Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 166 . mál.


180. Tillaga til þingsályktunar



um friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Svavar Gestsson, Árni R. Árnason,


Valgerður Sverrisdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Karl Steinar Guðnason,


Margrét Frímannsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir,


Lára Margrét Ragnarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra að vinna áætlun í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög sem miði að því að koma í veg fyrir lausagöngu búfjár í Landnámi Ingólfs.
    Áætlunin verði lögð fyrir Alþingi í upphafi næsta þings, 1992.

Greinargerð.


    Landnám Ingólfs er Gullbringu- og Kjósarsýsla, Þingvallahreppur vestan þjóðgarðs, Grafningshreppur, Ölfushreppur, Hveragerðishreppur og Selvogshreppur og brot af Selfosshreppi. Landsvæði þetta takmarkast af línu sem dregin er úr Hvalfjarðarbotni í þjóðgarðinn á Þingvöllum og þaðan suður Þingvallavatn, Úlfljótsvatn, Sog og Ölfusá til sjávar.
    Mikill áhugi hefur verið fyrir því á undanförnum árum meðal áhugafólks um verndun og eflingu gróðurs í landinu að þetta svæði verði friðað fyrir lausagöngu búfjár. Hafa félögin Líf og land, Landvernd og Árnesingafélagið í Reykjavík ítrekað bent almenningi og stjórnmálamönnum á að brýna nauðsyn ber til þess að hefta hina geigvænlegu jarðvegs- og gróðureyðingu sem orðið hefur, og allt of víða viðgengst enn, á suðvesturhorni landsins. Þá má nefna að á árinu 1984 hélt Landvernd sérstaka ráðstefnu um landnýtingu og landnotkun á svæðinu, náttúruverndarþing ályktaði um málið á sl. hausti og sendi frá sér áskorun til Alþingis og félagasamtök skipuð áhugamönnum um verndun og eflingu gróðurs í landinu hafa bundist samtökum um að vinna að framgangi þess að Landnám Ingólfs verði friðað fyrir lausagöngu búfjár.
    Áskorun, sem send var þingmönnum í september 1990, var undirrituð af fjórtán félögum og félagasamtökum.
    Á Alþingi hafa þessi mál verið til umræðu og má nefna að á 111. löggjafarþingi var lagt fram stjórnarfrumvarp um vörsluskyldu búfjár á Reykjanesskaga en hlaut ekki afgreiðslu. Í greinargerð með því frumvarpi er birt samþykkt aðalfundar sýslunefndar Gullbringusýslu frá árinu 1988 þar sem skorað er ítrekað á stjórnvöld að beita sér fyrir því að Gullbringusýsla verði friðuð fyrir lausagöngu búfjár.
    Á 113. löggjafarþingi var flutt tillaga til þingsályktunar um lausagöngu búfjár sem hlaut ekki heldur afgreiðslu. Var það tillaga að ályktun um að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að takmarka lausagöngu búfjár við þjóðvegi og þar sem gróður er viðkvæmur fyrir beit. Ríkisstjórnin skyldi fela Landgræðslu ríkisins í samvinnu við gróðurverndarnefndir að gera áætlun um gróðurvernd og uppgræðslu og halda áfram samningum við bændur um afmörkun og staðsetningu beitarhólfa fyrir takmarkaðan fjölda búfjár. Í greinargerð og fylgiskjölum með þeirri þingsályktun er vikið að friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár.
    Þrátt fyrir friðun landsvæða og aðrar aðgerðir ríkis og sveitarfélaga til gróðurverndar er gróðureyðing víða allt of mikil í Landnámi Ingólfs. Lausaganga búfjár stangast á við önnur landnýtingarsjónarmið í þessum fjölmennasta landshluta. Það er hagur allra, bæði bænda og annarra íbúa í Landnámi Ingólfs, að búskapur sé lagaður að öðrum landnýtingarþörfum. Þetta þýðir ekki að búfé eigi að hverfa af svæðinu heldur að það verði eingöngu á afgirtu landi. Þannig háttar nú þegar um nautgripi og hross, en sauðfé gengur laust og takmarkar möguleika til gróðurverndar og landgræðslu. Auk þess skapar lausaganga búfjár mikla hættu fyrir umferð.
    Samkvæmt 5. gr. laga um búfjárhald, sem samþykkt voru í mars 1991, er sveitarfélögum heimilt að koma í veg fyrir ágang búfjár og að ákveða að eigendum búfjár sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Fjölmörg sveitarfélög hafa á liðnum árum bannað lausagöngu hrossa og nokkur sveitarfélög hafa nú þegar bannað lausagöngu búfjár.
    Að endingu skal minnt á að eitt af meginmarkmiðum nýgerðra búvörusamninga er að stuðla að því að búskapur verði í sem bestu samræmi við landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið.