Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 189 . mál.


209. Frumvarp til laga



um aukatekjur ríkissjóðs.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



I. KAFLI

Dómsmálagjöld.


1. gr.


     Við meðferð einkamáls í héraði skal greiða eftirfarandi gjöld í ríkissjóð:
    Fyrir útgáfu stefnu      1.000 kr.
    Fyrir þingfestingu      3.000 kr.
    Fyrir dómkvaðningu matsmanns      3.000 kr.
    Fyrir endurrit og ljósrit á hverja síðu      100 kr.
    Við meðferð einkamáls fyrir Hæstarétti skal greiða eftirfarandi gjöld í ríkissjóð:
    Fyrir kæru           10.000 kr.
    Fyrir áfrýjunarleyfi      10.000 kr.
    Fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu      10.000 kr.
    Fyrir þingfesting      3.000 kr.
    Útivistargjald      10.000 kr.
     Fyrir sjópróf og aðra sönnunarfærslu fyrir héraðsdómi án tengsla við rekstur máls fyrir hlutaðeigandi dómi skal greiða 5.000 kr. í ríkissjóð.
     Gjöld skv. 1. og 2. mgr. skal einnig greiða fyrir sakaukasök, gagnsök, meðalgöngusök og framhaldssök.
    Gjöld skv. 1.–3. mgr. greiðast ekki í eftirfarandi málum:
    Málum til heimtu vinnulauna.
    Barnsfaðernismálum.
    Málum til vefengingar á faðerni barns.
    Lögræðissviptingarmálum.
    Kjörskrármálum.
    Einkarefsimálum.
    Gjafsóknarmálum að því leyti sem gjald yrði lagt á gjafsóknarhafa.
    

2. gr.

    Í málum vegna aðfarargerða, kyrrsetningargerða, lögbannsgerða, löggeymslu og nauðungarsölu skal greiða gjöld skv. 1. gr. fyrir héraðsdómi og Hæstarétti eftir því sem átt getur við.
    Fyrir meðferð aðfararbeiðni fyrir héraðsdómi, án þess að gerðarþoli verði kvaddur fyrir dóm, skal greiða 3.000 kr. í ríkissjóð. Gjald þetta skal greitt um leið og beiðni er afhent héraðsdómi, en ef gerðarþoli er síðan kvaddur fyrir dóm fellur gjaldið niður en fénu verður þá varið þess í stað til greiðslu gjalds fyrir þingfestingu máls.

    

3. gr.


    Í málum, sem eru rekin fyrir héraðsdómi og Hæstarétti eftir ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl. og laga um gjaldþrotaskipti, skal greiða gjöld skv. 1. gr. eftir því sem átt getur við.
    Þá skal greiða 3.000 kr. í ríkissjóð fyrir eftirfarandi málefni fyrir héraðsdómi:
    Fyrir kröfu um opinber skipti á dánarbúi.
    Fyrir kröfu um opinber skipti til fjárslita milli hjóna eða við slit óvígðrar sambúðar.
    Fyrir kröfu um opinber skipti til slita á félagi.
    Fyrir beiðni um heimild til greiðslustöðvunar, þar á meðal um framlengingu hennar.
    Fyrir kröfu um niðurfellingu heimildar til greiðslustöðvunar.
    Fyrir beiðni um heimild til að leita nauðasamnings.
    Fyrir kröfu um niðurfellingu heimildar til að leita nauðasamnings.
    Fyrir kröfu um staðfestingu nauðasamnings.
    Fyrir kröfu um gjaldþrotaskipti.
     Gjald skv. 2. mgr. skal greitt um leið og beiðni eða krafa er afhent héraðsdómi. Komi til rekstrar máls til að leysa úr ágreiningi um beiðni eða kröfu fellur gjaldið niður en fénu verður þá varið þess í stað til greiðslu gjalds fyrir þingfestingu máls.
    Að því leyti sem héraðsdómari lætur birta kvaðningar vegna málefna skv. 2. mgr. með öðrum hætti en í pósti eða símskeyti skal sá sem beiðni eða krafa stafar frá bera kostnaðinn af því.
    Gjöld skv. 1. mgr. og 2. mgr. verða ekki greidd ef um mál er að ræða sem ákvæði 5. mgr. 1. gr. taka til.

II. KAFLI

Gjöld fyrir fullnustugerðir og búskipti fyrir sýslumanni.

4. gr.

    Þegar beiðni um fjárnám er afhent sýslumanni skal um leið greiða í ríkissjóð 1% þeirrar fjárhæðar sem fjárnáms er krafist fyrir, að meðtöldum vöxtum og kostnaði, þó aldrei minna en 3.000 kr. eða meira en 10.000 kr. Gjald skal reiknað í heilum hundruðum króna þannig að það sem er umfram fellur niður. Ef fjárnáms er krafist hjá fleiri en einum gerðarþola í sömu beiðni skal greiða þetta gjald vegna hvers þeirra.
    Þegar beiðni um kyrrsetningu eða löggeymslu er afhent sýslumanni skal um leið greiða gjald skv. 1. mgr. sem tekur mið af fjárhæðinni sem gerðar er krafist fyrir.
    Við lögbannsgerð eða aðfarargerð til fullnustu á öðru en skyldu til peningagreiðslu skal greiða 5.000 kr. í ríkissjóð um leið og beiðni um gerðina er afhent sýslumanni.
    Gjöld skv. 1.–3. mgr. eru ekki endurkræf þótt beiðni sé afturkölluð eða ekki verði af framkvæmd gerðar af öðrum sökum. Sérstakt gjald verður ekki tekið við endurupptöku gerðar.
    Gjöld skv. 1.–3. mgr. verða hvorki greidd vegna mála sem 5. mgr. 1. gr. tekur til né vegna fullnustu sektar eða kröfu um sakarkostnað í opinberu máli.

5. gr.

    Þegar beiðni um nauðungarsölu til fullnustu peningakröfu er afhent sýslumanni skal um leið greiða í ríkissjóð 1% þeirrar fjárhæðar sem er krafist fullnustu á, að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Þegar beiðni er um nauðungarsölu á fasteign eða eign sem verður ráðstafað eftir sömu reglum og fasteign skal þetta gjald aldrei vera minna en 9.000 kr. eða meira en 30.000 kr. Þegar beiðni er um nauðungarsölu á lausafé skal gjaldið aldrei vera minna en 3.000 kr. eða meira en 10.000 kr. Ákvæði 4. og 5. mgr. 4. gr. gilda um skyldu til greiðslu þessa gjalds.
    Þegar beiðni um nauðungarsölu í öðru skyni en til fullnustu peningakröfu er afhent sýslumanni skal um leið greiða gjald í ríkissjóð. Ef beiðnin er um nauðungarsölu á fasteign eða annari eign sem verður ráðstafað með sama hætti og fasteign er gjaldið 15.000 kr., en ef beiðnin varðar annars konar eign 5.000 kr.
    Þegar fasteign er seld á uppboði greiðist 1% söluverðs sem sölulaun í ríkissjóð. Það sama á við um aðrar eignir sem eru seldar eftir sömu reglum og gilda um nauðungarsölu fasteigna.
    Þegar aðrar eignir en getur í 3. mgr. eru seldar á uppboði greiðast 5% söluverðs sem sölulaun í ríkissjóð.
    Gjöld skv. 1.–4. mgr. skulu reiknuð í heilum hundruðum króna þannig að það sem er umfram fellur niður.

6. gr.


    Þegar einkaskiptum á dánarbúi er lokið skal greiða 5.000 kr. sem skiptagjald í ríkissjóð samhliða greiðslu erfðafjárskatts. Skiptagjald í ríkissjóð samhliða greiðslu erfðafjárskatts. Skiptagjald greiðist þó ekki ef arfur rennur að öllu leyti til erfingja sem er undanþeginn skyldu til greiðslu erfðafjárskatts.

7. gr.

    Við framkvæmd aðfarargerða, kyrrsetningargerða, lögbannsgerða, löggeymslu, nauðungarsölu og skipti dánarbúa fyrir sýslumanni verður ekki krafist frekari greiðslna en segir í 4.–6. gr. nema fyrir:
    Óhjákvæmilegan akstur sem sá sem krefst aðgerðar býður ekki fram með viðunandi hætti. Sé notað ökutæki starfsmanns sýslumanns reiknast aksturskostnaður eftir almennum reglum um afnot ríkisstarfsmanna á eigin ökutæki við rækslu starfa sinna.
    Útlagðan kostnað úr ríkissjóði vegna óhjákvæmilegrar ferðar og dvalar sýslumanns eða starfsmanns hans utan umdæmis hans.
    Þóknun eftir ákvörðun sýslumanns handa öðrum en starfsmönnum sínum sem eru kvaddir til að leysa af hendi nauðsynleg störf.
    Ljósritun, en fyrir hana skal greiða með sama hætti og segir í 1. gr.
     Greiðslur skv. 1. mgr. renna í ríkissjóð og verður þeirra krafist um leið og tilefni gefst til þeirra. Sýslumanni er heimilt að áskilja fyrirframgreiðslu þannig að frekari framkvæmd umbeðinnar aðgerðar falli niður ef hún verður ekki innt af hendi.

III. KAFLI

Gjöld fyrir þinglýsingar og lögbókandagerðir.

8. gr.

    Fyrir þinglýsingu skjala skal greiða 1.000 kr.
    Eigi skal greiða gjald fyrir þinglýsingu úrskurða um sviptingu sjálfræðis eða fjárræðis né úrskurða um brottnám lögræðissviptingar.

9. gr.

    Fyrir afsagnargerðir, stefnubirtingar og aðrar slíkar gerðir er lögbókandi framkvæmir skal greiða 1.000 kr.
    Fyrir lögbókandavottorð á arfleiðsluskrá og á samninga skal greiða 2.000 kr.
    Fyrir drátt í happdrætti skal greiða 3.000 kr.

IV. KAFLI

Gjöld fyrir veitingu atvinnuréttinda og tengdra réttinda

.

10. gr.

    Fyrir útgáfu eftirfarandi leyfa og skírteina skal greiða sem hér segir:
    Leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti      75.000 kr.
    Leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi      50.000 kr.
    Leyfi til að stunda almennar lækningar      5.000 kr.
    Leyfi til að stunda sérfræðilækningar      75.000 kr.
    Leyfi til að stunda almennar tannlækningar      50.000 kr.
    Leyfi til að stunda sérfræðitannlækningar      75.000 kr.
    Lyfsöluleyfi      75.000 kr.
    Leyfi til tæknifræðinga, verkfræðinga, arkitekta, lyfjafræðinga,
         viðskiptafræðinga og hagfræðinga     
25.000 kr.

    Löggilding endurskoðenda      75.000 kr.
    Löggilding manns um ævitíð (dómtúlkar, skjalaþýðendur,
         endurskoðendur o.fl.)     
25.000 kr.

    Löggilding manns um óákveðinn tíma      5.000 kr.
    Meistarabréf      25.000 kr.
    Sveinsbréf           5.000 kr.
    Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna A      11.000 kr.
    Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna B      13.000 kr.
    Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna C      14.000 kr.
    Vélstjórnarskírteini      13.000 kr.
    Fyrir endurnýjun leyfa skv. 14.–17. tölul.      3.000 kr.
    Undanþáguleyfi til skipstjórnar- eða vélstjórnarstarfa      3.000 kr.
    Flugnema- og svifflugmannsskírteini      5.000 kr.
    Einkaflugmannsskírteini      6.000 kr.
    Atvinnuflugmannsskírteini III. fl.      15.000 kr.
    Atvinnuflugmannsskírteini II. fl.      20.000 kr.
    Atvinnuflugmannsskírteini I. fl.      25.000 kr.
    Flugvéltækna-, flugvélstjóra- og flugumferðarstjóraskírteini      25.000 kr.
    Skírteini til kvikmyndasýninga
         
    
    staðbundin skírteini      5.000 kr.
         
    
    sveinsskírteini      5.000 kr.
         
    
    meistaraskírteini      5.000 kr.
    Naglabyssuskírteini      5.000 kr.
    Skírteini fyrir suðumenn      5.000 kr.
    Önnur leyfi af svipuðum toga er valdsmenn eða Stjórnarráð
         gefa út nema gjald sé ákveðið í sérstökum lögum eða
         stjórnvaldsfyrirmælum     
5.000 kr.


V. KAFLI

Leyfi fyrir atvinnustarfsemi og tengd leyfi.

11. gr.

    Fyrir útgáfu eftirfarandi leyfa skal greiða sem hér segir:
    Heildsöluleyfi      70.000 kr.
    Umboðssöluleyfi      50.000 kr.
    Smásöluleyfi      50.000 kr.
    Lausaverslunarleyfi      50.000 kr.
    Endurnýjun verslunarleyfis      20.000 kr.
    Leyfisbréf fyrir verðbréfafyrirtæki      100.000 kr.
    Leyfi til verðbréfamiðlunar      50.000 kr.
    Bráðabirgðaleyfi til verðbréfamiðlunar      10.000 kr.
    Leyfi til fasteignasölu      100.000 kr.
    Leyfi starfrækslu uppboðsmarkaða fyrir sjávarafla      50.000 kr.
    Endurnýjun leyfis skv. 10. tölul.      5.000 kr.
    Leyfi til starfrækslu rækju- og hörpudiskvinnslu      50.000 kr.
    Hótelleyfi, veitingahúsaleyfi, leyfi fyrir skemmtistað      50.000 kr.
    Leyfi fyrir gistiheimili, veitingastofuleyfi, greiðasöluleyfi      20.000 kr.
    Leyfi til að selja gistingu á einkaheimilum, gistiskálaleyfi,
         veisluþjónustuleyfi, veitingaverslunarleyfi     
15.000 kr.

    Gjald fyrir endurnýjun leyfis skv. 13.–15. tölul.      3.000 kr.
    Leyfi til tækifærisveitinga      3.000 kr.
    Leyfi fyrir áfengisveitingastað
         
    
    til eins árs eða skemur      30.000 kr.
         
    
    til lengri tíma en árs og til og með tveggja ára      50.000 kr.
         
    
    til lengri tíma en tveggja ára      100.000 kr.
    Leyfi til áfengisveitinga (tækifærisveitinga)      5.000 kr.
    Leyfi til að framleiða áfenga drykki      100.000 kr.
    Almennt skemmtanaleyfi fyrir veitingastað
         
    
    til eins árs eða skemur      100.000 kr.
         
    
    til lengri tíma en eins árs      300.000 kr.
    Iðju- og iðnaðarleyfi      25.000 kr.
    Önnur leyfi af svipuðum toga er valdsmenn eða
         Stjórnarráð gefa út nema gjald sé ákveðið í sérstökum
         lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum     
5.000 kr.

VI. KAFLI

Ýmis leyfi varðandi heimild til að selja, kaupa og fara með hættuleg efni og tæki.


12. gr.

    Greiða skal gjald fyrir útgáfu eftirfarandi leyfa sem hér segir:
    Eiturbeiðni (leyfi til kaupa á takmörkuðu magni)      3.000 kr.
    Leyfisskírteini til kaupa og notkunar á eiturefnum      5.000 kr.
    Endurnýjun leyfisskírteina skv. 2. tölul.      3.000 kr.
    Leyfi til að framleiða skotelda, skotvopn, skotfæri eða
         sprengiefni     
25.000 kr.

    Leyfi til að versla með skotvopn, skotfæri eða skotelda,
         hvort sem er í heildsölu eða smásölu, auk gjalds fyrir
         verslunarleyfi     
15.000 kr.

    Endurnýjun leyfis skv. 5. tölul.      3.000 kr.
    Tímabundið leyfi til sölu skotelda í smásölu      3.000 kr.
    Leyfi til kaupa á sprengiefni      6.000 kr.
    Leyfi til þess að fara með sprengiefni og annast sprengingar      6.000 kr.
    Önnur sambærileg leyfi nema gjald sé ákveðið
         í sérstökum lögum eða reglugerðum     
3.000 kr.


VII. KAFLI

Gjöld fyrir ýmsar skráningar.


13. gr.

    Fyrir eftirfarandi skráningar skal greiða gjald sem hér segir:
    Skráning hlutafélags og samvinnufélags      100.000 kr.
    Skráning erlendra félaga      50.000 kr.
    Skráning firma eins manns      40.000 kr.
    Skráning firma tveggja manna eða fleiri      50.000 kr.
    Aukatilkynningar og skráning breytinga      1.000 kr.
    Skráning loftfars til atvinnuflugs      60.000 kr.
    Skráning loftfars til einkaflugs      30.000 kr.
    Skráning breytinga á eldri skráningu loftfars
         (eigendaskipti, nafnbreyting o.fl.)     
5.000 kr.

    Skráning kaupmála      4.000 kr.
    Lögskráning sjómanna      500 kr.
    Aðrar skráningar sem framkvæmdar eru af stjórnvöldum      4.000 kr.

VIII. KAFLI

Ýmis vottorð og leyfi.


14. gr.

    Fyrir vegabréf til útlanda (18–66 ára)      4.000 kr.
    Fyrir vegabréf til útlanda fyrir aðra      1.500 kr.
    Fyrir borgaralega hjónavígslu      4.000 kr.
    Lögskilnaðarleyfi      2.500 kr.
    Ættleiðingarleyfi      2.000 kr.
    Fyrir vottorð er einstakir menn æskja í þágu verslunar
         eða atvinnu     
1.000 kr.

    Fyrir löggildingu leiðarbókar eða véladagbókar      1.000 kr.
    Fyrir sakavottorð gefin út samkvæmt beiðni einstakra manna      1.000 kr.
    Fyrir veðbókarvottorð      800 kr.
    Fyrir önnur embættisvottorð      1.000 kr.

IX. KAFLI

Ljósrit og endurrit.


15. gr.

    Fyrir endurrit eða ljósrit skal greiða 100 kr. fyrir hverja vélritaða síðu. Fyrir staðfestingu dómsgerða skal greiða 1.000 kr.
    Í ritlaunum skv. 1. mgr. er innifalið staðfestingargjald, nema af dómsgerðum og lögbókandastaðfestingum.

X. KAFLI

Um innheimtu gjaldanna, gildistöku o.fl.


16. gr.

    Gjöld samkvæmt lögum þessum skulu renna í ríkissjóð.
    Innheimtu gjalda samkvæmt lögum þessum annast sýslumenn, héraðsdómarar og hliðstæðir embættismenn, svo og fjármálaráðuneyti eða önnur ráðuneyti í umboði þess.
    Þegar innheimtumaður afgreiðir skjal sem gjaldið er tekið fyrir að gefa út eða rita á ber honum að rita hið greidda gjald á skjalið.

17. gr.

    Fjármálaráðuneytið ákveður hvort ríkissjóður eða innheimtuaðilar opinberra gjalda skuli greiða gjald samkvæmt lögum þessum af gerðum og skjölum er þessa aðila varða.

18. gr.

    Gjöld samkvæmt lögum þessum eru grunngjöld og er heimilt að hækka þau um hver áramót í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á árinu á vísitölu vöru og þjónustu, í fyrsta sinn 1. janúar 1993. Grunnvísitalan er 161,1 stig.
    Þegar gjald hefur verið reiknað út skv. 1. mgr. skal það hækkað eða eftir atvikum lækkað í næsta hundrað.
    Fjármálaráðherra skal með auglýsingu í Stjórnartíðindum tilkynna breytingar skv. 1. mgr.

19. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara.

20. gr.

    Lög þessi öðlast gildi þann 1. janúar 1992. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, og reglugerðir sem settar voru samkvæmt heimild í þeim lögum.

A t h u g a s e m d i r v i ð l a g a f r u m v a r p þ e t t a .


    Aukatekjur ríkissjóðs eiga sér langa sögu í íslenskri löggjöf. Elstu heimild um aukatekjur er að finna í aukatekjureglugjörð fyrir réttarins þjóna frá árinu 1830. Tekjur samkvæmt þeim reglum runnu til embættismanna sem endurgjald fyrir ýmis embættisverk sem þeir framkvæmdu. Voru greiðslurnar í reynd hluti þeirra launa sem embættismenn þágu frá ríkinu. Þetta breyttist þó skömmu fyrir síðustu aldamót þegar gerð var sú breyting með lögum nr. 2/1894 að aukatekjurnar urðu gjöld sem runnu í ríkissjóð. Þrátt fyrir það urðu aðeins óverulegar efnisbreytingar á lögunum frá því sem verið hafði í reglugjörðinni. Frá því þau lög voru sett og fram til 1954 voru ekki gerðar efnisbreytingar á lögunum. Þær breytingar, sem gerðar voru fram að þeim tíma, lutu að því að hækka fjárhæðir.
    Með lögum nr. 40/1954, um aukatekjur ríkissjóðs, komu inn í aukatekjulög tveir nýir kaflar, þ.e. „Gjöld fyrir leyfisbréf, skírteini o.fl.“ og „Gjöld fyrir skrásetningar“. Þessir kaflar höfðu að geyma allnokkur nýmæli, ásamt því sem þar var að finna flest þau ákvæði sem áður höfðu verið í kaflanum „Um gjöld fyrir ýmiss konar embættisverk bæjarfógeta og sýslumanna“.
    Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á aukatekjulögum frá 1954 og þar til núgildandi lög nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, tóku gildi, hafa í grundvallaratriðum einungis miðað að því hækka fjárhæðir gjalda.
    Með lögum nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, var í fyrsta sinn horfið frá þeirri stefnu að löggjafinn kvæði á um gjaldstofna og gjaldskyldu. Í lögunum er að finna víðtækar heimildir til handa ráðherra þar sem honum er raunverulega bæði falið vald til að ákveða fyrir hvaða embættisathafnir skuli greiða gjöld og fjárhæð þeirra.
    Ef litið er á efni aukatekjulaga, allt frá setningu aukatekjureglugjörðar fyrir réttarins þjóna árið 1830 til setningar laga nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, kemur í ljós að inntakið hefur tekið litlum breytingum. Reyndar má fullyrða að einu efnisbreytingarnar, sem orðið hafa, séu vegna breytinga á tíðaranda, þróun þjóðfélagsgerðar og breyttrar löggjafar.
    Frá árinu 1830 til 1954 var efnisskipan þessi:
    Dómsgerðir.
    Fógetagerðir.
    Þinglýsingar.
    Skiptagerðir.
    Uppboðsgerðir.
    Notarialgerðir.
    Ýmis önnur embættisverk.
    Almenn fyrirmæli.
    Efnisskipan og gjaldtaka samkvæmt lögunum frá 1954 og 1965 voru þessar:
    Dómsmálagjöld.
    Fógetagerðir.
    Skiptagjöld.
    Uppboðsgerðir.
    Notarialgerðir.
    Þinglýsingar o.fl.
    Leyfisbréf, skírteini o.fl.
    Skrásetningar.
    Ýmis gjöld.
    Ýmis ákvæði.
    Efnisskipan og gjaldtaka samkvæmt lögum nr. 79/1975:
    Dómsmálagjöld.
    Fógetagerðir.
    Skiptagjöld.
    Uppboðsgerðir.
    Notarialgerðir.
    Þinglýsingar.
    Ýmis ákvæði.
    Breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs hafa í gegnum tíðina einkum miðað að því að hækka fjárhæðir gjalda. Af þessu grófa yfirliti hér að framan má sjá að einu efnisbreytingarnar, sem eitthvað kveður að, urðu með lögunum frá 1954 þegar lögfestir voru sérstakir kaflar um leyfisbréf, skírteini o.fl. og um skrásetningar. Frá þeirri skipan var svo aftur horfið með setningu núgildandi laga þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra ákveði einstök gjöld með reglugerð. Þannig hefur fjármálaráðherra sett reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs og dómsmálaráðherra reglugerð um dómsmálagjöld.
    Það fyrirkomulag, að ákveða gjöld með reglugerð, hefur ákveðna kosti og ákveðna galla. Má í því sambandi benda á að þurfi einhverra atvika vegna að leggja á nýtt gjald, t.d. nýtt leyfisgjald, þarf ekki að bíða eftir lagabreytingu heldur getur ráðherra kveðið á um gjaldtökuna í reglugerð. Á hinn bóginn eru ráðherra með þessu fyrirkomulagi gefnar frjálsar hendur um ákvörðun fjárhæða með einhliða ákvörðun. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að í lög séu leidd ákveðin grunngjöld sem síðan taki breytingum með hliðsjón af verðlagsbreytingum. Þannig sé það löggjafarvaldið sem ákveði í reynd gjöld þessi en ekki framkvæmdarvaldið og því horfið frá því fyrirkomulagi sem verið hefur við ákvörðun aukatekna ríkissjóð frá því lög nr. 79/1975 tóku gildi.
    Frumvarp þetta gerir ekki ráð fyrir nema óverulegum hækkunum á þeim gjöldum sem ákveðin hafa verið í reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs. Nokkrar hækkanir verða hins vegar á þeim gjöldum sem í tíð gildandi laga hafa verið ákveðin með reglugerð um dómsmálagjöld o.fl. Veigamesta breytingin er sú að nú er sett ákveðið lágmark fyrir gjaldtöku vegna fjárnáms og nauðungarsölubeiðna, auk þess sem gert er ráð fyrir að gjöld þessi skuli greidd í einu lagi við framlagningu beiðni um viðkomandi aðgerð. Hækkunaráhrif þessara lágmarksgjalda eru þó óviss þar sem gerðarbeiðendur standa nú straum af kostnaði sem kemur til með að falla niður á næsta ári. Nú er til að mynda aksturskostnaður verulegur við margar gerðir en sýslumenn munu ekki krefjast hans eftirleiðis nema eftir 7. gr. Vottagjöld, sem eru mismunandi eftir embættunum, verða ekki ákveðin til handa starfsmönnum embættanna eftir frumvarpi til laga um meðferð einkamála í héraði sem nú er til meðferðar á Alþingi. En samkvæmt ákvæðum þess frumvarps mun það taka gildi 1. júlí 1992. Þetta frumvarp gerir ráð fyrir að sýslumannsembættin muni standa straum af útlögðum kostnaði vegna nauðungarsölu. Að verulegu leyti má því segja að sú uppstokkun, sem verður á ákvæðum fyrsta og sérstaklega annars kafla laganna, sé til einföldunar og samræmingar á gjaldtöku. Varðandi hækkanir á ýmsum öðrum gjöldum, þ.e. hinum eiginlegu aukatekjum, má almennt segja að þjónustustofnunum sé ætlað að verðleggja og selja þjónustu sína í auknum mæli í samræmi við tilkostnað. Í því sambandi er rétt að taka tillit til þess kostnaðar ríkissjóðs sem ekki kemur fram á rekstrarreikningi viðkomandi stofnunar, svo sem endurgjaldslaus afnot af húsnæði og verðtrygging á lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna þeirra o.s.frv. Gjöld fyrir ýmsar skráningar eiga því t.d. ekki einungis að vera endurgjald fyrir skráningarnar sem slíkar heldur eiga þau að standa að hluta til undir rekstri viðkomandi skrár.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lítil breyting er gerð á gjaldtegundum. Mest munar um að þingfestingargjald er hækkað úr 2.500 kr. í 3.000 kr.

Um 2. gr.


    Annars vegar er um að ræða gjald fyrir mál sem rekin eru vegna aðfarargerða, kyrrsetningargerða, lögbannsgerða, löggeymslu og nauðungarsölu og skal í þeim tilfellum greiða sambærilegt gjald og segir í 1. gr.
    Hins vegar er um að ræða gjald fyrir áritun dómara á aðfararbeiðni um aðfararhæfi. Er gjaldið það sama og þingfestingargjald eða 3.000 kr.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að þegar beiðni um fjárnám er afhent sýslumanni skuli um leið greiða í ríkissjóð 1% þeirrar fjárhæðar sem fjárnáms er krafist fyrir, að meðtöldum vöxtum og kostnaði, þó aldrei minna en 3.000 kr. eða meira en 10.000 kr. Samkvæmt gildandi lögum er gjaldið reiknað þannig að greiða ber 1.000 kr. af fjárhæð sem er 50.000 kr. eða minni og síðan 100 kr. í viðbót fyrir hverjar 10.000 kr. eða brot úr þeirri fjárhæð sem fram yfir er.
    Gjaldtakan samkvæmt þessari grein er mun einfaldari en er samkvæmt gildandi lögum, svo sem vikið er að í almennum athugasemdum hér að framan.
    Fyrir lögbannsgerð eða aðfarargerð til fullnustu á öðru en skyldu til peningagreiðslu skal greiða 5.000 kr. í ríkissjóð og er þar nokkur hækkun frá því sem er samkvæmt gildandi lögum.

Um 5. gr.


    Greinin fjallar um gjaldtöku vegna nauðungarsölu. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að greitt verði 1% gjald þegar beiðni um nauðungarsölu til fullnustu peningakröfu er afhent sýslumanni. Gjaldið er þó eigi lægra en 9.000 kr. og eigi hærri en 30.000 kr. ef um er að ræða beiðni um nauðungarsölu á fasteign. Ef beiðni er um sölu á lausafé er gjaldið lægst 3.000 kr. og hæst 10.000 kr.
    Ef um beiðni um nauðungarsölu í öðru skyni en til fullnustu peningakröfu er að ræða greiðast 15.000 kr. ef um að ræða fasteign eða aðra eign sem ráðstafað verður með sama hætti og fasteign. Ef um annars konar eign er að ræða greiðast 5.000 kr.
    Ekki er gert ráð fyrir að uppboðsbeiðandi greiði annan kostnað, svo sem auglýsingakostnað, eins og nú er, né heldur önnur gjöld. Gjaldtakan er gerð mun einfaldari en hún er eftir gildandi lögum, en lágmarksgjald er hér hærra en þegar um fjárnámsbeiðni er að ræða eða þingfestingargjald vegna hins útlagða kostnaðar sem sýslumannsembættin munu nú bera.

Um 6. gr.


    Hér er um nýtt gjald að ræða sem skal greiða samhliða erfðafjárskatti þegar einkaskiptum á dánarbúi er lokið. Rökin fyrir þessu gjaldi eru þau að sýslumenn hafa margvísleg afskipti af slíkum skiptum, aðallega til leiðbeiningar.

Um 7. gr.


    Aðalinntak breytinga í II. kafla laganna er að einfalda gjaldtöku. Þannig er margvíslegri gjaldtöku steypt í eitt gjald sem innheimt er í eitt skipti. Því er það ítrekað sérstaklega í þessari grein að við framkvæmd aðfarargerða, kyrrsetningargerða, lögbannsgerða, löggeymslu, nauðungarsölu og skipti dánarbúa fyrir sýslumanni verður ekki krafist frekari greiðslna en segir í 4.–6. gr., með þeim undantekningum einum sem 7. gr. nefnir í fjórum töluliðum.
    Varðandi 1. tölul. skal tekið fram að eftir honum skal greiðsla reiknuð þannig að eknum kílómetrum eftir kílómetramæli ökutækis skal jafnað niður á gerðir ef farið er á fleiri en einn stað í einu. Síðan skal greitt fyrir hvern kílómetra eftir reglum um greiðslur til ríkisstarfsmanna fyrir afnot af eigin ökutæki í þágu starfa sinna.
    2. tölul. þarfnast ekki skýringa.
    Skv. 3. tölul. er gert ráð fyrir að starfsmönnum sýslumanna sé ekki greitt aukalega fyrir nein störf sem þeir inna af hendi í þágu gerðar.
    4. tölul. þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Samkvæmt þessu ákvæði hækkar gjald fyrir þinglýsingu úr 600 kr. í 1.000 kr. En gjald þetta hefur verið óbreytt síðan í ársbyrjun 1990. Þinglýsingar eru nákvæmnisvinna sem sérstaklega er mikilvægt að vandað sé til þar sem þeir hagsmunir, sem eru í húfi, eru jafnan miklir. Þessu gjaldi er ætlað að standa straum af kostnaði við þinglýsingar og því að halda skrá yfir þær.

Um 9. gr.


    Hér kveðið á um gjaldtöku fyrir ýmsar lögbókandagerðir. Um þetta var áður ákvæði í 7. gr. reglugerðar nr. 642/1989, um dómsmálagjöld. Sé starf það, sem fjallað er um í þessari grein, innt af hendi utan vinnutíma skal innheimt sérstaklega fyrir laun vegna útkalls.

Um 10. gr.


    Í þessu ákvæði er kveðið á um gjöld fyrir veitingu ýmissa atvinnuréttinda eða tengdra réttinda. Fjárhæðir gjalda eru að mestu óbreyttar frá því sem var í reglugerð 644/1989, um aukatekjur ríkissjóðs. Þó er í 8. tölul. hækkuð verulega leyfi til verkfræðinga, arkitekta o.fl. Er sú hækkun gerð í þeim tilgangi að samræma gjaldtöku þeirri stefnu sem mörkuð var í áðurnefndri reglugerð varðandi gjöld fyrir atvinnuréttindi. Í 29. tölul. greinarinnar er kveðið á um gjald fyrir atvinnuréttindi önnur en kveðið er á um í 1.–28. tölul. Hækkar það gjald úr 1.500 kr., eins og það nú er samkvæmt reglugerðinni, í 5.000 kr. Undir þetta ákvæði falla t.d. leyfi til sálfræðinga, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðinga og kennara. Ekki eru tæmandi talin þau leyfi sem undir þennan tölulið falla. Hækkun er gerð til þess að samræmis sé gætt varðandi gjald fyrir einstök atvinnuréttindi.

Um 11. gr.


    Í þessu ákvæði er kveðið á um gjöld fyrir útgáfu leyfa fyrir atvinnustarfsemi og tengdra leyfa. Almennt er hér um enga hækkun að ræða frá því sem verið hefur í gildandi reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs nr. 644/1989. Þó er hækkað leyfi til framleiðslu áfengra drykkja úr 50.000 kr. í 100.000 kr.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um allnokkra hlutfallslega hækkun enda voru gjöld þessi lág samkvæmt reglugerð nr. 644/1989, um aukatekjur ríkissjóðs.

Um 15. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.


    Greinin er að mestu efnislega samhljóða 10. og 11. gr. reglugerðar nr. 644/1989, um aukatekjur ríkissjóðs.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Í þessari grein er ákveðið að gjöld samkvæmt lögunum séu grunngjöld sem heimilt sé að hækka um hver áramót í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á vísitölu vöru og þjónustu. Þær breytingar skulu síðan auglýstar í Stjórnartíðindum. Með þessu er í reynd ákvörðunarvald um fjárhæðir einstakra gjalda fært frá framkvæmdarvaldinu yfir til löggjafarvaldsins þar sem hér er gert ráð fyrir skyldubundinni sjálfvirkri hækkun á grunngjöldum. Hækkunin er þó ekki gerð sjálfvirk að því leyti að þetta er eingöngu heimildarákvæði sem í reynd setur þak á gjaldtökur samkvæmt lögunum.

Um 19. gr.


    Hér er kveðið á um heimild til handa fjármálaráðherra að setja með reglugerð nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

Um 20. gr.


    Gildistökuákvæði laganna þarfnast ekki skýringa.