Ferill 52. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 52 . mál.


196. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um skattalega meðferð á keyptum aflakvóta.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    Hvernig telur ráðherra það samrýmast 1. gr. laga nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990, að kaup á varanlegum veiðiheimildum séu eignfærð í efnahagsreikningi og fyrnd eftir sömu reglum og gildir um skip og skipsbúnað, sbr. bréf ríkisskattstjóra dagsett 4. júlí 1990 til allra skattstjóra?
    Telur ráðherra að unnt sé með lagabreytingu eða afnámi laga að svipta kaupanda eign sinni, þ.e. þeim varanlegu veiðiheimildum sem eignfærðar eru samkvæmt áður tilvitnuðu bréfi ríkisskattstjóra og mynda jafnframt stofn til eignarskatts?
    Gilda sömu reglur um skattalega meðferð á keyptum varanlegum veiðiheimildum (aflahlutdeild) ef kaup eiga sér stað eftir gildistöku laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða? Ef svo er ekki, hverjar eru reglurnar?
    Ef svarið við 3. lið felur í sér að kaup á aflahlutdeild eru eignfærð og fyrnd, hver er rökstuðningurinn fyrir þeirri niðurstöðu, sérstaklega með hliðsjón af 1. gr. laganna; telur þá ráðherra unnt að svipta kaupanda séreign sinni síðar með lagabreytingu eða afnámi laga?


    Fjármálaráðherra hefur fengið umsögn ríkisskattstjóra um framangreinda fyrirspurn. Í þeirri umsögn kemur fram að nokkur mál, er varða breytingar skattstjóra á færslu aflakvóta í ársreikningum, hafa verið kærð til skattstjóra. Í a.m.k. fjórum tilvikum hefur úrskurði skattstjóra í slíkum málum verið skotið til ríkisskattanefndar og um þau atriði, sem spurt er um í fyrirspurninni, er því deilt fyrir þeim aðilum sem úrskurðarvald hafa um skattaleg deiluefni. Það skal tekið fram að ríkisskattanefnd hefur ekki kveðið upp úrskurði í málum þessum.
    Þar sem fyrirspurnin varðar sérstök álitaefni varðandi skattalega meðferð veiðiheimilda þykir rétt, samhengis vegna, að gerð sé grein fyrir skattalegri meðferð á fiskveiðiheimildum eins og ríkisskattsjóri hefur kynnt hana í dreifibréfum sínum. Sú meðferð er í aðalatriðum eftirfarandi:
    Ekki er gerð krafa af hálfu skattyfirvalda til þess að áunninn kvóta, sem úthlutað er á skip af sjávarútvegsráðuneytinu, skuli eignfæra.
    Kaup á framtíðarveiðiheimildum skal eignfæra og afskrifa árlega með sama fyrningarhlutfalli og skip og skipsbúnað, þ.e. 8%.
    Þegar skip er keypt með veiðiheimildum skal í skattskilum greina á milli veiðiheimildanna og skipsins, þ.e. hvert sé kaupverð skipsins og hvert sé kaupverð veiðiheimildanna.
    Kaupverð veiðiheimilda, sem keyptar eru til eins árs (skammtímakvóti), skal gjaldfæra að fullu á því ári þegar rétturinn er notaður.
    Með hliðsjón af þessu og framangreindri umsögn ríkisskattstjóra hefur fjármálaráðherra tekið saman eftirfarandi greinargerð sem svar við fyrirspurn þessari.
    1. Gildandi lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, kveða ekki beint á um hvernig skuli fara með þessi verðmæti. En í 73. gr. laganna er svohljóðandi ákvæði:
    „Til skattskyldra eigna skal telja allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi, með þeim takmörkunum sem um ræðir í 75. gr., og skiptir ekki máli hvort eignirnar gefa af sér arð eða ekki.“
    Lögin byggja þannig á mjög víðtæku eignarhugtaki. Í 32. gr. sömu laga er fjallað um fyrnanlegar eignir. Þar eru tilgreindir hefðbundnir varanlegir rekstrarfjármunir eins og skip, vélar, tæki og mannvirki. En auk þess eru þar tilgreindar sem fyrnanlegar eignir ýmsar óáþreifanlegar eignir, t.d. keyptur réttur til nýtingar eyðanlegra náttúruauðæfa og keyptur réttur til vörumerkis og einkaleyfis. Þegar kvóti er keyptur til frambúðar er ljóst að verið er að kaupa réttindi til veiða. Þessi réttindi hafa viðskiptaverð á milli kaupanda og seljanda og eru eðlislík þeim óáþreifanlegu eignum sem talin eru í 32. gr. Það er því ljóst að rétt er að eignfæra kaup á varanlegum fiskveiðiheimildum samkvæmt gildandi skattalögum þar sem hér er um að ræða eign í skilningi skattaréttar.
    Þar sem keypt fiskveiðiréttindi eru ekki nefnd í 32. gr. tekjuskattslaga hefur ekki þótt nægileg lagastoð fyrir því að fyrna þessi réttindi með sama hætti og þau óáþreifanlegu réttindi sem þar eru nefnd. Réttindi þessi eru lögum samkvæmt tengd skipum og hefur því niðurstaða ríkisskattstjóra orðið sú að leyfa fyrningu þeirra með sama hætti og eftir sömu reglum og gildir um skip og skipsbúnað. Varðandi nánari rökstuðning fyrir afskrift fiskveiðiréttinda má nefna að óvissa er um nýtingarmöguleika aðila á umræddum réttindum vegna endurskoðunarákvæða í lögum um stjórn fiskveiða. Þá má nefna almenna áhættu varðandi stærð fiskstofna, veiddan afla o.s.frv. Það ákvæði 1. gr. laga nr. 3/1988 að fiskstofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar rökstyður enn frekar að réttindi til að veiða þessa stofna séu afskrifanleg. Viðbótarákvæði 1. gr. núgildandi laga um stjórn fiskveiða um að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum undirstrikar enn óvissu þessara réttinda og styrkir þannig það sjónarmið að þau beri að afskrifa.
    Samkvæmt framansögðu er það álit fjármálaráðherra að það samrýmist vel 1. gr. laga nr. 3/1988 og núgildandi 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að kaup á varanlegum veiðiheimildum séu eignfærð í efnahagsreikningi og fyrnd eftir sömu reglum og gilda um skip og skipsbúnað.
    Loks má geta þess að reikningsskilanefnd Félags löggiltra endurskoðenda hefur gefið það álit um reikningshaldslega meðferð aflakvóta að kvóta, sem keyptur er til frambúðar, skuli eignfæra á kaupverði og afskrifa, sbr. nánara álit nefndarinnar, dags. 26. ágúst sl.
    2. Varðandi þennan lið fyrirspurnarinnar er rétt að vekja athygli á álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands, dags. 1. maí 1990, til sjávarútvegsnefndar Alþingis um tiltekna þætti frumvarps til laga um stjórn fiskveiða. Varðandi þann þátt fyrirspurnarinnar, er lýtur að því hver áhrif hugsanlegt afnám eða breyting laga um stjórn fiskveiða hefði á stofn til eignarskatts, er því til að svara að álit skattyfirvalda á skattalegri meðferð á keyptum aflakvóta hlýtur að miðast við gildandi lög hverju sinni. Svo sem ráða má af nefndri álitsgerð er hér um að ræða mjög vandasamt úrlausnarefni á sviði stjórnskipunarréttar. Fjármálaráðherra telur óeðlilegt að gefa álit á þessu álitaefni fyrr en tillögur í þá veru liggja fyrir í einstökum atriðum. Væntanlega mundu slíkar tillögur einnig fela í sér afstöðu til þess sem spurt er um í fyrirspurninni.
    3. Í niðurlagi bréfs ríkisskattstjóra, dags. 22. júní 1990, kemur eftirfarandi fram:
    „Í ljósi nýrra laga um stjórn fiskveiða, sem samþykkt voru á Alþingi í vor og eru nr. 38 15. maí 1990 og koma til framkvæmda á næsta ári, getur komið til álita að endurskoða þessa ákvörðun ríkisskattstjóra um eignfærslu og fyrningu aflakvóta.“
    Í framhaldi af þessu er rétt að taka fram að samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra hafa engin ný fyrirmæli varðandi skattalega meðferð á fiskveiðiheimildum verið send út til skattstjóra.
    Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra lítur embætti hans svo á að álit hans varðandi meðferð fiskveiðiheimilda í skattskilum, er fram komu í bréfum hans frá 22. júní og 4. júlí 1990, standi þangað til annað verði ákveðið. Í þessu sambandi er rétt að minna á þau ágreiningsmál sem nú eru til útskurðar hjá ríkisskattanefnd og nefnd voru í upphafi bréfs þessa.
    4. Um þetta vísast til svara við 1. og 2. lið.