I.


Fréttabréf Ríkismats sjávarafurða, 4. tbl. 1991.
Viðtal við Þórð Árelíusson veiðieftirlitsmann
um fiskmarkaði og gæðamál:


Kaupendur meti fisk til verðs eftir ferskleika, stærð og gæðum.



    Fiskmarkaðir á Íslandi gegna nú veigamiklu hlutverki í íslenskum sjávarútvegi. Þeir hafa veitt fiskvinnslufyrirtækjum möguleika á aukinni hagræðingu í vinnslu og mörg hús þurfa ekki lengur að taka við blönduðum afla. Því er spáð að fiskmarkaðir muni breiðast út um allt land og að í kjölfarið fari samkeppnin um hráefnið harðnandi. Þegar fiskmarkaði var komið á fót hér á landi 1987 bundu menn vonir við að meðferð og gæði aflans mundu batna. Þær vonir hafa ekki ræst sem skyldi. Þórður Árelíusson veiðieftirlitsmaður hefur ákveðnar skoðanir á fyrirkomulagi fiskmarkaða hérlendis. Hann bendir m.a. á nauðsyn þess að menn velti fyrir sér hvort það mundi skila sér í bættum afurðum að vigta aflann í ílát og flokka fyrir uppboð.

    Sérstaða íslenskrar fiskvinnslu er fólgin í því að geta fengið nýrra hráefni til vinnslu af Íslandsmiðum en erlend fyrirtæki. Þess vegna þyrftum við að byggja upp fiskmarkaði sem gætu þjónað þessum tilgangi. En hvernig ætti slíkur markaður að vera?
    Í fyrsta lagi, segir Þórður, þarf fiskmarkaður að uppfylla ákveðnar kröfur um húsnæði og hreinlætisaðstöðu. Eins þarf seljandi að afhenda vöru sína á markað á ákveðnum tíma þannig að starfsmenn markaðarins hafi nægilega langan tíma til að flokka fisk eftir stærð og vega hann í hæfilega stór ílát á kostnað seljenda. Þetta skilar sér í hærra verði þar sem kaupandinn greiðir m.a. fyrir það að fiskurinn sé kominn á ákveðið vinnslustig.

Fiskinn verður að vera hægt að skoða.
    Opinbert eftirlit þyrfti til að ganga úr skugga um ferskleika og gæði fisksins og dæma þarf frá fisk sem óhæfur er til manneldis. Fiski þarf að koma þannig fyrir á markaðsgólfi að kaupendur geti skoðað hann og metið til verðs eftir stærð, útliti og ferskleika og borgað hærra verð fyrir besta fiskinn.
     Hvaða þættir hafa áhrif á verðmyndun fisks á mörkuðum hér á landi?
    Í lögum um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla segir að ráðherra skuli við veitingu leyfa meta hvort skilyrði frjálsrar verðmyndunar séu fyrir hendi með hliðsjón af líklegu fiskframboði. Ekki er því að neita að svokallað hráefnisverð á fiski hefur stórhækkað frá því sem var og þá fremur vegna samkeppni við útfluttan ísfisk. Verðsveiflur innlendu markaðanna hafa verið í samræmi við verðsveiflur erlendis. Samkeppnisaðstaða innlendu markaðanna til þess að fá til sín fisk til sölu hefur batnað með aukinni skerðingu útflutts fisks og afnámi sóknarmarksins. En væntingar manna um að fiskmarkaðirnir bættu meðferð og gæði fisks til vinnslu hafa ekki ræst að því marki sem menn gerðu sér vonir um. Gæðamat íslenskra kaupenda er ekki eins mikið og gerist hjá erlendum kaupendum sem eru meðvitaðri um tengsl gæða og arðsemi. Starfsmenn erlendra fiskmarkaða auðvelda kaupanda val sitt og verðlagningu eftir gæðum með því að vigta aflann í ílát og flokka eftir stærð og ferskleika.

Gera þarf auknar kröfur til húsnæðis fiskmarkaða.
    Þórður segir að á íslensku mörkuðunum séu litlar kröfur gerðar til húsnæðis. Mætti t.d. nefna að til eru fiskmarkaðshús sem þjóna frekar þeim tilgangi að vera geymslur þar sem körum er staflað upp í hæðir. Framkvæmd vigtunar á þessum stöðum sé oft örðug því verið sé að afgreiða fisk út úr húsinu jafnframt því sem fiskur berist að. Hér sé þó vert að taka fram að mjög þokar í rétta átt í þessum málum.
    Enn fremur er móttöku á fiski á mörkuðum þannig háttað að byrjað er að taka á móti fiski jafnskjótt og búið er að bjóða upp og hann geymdur í sólarhring og enn lengur um helgar.
    Markaðirnir taka jöfnum höndum við slægðum og óslægðum fiski. Oft gerist það að óslægði fiskurinn liggur í blóðvatni og bíður uppboðs, og fer jafnvel óslægður eftir sölu norður í land. Þessu þarf að breyta, sagði Þórður.

Endurbætur á fiskmörkuðum erlendis.
     Hvernig starfa markaðir erlendis?
    Vegna aukinna heilbrigðiskrafna í löndum Evrópubandalagsins, sem taka eiga gildi í árslok 1992, eru áform um miklar endurbætur sem eiga að stuðla að bættri meðferð fisks frá löndun til sölu afurða. Framkvæmdastyrkur til að auðvelda fyrirtækjum aðlögun að þessum nýju heilbrigðisreglum er fyrirhugaður og munu vera áform um að veita honum t.d. til uppbyggingar á uppboðshúsum og fiskvinnsluhúsum. Í þessu sambandi má nefna að ástand fiskvinnsluhúsa hér á landi er yfirleitt gott og því er nauðsynlegt að tryggja að fiskmarkaðirnir verði engir eftirbátar húsanna.
    Fiskvinnslufyrirtæki erlendis sem ekki uppfylla heilbrigðiskröfur verða að flytja starfsemi sína í nýjar byggingar. Í Belgíu er ætlunin að reisa nýjan fullkominn fiskmarkað ásamt fiskvinnslu. Í Grimsby er talað um að til þess að uppfylla heilbrigðiskröfur þurfi að mölva niður og byggja upp aftur fiskmarkaðinn og endurbyggja húsnæði fyrir flökun á fiski.
    Í starfsreglum EB fyrir fiskmarkaði frá því í mars 1990 eru reglur um það hvernig fiskur skuli flokkaður eftir ferskleika og stærð. Einnig eru þar ákvæði um stærð fiskíláta og vigtun aflans.
    Markaðurinn leggur til hæfilega stór viðurkennd ílát sem eiga að tryggja að vel fari um fiskinn og að kaupmaðurinn geti skoðað hann. Markaðurinn leggur einnig til menn til að stærðaflokka og vega fiskinn og er miðað við 50 kíló í íláti til sölu í Englandi og Þýskalandi. Opinberir eftirlitsmenn fara yfir stærðaflokkun. Algengast er að stærðaflokkarnir séu fjórir í helstu fisktegundum. Einnig dæma þeir fiskinn eftir ferskleika í E- (excellent), A- og B-flokka og fisk óhæfan til manneldis. Það má segja að reyndin sé að fiskur í E-flokki sé innan við fjögurra daga gamall, A innan við sjö daga og B yfir sjö daga gamall, en í þann flokk fer mest af íslenskum fiski erlendis. Verð íslensks fisks á erlendum mörkuðum mótast auk framboðs og eftirspurnar af þeirri meðferð sem hann hefur fengið, ferskleika og nýtingarhæfni. Nýting íslensku flakanna vegur hlutfallslega meira miðað við haus og bein en nýting flaka af öðrum miðum.
    Skoðun Þórðar er sú að við þurfum að gæta þess að dragast ekki aftur úr öðrum þjóðum vegna þess að kröfur okkar til fiskmarkaða séu minni en þeirra. Athuga ætti hvort íslenskum mörkuðum beri ekki að taka upp reglur erlendra fiskmarkaða að einhverju eða öllu leyti.

Að auka verðskyn kaupandans.
    Fiskur, sem er keyptur eftir að hann hefur verið veginn í hæfilega stór ílát og flokkaður í stærðir, gerir kaupandanum kleift að vita nákvæmlega um þyngd, ferskleika og ástand fisksins til vinnslu. Nákvæm vigtun auðveldar kaupandanum líka að gera sér fyrir fram grein fyrir nýtingu þess fisks sem hann er að kaupa.
    Niðurstaða Þórðar er í stórum dráttum sú að það auki verðskyn kaupandans að geta gengið að fiski flokkuðum og vigtuðum og auðveldi honum að meta fisk til nýtingar og verðmæta í vinnslu. Við slíkt fyrirkomulag væri hægt að koma upp vinnslu sem gæti betur sérhæft sig að kröfum neytenda um mismunandi gæði, t.d. lítil sérhæfð og vel rekin fiskvinnslufyrirtæki. Verðmyndun yrði og í samræmi við aukin gæði.
    Öll meðferð, sem sums staðar er ábótavant um borð í veiðiskipum, mundi batna þegar sjómenn fyndu að laun þeirra væru í samræmi við ferskleika og meðferð fisksins. Sú hvatning er vænlegri til að skila betri gæðum en reglugerðir.
    Góð meðferð mundi skila sér í betri nýtingu og hærra verði.
    Samkeppnisaðstaða gagnvart erlendri fiskvinnslu mundi batna vegna nálægðar við miðin og skila meira af úrvalsfiski á land.
    Grundvöllur yrði skapaður fyrir sérhæfingu fyrirtækja.
    Sóknin í smáfisk mundi minnka vegna lægra verðs og draga mundi úr netaveiði vegna lélegra gæða þess fisks sem er bæði marinn og dauðblóðgaður. Veiðiferðir skipa mundu styttast og draga mundi úr aukinni vinnslu á sjó.



Fylgiskjal II.


Fréttabréf Ríkismats sjávarafurða, 2. tbl. 1991.
Henri Belveze hjá framkvæmdastjórn EB:



Tilskipun EB um heilbrigðiskröfur


varðandi framleiðslu og markaðssetningu fiskafurða.



    Hér birtist lausleg þýðing Einars M. Jóhannssonar á erindi sem Henri Belveze, starfsmaður framkvæmdastjórnar EB, hélt á fundi FDA/NOAA (Food and Drug Administration/National Oceanic and Atmospheric Administration) í Brussel 17. júlí 1991 þar sem hann kynnti tilskipun EB um heilbrigðiskröfur varðandi framleiðslu og markaðssetningu fiskafurða.

Heilbrigðisskoðun fiskafurða á hinum sameiginlega evrópska markaði.
    Þann 16. júlí 1991 náði Ráð Evrópubandalagsins samkomulagi um tilskipun um heilbrigðiskröfur varðandi framleiðslu og markaðssetningu fiskafurða.
    Aðildarríki EB skulu hafa fellt ákvæði tilskipunar þessarar inn í löggjöf sína fyrir 1. janúar 1993, daginn sem lög um sameiginlegan markað Evrópu taka gildi.
    Tilskipunin nær til allra afurða sjávar- og ferskvatnsfiska sem ætlaðar eru til manneldis. Hún kveður á um að þessar afurðir skuli fullnægja tilteknum skilyrðum, svo heimilt sé að markaðssetja þær, þar á meðal varðandi fiskiskip, uppskipunarhafnir, fiskmarkaði, heildsölur o.s.frv., verkunar- og vinnslustöðvar og flutninga.
    Þrenns konar kröfur eru gerðar: kröfur varðandi byggingar, kröfur varðandi eftirlit og gæðakröfur.
    1. Byggingarkröfur varðandi húsakost og tæki, eins og lýst er í viðauka við tilskipunina, snerta:
    a. fiskiskip, vinnsluskip,
    b. geymsluskála, fiskmarkaði, húsakost dreifingaraðila o.s.frv.,
    c. verkunar-, frysti- og vinnslustöðvar.
    Framleiðsluleyfi EB til starfrækslu fæst því aðeins að öllum ákvæðum tilskipunarinnar hafi verið fullnægt og er markaðssetning óheimil án þess.
    Kröfurnar varða fyrirkomulag húsnæðis, frágang gólfa, veggja og lofta, frárennsli, magn (aðrennsli) drykkjarhæfs vatns, hreinlætisbúnað, tæki og aðstöðu til þrifa, aðstöðu til losunar fiskúrgangs, gæði hráefnis sem notað er, afkastagetu frystivéla í eða tengdum klefum o.fl. auk viðhalds, þrifa, gerileyðingar og persónulegs hreinlætis starfsfólks.
    2. Ætlast er til að eftirlitið verði þrefalt til þess að tryggja fullnægjandi framkvæmd heilbrigðisreglna þeirra sem tilskipunin fjallar um:
—    Innra eftirlit.
—    Umsjón og eftirlit opinberrar eftirlitsstofnunar.
—    Eftirlit stofnana EB með innfluttum fiskafurðum.

     A. Innra eftirlit sem fyrirtæki eru skyldug til að taka upp og framkvæmdastjórnir beri ábyrgð á og á að tryggja að aðstaða til framleiðslu og afurðir, sem sendar eru á markað, fullnægi þeim heilbrigðisreglum sem settar eru. Þetta eftirlit skal byggt á eftirfarandi grundvallaratriðum:
—    finna skal þá staði eða þá vinnsluþætti sem haft geta skaðleg/óæskileg áhrif á afurðirnar,
—    taka skal upp aðgerðir til að tryggja að eftirlit með þessum stöðum eða þáttum sé virkt og að unnt sé að sannreyna að svo sé,
—    sýnatökum til rannsókna á viðurkenndum rannsóknastofum,
—    skráningum niðurstaðna ofantalinna atriða og rannsókna sem geyma skal til þess að hin opinbera eftirlitsstofnun geti sannreynt þær.

     B. Umsjón og eftirlit hinnar opinberu eftirlitsstofnunar viðkomandi ríkis nær m.a. til eftirfarandi þátta:
—    eftirlits með fiskiskipum,
—    eftirlits með aðstöðu og framkvæmd við löndun, uppboð og dreifingu,
—    eftirlits með fyrirtækjum til að tryggja að framleiðendur standi við skilmála fyrir leyfisveitingu, persónulegu hreinlæti starfsfólks og þrifum, að hreinlæti við vinnslu sé fullnægjandi og innra eftirlit fyrirtækisins sé framkvæmt á fullnægjandi hátt,
—    skoðunar afurða á markaði til að tryggja að þær séu merktar í samræmi við gildandi reglur og hafi verið fluttar og séu geymdar í samræmi við gildandi heilbrigðisreglur.

     C. Framkvæmdastjórn EB annast yfirumsjón og hefur heimild til að senda sérfræðinga sína til að sannreyna hvort hinar opinberu eftirlitsstofnanir beiti ákvæðum tilskipunarinnar á sambærilegan hátt og sérstaklega að fyrirtækin uppfylli ákvæði hennar.
    3. Fiskafurðir, sem teljast eiga hæfar til manneldis, verða að standast kröfur varðandi ferskleika, sníkjudýr eða amínósambönd, svo sem trimethylamín og histamín.
    Hvað varðar efna- og gerlamengun eru í tilskipuninni tilgreindar leiðir sem fara skal til að ákvarða hvaða greiningaraðferðir og sýnatökukerfi skuli nota í hverju tilfelli og hvaða hámarksfrávik séu ásættanleg. Framkvæmdastjórn EB skal leggja tillögur sínar þar að lútandi fyrir fastanefnd dýralækna (heilbrigðisnefndina). Fulltrúar aðildarríkjanna í nefndinni verða þannig beinir þátttakendur í afgreiðslu þeirra. Séu atkvæði greidd um tillögurnar ræður magn veginna atkvæða úrslitum. Þessar ákvarðanir falla inn í ramma hinnar almennu tilskipunar um opinbert heilbrigðiseftirlit sem samþykkt var 1989 til að samræma heilbrigðiseftirlit á hinum sameiginlega markaði. Slíkt eftirlit verður að auka á framleiðslustigi til að tryggja frelsi til flutninga afurða á markað svo unnt verði að afnema skoðun þeirra á landamærum og draga úr eftirliti á áfangastað þeirra.

Eigin framleiðsla EB-landa.
    Heilbrigðisvottorða verður ekki krafist með fiskafurðum sem fluttar eru milli aðildarríkja EB. Heilbrigðisstimpill, þar sem fram kemur númer vinnsluleyfis, skal prentaður á umbúðir eða farmbréf (meðfylgjandi viðskiptaskjöl).
    Þetta mun tryggja frjálsan flutning afurðanna og jafnframt gera kleift að sjá hver framleiðandinn er ef slíkt reynist nauðsynlegt.

Innfluttar fiskafurðir.
    Hluti tilskipunarinnar fjallar einnig um innflutning fiskafurða frá þriðju ríkjum (ríkjum utan bandalagsins). Höfuðreglan er sú að sambærilegar reglur skuli gilda varðandi fiskafurðir framleiddar innan bandalagsins sem utan þess. Framkvæmdastjórnin mun leggja tillögur varðandi skilmála fyrir innflutningi frá hverju einstöku ríki fyrir fastanefnd dýralækna.
    Í þessum skilmálum verður þó krafist heilbrigðisvottorðs og heilbrigðisstimpils á afurðirnar, þar sem áhersla er lögð á að fram komi númer vinnsluleyfis framleiðanda og lista yfir þær vinnslustöðvar sem leyfi hafa til innflutnings til EB-ríkjanna.
    Opinberri eftirlitsstofnun þriðja ríkis verður falið að annast leyfisveitingar og hún skal annast eftirlit með því að farið hafi verið eftir sambærilegum reglum við framleiðsluna og þeim sem birtar eru í þessari tilskipun og tryggja að opinberir eftirlitsmenn annist úttekt og eftirlit með fyrirtækjunum.
    Þetta framsal ábyrgðar til hlutaðeigandi yfirvalda í þriðja ríki er háð því skilyrði að þau teljist sambærileg eftirlitsstofnunum aðildarríkja EB, m.a. hvað varðar:
—    löggjöf þriðja ríkis,
—    skipulag, völd og aðferðir sem eftirlitsstofnunin getur beitt,
—    heilbrigðiskröfur þær sem framfylgt er í raun varðandi útfluttar fiskafurðir,
—    tryggingar þær sem þriðja ríki getur veitt fyrir því að þær reglur, sem birtar eru í tilskipun þessari, verði virtar.
    Sérfræðingar framkvæmdastjórnar EB og aðildarríkjanna munu meta hæfni og getu hinna opinberu eftirlitsstofnana þriðju ríkja á eftirlits- og skoðunarferðum sínum og skila um það skýrslu til fastanefndar dýralækna.
    Þegar endanlega hefur verið gengið frá skilmálum vegna innflutnings verða fiskafurðir skoðaðar við komuna til bandalagsríkjanna í eftirlitsstöðvum, sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt, og settar á markað á sama hátt og afurðir aðildarríkjanna.

Er um of skamman tíma að ræða?
    Ákvæði tilskipunarinnar öðlast gildi 1. janúar 1993. Hinar opinberu eftirlitsstofnanir aðildarríkjanna hafa því u.þ.b. 16 mánuði til að innleiða reglur þær sem farið skal eftir við eftirlitsstörf og hlutaðeigandi greinar fiskveiða og vinnslu fá sama tíma til að tryggja að farið verði eftir ákvæðum hennar. Evrópuráðið gerir ráð fyrir að þessi tími geti reynst allt of skammur til þess að unnt verði að ljúka meiri háttar breytingum á húsakosti og um borð í vinnsluskipum.
    Því hefur það sett ákvæði inn í tilskipunina sem heimila hinum opinberu eftirlitsstofnunum að veita fyrirtækjum (og skipum), sem þess æskja, fyrir 1. júlí 1992, frekari frest til að uppfylla nánar tilgreind ákvæði varðandi lagfæringar. Viðbótarfrestur getur þó ekki orðið lengri en til 31. desember 1995 og getur aðeins náð til fyrirtækja sem voru þegar í rekstri fyrir 31. desember 1991.
    Þessi tilskipun tengist öðrum tilskipunum EB, m.a. tilskipun nr. 89/397/EEC sem birt var í 3. tbl. Fréttabréfsins 1991.



Fylgiskjal III.


FISKVEIÐISTEFNA EVRÓPUBANDALAGSINS



Samantekt um viðmiðunarreglur fyrir fiskiðnaðinn.


(Gefin út af Veiðimálastofnun Bretlandseyja.)


Mars 1990.



Viðauki 1.
Neðanmálsgrein: 1
Tilskipun nr. 89/662/EEC, OJ No. L395, 30. des. 1989, bls. 13 og breytingum og tilskipun
nr. 90/675/EEC, OJ No. L373, 31. des. 1990, bls. 1.