Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 117 . mál.


120. Tillaga til þingsályktunar



um útfærslu togveiðilandhelginnar.

Flm.: Magnús Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd til að gera tillögur um útfærslu togveiðilandhelginnar umhverfis Ísland.

Greinargerð.


     Engum blandast hugur um að nú horfir ískyggilega í sjávarútvegi á Íslandi. Niðurskurður á aflaheimildum og minnkandi stofn, svo og misheppnað klak þorskstofnsins ár eftir ár án þess að á því séu viðhlítandi skýringar, kallar á skoðun annarra þátta en hingað til. Þorskveiði á grunnslóð er víðast sáralítil, jafnvel á miðum sem hingað til hafa verið talin meðal þeirra gjöfulustu, svo sem í kringum Vestmannaeyjar.
    Aðalmarkmið kvótakerfisins, sem komið var á 1983, var að byggja upp fiskstofna og draga úr sókn á miðin. Hvorugu þessara markmiða hefur verið náð og allan þann tíma, sem kvótakerfið hefur verið í gildi, hefur stefnt í öfuga átt hvað varðar uppbyggingu fiskstofnanna. Álagið á miðin hefur heldur ekki minnkað, fyrst og fremst vegna aukinnar afkastagetu stærri skipanna en ekki vegna fjölgunar smábáta sem veiða innan við 15% af heildarþorskaflanum. Eftir breytingar, sem gerðar voru á kvótalögunum á síðasta þingi, stefnir nú hraðbyri í að allar veiðar í atvinnuskyni við Ísland verði stundaðar af stærri skipum, aðallega togskipum, og aðrar veiðar leggist af. Mjög sterk rök má færa fyrir því að tilverugrundvöllur margra sjávarplássa á landinu sé þannig brostinn með tilheyrandi eignaupptöku eða stórfelldari bjargráðum af hálfu hins opinbera en nokkru sinni hafa sést hérlendis.
    Þegar Íslendingar stóðu í baráttu fyrir útfærslu landhelginnar í 12 sjómílur og síðar í 50 og 200 mílur var sú barátta ekki aðeins til að minnka sókn útlendinga á Íslandsmið heldur einnig og ekki síður að flytja togveiðar þeirra lengra frá ströndinni, „losna við ryksuguskipin út úr kálgörðunum“, svo að vitnað sé til orða sem þá féllu. Nú eigum við skip sem eru mörgum sinnum afkastameiri en fyrrnefndir ryksugutogarar og að uppfylltum vissum skilyrðum mega þau veiða upp að þriggja mílna landhelgismörkum. Hver hefði trúað því fyrir 30 árum, að unnum sigri okkar í 12-mílna landhelgisdeilunni, að 30 árum seinna væri löggjafarsamkoma þjóðarinnar búin að samþykkja lög sem væru á góðri leið með að leggja af allar veiðar nema togveiðar og meinuðu íbúum staða, sem liggja að fengsælum miðum, að fara á sjó nema á skemmtibátum?
    Allt frá því að land byggðist hafa verið stundaðar krókaveiðar hér við land, lengst af á grunnslóð, án annarra takmarkana en náttúran ein setur. Frelsi til slíkra veiða er því einn af hornsteinum þjóðmenningar okkar sem ber að varðveita svo lengi sem þess er nokkur kostur. Veiðar með línu og færi byggjast á allt öðrum forsendum en aðrar veiðiaðferðir. Þær geta hvorki ofveitt né spillt lífríki sjávar og því síður geta þær valdið umhverfisspjöllum eins og ýmsar aðrar veiðiaðferðir sannanlega gera.
    Tilgangurinn með flutningi þessarar þingsályktunartillögu er að láta gera könnun á því hvort ekki sé þjóðhagslegur ávinningur í víðum skilningi af því að stækka togveiðilandhelgina út í að minnsta kosti 12 sjómílur. Með togveiðum er átt við veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót. Innan landhelginnar yrði frelsi með almennum reglum á krókaveiðum, þ.e. línu og færi.
    Meginmarkmið með slíkri aðgerð yrði að minnka stórlega þann ágang sem nú er á hrygningar- og uppeldisstöðvum helstu botnfisktegunda sem við byggjum afkomu okkar á, skapa sjávarplássum víða um land betri lífsskilyrði og koma í veg fyrir það menningarsögulega slys sem afnám krókaveiðafrelsis yrði.