Ferill 155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 155 . mál.


167. Tillaga til þingsályktunar



um athugun á vistfræðilegri þróun landbúnaðar á Íslandi.

Flm.: Jón Helgason, Egill Jónsson, Steingrímur J. Sigfússon,


Rannveig Guðmundsdóttir, Kristín Einarsdóttir.



     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á að hve miklu leyti íslenskur landbúnaður uppfyllir þær kröfur sem gera verður til hans með tilliti til sjálfbærrar þróunar þannig að hann spilli ekki náttúrlegum auðlindum heldur auki á verðmæti þeirra.
     Stuðst verði við niðurstöðu þessarar úttektar við undirbúning íslenskra stjórnvalda að ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu á næsta ári.
    

Greinargerð.


     Hinn 16.–18. október sl. hélt Alþjóðasamband búvöruframleiðenda ráðstefnu hér á landi um umhverfismál og sjálfbæra þróun. Á ráðstefnuna mættu fulltrúar frá 31 landi hvaðanæva úr heiminum og gerðu grein fyrir stöðu þessara mála í sínu landi. Af hálfu Íslendinga fluttu m.a. erindi Halldór Blöndal landbúnaðarráðherra og Eiður Guðnason umhverfisráðherra. Auk þess fluttu sérstök erindi Piet Bukman, landbúnaðar- og umhverfisráðherra Hollands, og Nitin Desai, aðstoðarframkvæmdastjóri UNCED, umhverfisráðstefnunnar í Brasilíu á næsta ári.
     Til þessarar ráðstefnu var boðað með sérstöku tilliti til þess að samræma viðhorf landbúnaðarins við undirbúning hinnar mikilvægu ráðstefnu í Brasilíu sem menn vona að marki þáttaskil í þessu lífsspursmáli mannkynsins.
     Það var einróma niðurstaða Alþjóðabændasamtakanna að eina leiðin til að ná viðunandi lausn væri náin samvinna allra sem þar eiga hlut að máli eins og fram kemur í ályktun ráðstefnunnar sem birt er í meðfylgjandi fylgiskjali. Þar sem bændur eiga eða hafa forræði fyrir miklum hluta af landi jarðar er samstarf við þá lykilatriði farsællar þróunar þessara mála. Þetta kom fram í niðurstöðu skýrslu Brundtland-nefndarinnar árið 1987 og hefur vafalaust átt þátt í þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur á þessu sviði síðustu árin.
     Þó að landbúnaður sé í eðli sínu sá atvinnuvegur sem hvað best vinnur með lífríki jarðar og vinni, ef allt er með felldu, með náttúrunni en ekki á móti og eigi ekki að spilla náttúrlegum auðlindum heldur að bæta þær fer allt of víða þannig að maðurinn gengur lengra í náttúruspjöllum en góðu hófi gegnir. Það er ekki sjálfbær þróun. Til glöggvunar skulu hér rakin helstu umhverfisvandamál sem tengd eru landbúnaði í heiminum nú á tímum.
    Mengun umhverfis.
                  Eftir eðli mengunar er nauðsynlegt að gera greinarmun á:
         
    
    Mengun vegna ofauðgunar jarðvatns, vatns í ám og vötnum og sjávar af næringarefnum plantna. Ef plöntunæringarefni verða í ofgnótt í vatni leiðir aukinn gróður smærri plantna til þess að súrefni verður of lítið og lífsskilyrði fiska og annarra dýra spillast. Hér getur jafnt verið um að ræða áhrif frá mikilli notkun tilbúins áburðar eða búfjáráburðar eða frá lífrænum úrgangi frá búskap eða fólki.
         
    
    Mengun jarðvegs (jarðvatns), vatns í ám og vötnum og sjávar vegna notkunar eiturefna í landbúnaði eða svonefndra plágueyða, illgresis- eða skordýralyfja.
    Notkun lyfja við búfjárframleiðslu getur hugsanlega mengað afurðir og einnig umhverfið. Hér getur verið spurning um hollustu afurða.
    Jarðvegseyðing.
                  Stórkostleg jarðvegseyðing á sér mjög víða stað í heiminum og á hún sér mismunandi orsakir:
         
    
    Vatns- eða vindrof, rof á samfelldum akurlendum þar sem stunduð er einhliða kornrækt og landið er ósáið yfir veturinn.
         
    
    Vaxandi og tíðari flóð í ám og stórfljótum sem aftur eiga rætur að rekja til vaxandi eyðingar skóga, t.d. í fjallahlíðum.
         
    
    Vaxandi þurrkar sem leiða til eyðimerkurmyndunar, en þar sem gróður er veikur fyrir ganga eyðimerkur hraðar fram.
         
    
    Eyðing kjarrs og skóga og ofbeit búfjár.
                  Talið er að jarðvegseyðingar gæti nú á 1 / 3 af öllu ræktuðu landi jarðarinnar.
    Ofnotkun vatns.
                  Í mörgum heimshlutum er aðgangur að vatni sem takmarkar ræktun og matvælaframleiðslu. Þurrir árfarvegir, lækkandi grunnvatnsstaða og minnkandi stöðuvötn bera vott um þá alvarlegu ógn sem matvælaframleiðslu heimsins stafar af minnkandi vatnsforða. Þessarar þróunar gætir t.d. í Sovétríkjunum, Kína, Mexíkó, á vissum svæðum í Bandaríkjunum og víðar.
    Ofselta jarðvegs er sums staðar vandamál í ræktun þar sem uppgufun er meiri en úrkoma og söltin skolast ekki á brott.
    Einhliða og mjög tæknivæddur stórbúskapur er stórum viðsjárverðari og honum er hættara til að verða í ósátt við náttúruna en venjubundnum og alhliða fjölskyldubúskap. Í fjölskyldubúskap fer oftast saman tiltölulega fjölbreytt ræktun og búfjárhald, akurjörðin fær búfjáráburð og hún er einnig notuð undir grasrækt að hluta.
     Dæmi um einhæfa jarðrækt, sem umhverfinu stafar hætta af, er einhliða kornrækt eða önnur akuryrkja án búfjárhalds sem getur boðið heim hættu á jarðvegseyðingu.
     Dæmi um búfjárrækt, sem getur ógnað umhverfinu, eru hin risastóru verksmiðjubú, einkum með svín eða alifugla en einnig í nautgriparækt (kornfóðrun sláturgripa í fóðurkvíum). Frá þessum búskap stafar einkum hætta ef bú hafa ekki nægilegt land til að taka við búfjáráburðinum og öðru sem frá búum kemur. Fyrir þessar sakir hafa bændasamtök víða um lönd varað við þeirri þróun sem kynni að verða með sívaxandi kröfum um aukin afköst vinnuafls, búfjárins og landsins.
     Í erindi á kynningarfundi landbúnaðarráðherra um stefnumið í gróðurvernd og landgræðslu sagði Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri m.a.:
     „Oft kemur fram í umræðum um ástand gróðurs og jarðvegs þung gagnrýni á bændur samtíðarinnar sem orsakavalda ástandsins. Slíkt er oftast rangt og ómaklegt. Ástand gróðurlendis, sem hefur hrakað, jafnvel horfið, verður yfirleitt rakið til fyrri alda, þess tíma þegar þjóðin í heild lifði á og af landinu, gerði það oft með rányrkju sem okkur síðari tíma mönnum þýðir ekki um að sakast. Í dag nýta tiltölulega fáir af þeim sem landbúnað stunda viðkvæm gróðurlendi, þannig að gróðri hnigni eða að gróðurfarslegur bati nái ekki að eiga sér stað.“
     Þrátt fyrir það sem hér kemur fram og að augljóst er að mörg þau vandamál, sem nefnd eru hér að framan, eru ekki fyrir hendi í íslenskum landbúnaði er mikilvægt að skýrt liggi fyrir hver staða hans er að þessu leyti. Á það má benda að afurðir landbúnaðar, sem er laus við alla þessa annmarka, eru settar í hærri gæðaflokk og neytendur eru reiðubúnir að greiða allt að 25 af hundraði hærra verð fyrir þær.
     Ef hæfustu menn, hver á sínu sviði, verða fengnir til þess að vinna saman að þessari úttekt ætti að verða næg þekking án þess að lagt sé í frekari rannsóknir svo að verkinu megi ljúka á skömmum tíma. Það yrði gagnlegt framlag af hálfu Íslands til umræðna á ráðstefnunni í Brasilíu.


Fylgiskjal.


Alþjóðasamband búvöruframleiðenda, IFAP:


Alþjóðaráðstefna um umhverfismál og sjálfbæra þróun,


lykilhlutverk bænda.


(Reykjavík, 16.–18. október 1991.)



Yfirlýsing ráðstefnunnar.
    1. Landbúnaður er atvinnustarfsemi sem liggur til grundvallar efnahag flestra jarðarbúa og er forsenda þróunar sjálfbærs þjóðfélags í öllum löndum. Fremur en nokkur önnur starfsgrein fer búskapur fram í náinni snertingu við náttúruna. Búskapur er í eðli sínu fólginn í því að gera náttúruna verðmætari þannig að endurnýjanlegar auðlindir eru virkjaðar með því að beisla sólarorku á arðbæran hátt.
    2. Öldum saman hefur einyrkinn í raun verið vörður og umráðamaður mikils hluta náttúruauðlinda jarðar. Bændur um allan heim verða að vernda náttúrlegt umhverfi vegna þess að þeir eiga lífsafkomu sína undir því. Sérhver bóndi vill efla þær auðlindir sem hann skilar í hendur komandi kynslóða.
    3. Sjálfbær landbúnaður er efnahagslega lífvænlegur landbúnaður sem getur annað eftirspurn eftir hollri gæðafæðu endurnýjanlegum hráefnum og um leið tryggt til frambúðar varðveislu og eflingu náttúruauðlinda, svo sem hreins lofts, fersks vatns og frjósams jarðvegs.
    4. Efnahagslegur lífvænleiki felur í sér miklu meira en skammtímagróða; hér er um að ræða framtíðarstöðugleika atvinnuvegarins, sem og viðgang lífvænlegs skipulags í sveitum.

Sjónarmið bænda höfð í huga.
    5. IFAP leggur mikla áherslu á að sjónarmið bænda séu höfð í huga þegar litið er á þróun landbúnaðar í sátt við náttúruna; litið sé á bændur sem lykilinn að lausninni, ekki hluta af vandamálinu.
    6. Búskaparhættir, sem taka tillit til umhverfis, krefjast ekki aðeins nákvæmra og öruggra starfsaðferða heldur einnig hagstæðs hagræns og þjóðfélagslegs ramma. Stefnur, sem markaðar eru á hverju þessara sviða, verða að falla vel saman innbyrðis.
    7. Bændur vilja að mörkuð verði framtíðarstefna varðandi landbúnað og umhverfismál þar sem tilgreind séu skýr markmið sem vinna ber að og að efni og tími gefist til nauðsynlegrar aðlögunar.
    8. Landbúnaður hefur margt að bjóða samfélaginu. Framleiðendur búvara leitast við að hafa á boðstólum næg gæðamatvæli og endurnýjanleg hráefni. Þeir taka á sig ábyrgð á vernd náttúrlegs umhverfis og umsjón með náttúruauðlindum með langtímasjónarmið í huga. Þeir tryggja byggð sem og efnahags- og félagslegan þrótt í sveitum.
    9. Á móti þarf að koma að þetta margþætta hlutverk landbúnaðarins sé viðurkennt og metið að verðleikum. Tryggja verður efnahagslegt umhverfi sem veitir jafnvægi og stuðning þar sem bændur geti fjárfest og náð sanngjarnri afkomu.

Búskapur og jafnvægi í vistkerfi.
    10. Landbúnaður getur ekki komist af án framleiðsluþátta sem sífellt ednurnýjast. Náttúrlegt umhverfi er þar ómissandi undirstaða.
    11. Varðveisla góðs landbúnaðarlands skiptir meginmáli. Mörg ár tekur að byggja upp frjósemi jarðvegs og þennan höfuðstól verður að varðveita. Jafnvel þar sem land hefur verið tekið úr notkun til þess að draga úr offramleiðslu verður að viðhalda ræktunarástandi þess.
    12. Skoðanir eru mjög skiptar um ástand landbúnaðar og umhverfisins. Þar sem ræktun er stunduð með mikilli notkun aðfanga þarf átak til að breyta yfir í samþætt kerfi með meiri varúð í notkun tilbúinna efna, meiri fjölbreytni í ræktun nytjaplantna, aukinni áherslu á illgresiseyðingu án eiturefna og jafnvægi í notkun náttúrlegs og tilbúins áburðar.
    13. Í iðnvæddum löndum hefur áþreifanlegur og merkilegur árangur náðst á undanförnum árum í því að draga úr notkun skordýraeiturs og illgresisvarnarefna og gera þessa notkun markvissari. Þessi árangur hefur náðst vegna þess að miklum tíma og fjármunum hefur verið varið til rannsókna á þessum sviðum, svo og með góðu samstarfi við framleiðendur efnanna.
    14. Við ákveðnar aðstæður er ástæða til að snúa til búskaparhátta með minni aðfanganotkun til þess að verða við vaxandi kröfum um umhverfisvernd. Samt sem áður verður að hafa í huga afleiðingar slíkra aðgerða fyrir viðgang búsetu í dreifbýli þar sem aðstæður eru óhagstæðar.
    15. Þörf er á að leiðrétta ýmislegt misvægi þar sem mikil aðföng eru notuð í tæknivæddum búskap, en ekki má fara út í öfgar. Ekki er um það að ræða að hverfa aftur til fortíðar og loka augunum fyrir því að um nk. aldamót mun verða í heiminum 900 milljónum fleira fólk sem fæða þarf. Hæfileg notkun tilbúinna efna er nauðsynleg í landbúnaði til þess að komast hjá verulegum samdrætti í framleiðslu og geymslutapi.
    16. Eftir sem áður þarfnast bændur bestu framleiðslutækja sem völ er á, en sýna þarf almenningi fram á að þessum tækjum sé beitt af fullri skynsemi. Þess vegna er það lykilatriði að rannsóknir, menntun og upplýsingar um sjálfbæra búskaparhætti verði efldar og aðstoð sé veitt til aðlögunar þar sem nauðsyn krefur. Sérstaka áherslu þarf að leggja á rannsóknir á orkusparandi framleiðsluþáttum.

Landbúnaður og efnahags- og viðskiptalegt umhverfi.
    17. Skýlaust verður að viðurkenna að aðeins sá landbúnaður, sem býr við lífvænleg efnahagsleg skilyrði, getur tileinkað sér þá framleiðsluhætti sem nauðsynlegir eru til að þróunin verði sjálfbær.
    18. Erfiður efnahagur og vægðarlaus innbyrðis samkeppni skerða möguleika bænda til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til verndar umhverfinu. Fækkun fólks í sveitum dregur úr möguleikum á að halda við kjörlendi villtra dýrategunda og æskilegu landslagi og sveitahéruð leggjast í niðurníðslu og eyði.
    19. Hvað viðkemur þeirri reglu að „mengunarvaldurinn borgi“ er IFAP þeirrar skoðunar að hvetjandi aðgerðir til þess að aðlagast umhverfiskröfum með rannsóknum og leiðbeiningum verði skilvirkari ef bændur taka þátt í þeim sjálfviljugir en fyrir tilskipanir frá stjórnvöldum.
    20. Fjórir fimmtu hlutar mannkyns búa í þróunarlöndum. Afkoma þess er háð landbúnaði. Fyrir þessa bændur er sjálfbær þróun forsenda þess að þeir komist af. Fátækt er ein grundvallarorsök umhverfisspjalla í þróunarlöndum. Þar sem landbúnaður er stærsti einstaki atvinnuvegurinn í þróunarlöndunum er ekki unnt að draga úr fátækt nema með framförum hans með sjálfbærum hætti.
    21. Fyrir bændur í sumum þróunarlöndum er takmarkaður aðgangur að jarðnæði og öðrum náttúruauðlindum enn mikilvægt mál sem þarfnast alvarlegrar athugunar. Aðgangur að fjármagni, aðföngum og ráðgjöf er nauðsynlegur fyrir alla bændur til að auka framleiðni þeirra auðlinda sem þeir hafa til ráðstöfunar. Aðgangur að mörkuðum fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir frá þróunarlöndum verður einnig að koma inn í hverja þá áætlun sem gerð er fyrir heiminn allan um sjálfbæran landbúnað.
    22. Hagvöxtur í þróunarlöndum mun stuðla að þróttmeiri landbúnaði í heiminum. Bætt kjör fyrir tilstilli hagvaxtar sem dreifist jafnt um þjóðfélagið skiptir höfuðmáli.
    23. Nauðsynlegt er að stefna að beitingu skaðlausrar tækni og að auka menntun og þjálfun í notkun slíkrar tækni. Rannsóknir, leiðbeiningar og miðlun á tækni eru skilvirkar leiðir sem iðnvædd lönd geta beitt til aðstoðar þróunarlöndunum.
    24. Búskapur í þróunarlöndum getur ekki orðið sjálfbær fyrr en bændur fá greitt nógu hátt verð fyrir afurðir þannig að það veiti þeim bæði fjárhagslegan grundvöll og hvatningu til að varðveita land sitt. Að fengnum réttum boðum frá markaðnum, öruggu haldi á jörðum og þeim upplýsingum, sem þörf er á, munu jafnvel fátækustu bændur geta framleitt búvörur í sátt við náttúruna.
    25. Þróunarlönd geta ekki reitt fram það viðbótarfjármagn sem nauðsynlegt er til aukinnar landbúnaðarframleiðslu á sjálfbærum grundvelli. Þess vegna bera iðnvædd lönd sérstaka ábyrgð í þessu tilliti.

Þróun sveitasamfélaga.
    26. Markviss stefna stjórnvalda og aðhald í umhverfsismálum eru hvort tveggja nauðsynleg til viðhalds og eflingar sterkum dreifbýlissamfélögum sem geta veitt bændum, fjölskyldum þeirra og öðrum íbúum sveita góð lífskjör.
    27. Markaðsöflin taka ekki tillit til margra þeirra hlutverka sem landbúnaður gegnir fyrir þjóðfélagið. Umhverfisvernd er eitt dæmi, þjóðfélagslegt gildi þess að viðhalda jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis er annað. Eftir því sem þróunin í átt til þéttbýlismyndunar gengur lengra eiga bændur frekar á hættu að einangrast frá þéttbýlissamfélögum. Sveitasamfélög verða að leggja sig verulega fram í samskiptum við borgarbúa til að draga athygli þeirra að tilveru og stöðu landbúnaðar og þróunarmálum sveita. Upplýsingar til neytenda um gæði landbúnaðarafurða þarf að auka.
    28. Bændur og fjölskyldur þeirra eru þeir sem fyrst verða fyrir barðinu á umhverfisskaða og þurfa að takast á við afleiðingar hans, nefna má t.d. mengun drykkjarvatns. Vegna þess að hátt hlutfall bænda í þróunarlöndum eru konur þarf að leggja sérstaka áherslu á hlut þeirra í að efla þróun sjálfbærra búskaparhátta.
    29. Bændur eru ekki einungis matvælaframleiðendur heldur einnig gæslumenn náttúruauðlinda. Starf bóndans í þágu umhverfisins fæst ekki endurgoldið í verði þeirrar afurðar sem hann selur. Bændur þurfa einnig að hljóta umbun fyrir það hlutverk sem þeir gegna í eftirliti með landi. Í því felst varðveisla kjörlenda villtra dýra og dýrategunda í útrýmingarhættu, viðhald erfðavísa, útivistarsvæða, aðstöðu til tómstundaiðkana o.s.frv. Notkun hreinsaðrar skolpleðju frá þéttbýli til áburðar á akurlendi sýnir áþreifanlega hve borgir og sveitir eru innbyrðis háðar í endurnýtingu auðlinda. Hins vegar er slík endurnýting aðeins aðgengileg ef ekki er um að ræða neina mengun frá þungmálmum eða eiturefnum sem hverfa seint.

Lokaorð.
    Þessi ráðstefna leggur þunga áherslu á eftirfarandi:
    31. Sjálfbær þróun byggist á sameiginlegri viðleitni. Bændur geta ekki komið henni í framkvæmd einir. Þessi samábyrgð hvetur til umræðna milli hinna mörgu hagmunahópa þjóðfélagsins. Nú þegar eru slíkar umræður komnar af stað að frumkvæði bændasamtaka í allmörgum löndum.
    32. Samvinna felur einnig í sér að aðrir þjóðfélagsaðilar standi eins vel að málum og bændur. Því er ekki nægur gaumur gefinn að landbúnaðurinn er oft sjálfur fórnarlamb afturfarar umhverfisins, svo sem súrs regns, iðnaðarmengunar og skaða af völdum þeirra sem ferðast um dreifbýlið.
    33. IFAP viðurkennir að sérhver bóndi sem einstaklingur ber ábyrgð á áhrifum þeim sem búskapur hans hefur á umhverfið. Samt sem áður er það á ábyrgð fyrirtækja þeirra sem sjá landbúnaði fyrir aðföngum að vinna að því að þróa umhverfisvæna tækni. Stjórnvöld bera ábyrgð á því að reka ekki á eftir breytingum í tengslum við aðlögun að nýjum náttúruverndarkröfum á meiri hraða en tæknilegar nýjungar og fjárhagslegir möguleikar leyfa.
    34. Samvinna á báða bóga er nauðsynleg. Sjálfbærum búskaparháttum er ekki með góðum árangri hægt að koma á með fyrirmælum að ofan. Þátttaka bænda, virkjun einstaklingsátaks milljóna búvöruframleiðenda um allan heim er úrslitaatriði. Samráð við bændur og þátttaka þeirra í gegnum þeirra eigin fulltrúasamtök skiptir meginmáli ef ná á fram sjálfbærri þróun landbúnaðar. Þetta þarfnast aftur hagstæðra aðstæðna fyrir sjálfstæða þróun bændasamtaka frá grasrótarsamtökum allt til landssamtaka.
    35. Lausnir verða að miðast við allan heiminn. Umhverfisvandamál þekkja engin landamæri. Hungur, fátækt, skuldir þriðja heimsins, óstöðugleiki búvöruverðs, reglur um sanngjarna samkeppni, samræming löggjafar um fæðuöryggi og umhverfisvernd o.s.frv. Allt þetta hefur mikil og bein áhrif á umhverfið sem bændurnir starfa í. Þess vegna er þörf á að setja alþjóðlegar reglur um vernd umhverfisins, sérstaklega þar sem það hefur áhrif á heimsviðskiptin.
    36. Umhverfisvernd eflist með því að viðhalda arðsvon í landbúnaði. Rannsókna, menntunar, ráðgjafar og upplýsinga er þörf til að hjálpa bændum að bæta framleiðslu sína og stjórntækni. Þetta verður að haldast í hendur við hagstefnu sem gerir búvöruframleiðendum kleift að reka bú sín með þeim hætti að það sé bæði vistfræðilega traust og efnahagslega lífvænlegt.
    37. Sanngjarn umþóttunartími og raunhæf fjárhagsleg hvatning fyrir bændur eru mikilvægir þættir þegar aðlagast þarf nýjum lands- eða alþjóðareglum um umhverfisvernd.
    38. Tengslin milli umhverfis- og viðskiptastefnu þarf að athuga vandlega til að tryggja að ekki felist þar mótsagnir við eflingu sjálfbærrar þróunar.

Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun.
    39. IFAP styður það viðhorf UNCED að fólk skuli vera í fyrirrúmi. Það hvetur til þess að í undirbúningi að ráðstefnunni og í samningu Sáttmálans um jörðina komi fram full viðurkenning og áhersla á lykilhlutverki bænda í umsjá og varðveislu náttúruauðlinda. Þegar valin eru tiltekin markmið, starfsaðferðir og skuldbindingar sem fella skal saman við verkefnaskrá 21 ættu fulltrúasamtök bænda að vera höfð með í ráðum og fullt tillit tekið til hagsmuna og málefna bænda.
    40. Bændur eru sá hópur sem þetta mál varðar hvað mest og sem fulltrúi þeirra lýsir IFAP því yfir að þeir heils hugar séu fylgjandi því að leita eftir sjálfbærri landbúnaðarþróun, heilbrigðu náttúrlegu umhverfi og þróttmikilli framtíð fyrir dreifbýlissvæði. IFAP vill vinna að þjóðfélagi og landbúnaði þar sem iðnvædd lönd jafnt og þróunarlönd starfa í sátt við náttúruna með hjálp þekkingar á vistfræði, tækni, siðfræði og hagfræði.

FAO
    41. IFAP styður Den Bosch yfirlýsingu FAO og viðbótarstarfsáætlun þá sem viðurkennir bændur sem gæslumenn náttúruauðlinda og viðurkennir að þátttaka bænda og samtaka þeirra sé nauðsynleg til að gera framkvæmdaáætlanir um sjálfbæran landbúnað og dreifbýlisþróun (SARD).
    42. Íhuga skyldi að skipa fasta nefnd um sjálfbæra landbúnaðarþróun til að draga athygli að tengslunum milli efnahags- og umhverfisþátta og að samhæfa starfsemi hinna mismunandi stofnana sem vinna á þessu sviði.