Ferill 125. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 125 . mál.


130. Frumvarp til lagaum fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)1. gr.


    Sjávarútvegsráðuneytið veitir leyfi til fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipi að uppfylltum skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.
     Það telst fullvinnsla í þessu sambandi ef flökun eða flatning botnfisks er þáttur í vinnslunni.

2. gr.


    Skipum, sem leyfi hafa til fullvinnslu afla um borð, er óheimilt að fleygja fiski, fiskhlutum eða fiskúrgangi fyrir borð. Er skylt að koma með að landi allan afla þessara skipa, þar á meðal það sem til fellur við vinnsluna, svo sem hryggi, afskurð, hausa og innyfli eða afurðir unnar úr þeim. Er óheimilt að veita skipum vinnsluleyfi nema aðstaða sé um borð til að fullnægja þessum kröfum og nýta aflann með fullnægjandi hætti. Ráðherra getur þó með reglugerð til eins árs í senn heimilað að ekki sé nýttur tiltekinn fiskúrgangur enda verði það ekki gert með arðbærum hætti miðað við vinnslutækni og markaðsaðstæður.

3. gr.


    Um borð í vinnsluskipi skal vera aðstaða fyrir móttöku, geymslu, vinnslu og frágang aflans þannig að gæði framleiðslunnar séu tryggð. Setja skal með reglugerð nánari ákvæði um nauðsynlegan búnað í þessu skyni og önnur atriði um framkvæmd laga þessara.

4. gr.


    Það er skilyrði fyrir leyfisveitingu, sbr. 1. gr., að fjöldi í áhöfn sé nægilegur til að vinna afla á fullnægjandi hátt miðað við veiðar, vinnslu og gerð skips, að teknu tilliti til áskilins hvíldartíma og að fyrir hendi sé tilskilin aðstaða fyrir þá áhöfn og eftirlitsmenn, sbr. 6. gr.
     Í áhöfn skal vera sérstakur matsmaður sem hafa skal umsjón með allri vinnslu ásamt nauðsynlegu gæðaeftirliti. Með reglugerð skal kveða á um menntunarkröfur og starfssvið matsmanns.

5. gr.


    Áður en fullvinnsluleyfi er veitt skal liggja fyrir álit Ríkismats sjávarafurða á því hvort búnaður sé fullnægjandi með hliðsjón af ákvæðum laga þessara og reglugerða settra með stoð í þeim. Þá skal liggja fyrir mat Siglingamálastofnunar ríkisins á því hvort reglum um öryggisbúnað varðandi fiskvinnslu og aðbúnað áhafnar sé fullnægt.

6. gr.


    Eftirlitsmaður eða eftirlitsmenn skulu vera um borð í fiskiskipi sem leyfi hefur til fullvinnslu botnfisks fyrstu sex mánuðina eftir að leyfi er veitt í fyrsta sinn. Eftir þann tíma skal eftirlitsmaður vera um borð eftir því sem ástæða er talin til hverju sinni af veiðieftirliti sjávarútvegsráðuneytisins. Skal útgerð sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru við eftirlitsstörf um borð. Þá skal útgerð skips greiða allan kostnað sem hlýst af veru eftirlitsmanna um borð.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    
Skipum, sem hafið hafa fullvinnslu botnfiskafla fyrir gildistöku laga þessara, skal veittur frestur til að fullnægja kröfum laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Er fresturinn við það miðaður að innan hans sé heimilt að halda áfram fullvinnslu botnfisks með svipuðum hætti og hafin var fyrir gildistöku laganna. Skal fresturinn vera til 1. september 1996 en ráðherra getur með reglugerð ákveðið að tilteknum kröfum um nýtingu skuli fullnægt fyrr. Þetta ákvæði tekur einnig til nýrra fullvinnsluskipa hafi verið samið um smíði eða kaup á þeim með bindandi hætti fyrir 10. nóvember 1991, enda sé smíðin það langt komin að breytingum til samræmis við kröfur laganna verði ekki við komið án verulegrar röskunar og kostnaðarauka.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á undanförnum árum hefur sú þróun orðið að vinnsla á sjávarafurðum hefur í vaxandi mæli flust um borð í veiðiskip. Af hálfu hins opinbera hafa ekki verið lagðar beinar hömlur á fjölgun þeirra fiskiskipa sem vinna afla um borð en gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að stuðla að aukinni aflanýtingu þessara skipa. Má í því sambandi nefna störf aflanýtingarnefndar sem hóf störf á árinu 1989. Nefndin hefur einkum unnið að tveimur viðamiklum verkefnum. Í fyrsta lagi að bæta flakanýtingu um borð í frystiskipum. Í öðru lagi kom nefndin á fót aflakaupabanka sem kaupir fisktegundir af fiskiskipum sem lítt hafa verið nýttar í því skyni að kanna og þróa markað fyrir þennan afla. Þrátt fyrir þessar aðgerðir og þótt margt hafi áunnist á síðustu árum hefur því verið haldið fram að ekki séu af opinberri hálfu gerðar nægar kröfur til nýtingar hráefnis og vinnsluaðstöðu um borð í þessum skipum.
     Núna eru 29 fiskiskip sem flaka og frysta botnfiskafurðir um borð auk þess sem hafin er vinnsla á saltfiski um borð í nokkrum fiskiskipum. Á árinu 1990 voru rúmlega 108 þúsund lestir af botnfiski frystar um borð í veiðiskipum. Þar af voru tæplega 42 þús. lestir af þorski eða rúmlega 12% af heildarþorskaflanum það ár. Samkvæmt nýlegri athugun Þjóðhagsstofnunar á afkomu botnfiskveiða og -vinnslu kemur fram að frystiskip voru rekin með um 15% hagnaði af tekjum miðað við rekstrarskilyrði í september 1991 en á sama tíma var útgerðin í heild rekin með um 8% hagnaði. Innlend fiskvinnsla var á sama tíma rekin með um 7,5% halla. Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að mikils misræmis gætir á afkomu einstakra greina botnfiskveiða og -vinnslu. Þessi góða afkoma frystiskipanna leiðir til þess að fleiri kjósa að breyta fiskiskipum þannig að þau geti unnið aflann um borð. Vitað er að margar útgerðir eru að kanna möguleika á að breyta tiltölulega litlum skipum í vinnsluskip sem telja verður að smæðar sinnar vegna séu varla fallin til slíkrar vinnslu. Í sjávarútvegsráðuneytinu hafa lengi verið uppi hugmyndir um að gera auknar kröfur til þeirra fiskiskipa sem vinna botnfiskafla um borð til að tryggja betri nýtingu þess afla sem um borð kemur og auka gæði afurðanna. Slíkar aðgerðir eru mikilvægar nú þegar nauðsynlegt hefur reynst að minnka þann afla sem leyfilegt er að veiða. Þá hafa menn jafnframt þær áhyggjur að lakari afkoma fiskvinnslunnar muni leiða til versnandi atvinnuástands í landi ef hlutfall þess afla, sem unninn er úti á sjó, eykst frekar en orðið er.
     Með frumvarpi þessu er lagt til að fullvinnsla afla um borð í fiskiskipum verði háð sérstöku leyfi sem ráðuneytið veiti. Er tilgangurinn fyrst og fremst að tryggja að í hóp þeirra skipa, sem stunda fullvinnslu um borð, bætist ekki önnur skip en þau sem eru fær um að fullnægja eðlilegum kröfum til nýtingar, vörugæða og vinnuaðstöðu. Fullvinnsluleyfið verður hins vegar gefið út til allra þeirra skipa sem fullnægja almennum skilyrðum. Með frumvarpinu er því ekki verið að leggja til opinbera takmörkun á útgáfu slíkra vinnsluleyfa. Engu að síður er líklegt að auknar kröfur muni hægja á þeirri þróun að fiskvinnslan flytjist út á sjó.
     Með fullvinnslu er í frumvarpi þessu átt við að flökun eða flatning sé þáttur í vinnslunni. Lögin taka því ekki til annarra vinnsluskipa sem t.d. heilfrysta botnfisk eða vinna rækju um borð. Um þessi skip gilda því áfram fyrirmæli núgildandi laga og reglugerða og þurfa þau eftir sem áður að fá tilskilin leyfi frá Ríkismati sjávarafurða.
     Gert er ráð fyrir að óheimilt verði að fleygja fiski, fiskhlutum eða fiskúrgangi fyrir borð á fullvinnsluskipum og ekki verði veitt fullvinnsluleyfi nema aðstaða sé til að fullnægja kröfum um fullnægjandi nýtingu aflans. Ráðherra verði þó heimilt með setningu reglugerðar til eins árs í senn að heimila að ekki sé nýttur tiltekinn fiskúrgangur enda sé alls ekki, að mati sérfræðinga, unnt að nýta hann með arðbærum hætti miðað við vinnslutækni og markaðsaðstæður. Er gert ráð fyrir að byggt verði á mati sérfræðinga Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins er teknar verða ákvarðanir varðandi veitingu fullvinnsluleyfis.
     Á síðustu árum hafa orðið stórstígar framfarir í allri fiskvinnslutækni og ekki síst um borð í fiskiskipum. Á sama tíma hafa opnast ýmsir nýir möguleikar til nýtingar ýmissa aukaafurða og er ljóst að slíkir möguleikar eru ekki fullkannaðir ennþá. Geta því boðist ýmsir nýir kostir sem ekki eru fyrir hendi í dag. Kröfur til fullvinnsluskipa geta því tekið breytingum miðað við þá þróun sem verður í vinnslutækni og breytingar sem verða á möguleikum til markaðssetningar ýmissa tegunda afurða.
     Þá eru í frumvarpinu gerðar kröfur um að aðstaða í móttöku, vinnslurásum og afurðageymslum fullvinnsluskipa sé með þeim hætti að gæði afurðanna séu tryggð. Um þetta verða sett nánari ákvæði með reglugerð, t.d. um að í fiskmóttöku þurfi að vera nægilegur fjöldi blóðgunarkara til að flokka aflann eftir tegundum. Þá er gert ráð fyrir að gerð verði krafa um kælda fiskmóttöku.
     Til að tryggja umsjón og eftirlit með gæðum um borð í fullvinnsluskipum er lagt til að sérstakur matsmaður verði um borð í öllum veiðiskipum sem leyfi fá til fullvinnslu botnfiskafla um borð. Gerðar verða tilteknar menntunarkröfur til matsmanna og kveðið verður á um starfssvið þeirra í reglugerð. Verða gerðar sömu kröfur til matsmanna um borð í fullvinnsluskipum og matsmanna í frystihúsum. Ákvæði 10. gr. laga nr. 53/1984, um Ríkismat sjávarafurða, kveður á um að sjávarútvegsráðuneytið löggildi þessa menn að fenginni umsögn fiskmatsstjóra. Þeir skulu hafa sótt námskeið fyrir fiskmatsmenn, en þeir sem lokið hafa prófi fiskiðnaðarmanna skulu að öðru jöfnu njóta forgangs til löggildingar. Í frystihúsum eru nær undantekningarlaust lærðir fiskiðnaðarmenn í þessum störfum. Svo hefur ekki verið til þessa um matsmenn um borð í vinnsluskipum. Hafa verið haldin stutt námskeið fyrir þá og þeim veitt tímabundin löggilding þar sem útgerðum hefur ekki reynst kleift að fá matsmenn sem lokið hafa tilskildu námskeiði.
     Sjávarútvegsráðuneytið tekur afstöðu til veitingar leyfis til fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipi eftir að Ríkismat sjávarafurða hefur lagt faglegt mat á það hvort öllum skilyrðum til fullvinnslu sé fullnægt. Auk þess skal liggja fyrir mat Siglingamálastofnunar ríkisins á því hvort reglum um öryggisbúnað varðandi fiskvinnslu og aðbúnað áhafnar sé fylgt áður en ráðuneytið tekur afstöðu til veitingar vinnsluleyfis.
     Með frumvarpinu er lagt til að eftirlit um borð í fullvinnsluskipum verði mjög aukið frá því sem verið hefur. Í fyrsta lagi er kveðið á um að eftirlitsmaður verði um borð fyrstu sex mánuðina eftir að fullvinnsluleyfi hefur verið veitt í fyrsta sinn. Í öðru lagi er stefnt að því að auka almennt eftirlit um borð í skipum sem leyfi fá til fullvinnslu um borð og er lagt til að útgerð viðkomandi skips greiði allan kostnað sem hlýst af veru eftirlitsmanna um borð, þar með talin laun þeirra.
     Í gildandi lögum eru ýmis ákvæði sem heimila ráðuneytinu að kveða á um meðferð og nýtingu afla. Má í þessu sambandi einkum nefna lög nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og lög nr. 53 30. maí 1984, um Ríkismat sjávarafurða. Jafnframt er í 16. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, ákvæði sem lúta að sérstökum vinnsluskýrslum um borð í skipum sem vinna afla um borð og eru þær skýrslur undirstaða við mat á því hvernig aflakvóti er nýttur um borð í þeim skipum. Á grundvelli ofangreindra laga hafa verið gefnar út tvær reglugerðir sem m.a. lúta að vinnslu afla um borð. Reglugerð nr. 48 10. desember 1990 tekur til mælinga á vinnslunýtingu um borð í vinnsluskipum og í reglugerð nr. 205 29. apríl 1991 um nýtingu aukaafurða segir að fullvinnsluskip skuli hirða allan afskurð sem til fellur við snyrtingu þorsk-, ýsu- og ufsaafla um borð í frystiskipum. Þessar lagaheimildir eru út af fyrir sig fullgildar til þess að setja frekari almennar reglur um meðferð og nýtingu afla, þar á meðal varðandi fullvinnsluskipin. Með frumvarpi þessu er engu að síður lagt til að sett verði sérstök löggjöf um fullvinnsluskip. Með því fyrirkomulagi næst heildaryfirsýn yfir alla þætti sem máli skipta áður en ákvörðun er tekin um veitingu fullvinnsluleyfis. Þannig liggur fyrir mat á nýtingarferli vinnsluskips, mat á aðstöðu með tilliti til gæða afurða, mat á rými og aðstöðu fyrir áhöfn og mat á öryggisbúnaði.
     Á undanförnum árum hefur verið unnið mikið starf við að auka nýtingu um borð í frystitogurum. Aflanýtingarnefnd hefur lagt grunninn að þessu starfi en samkvæmt tillögum nefndarinnar voru um síðustu áramót teknir upp einstaklingsbundnir nýtingarstuðlar fyrir frystiskip. Á árinu 1990 stóð nefndin fyrir námskeiðum fyrir útgerðarstjóra og skipstjórnarmenn frystitogara. Námskeiðið fékk góðar viðtökur og sendu flestar útgerðir fulltrúa á námskeiðið. Í tengslum við námskeiðið var farið um borð í alla frystitogara og farið yfir mæliaðferðir. Batnaði nýting verulega á meðan mælingar stóðu yfir og eftir að fiskvinnsluvélar höfðu verið stilltar. Í kjölfar þessara mælinga var þróað eftirlitskerfi sem veiðieftirlit sjávarútvegsráðuneytisins annast. Talið er að unnt sé að bæta nýtingu um borð í vinnsluskipum enn frekar með því að taka í notkun nýjar og fullkomnari fiskvinnsluvélar sem nýlega eru komnar á markaðinn.
     Vinnsla á saltfiski um borð í veiðiskipum hófst fyrir fjórum árum síðan. Mun erfiðara er að meta nýtingu um borð í saltfiskskipum þar sem þyngd er mjög háð verkunarstigi og saltmagni bæði í kerum og í afurðinni. Um þessar mundir er verið að kanna nýtingarferli í þessari vinnslu og í framhaldi af því mun verða skipulagt hvernig best verður staðið að nýtingarmati. Er stefnt að því að taka upp einstaklingsbundna nýtingarstuðla fyrir fiskiskip sem verka saltfisk um borð með svipuðum hætti og fyrir frystiskipin.
    Aflakaupabankinn hefur tekið á móti öllum aukaafla sem borist hefur til hans og greitt lágmarksverð fyrir fiskinn. Ef einstaklingar og fyrirtæki hafa boðið hærra verð fyrir hráefnið hættir bankinn að kaupa þær tegundir sem markaður hefur verið fundinn fyrir. Þetta hefur gerst með allar þær flatfisktegundir sem bankinn keypti áður og því má segja að starfsemi bankans hafi skilað þeim árangri sem að var stefnt í upphafi. Aðrar tegundir, sem hafin er vinnsla á m.a. fyrir tilstuðlan aflanýtingarnefndar, eru gulllax og tindabikkja.
     Afskurður er nýttur af frystitogurum og er hann frystur um borð. Er afskurðurinn ýmist fluttur út án frekari vinnslu eða settur í marning. Afurðin er enn nokkuð misjöfn að gæðum og er nauðsynlegt að bæta þessa vinnslu enn frekar til að auka gæðin.
     Eitt af þeim verkefnum, sem aflanýtingarnefnd hefur unnið að, er að auka nýtingu á fésum. Hafa verið gerðar tilraunir með að salta og frysta fés og virðist slík vinnsla geta skilað arði. Það er hins vegar álitaefni hvort markaður sé fyrir allt það magn sem fellur til hjá þeim skipum sem vinna botnfiskafla um borð. Þá hefur markaðurinn ekki viljað taka við fésum af smáum hausum og þess vegna er á vegum aflanýtingarnefndar unnið að athugun á því að framleiða marning úr þeim í landi.
     Tilraunaframleiðsla á marningi úr hryggjum lofar góðu og eru hryggirnir teknir heilir, grófhakkaðir, þvegnir, marðir og pressaðir. Gott verð hefur fengist fyrir þurrkaða hausa og hryggi í Nigeríu en kostnaðurinn við frystingu og flutning til þurrkstöðva hefur verið of mikill til að standa undir tilkostnaði. Nýting á hrognum um borð í frystiskipum hefur gefist vel og fæst gott verð fyrir afurðina bæði frysta og saltaða. Nokkur skip hafa hirt hrogn með góðum árangri án þess að það komi mikið niður á afköstum í vinnslunni um borð.
     Þegar búið er að nýta hráefnið eins og hægt er í afurðir til manneldis eru fyrst og fremst eftir innyfli, bein og roð. Helst kemur til greina að nýta innyflin í meltu sem síðan yrði brædd í fiskimjölsverksmiðjum í landi. Kostur meltuvinnslu er tiltölulega lítill stofnkostnaður og lítil sem engin viðbótarvinna um borð. Nokkur fiskiskip hafa aðstöðu til meltuvinnslu um borð en eigendur þeirra hafa ekki séð sér hag í því að nýta hana. Mun það fyrst og fremst stafa af því að dýrt mun vera að flytja meltuna frá fiskiskipi til verksmiðju. Það hlýtur hins vegar að vera markmið að engum úrgangi verði hent í sjóinn hvorki frá skipum eða vinnslustöðvum í landi. Hér er því ekki um vanda að ræða sem er einskorðaður við vinnsluskip. Til að nýta þennan úrgang þarf fyrst og fremst að lækka þann kostnað sem er því samfara að flytja meltuna til loðnuverksmiðja.
     Samkvæmt ofansögðu er ljóst að ýmsir möguleikar til frekari nýtingar aukaafurða og vannýttra fisktegunda eru fyrir hendi. Því mun aflanýtingarnefnd starfa áfram við athuganir á þessu sviði í samvinnu við ráðuneytið og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um að sjávarútvegsráðuneytið gefi út leyfi til að fullvinna botnfiskafla um borð í veiðiskipum. Með fullvinnslu botnfiskafla er átt við að flökun eða flatning sé þáttur í vinnslunni. Ekki er gerð krafa um að sérstök fullvinnsluleyfi þurfi til að stunda heilfrystingu á botnfiski og öðru sjávarfangi um borð. Hins vegar þurfa þeir aðilar, sem slíka vinnslu stunda, eftir sem áður að fá tilskilin vinnsluleyfi frá Ríkismati sjávarafurða með sama hætti og verið hefur. Rökin fyrir því að skilja á milli fullvinnslu og annarrar vinnslu um borð í veiðiskipum eru þau að við fullvinnslu fellur meira til af fiskhlutum og fiskúrgangi auk þess sem nauðsynlegt er að setja reglur sem tryggja meðferð og gæði verðmestu afurðanna.


Um 2. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að óheimilt sé að fleygja fiski, fiskhlutum eða fiskúrgangi fyrir borð á skipum sem leyfi hafa til fullvinnslu botnfiskafla um borð. Skilyrði fyrir útgáfu leyfis er að aðstaða sé um borð til að fullnægja þessum skilyrðum. Ráðherra er þó heimilt með reglugerð til eins árs í senn að kveða á um að óheimilt sé að hafa tiltekinn fiskúrgang enda sé ekki sýnt fram á að unnt sé að nýta hann með arðbærum hætti. Við setningu reglugerðar um þetta atriði mun verða stuðst við álit Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á hverjum tíma um það hve langt eigi að ganga varðandi nýtingu þess fiskúrgangs sem fellur til um borð í vinnsluskipum. Verður við það miðað að vinnsla á þeim fiskúrgangi, sem ekki verður nýttur, sé ótvírætt óarðbær. Um þessar mundir eru það fyrst og fremst innyfli og hluti af fiskhausum sem vafi kann að leika á um hvort vinna megi á arðbæran hátt. Stöðugt er þó unnið að ýmsum athugunum til að nýta þennan fiskúrgang og ljóst að ýmsir möguleikar eru ekki fullkannaðir enn þá. Geta því boðist ýmsir nýir kostir sem ekki eru fyrir hendi í dag.
     Þá er gerð krafa um að aðstaða sé um borð til að vinna aflann með fullnægjandi hætti. Með þessu er átt við að nýting aflans sé eins góð og tækni á hverjum tíma gerir mögulegt. Í því sambandi má benda á að nú er að koma á markaðinn ný gerð flökunarvéla sem getur bætt flakanýtingu og þar með minnkað úrgang. Er áætlað að með þessari nýju tækni, sem ekki er fyrir hendi í neinu íslensku fiskiskipi í dag, megi auka framleiðsluverðmæti um borð í vinnsluskipum um allt að 10–15%. Að auki sker þessi nýja gerð flökunarvéla klumbur frá þunnildum. Með því að safna klumbum, fésum og hryggjum til marningsvinnslu í landi er talið að hægt sé að auka framleiðsluverðmæti vinnsluskipa um 2–4%. Við þessa ráðstöfun mun úrkast frá vinnsluskipum minnka um 35% miðað við slægðan fisk.
     Þótt krafa um fullnýtingu samkvæmt frumvarpi þessu nái einungis til fullvinnsluskipa er stefnt að því að sambærilegar reglur verði í framtíðinni gerðar til allra fiskiskipa um nýtingu aukaafurða.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um þá aðstöðu og búnað sem gerð verður krafa um að verði um borð í vinnsluskipum. Gert er ráð fyrir að nánari kröfur í þessu efni verði mótaðar í reglugerð. Á grundvelli þessara ákvæða fari síðan fram mat á búnaði og aðstöðu í einstökum skipum áður en afstaða er tekin til beiðni um fullvinnsluleyfi. Sem dæmi um hvaða kröfur verða gerðar í þessu sambandi má nefna að fiskur verði kældur meðan hann er geymdur í blóðgunarkörum. Kæling seinkar dauðastirðnun og skilar sér í aukinni nýtingu, meiri afköstum og bættum gæðum afurðanna.
     Jafnframt verður gerð krafa um að kæling verði í fiskmóttöku og hún verði aðskilin frá öðrum hlutum vinnslunnar og einangruð frá vélarrúmi. Þá þarf að vera nægjanlegt rými fyrir þann fjölda kara sem er nauðsynlegur til að geyma afla til vinnslu í einn sólarhring. Frystigeta um borð í vinnsluskipum þarf að miðast við eðlileg afköst vinnslulínunnar og um borð þarf a.m.k. einn lóðréttan plötufrysti fyrir aukaafurðir og aukaafla. Þá verður frystilest að vera nægjanlega stór til að anna vinnslunni um borð og auk þess verði rými í frystilest til að geyma aukaafurðir.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að kröfur verði settar um fjölda í áhöfn og aðstöðu manna um borð í vinnsluskipum. Búast má við að kröfur um aukna nýtingu afla geti leitt til fjölgunar í áhöfn fullvinnsluskipa. Hins vegar geta meiri sjálfvirkni og fullkomnari fiskvinnsluvélar haft það í för með sér að fækka megi í áhöfn.
     Samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar er lagt til að sérstakur matsmaður verði um borð í fullvinnsluskipum. Er það í samræmi við það fyrirkomulag sem nú er varðandi flakavinnsluskip. Ráðuneytið hefur á undanförnum árum löggilt matsmenn um borð í vinnsluskipum sem fullnægt hafa menntunarkröfum. Allmargar undanþágur hafa þó verið veittar og sýnist full ástæða að fækka þeim með því að auka hæfni þessara manna til starfans með námskeiðum. Hlutverk matsmanns verður að hafa umsjón með allri vinnslu ásamt því að annast nauðsynlegt gæðaeftirlit. Er ráðherra falið að setja nánari reglur um menntunarkröfur og starfssvið hans.

Um 5. gr.


    Áður en ráðuneytið tekur afstöðu til veitingar fullvinnsluleyfis til einstakra fiskiskipa skal liggja fyrir álit Ríkismats sjávarafurða á því hvort skip og búnaður fullnægi þeim kröfum sem settar eru fram í þessum lögum og reglugerð settri með stoð í þeim. Jafnframt skal, áður en ákvörðun um veitingu leyfis er tekin, liggja fyrir mat Siglingamálastofnunar ríkisins á því hvort reglum um öryggisbúnað varðandi fiskvinnslu og aðbúnað áhafnar sé fylgt. Með þessu móti er tryggt að heildarmat á hæfni skips liggi fyrir áður en afstaða er tekin til veitingar fullvinnsluleyfis.

Um 6. gr.


    Hér er lagt til að eftirlitsmaður, einn eða fleiri, skuli vera um borð í fiskiskipi sem leyfi hefur fengið til fullvinnslu botnfisks fyrstu sex mánuðina eftir að leyfi er veitt. Þessi ráðstöfun er eðlileg þar sem fullvinnsluleyfið er veitt gegn tilteknum skilyrðum um nýtingu afla. Því er nauðsynlegt að fylgjast nákvæmlega með því hvernig staðið er að vinnslu aflans um borð og vera áhöfn til leiðbeiningar meðan störf hennar eru að mótast. Þá er að því stefnt að auka allt eftirlit með skipum sem fullvinna botnfiskafla um borð. Er það í fullu samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað hjá öðrum þjóðum. Þá er lagt til að útgerð skipsins greiði allan kostnað af veru eftirlitsmanna um borð, þar með talin laun, en samkvæmt gildandi lögum skal útgerðin sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir sinna eftirlitsstörfum um borð í fiskiskipi.

Um 7. gr.


    Þessi grein þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


     Það liggur fyrir að skip þau, sem nú stunda fullvinnslu, eru mjög misvel í stakk búin
til þess að mæta auknum kröfum um nýtingu afla. Eru fáein þeirra þegar að mestu hæf til að mæta þeim kröfum, önnur þurfa aftur á móti að gangast undir verulegar breytingar og jafnvel stækkun. Væri því eðlilegt að athugað yrði hvort rýmka þyrfti reglur um stækkun skipa ef í ljós kæmi að ekki væri hægt að mæta auknum kröfum um nýtingu án þess að skip væru stækkuð.
     Hér er lagt til að sömu kröfur verði gerðar til nýtingar afla hjá öllum þeim skipum, sem aðlögunarfrest fá til 1. september 1996 og er fresturinn ákveðinn svo langur vegna þeirra skipa sem mest þarf að breyta.
     Jafnframt er lagt til að eftir 1. september 1996 verði gerðar sömu kröfur um nýtingu afla til allra fiskiskipa sem leyfi fá til fullvinnslu afla um borð.
Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum.


    
Með frumvarpinu eru sett sérstök lög um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum og hún gerð háð sérstöku leyfi sjávarútvegsráðuneytis. Kostnaðarþættir frumvarpsins eru tveir.
     Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins skal Ríkismat sjávarafurða gera úttekt á búnaði viðkomandi skipa og Siglingamálastofnun ríkisins gera úttekt á öryggisbúnaði um borð áður en kemur að leyfisveitingu sjávarútvegsráðuneytis. Óljóst er hvort hér sé um að ræða viðbótarútgjöld fyrir viðkomandi stofnanir eða hvort þær sinni þessu starfi nú þegar. Fjármálaráðuneytið telur að viðkomandi útgerðir eigi að standa straum af öllum þeim kostnaði sem hlýst vegna þessa ákvæðis.
     Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins skal eftirlitsmaður eða eftirlitsmenn vera um borð í fiskiskipi sem leyfi hefur til fullvinnslu botnfisks fyrstu sex mánuðina eftir að vinnsluleyfi er veitt í fyrsta sinn og svo eftir því sem ástæða er talin til hverju sinni. Þá kemur fram að allur kostnaður sem hlýst af veru eftirlitsmanna um borð, þar með talin laun þeirra, greiðist af viðkomandi útgerð.
     Að teknu tilliti til ofangreinds telur fjármálaráðuneytið að frumvarpið hafi ekki í för með sér teljanlegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.