Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 115 . mál.


118. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu ferðaþjónustu.

Flm.: Jón Helgason, Guðmundur Bjarnason, Stefán Guðmundsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar gera athugun á því hvaða framkvæmdir í ferðaþjónustu eru brýnastar og skila mestum árangri til að gera kleift að taka á móti fleiri erlendum ferðamönnum og fá þannig betri nýtingu á mannvirkjum og arð af rekstri fyrirtækja sem þegar eru fyrir hendi í landinu.
     Á grundvelli þeirrar athugunar verði þeim aðilum, sem ráðast vilja í þessi verkefni, veittur nauðsynlegur stuðningur til að gera það þegar á næsta ári.

Greinargerð.


     Í umræðum um atvinnumál að undanförnu hefur komið skýrt fram að aukin ferðaþjónusta er vænlegasti kosturinn til eflingar íslensku atvinnulífi. Þeir svartsýnu hafa jafnvel tekið svo djúpt í árinni að í ferðaþjónustunni sé eini vaxtarbroddurinn um þessar mundir. Það er þess vegna mikilvægt að gera sér grein fyrir hvað þarf að gera til þess að úr rætist og gera markvissa áætlun um að hrinda því sem fyrst í framkvæmd.
    Víða er fyrir hendi aðstaða til að taka á móti fleiri ferðamönnum, bæði að hýsa þá og flytja um landið, jafnvel á aðalferðamannatímanum en með því að lengja hann væri unnt að nýta þessa aðstöðu mun betur. Sums staðar er þessu þveröfugt farið svo að þröskuldar myndast og segja má að örtröð og öngþveiti skapist.
     Það er að sjálfsögðu hin fjölbreytta og fagra náttúra ásamt öðrum landkostum sem dregur ferðamenn hingað. En til þess að ferðamenn vilji koma og njóta hennar þarf kynningarstarf og ekki síst góða og fjölbreytta þjónustu til þess að dvöl þeirra hér verði ánægjuleg og að þeir eigi um hana góðar endurminningar og hafi löngun til að koma hingað aftur jafnframt því að vekja áhuga annarra.
     Á síðustu árum hefur verið unnið að mikilvægum verkefnum í ferðaþjónustunni. Þar má nefna byggingu glæsilegra hótela í Reykjavík og uppbyggingu ferðaþjónustu bænda sem nýtur sívaxandi vinsælda og viðurkenningar. Slíkar framkvæmdir gera okkur nú kleift að auka umsvif ferðaþjónustunnar með því að styrkja veikustu hlekkina með tiltölulega litlum kostnaði. Óhætt er að fullyrða að aldrei hefur verið fyrir hendi eins mikill áhugi, vilji og þekking um land allt til að gera það. Vonir hafa staðið til að áfram yrði haldið stuðningi við þessar brýnu framkvæmdir, m.a. á grundvelli breytingar á lögum um Byggðastofnun.
     Forsætisráðherra hefur nú ákveðið að taka fjárræði af Byggðastofnun og banna henni slíkan stuðning. Og jafnframt er í fjárlagafrumvarpinu lagt til að skera niður lögbundið framlag til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins sem hefur veitt mikilvægan stuðning við þessi verkefni. Með þessum og fleiri ákvörðunum er ríkisstjórnin að slökkva þær vonir sem bundnar eru við þessa atvinnugrein og því nauðsynlegt að Alþingi breyti þeirri stefnu hennar. Það er óhætt að fullyrða að með broti af þeim upphæðum, sem ríkisvaldið hefur varið til undirbúnings verkefnis sem í bili a.m.k. hefur reynst draumsýn, væri hægt að ná þarna miklum árangri.
     Verkefni á sviði ferðamála, sem vinna þarf að, eru að sjálfsögðu miklu fleiri. En hér er um að ræða afmarkað verkefni sem ekki þarf langar skýrslugerðir um heldur einfalda áætlun sem auðvelt er að gera, og síðan að framkvæma, þegar ljóst er hvar skórinn kreppir mest að. Það mundi líka auka bjartsýni og framtak á þessu sviði og vera nokkurt ljós í því myrkri sem stjórnvöld sjá nú fram undan.