Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 173 . mál.


189. Frumvarp til

laga

um vatnsveitur sveitarfélaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)1. gr.


    Í kaupstöðum og bæjum skal bæjarstjórn starfrækja vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna, eftir því sem kostur er.
     Í hreppum er hreppsnefnd heimilt að starfrækja vatnsveitu, sbr. 1. mgr., og leggja í framkvæmdir við gerð hennar enda sýni rannsóknir og kostnaðaráætlanir að hagkvæmt sé að leggja veituna og reka hana.

2. gr.


    Sveitarstjórn fer með stjórn vatnsveitu í sveitarfélagi.
     Sveitarstjórn er heimilt að kjósa sérstaka stjórn til að hafa yfirumsjón með starfsemi vatnsveitunnar og fara með þau verkefni, sem sveitarstjórn eru falin með lögum þessum, í umboði hennar. Sveitarstjórn getur ráðið sérstakan vatnsveitustjóra til að annast daglegan rekstur vatnsveitunnar.

3. gr.


    Sveitarstjórnum er heimilt að leggja og reka sameiginlega vatnsveitu. Sveitarstjórnir skulu gera með sér samkomulag um með hvaða hætti veitan skuli lögð og rekin. Um samvinnu sveitarstjórna á þessu sviði skulu gilda ákvæði IX. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, um byggðasamlög nema um annað sé sérstaklega samið.

4. gr.


    Sveitarstjórn er eigandi vatnsveitu sveitarfélags og sér um lagningu allra vatnsæða hennar, þ.e. aðalæða, götuæða og heimæða. Sveitarstjórn annast og kostar viðhald vatnsæðanna.

5. gr.


    Sveitarstjórn, sem lagt hefur vatnsveitu, hefur einkarétt á rekstri hennar og sölu vatns á því svæði sem vatnsveitan nær yfir og hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins.

6. gr.


    Eigandi fasteignar við veg eða opið svæði, þar sem götuæð liggur, á rétt á að fá heimæð lagða frá götuæð. Beiðni um lagningu heimæðar skal send til sveitarstjórnar. Eiganda ber að greiða gjald fyrir lagningu heimæðar. Sveitarstjórn ákveður fjárhæð heimæðargjalds og skal það miðað við rúmmál fasteignar. Gjalddagi þess skal vera 30 dögum eftir lagningu heimæðar.
     Vatn, sem tekið er úr stofnkrana innan húss, er eingöngu heimilt að nota til venjulegra heimilisþarfa. Að öðrum kosti þarf leyfi sveitarstjórnar. Réttur eiganda til að nota vatn til heimilisþarfa skuldbindur ekki sveitarstjórn til þess að tryggja að þrýstingur í götuæðum sé ávallt nægjanlegur. Hvers konar tenging dælubúnaðar við heimæð af hálfu eiganda, m.a. til að auka þrýsting vatns, er óheimil nema sveitarstjórn leyfi annað.
     Þurfi að gera breytingar á heimæð vegna framkvæmda á vegum eiganda sjálfs skal hann sækja um leyfi til sveitarstjórnar. Eigandi ber sjálfur kostnað við breytingar sem þessar.
     Ef vatnsæðar hafa ekki verið lagðar þar sem eigandi óskar eftir vatnsnotkun getur sveitarstjórn sett það skilyrði fyrir lagningu vatnsæða að fyrir fram ákveðinn hluti kostnaðar við lagningu þeirra skuli endurgreiddur af eiganda fasteignarinnar.

7. gr.


    Til þess að standa straum af kostnaði við rekstur vatnsveitu skal sveitarstjórn heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatnsins geta notið. Álagningarstofn vatnsgjalds skal vera afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins, sbr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990. Stofn til álagningar vatnsgjalds á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.
     Sveitarstjórn ákveður upphæð vatnsgjalds sem má nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni. Gjalddagar vatnsgjalds skulu vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts, sbr. 4. gr. laga nr. 90/1990.

8. gr.


    Af þeim fasteignum, þar sem vatn er notað til annars en venjulegra heimilisþarfa, vegna atvinnu sem í þeim er rekin eða af öðrum ástæðum, skal sveitarstjórn auk vatnsgjalds, sbr. 7. gr., heimilt að innheimta sérstakt aukavatnsgjald er miðast við notkun mælda í rúmmetrum.
     Sveitarstjórn lætur þeim er greiða skulu aukavatnsgjald í té löggilta vatnsmæla. Sveitarstjórn er eigandi vatnsmælanna og ákveður upphæð gjalds fyrir leigu á þeim. Aukavatnsgjald skal að jafnaði greiða samkvæmt mældri notkun, en verði því eigi við komið ákveður sveitarstjórn aukavatnsgjaldið samkvæmt áætlaðri notkun. Aukavatnsgjald skal innheimta eftir á eftir nánari ákvörðun sveitarstjórnar.
     Endurgjald hafnarsjóðs til sveitarsjóðs vegna vatnssölu til skipa, báta og annarra úr vatnsdreifikerfi hafnar skal miðast við mælda notkun og ákveður sveitarstjórn gjald fyrir hvern rúmmetra. Hafnarstjórn/sveitarstjórn ákveður verð fyrir hvern rúmmetra vatns sem seldur er til skipa og báta.
     Í þeim tilvikum, þegar um óvenjumikil kaup á vatni er að ræða eða vatn er keypt til sérstakrar framleiðslu, er sveitarstjórn heimilt að gera sérstakt samkomulag við kaupanda um endurgjald fyrir vatnið.

9. gr.


    Selji sveitarstjórn annarri sveitarstjórn vatn skal endurgjald fyrir það ákveðið með samkomulagi aðila eða mati dómkvaddra matsmanna náist eigi samkomulag. Við mat skal þess gætt að endurgjaldið verði aldrei minna en sannanlegur kostnaður vatnsveitunnar af vatnsvinnslu og dreifingu vegna vatnssölunnar, ásamt allt að 5% álagi af bundnu fjármagni.

10. gr.


    Skráður eigandi fasteignar ber ábyrgð á greiðslu vatnsgjalds og heimæðargjalds en notandi, ef hann er annar en fasteignareigandi, ber ábyrgð á greiðslu aukavatnsgjalds.
     Vatnsgjald og heimæðargjald eru, ásamt áföllnum kostnaði, tryggð með lögveðsrétti í fasteigninni næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. Ef hús brennur eftir að vatnsgjald eða heimæðargjald fellur í gjalddaga er sami forgangsréttur í brunabótafjárhæð fasteignarinnar.
     Heimilt er að loka fyrir heimæðar hjá þeim sem vanrækja að greiða aukavatnsgjald að undangenginni skriflegri aðvörun. Aukavatnsgjald og leigugjald fyrir vatnsmæli, ásamt áföllnum kostnaði, má taka fjárnámi.
     Heimilt er að loka fyrir heimæðar hjá þeim sem eyða vatni óhóflega og einnig þegar gera þarf við bilanir á vatnsæðum.

11. gr.


    Sveitarstjórn skal setja sér sérstaka gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 7., 8. og 9. gr. laga þessara, sbr. og reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga. Sveitarstjórn skal auglýsa gjaldskrána og breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu.

12. gr.


    Brot gegn lögum þessum og reglugerð samkvæmt þeim varða sektum sem renna skulu í sveitarsjóð nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum.

13. gr.


    Félagsmálaráðherra skal setja reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd vatnsveitumála, m.a. um stjórn og fjármál vatnsveitu, gjaldtökur, vatnsæðar o.fl.

14. gr.


    Lög þessi skulu taka gildi 1. janúar 1992. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um aðstoð til vatnsveitna, nr. 93/1947, svo og 20., 21., 23. og 28. gr. vatnalaga, nr. 15/1923.
     Þær heimæðar, sem fasteignaeigendur eiga við gildistöku laga þessara, sbr. ákvæði vatnalaga nr. 15/1923, skulu vera eign þeirra áfram nema samkomulag verði um að sveitarstjórn yfirtaki þær. Að liðnum 10 árum frá gildistöku þessara laga ber sveitarstjórn að yfirtaka framangreindar heimæðar sé þess óskað af fasteignareiganda.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði 13. júní 1990. Í nefndinni áttu sæti Þórhildur Líndal, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, formaður, Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi, og Hjörleifur B. Kvaran, framkvæmdastjóri lögfræði- og stjórnsýsludeildar Reykjavíkurborgar.
     Samkvæmt skipunarbréfi nefndarinnar var henni falið að endurskoða gildandi lagaákvæði um vatnsveitur og holræsi og með endurskoðuninni skyldi stefnt að því að einfalda framkvæmd þessara mála, t.d. með því að athuga hvort ekki mætti komast af með eina reglugerð fyrir allar vatnsveitur og aðra fyrir holræsi í stað reglugerða og gjaldskráa í hverju sveitarfélagi eins og nú er.
     Með hliðsjón af þessu kynnti nefndin sér sérstaklega ákvæði III. kafla vatnalaga, nr. 15/1923, um notkun vatns til heimilis- og búsþarfa, iðnaðar og iðju, án vatnsorkunota og X. kafla sömu laga um holræsi, svo og lög um aðstoð til vatnsveitna, nr. 93/1947. Jafnframt kynnti nefndin sér fjölmargar reglugerðir sem sveitarstjórnir hafa sett sér um vatnsveitur á grundvelli vatnalaga og laga um aðstoð til vatnsveitna. Loks aflaði nefndin sér upplýsinga frá öðrum Norðurlöndum um hvernig málum þessum væri þar háttað. Nefndin er sammála um að endurskoða þurfi ákvæði vatnalaga, nr. 15/1923, um holræsi, en telur hins vegar að sú endurskoðun krefjist víðtæks samráðs við önnur ráðuneyti, svo sem umhverfisráðuneyti og iðnaðarráðuneyti. Nefndin mun því leggja til við félagsmálaráðherra að áður en hafist verður handa við að endurskoða þau ákvæði verði tekið upp formlegt samstarf við þau ráðuneyti sem hlut eiga að máli varðandi þennan þátt.
     Niðurstaða nefndarinnar varðandi vatnsveitur varð hins vegar sú að rétt væri að semja frumvarp til laga um vatnsveitur sveitarfélaga sem byggði á ákvæðum vatnalaga að nokkru leyti, laga um aðstoð til vatnsveitna, þ.e. 8. gr. þeirra laga um gjaldtökuheimild sveitarstjórna, svo og ýmsum ákvæðum sem fyrrgreindar reglugerðir hafa að geyma og eru orðin nokkuð föst í sessi. Til að taka af allan vafa þá er hér um að ræða frumvarp um veitur fyrir kalt vatn. Um hitaveitur og rafveitur gilda því önnur lög.
     Auk framangreinds frumvarps hefur nefndin unnið drög að reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga, sem hér fylgir með, til kynningar. Með þeim drögum er lagt til að fyrir landið allt gildi ein reglugerð. Eins og málum er nú fyrir komið þarf sú sveitarstjórn, sem kemur á fót vatnsveitu, að samþykkja eigin reglugerð (samþykkt) og gjaldskrá og óska síðan staðfestingar félagsmálaráðuneytisins á þeim. Það að hafa einungis eina reglugerð fyrir allt landið einfaldar framkvæmdina til mikilla muna jafnt hjá sveitarstjórnum, sem og félagsmálaráðuneytinu og er jafnframt í samræmi við 5. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, þar sem kveðið er á um sjálfsforræði sveitarstjórna á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem þau annast.
     Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, skiptist í 14 greinar. Í 1.–5. gr. er m.a. fjallað almennt um réttindi og skyldur sveitarfélags varðandi vatnsveitu. Í 6. gr. er að finna ákvæði um rétt fasteignareiganda til að njóta vatns til heimilisþarfa frá vatnsveitu sveitarfélags og greiðslu heimæðargjalds. Í 7. og 8. gr. er kveðið á um heimild sveitarstjórnar til að innheimta vatnsgjald, aukavatnsgjald og mælaleigu. Í 9. gr. er að finna fyrirmæli um hvernig ákveða skuli endurgjald fyrir sölu vatns frá einu sveitarfélagi til annars. Í 10. gr. er m.a. að finna ákvæði um það hver beri ábyrgð á greiðslu gjalda samkvæmt frumvarpi þessu og hvaða úrræðum sé unnt að beita ef ekki er staðið í skilum með greiðslu þessara gjalda. Með ákvæðum 11. gr. er sú skylda lögð á félagsmálaráðuneytið að það setji reglugerð um vatnsveitur fyrir sveitarfélög, en drög að þeirri reglugerð fylgir frumvarpi þessu eins og áður segir. Í 12. gr. er lögð sú skylda á sveitarstjórn að setja sér gjaldskrá um gjöld þau sem leggja má á samkvæmt frumvarpinu. Í 13. gr. er m.a. ákvæði um að sektir vegna brota á fyrirmælum þessa frumvarps skuli renna í sveitarsjóð. Í 14. gr. er fjallað um hvenær frumvarpið skuli verða að lögum og enn fremur um eignarrétt á heimæðum sem þegar hafa verið lagðar. Að öðru leyti gilda ákvæði vatnalaga, nr. 15/1923, um vatnsveitur sveitarfélaga, svo sem um eignarnám, vatnsöflun, matsgerðir o.fl., eftir því sem við á, með þeim frávikum sem lögð eru til með þessu frumvarpi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein kemur fram sú meginregla að bæjarstjórnum á öllu landinu er skylt, eftir því sem kostur er, að starfrækja vatnsveitur til að geta fullnægt vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna, í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Í núgildandi vatnalögum, 20. gr., er hins vegar kveðið á um heimild bæjarstjórna til að starfrækja vatnsveitur. Með hliðsjón af þjóðfélagsþróun er talið eðlilegt að breyta þessu á þann veg að meginreglan verði sú að starfræksla vatnsveitna verði eitt af skylduverkefnum bæjarstjórna eftir því sem staðhættir leyfa hverju sinni. Ákvæði þetta kemur því í stað núgildandi 20. gr. vatnalaga.
     Aftur á móti er ekki talið unnt að leggja sömu skyldu á hreppsnefndir og er þá fyrst og fremst haft mið af því hve byggðin er dreifð í mörgum hreppanna og kostnaður við lagningu vatnsveitu gæti þar af leiðandi orðið gífurlegur. Þó er það svo að nú þegar starfrækja um 50 hreppsnefndir eigin vatnsveitu og í þeim tilvikum eiga öll ákvæði þessa frumvarps jafnt við um þær, sem og vatnsveitur kaupstaða og bæja. Í þeim hreppum, þar sem ekki hefur verið lögð vatnsveita, er hins vegar einungis heimilt að leggja í stofnkostnað að gögn liggi fyrir sem sýni að hagkvæmt þyki að leggja veituna og reka hana. Er þetta ákvæði í samræmi við 77. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, en þar er kveðið á um skyldu sveitarstjórna til að leita umsagnar sérfróðs aðila um kostnaðaráætlun þegar sveitarstjórn hyggst ráðast í stórframkvæmdir sem gætu stofnað fjárhag sveitarfélags í óefni ef illa tækist til. Ákvæði þetta kemur í stað ákvæðis 28. gr. vatnalaga.

Um 2. gr.


    Sveitarstjórn fer með yfirstjórn vatnsveitumála í sveitarfélagi. Í 2. mgr. er lagt til að sveitarstjórn verði heimilt að kjósa sérstaka stjórn til að fara með yfirumsjón þessara mála í sveitarfélagi í umboði sveitarstjórnar, þar með talin þau verkefni sem sveitarstjórn eru falin í frumvarpi þessu. Um kosningu þessarar stjórnar skal setja nánari fyrirmæli í reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga. Fundargerðir stjórnar vatnsveitu skulu ætíð lagðar fyrir sveitarstjórn.
     Þá er í þessari grein lagt til að sveitarstjórn verði heimilt að ráða sérstakan vatnsveitustjóra til að annast daglegan rekstur vatnsveitunnar, sbr. hér 1. mgr. 72. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986. Þetta fyrirkomulag þekkist nú þegar víða hjá sveitarstjórnum og þykir því fyllsta ástæða til að leggja til að heimild sem þessi verði lögfest.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir því að sveitarstjórnir geti haft samvinnu um að leggja og reka vatnsveitur í tveimur eða fleiri sveitarfélögum. Lagt er til að þar sem um slíkt samvinnuverkefni verður að ræða gildi um það samstarf ákvæði sveitarstjórnarlaga um byggðasamlög, sbr. IX. kafla þeirra. Þetta ákvæði bindur þó ekki hendur sveitarstjórna að semja á annan hátt um það hvernig samstarfinu skuli háttað.

Um 4. gr.


    Með þessari grein er lagt til að sveitarstjórn verði eigandi allra vatnsæða veitukerfisins, þar með taldra svokallaðra heimæða er liggja frá götuæð og inn í fasteign. Eins og málum er háttað í dag er það húseigandi sem skal sjá um og greiða kostnað við lagningu slíkrar vatnsæðar og jafnframt annast viðhald hennar, sbr. hér ákvæði 23. gr. vatnalaga. Rétt þykir að leggja hér til þá breytingu að lagning og viðhald heimæðar verði alfarið í höndum sveitarstjórnar sem ætti að hafa í för með sér hagræðingu fyrir báða aðila, þ.e. húseigandann og sveitarstjórn. Sambærilegt ákvæði er að finna í ýmsum reglugerðum fyrir hitaveitur og eðlilegt að sama fyrirkomulag gildi fyrir allar vatnsæðar hvort sem um þær rennur heitt eða kalt vatn. Varðandi þær heimæðar, sem þegar hafa verið lagðar, vísast til gildistökuákvæðisins í 14. gr.

Um 5. gr.


    Sams konar ákvæði og þetta er nú að finna í 21. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, en talið æskilegra að það sé að finna í lögum sem þessum er fjalla um vatnsveitur sveitarfélaga. Í þeim sveitarfélögum, þar sem komið hefur verið upp vatnsveitu, er eðlilegt að sveitarstjórn hafi jafnframt einkarétt til reksturs vatnsveitunnar, þ.e. á dreifingu og sölu vatnsins innan staðarmarka hlutaðeigandi sveitarfélags, sbr. þó 2. gr. Ákvæði þetta ber og að skýra með hliðsjón af 1. gr.

Um 6. gr.


    Þessi grein hefur að geyma ýmis ákvæði sem nú er að finna í gildandi reglugerðum og einstakar sveitarstjórnir hafa sett sér og ástæða þykir til að verði lögfest. Með þessari frumvarpsgrein er lagt til að meginreglan verði sú að eigandi, sem óskar eftir að heimæð verði lögð í fasteign hans, greiði gjald fyrir þá lagningu. Síðan er lagt til að sveitarstjórn annist og kosti viðhald heimæðar eftir það. Þó er rétt að vekja athygli á því að þurfi að gera breytingar á heimæð vegna framkvæmda eiganda sjálfs ber honum að greiða þann kostnað eftir að hann hefur fengið leyfi sveitarstjórnar til að breyta. Að öðru leyti skýrir greinin sig að mestu sjálf en í reglugerð þeirri, sem nefndin hefur samið drög að, er að finna nánari ákvæði um útfærslu á einstökum atriðum hennar, svo sem skilgreiningu á hugtökunum aðalæð, götuæð, heimæð, stofnkrani.

Um 7. gr.


    Í 1. mgr. 2. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga kemur m.a. fram að sveitarfélög hafa, auk tekna sem greindar eru í 1. gr. sömu laga, tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum. Með heimild í reglugerðum, sem settar hafa verið á grundvelli vatnalaga, nr. 15/1923, sem og laga um aðstoð til vatnsveitna, nr. 93/1947, hafa sveitarstjórnir því innheimt vatnsskatt til þess að standa straum af kostnaði við vatnsöflun og dreifingu vatns. Flestar sveitarstjórnir hafa notað orðið vatnsskattur fyrir það gjald sem innheimt er, en í frumvarpinu er lagt til að notað verði orðið vatnsgjald sem lýsir ef til vill betur eðli þessa gjalds, þ.e. endurgjald fyrir þá þjónustu sveitarfélagsins að láta íbúum þess á hagkvæman hátt í té kalt vatn til heimilisþarfa. Vatnsgjaldið hefur verið innheimt af fasteignum og gerir frumvarpið ráð fyrir að svo verði áfram. Álagningarstofn á hús og mannvirki skal vera afskrifað endurstofnverð þeirra. Til þess að jafna heimildina og gera hana samanburðarhæfa milli vatnsveitna sveitarfélaga er gert ráð fyrir að áður en til álagningar kemur verði stofninn margfaldaður með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík á sama hátt og kveðið er á um í 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990, varðandi fasteignaskatta. Stofn til álagningar vatnsgjalds á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra. Upphæð vatnsgjaldsins má nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni. Er hér um að ræða svipað hundraðshlutfall og vatnsveitur hafa haft í reglugerðum sínum en einstaka vatnsveitur hafa haft heimild til að innheimta hærra hundraðshlutfall. Kveðið er á um að gjalddagar vatnsgjalds skuli vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt, enda hafa þessi gjöld almennt verið innheimt saman. Um gjald þetta er nánar kveðið á um í drögum að reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga.

Um 8. gr.


    Með greiðslu vatnsgjalds, sbr. 7. gr., hefur hlutaðeigandi fasteignareigandi greitt fyrir vatn til almennra heimilisnota. Sé hins vegar um að ræða aðra og meiri notkun á vatni er hlutaðeigandi gert að greiða aukagjald sem nefnist aukavatnsgjald og er almenna reglan sú að gjaldið greiðist eftir á samkvæmt mældri notkun í rúmmetrum. Flestar sveitarstjórnir hafa innheimt aukavatnsgjald samkvæmt heimild í reglugerðum, sbr. lög um aðstoð til vatnsveitna, nr. 93/1947, og er því ekki um neina stefnubreytingu að ræða hvað þetta varðar.
     Hafnir landsins eru nú reknar af sveitarstjórnum, sbr. hafnalög, nr. 69/1984. Í flestum tilvikum hafa hafnarstjórnir lagt sérstakt dreifikerfi um hafnarsvæðið og taka við vatni á ákveðnum afhendingarstað og annast sjálfar dreifingu þess og sölu til skipa og báta og þeirrar starfsemi sem rekin er á hafnarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að sveitarstjórn ákveði gjald hafna sem sjálfar annast dreifingu og sölu vatns, enda eðlilegt þar sem vatnsveitur og hafnir eru í eigu sama aðila.
     Í 3. mgr. er að finna ákvæði sem gerir ráð fyrir því að í einstökum sveitarfélögum verði unnt að taka tillit til sérstakra aðstæðna vegna fyrirtækja eða aðila sem kaupa óvenjumikið vatn eða nota það til sérstakrar framleiðslu. Í þeim tilvikum kann stofnkostnaður m.a. að vera sérstaklega mikill eða önnur atriði óvenjuleg sem réttlæti það að sveitarstjórn geti gert sérstakt samkomulag um sölu vatns sem annaðhvort byggist á föstu gjaldi eða mældri notkun. Heimild þessari er ekki ætlað að ná til vatnsgjalds, sbr. 7. gr., þar sem það gjald er almennt grunngjald og greiða ber af öllum fasteignum. Eins og þegar er komið fram er hér um heimildarákvæði að ræða til handa sveitarstjórn. Telji hún ekki ástæðu til að beita því í tilvikum sem þessum skulu almenn ákvæði frumvarps þessa, svo og reglugerðar og gjaldskrár hlutaðeigandi sveitarfélags, gilda.

Um 9. gr.


    Í nokkrum sveitarfélögum er því þannig háttað að þau kaupa vatn af öðru sveitarfélagi og taka við því á ákveðnum afhendingarstað en annast síðan dreifingu þess. Má sem dæmi nefna Seltjarnarnes og Kópavog sem kaupa vatn af Reykjavíkurborg. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög semji um endurgjaldið en náist ekki samkomulag skal mat dómkvaddra matsmanna skera úr. Rétt þykir að kveða á um að seljandi vatnsins fái í endurgjald kostnað af vatnsvinnslu og dreifingu vegna vatnssölunnar ásamt allt að 5% álagi af bundnu fjármagni.

Um 10. gr.


    Telja verður eðlilegt að það sé skráður eigandi fasteignar sem beri ábyrgð gagnvart sveitarsjóði annars vegar á greiðslu vatnsgjaldsins og hins vegar heimæðargjaldsins. Sú er einnig meginreglan varðandi aukavatnsgjaldið og leigugjald fyrir mæli, en sé notandi vatnsins annar en hinn skráði eigandi þá er lagt til að ábyrgðin flytjist yfir á herðar hans hvað þetta gjald áhrærir. Lagt er til að vatnsgjald og heimæðargjald verði tryggð með lögveðsrétti í hlutaðeigandi fasteign en réttur til að taka fjárnámi verði fyrir hendi þegar um vangreiðslu á aukavatnsgjaldi og mælaleigu er að ræða. Í eldri lögum var notað orðið lögtak yfir heimild sveitarstjórnar til að fá fram fullnustu á kröfu sinni í tilviki sem þessu, en rétt þykir að nota hér í stað þess orðið fjárnám í samræmi við 1. gr. aðfararlaga, nr. 90 1. júní 1989, sem taka gildi 1. júlí 1992.

Um 11. gr.


    Hér er lagt til að sveitarstjórnir setji sér sérstakar gjaldskrár um gjöld þau sem þeim er heimilt að leggja á og innheimta samkvæmt lögum þessum og drögum að reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga, sbr. og 5. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986. Gjaldskrár þessar þurfa ekki staðfestingar félagsmálaráðuneytisins, enda eiga þær að vera í fullu samræmi við ákvæði frumvarps þessa og fyrrgreinda reglugerð. Ein umræða í sveitarstjórn nægir því. Sveitarstjórn skal kunngera íbúum sveitarfélagsins gjaldskrána á þann hátt sem venja er með opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu. Telji einhver ákvæði gjaldskrárinnar ekki standast lög að forminu til getur sá hinn sami vísað málinu til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins varðandi það atriði, sbr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.

Um 12. gr.


    Greinin skýrir sig sjálf.

Um 13. gr.


    Samkvæmt þessari grein skal félagsmálaráðherra láta semja sérstaka reglugerð um vatnsveitur sem gildi um vatnsveitur sveitarfélaga á öllu landinu. Sú reglugerð mun því leysa af hólmi allar þær reglugerðir, samþykktir og gjaldskrár sem sveitarstjórnir hafa samþykkt um vatnsveitur sveitarfélaga fyrir gildistöku frumvarps þessa. Í þessari reglugerð skal m.a. setja nánari ákvæði um útfærslu á stjórn vatnsveitumála og fjármál vatnsveitna, þar á meðal heimildir til gjaldtöku, svo og önnur þau atriði er ástæða er til að fjalla ítarlegar um.

Um 14. gr.


    Rétt þykir að leggja til að frumvarp þetta verði að lögum um áramót og þá fyrst og fremst með hliðsjón af fjármálalegri hlið þessara mála. Ákveði sveitarstjórn að kjósa sérstaka stjórn vatnsveitunnar eftir gildistöku laga þessara ætti kjörtímabil hennar að vera fram til næstu sveitarstjórnarkosninga vorið 1994 til að fylgja kjörtímabili annarra nefnda sem starfa í umboði sveitarstjórnar.
     Með ákvæði þessu er einnig tekinn af allur vafi um að þær heimæðar, sem þegar hafa verið lagðar í samræmi við gildandi lagaákvæði, verði eign fasteignareiganda áfram eða þar til hann óskar eftir því sérstaklega við sveitarstjórn að hún yfirtaki þær og taki þar með að sér viðhald og kostnað vegna þess. Rétt þykir og að hafa ákvæði þess efnis að sveitarstjórn beri skylda til að yfirtaka þessar heimæðar að liðnum 10 árum frá gildistöku þessara laga ef þess er farið á leit við hana. Þetta ákvæði er sett til að gæta jafnræðis milli íbúa sveitarfélags.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um vatnsveitur sveitarfélaga.


    Frumvarpið, sem fjallar um veitur fyrir kalt vatn, gerir ráð fyrir að til hagræðis sé slegið saman í ein lög ýmsum ákvæðum sem nú er að finna í 20., 21., 23. og 28. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, og lögum nr. 93/1947, um aðstoð við vatnsveitur, auk ákvæða sem nú eru í fjölda reglugerða og gjaldskráa er varða þetta efni. Verði frumvarpið að lögum falla tilvitnuð lagaákvæði úr gildi.
     Eftirtaldir gjaldstofnar eru tilgreindir í frumvarpinu, sem fyrir eru í núgildandi lögum, heimæðagjald, vatnsgjald (vatnsskattur í 8. gr. laga nr. 93/1947) og aukavatnsgjald. Í fyrsta skipti mun vera lögfest ákvæði um heimild fyrir sveitarstjórnir til að taka gjald af leigu löggiltra mæla vegna innheimtu á aukavatnsgjaldi, en þetta mun hafa tíðkast lengi svo að í raun er ekki um nýmæli að ræða.
     Meginbreyting á efni frumvarpsins frá núgildandi lögum felst í álagningu vatnsgjalds skv. 7. gr. frumvarpsins í stað álagningu vatnsskatts skv. 8. gr. laga nr. 93/1947, um aðstoð við vatnsveitur. Álagningarstofn vatnsgjalds skal vera afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis, margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins, sbr. 3. gr. laga nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt ákvæðum núgildandi laga nr. 93/1947 er álagning vatnsskatts miðuð við fasteignamatsverð húseigna. Þessi breyting þýðir að álagning vatnsgjalds um allt land er lagt á gjaldstofn sem miðast við fasteignaverð í Reykjavík í stað fasteignamatsverðs húseigna á hverjum stað.
     Einnig er sú breyting gerð að sveitarstjórnum er ætlað að ákveða álagningu gjalda en í núgildandi lögum er það gert samkvæmt reglugerðum eða gjaldskrám sem ráðherra staðfestir. Upphæð vatnsgjaldsins má nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni. Þessi regla mun vera sett til samræmingar við álagningu fasteignaskatts.
     Kostnaður. Ekki verður séð að frumvarpið, ef að lögum verður, leggi aukinn kostnað á ríki eða sveitarfélög. Hins vegar kemur til álita hvort ekki felist í því auknar álögur á eigendur fasteigna og þar með aukning á tekjum sveitarfélaga. Er þar einkum að nefna þá breytingu á ákvæðinu um álagningu vatnsgjaldsins (vatnsskattsins), hún miðast við fasteignamat í Reykjavík um land allt í stað fasteignamatsverðs á hverjum stað. Það mun vera óhætt að gera ráð fyrir einhverri hækkun vatnsgjalds frá núverandi vatnsskatti verði álagningarhlutfallið, 0,3%, notað að fullu. Um þetta skal þó ekkert fullyrt þar sem álagningarhlutfall hinna ýmsu sveitarfélaga er mjög breytilegt.