Ferill 159. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 159 . mál.


171. Tillaga til þingsályktunar



um sjávarútvegsmiðstöð á Akureyri.

Flm.: Vilhjálmur Egilsson, Tómas Ingi Olrich.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að stofnun sjávarútvegsmiðstöðvar á Akureyri. Sjávarútvegsmiðstöðin verði miðstöð þekkingaröflunar og rannsókna fyrir íslenskan sjávarútveg og starfi í tengslum við Háskólann á Akureyri.
     Með stofnun sjávarútvegsmiðstöðvarinnar skal stefnt að því að flytja allt háskólanám á sviði sjávarútvegs til Háskólans á Akureyri og enn fremur að flytja í áföngum aðalstarfsemi upplýsinga-, rannsókna- og þjónustustofnana sjávarútvegsins til Akureyrar. Í sjávarútvegsmiðstöðinni verði þannig stefnt að samtengingu æðri menntunar, upplýsingaöflunar, rannsókna og þjónustu og miðað við að styrkja tengsl þessarar starfsemi við starfandi fyrirtæki í sjávarútvegi og við landsbyggðina.
    

Greinargerð.


     Þingsályktunartillaga þessi hefur það að meginmarkmiði að efla íslenskan sjávarútveg og stuðla að uppbyggingu þjónustu- og rannsóknastarfsemi á landsbyggðinni.
     Á undanförnum áratugum hefur mest nýsköpun atvinnulífs orðið á sviði þjónustu. Ljóst er að á komandi árum mun sú þróun halda áfram. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður, sem tengjast ekki síst mistökum í efnahagsstjórn og gengisstefnu, hefur sjávarútvegurinn varið talsverðum fjármunum til þróunarstarfs, einkum á vegum útflutningssamtaka sinna, en einnig á vegum einstakra fyrirtækja. Fjárhagslegt svigrúm sjávarútvegsins hefur þó lengstum verið svo þröngt að hann hefur ekki megnað að verja nema broti af þeim fjármunum í rannsóknir og þjónustu sem eðlilegt og nauðsynlegt hefði verið.
     Þjónustustörf hafa að langmestu leyti orðið til á höfuðborgarsvæðinu og að miklu leyti fyrir tilverknað ríkisvaldsins. Þar hafa risið rannsóknastofnanir atvinnuveganna, þar á meðal Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Uppbygging rannsókna- og þjónustustarfa á landsbyggðinni hefur gengið mun hægar. Er ljóst að eigi landsbyggðin að eflast verður að leggja áherslu á uppbyggingu rannsókna- og þróunarstarfa utan höfuðborgarsvæðisins. Efling slíkra starfa á sviði sjávarútvegs er eðlileg þar sem meginvettvangur sjávarútvegsstarfseminnar er á landsbyggðinni.
     Í heimi aukinnar samkeppni hafa Íslendingar mikla möguleika á sviði sjávarútvegs. Þessir möguleikar eru annars vegar tengdir gjöfulum fiskimiðum en hins vegar þekkingu, færni og aðlögunarhæfni þess fólks sem stundar störf á þeim fjölmörgu sviðum sem tengjast beint og óbeint sjávarútveginum. Til þess að skapa sér svigrúm í þeirri samkeppni og nýta möguleikana sem bjóðast verður sjávarútvegurinn að leggja stóraukna áherslu á rannsóknir og þróunarstarf á öllum sviðum atvinnugreinarinnar, veiðum, úrvinnslu og vöruþróun, vörudreifingu og markaðsstarfsemi. Nauðsynlegt er að atvinnugreinin og opinberir aðilar leggist á eitt að stefna saman sem mestu af þeirri þekkingu sem þjóðin býr yfir á sviði sjávarútvegsmála til þess að skapa frjótt umhverfi fyrir framfarir.
     Sú þingsályktunartillaga, sem hér er flutt, miðar að því að beina í einn farveg þeirri þekkingu og reynslu sem þjóðin býr yfir og skapa á héraðsgrundvelli örvandi umhverfi fyrir þróunarstarf á sviði sjávarútvegs. Aðferðin, sem hér er mælt með, er að leiða saman fyrirtæki sem stunda fiskveiðar og fiskvinnslu, þjónustufyrirtæki sem sinna þörfum sjávarútvegs og fiskvinnslu, menntastofnanir og rannsóknastofnanir.
     Hér er ekki einungis um að ræða formlega samvinnu heldur fyrst og fremst nálægð. Hugmyndin miðar að því að skapa samstarfsvettvang sem er ekki aðeins fræðilegur og faglegur heldur einnig landfræðilegur og helgast af daglegum samskiptum og persónulegu samstarfi starfsmanna hinna ýmsu sviða sjávarútvegsins og menntakerfisins. Slíkur samstarfsvettvangur ýtir undir gagnkvæm og örvandi áhrif atvinnulífs á menntakerfi og rannsóknastarfs á atvinnulíf.
     Menntun og þjálfun mannaflans ræður miklu um hagvöxt og velgengni þjóðarinnar í alþjóðlegri samkeppni. Það sem ræður hins vegar úrslitum um samkeppnishæfni þjóðarinnar eru þau tengsl sem tekst að skapa milli menntakerfisins og atvinnulífsins. Sú aðferð að vinna að slíkum tengslum á héraðsgrundvelli leiðir ekki aðeins til þess að menntakerfið á auðveldara með að laga sig að þörfum atvinnulífsins. Það eykur einnig skilning innan atvinnulífsins á mikilvægi rannsókna- og þróunarstarfs og hvetur það til að taka aukinn þátt í rannsóknastarfi og í kostnaði við slíka starfsemi.
     Þegar lagt er til að hefja undirbúning að stofnun sjávarútvegsmiðstöðvar á Akureyri er tekið tillit til margra samverkandi þátta. Með stórbættum samgöngum er hægt að líta á Eyjafjarðarsvæðið sem eitt atvinnusvæði þar sem lifa og starfa um 20 þúsund manns. Sjávarútvegur er mjög öflugur á þessu svæði og hefur farið ört vaxandi sl. tvo áratugi. Þar er að finna mörg fyrirtæki á flestum sviðum útgerðar og fiskvinnslu, bæði mjög stór fyrirtæki, meðalstór og smá. Á þessu svæði er því saman kominn mannafli sem hefur yfir að búa víðtækri þekkingu og reynslu á flestum sviðum sjávarútvegs. Í héraðinu eru mörg iðnaðar- og þjónustufyrirtæki sem hafa sérhæft sig í framleiðslu og þjónustu á sviði sjávarútvegs. Má nefna að þar er ein stærsta skipasmíðastöð landsins og fyrirtæki sem smíða og flytja út veiðarfæri, annan tæknibúnað og hanna hugbúnað til notkunar í fiskiskipum, svo sem DNG hf., Sæplast hf. og Gagnamiðlun hf.
     Háskólinn á Akureyri hefur sérhæft sig á sviði sjávarútvegs. Þar er rekin sjávarútvegsdeild, sú eina sinnar tegundar hér á landi, og tók hún til starfa um áramótin 1989–1990. Nám í deildinni einkennist af samþættingu raun-, viðskipta- og tæknigreina. Markmið deildarinnar er að mennta fólk til rannsókna og stjórnstarfa í fyrirtækjum og stofnunum sem fást við sjávarútveg.
     Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hafa gert samstarfssamning við Háskólann á Akureyri sem hefur auðveldað og styrkt starfsemi sjávarútvegsdeildarinnar og Háskólans almennt, en einnig stórbætt þá aðstöðu sem rannsóknastofnanirnar búa við á Norðurlandi.
     Nái mál þetta fram að ganga má gera ráð fyrir því að flutningur á aðalstarfsemi rannsóknastofnananna til Akureyrar og frekari uppbygging háskólanáms við Háskólann á Akureyri taki 5–10 ár. Mikilvægt er að gera markvissa framkvæmdaáætlun þannig að röskun á starfsemi stofnana verði sem minnst og uppbygging starfseminnar skili sem mestum árangri.
    Það skal tekið fram að þegar flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu höfðu undirbúið málið kom í ljós að til stendur að endurflytja tillögu til þingsályktunar sem er svipaðs efnis, en sú tillaga hlaut ekki afgreiðslu á 113. löggjafarþingi.