Ferill 153. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 153 . mál.


165. Tillaga til þingsályktunar



um styrkingu Kolbeinseyjar.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Matthías Bjarnason, Rannveig Guðmundsdóttir,


Anna Ólafsdóttir Björnsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera svo fljótt sem við verður komið áætlun um styrkingu Kolbeinseyjar. Í þessu skyni verði lokið úrvinnslu gagna sem aflað var við eyjuna 1989 og 1990 og frekari rannsóknir framkvæmdar næsta sumar reynist þeirra þörf.
    Síðan verði unnin áætlun um varanlega styrkingu eyjarinnar þannig að hún fái sem lengst staðist ofan sjávar. Áætlunin skal einnig taka mið af hagnýtingu eyjarinnar í öryggis- og vísindaskyni, svo sem með uppsetningu sjálfvirkrar veðurathugunarstöðvar og jarðfræði- og haffræðirannsóknum. Áætlunin skal unnin í samráði við viðkomandi nefndir Alþingis og lögð fyrir þingið til staðfestingar fyrir árslok 1992.

Greinargerð.


    Lengi hefur verið ljóst að útvörður Íslands í norðri, Kolbeinsey, á mjög í vök að verjast sökum ágangs sjávar, hafíss og veðra. Með samanburði við heimildir frá fyrri öldum sést að mjög hratt hefur gengið á eyjuna og nálgast hún nú óðfluga að teljast fremur sker í úthafinu en að verðskulda sitt glæsta nafn. Um sögu eyjarinnar vísast til fylgiskjala með tillögunni, einkum í samantekt Kristjáns Sæmundssonar, „Kolbeinsey, heimildakönnun og jarðfræðilýsing.“
    Engum blöðum er um það að fletta að þýðing Kolbeinseyjar sem grunnlínupunkts við afmörkun íslensku landhelginnar er geysileg og nægir þar að nefna að ef engin hefði verið Kolbeinseyjan hefði flatarmál íslensku efnahagslögsögunnar orðið um 9.400 km 2 minna við útfærsluna í 200 mílur. Til samanburðar má hafa þá staðreynd að heildarflatarmál þriggja sjómílna landhelginnar var á sínum tíma um 25.000 km 2 . Um stöðu Kolbeinseyjar í þessu sambandi vísast að öðru leyti til laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979. Varðandi líklega framtíðarskipan mála er nærtækt að skoða ákvæði hafréttarsáttmálans sem, þótt hann hafi ekki gengið í gildi, gefur einnig vísbendingar um gildandi þjóðarrétt. Skylt er að geta þess að málefnum Kolbeinseyjar hefur áður verið hreyft á Alþingi og hafa margir alþingismenn sýnt skilning á því hversu mikilvægt mál varðveisla eyjarinnar væri. Þannig samþykkti Alþingi 20. apríl 1982 þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórninni var falið að sjá um að sjómerki yrðu sett upp á eyjunni og athuga með varðveislu hennar. Í framhaldi af þessu var nokkrum upplýsingum safnað og ber þar hæst för Sigurðar Sigurðarsonar og Kristjáns Sæmundssonar til Kolbeinseyjar í ágúst 1985. Hins vegar var lítið aðhafst fyrr en sumarið 1989 en það ár var ráðist í rannsóknir og nokkrar framkvæmdir á eyjunni. Var veitt sérstök fjárveiting til þessa verkefnis á fjárlögum en alls mun um 5,5 milljónum króna hafa verið varið til byggingar þyrlulendingarpalls með innbyggðum sjómerkjum á eyjunni auk rannsókna. Vita- og hafnamálastofnun sá um verkið og naut við það aðstoðar Landhelgisgæslunnar.
    Á árinu 1990 var unnið áfram að athugunum við eyjuna og var þá jarðfræði eyjarinnar könnuð með köfun auk þess sem sjómælingar fóru fram.
    Ætlunin var að síðan yrði unnið úr þessum athugunum og í framhaldi af því ákvarðanir teknar um næstu skref. Þannig mun málið statt í dag og ekki er gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum til þessa verkefnis að séð verður í því fjárlagafrumvarpi sem fyrir þinginu liggur.
    Það er álit flutningsmanna að tímabært sé að Alþingi lýsi yfir vilja sínum til þess að allt verði gert sem innan viðráðanlegra marka getur talist til að styrkja Kolbeinsey og feli ríkisvaldinu að hafa forgöngu um mótun áætlunar í því skyni.