Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 203 . mál.


228. Frumvarp til lagaum Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)I. KAFLI


Um Náttúrufræðistofnun Íslands.


1. gr.


    Lög þessi fjalla um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur með ríkisaðild í kjördæmum, samræmingu á starfsemi þessara aðila og samvinnu um rannsóknir og fræðslu.
     Ráðherra umhverfismála fer með þau málefni sem lögin taka til.

2. gr.


    Náttúrufræðistofnun Íslands er í eigu íslenska ríkisins. Hún er óháð hagsmunatengdum aðilum og þiggur ekki af þeim framlög eða gjafir.

3. gr.


    Náttúrufræðistofnun Íslands getur byggst upp af allt að fimm setrum sem hvert um sig hefur sjálfstæðan fjárhag. Auk seturs í Reykjavík getur ráðherra heimilað eitt setur í hverjum landsfjórðungi að fengnum tilmælum stjórnar Náttúrufræðistofnunar og eftir því sem fé er veitt á fjárlögum.

4. gr.


    Ráðherra skipar stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands til fjögurra ára í senn. Fastráðnir starfsmenn hvers seturs Náttúrufræðistofnunar tilnefna einn mann í stjórn og forstöðumenn náttúrustofa með ríkisaðild í kjördæmum einn sameiginlega. Ráðherra skipar formann án tilnefningar og varaformann úr hópi annarra stjórnarmanna.
     Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hún fjallar um starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar og fer yfir fjárhagsáætlanir setra og fylgist með fjárhag þeirra og ráðstöfun fjár. Fjármál einstakra setra eru að öðru leyti á ábyrgð forstöðumanna þeirra.
     Komi til atkvæðagreiðslu í stjórninni og verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.
     Stjórnin boðar árlega eða oftar til fundar með starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar og forstöðumönnum náttúrustofa til að samræma starfsemina og greina frá niðurstöðum rannsókna.
     Stjórnin gætir samráðs við Náttúrverndarráð, Vísindaráð og Rannsóknaráð og stuðlar að sem bestu samstarfi við aðrar rannsóknastofnanir.
     Ráðherra skipar forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og forstöðumenn setra hennar til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Forstjóri starfar í umboði stjórnar sem framkvæmdastjóri hennar og stofnunarinnar í heild.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk og starfsskyldur forstjóra, forstöðumanna og stjórnar, svo og um aðsetur forstjóra á hverjum tíma.

5. gr.


    Náttúrufræðistofnun Íslands stundar undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins og annast skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands. Hún varðveitir niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum er veiti sem best yfirlit um náttúru landsins.
     Aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar eru:
    að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands,
    að varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn á vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru,
    að skrá kerfisbundið einstaka þætti íslenskrar náttúru og sjá um gerð og útgáfu korta, m.a. um jarðfræði og útbreiðslu tegunda,
    að styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings,
    að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna,
    að vinna að rannsóknum á villtum stofnum spendýra og fugla í samvinnu við embætti veiðistjóra,
    að sjá um fuglamerkingar og hefur Náttúrufræðistofnun ein heimild til að láta merkja villta fugla á Íslandi,
    að greina frá niðurstöðum rannsókna í fræðslu- og vísindaritum og lýsa meginþáttum í starfsemi stofnunarinnar í árlegri skýrslu.

6. gr.


    Náttúrufræðistofnun skal eiga aðgang að vísindalegum upplýsingum sem opinberar stofnanir geta í té látið og varða starfssvið hennar. Skýrslur íslenskra og erlendra vísindamanna um rannsóknir á náttúru landsins skulu varðveittar í heimildasafni Náttúrufræðistofnunar.
     Skylt er Náttúrufræðistofnun að varðveita vísindalegar upplýsingar og niðurstöður rannsókna í aðgengilegu formi og veita aðgang að þeim samkvæmt nánari reglum.
     Grunngögn um íslenska náttúru í vörslu stofnunarinnar, svo sem um fuglamerkingar og endurheimtur, upplýsingar um dreifingu plantna og dýra, sem og skrásett safnaeintök, skulu vera aðgengileg vísindamönnum til frekari rannsókna og flokkuð á samræmdan hátt.
     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd ákvæða samkvæmt þessari grein að fengnum tillögum stjórnar.

7. gr.


    Setur Náttúrufræðistofnunar Íslands geta verið deildaskipt. Deildarstjórar og sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands skulu hafa lokið háskólaprófum á hlutaðeigandi fræðasviði eða vera að öðru leyti viðurkenndir fræðimenn á sérsviði sínu. Kveða skal á um starfsskyldur þeirra í reglugerð. Ráðherra skipar deildarstjóra og fastræður sérfræðinga að fengnum tillögum stjórnar.

8. gr.


    Náttúrufræðistofnun Íslands getur með leyfi ráðherra gerst aðili að sýningarsöfnum sem rekin eru af öðrum en ríkinu. Hún aðstoðar við gerð sýninga og henni er heimilt að lána til þeirra gripi úr söfnum setranna um lengri eða skemmri tíma.

II. KAFLI


Náttúrustofur.


9. gr.


    Ráðherra er heimilt að leyfa starfrækslu einnar náttúrustofu með ríkisaðild í hverju kjördæmi. Slíkar náttúrustofur starfa í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, sbr. 4. gr. Starfsemi náttúrustofu getur verið á fleiri en einum stað í kjördæmi eftir skipulagi sem rekstraraðilar koma sér saman um. Heimilt er kjördæmum að sameinast um eina náttúrustofu.

10. gr.


    Héraðsnefndir, sveitarfélög og aðrir heimaaðilar geta átt og rekið náttúrustofu með stuðningi ríkisins. Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu takmarkast við laun forstöðumanns í fullu starfi og stofnkostnað vegna húsnæðis, innréttinga og bóka- og tækjakaupa eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni, enda liggi fyrir trygging um jafnhátt framlag frá heimaaðilum. Nú starfar náttúrustofa í leiguhúsnæði og fer þá með sama hætti um greiðslu kostnaðar. Framlag ríkissjóðs vegna stofnkostnaðar er bundið því skilyrði að þær eignir, er til stofnkostnaðar teljast, séu einvörðungu nýttar í þágu náttúrustofu nema fyrir liggi samþykki ráðuneytisins um annað.

11. gr.


    Helstu hlutverk náttúrustofu eru:
    að safna gögnum og varðveita heimildir um náttúrufar og stuðla að almennum náttúrurannsóknum, einkum í viðkomandi landshluta,
    að stuðla að æskilegri landnýtingu, náttúruvernd og fræðslu um umhverfismál,
    að veita fræðslu um náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga.
     Heimilt er náttúrustofu að gerast aðili að sýningarsafni, en fjárhagur slíks safns og stofunnar skal vera aðskilinn.

12. gr.


    Stjórn náttúrustofu með ríkisaðild skipa þrír menn. Eigendur í héraði tilnefna tvo stjórnarmenn en ráðherra einn og er hann formaður. Varastjórn skal skipuð á sama hátt. Starfstími stjórnar er milli almennra sveitarstjórnarkosninga.
     Standi fleiri en eitt kjördæmi að náttúrustofu tilnefnir hvert kjördæmi tvo menn í stjórn og ráðherra formann stjórnar. Um skiptingu kostnaðar vegna starfa stjórnar skal kveðið á í reglugerð.

13. gr.


    Stjórn náttúrustofu ræður forstöðumann, fjallar um árlega fjárhagsáætlun fyrir stofuna og fylgist með fjárhag hennar og starfsemi.

14. gr.


    Forstöðumaður náttúrustofu skal hafa háskólapróf í náttúrufræði eða þekkingu sem meta má til jafns við það. Hann er í fyrirsvari fyrir stofuna í heild, stjórnar daglegum rekstri hennar og ræður að henni annað starfslið með samþykki stjórnar, eftir því sem fé er veitt til hverju sinni.

III. KAFLI


Almenn ákvæði.


15. gr.


    Náttúrufræðingum og aðstoðarmönnum þeirra, sem stunda almennar náttúrurannsóknir eða söfnun náttúrugripa og annarra heimilda um náttúruna á vegum hins opinbera, skal frjáls för um lönd manna, en forðast skulu þeir óþarfa átroðning og skylt er þeim að greiða fullar bætur fyrir tjón sem þeir kunna að valda.
     Sömu aðilum er og heimilt að safna náttúrugripum hvar sem er án þess að endurgjald komi fyrir. Þetta gildir þó ekki ef um er að ræða náttúrugripi sem fémætir eru fyrir landeiganda eða aðra rétthafa lands.
     Nú leiðir rannsókn í ljós verðmæti sem áður voru ókunn og ber þá rannsakanda að tilkynna það rétthafa þess lands þar sem verðmætin eru.
     Náttúrugripi má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni.

16. gr.


    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um skipulag og starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa með ríkisaðild.

17. gr.


    Lög þessi öðlast gildi frá 1. janúar 1992.
     Um leið falla úr gildi lög nr. 48/1965, um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.


    
Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. þessara laga skal stofnað setur Náttúrufræðistofnunar Íslands
á Akureyri eigi síðar en í ársbyrjun 1993. Jafnframt skal að því unnið í samvinnu við heimamenn að koma á fót náttúrustofu á Austurlandi eigi síðar en í ársbyrjun 1994 og á Suðurlandi eigi síðar en í ársbyrjun 1995.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta hefur verið undirbúið á vegum umhverfisráðuneytisins. Það var upphaflega samið á vegum svokallaðrar NNN-nefndar sem menntamálaráðherra skipaði 13. júní 1989 til að fjalla um byggingu náttúrufræðihúss og um endurskoðun laga nr. 48/1965, um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands. Sumarið 1990 fékk umhverfisráðuneytið frumvarp þetta til meðferðar eftir að málefni Náttúrufræðistofnunar Íslands höfðu verið lögð til umhverfisráðuneytisins. Eftir athugun á þess vegum var frumvarpið lagt fram á 113. löggjafarþingi og vísað til allsherjarnefndar sem sendi það til umsagnar nokkurra aðila.
     Þann 8. ágúst 1991 skipaði Eiður Guðnason umhverfisráðherra nefnd til að fara yfir frumvarpið og meta hvort æskilegt væri eða nauðsynlegt að gera breytingar á því.
     Í nefndinni áttu sæti: Jón Gunnar Ottósson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, formaður, Hjörleifur Guttormsson alþingismaður, Kristín Einarsdóttir alþingismaður, Tómas Ingi Olrich alþingismaður, Valgerður Sverrisdóttir alþingismaður og Össur Skarphéðinsson alþingismaður. Þóri Ibsen, starfsmanni í umhverfisráðuneytinu, var falið að vera ritari nefndarinnar. Nefndin fór yfir frumvarpið og framkomnar umsagnir á átta fundum. Fullt samkomulag varð um að breyta því í það form sem hér liggur fyrir.

Aðdragandi og störf NNN-nefndar.


    
NNN-nefndin, sem þáverandi menntamálaráðherra Svavar Gestsson skipaði, starfaði
frá 19. júní 1989 til 22. mars 1990. Í henni áttu sæti Hjörleifur Guttormsson alþingismaður, formaður nefndarinnar, Eyþór Einarsson grasafræðingur, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, Jóhann Pálsson grasafræðingur, tilnefndur af Reykjavíkurborg, Sveinbjörn Björnsson prófessor, tilnefndur af Háskóla Íslands, Kristín Einarsdóttir alþingismaður, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags, og Þórunn J. Hafstein, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu. Með nefndinni störfuðu Hrafnkell Thorlacius arkitekt og Kristín A. Árnadóttir fulltrúi og var hún ritari nefndarinnar.
     Í skipunarbréfi nefndarinnar voru verkefni hennar:
„a.    að semja drög að frumvarpi til nýrra laga um náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands með hliðsjón af tilhögun frá fyrri árum,
b.    að kanna möguleika á samkomulagi um byggingu náttúrufræðihúss á höfuðborgarsvæðinu með aðild Náttúrufræðistofnunar, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og hugsanlega fleiri aðila,
c.    aðrir þættir sem tengjast þessum málum og nefndin vill koma á framfæri.
     Í tengslum við starf sitt skal nefndin athuga stöðu náttúrugripasafna í öðrum landshlutum með tilliti til rannsókna og samstarfs við Náttúrufræðistofnun Íslands. Í því sambandi verði m.a. farið yfir fyrirliggjandi hugmyndir um byggingu Náttúrufræðihúss á Akureyri.“
     Nefndin valdi sér heitið NNN-nefnd þar eð allmargar stjórnskipaðar nefndir hafa glímt við svipað verkefni síðustu áratugi. Í skipunarbréfi nefndarinnar er vísað til tillagna frá fyrri árum og nefndin beðin um að hafa hliðsjón af þeim. Þær tillögur, sem nefndin athugaði sérstaklega, voru:
*    Nefndarálit um tilhögun og uppbyggingu náttúrufræðisafns frá 7. desember 1987.
*    Álit nefndar bæjarstjórnar Akureyrar um húsnæðismál Náttúrufræðistofnunar Norðurlands frá ágúst 1987 og greinargerð menntamálaráðuneytisins um viðræður við norðanmenn á árinu 1988.
*    Þingsályktunartillaga um náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu flutt af alþingismönnum úr öllum þingflokkum á 107. löggjafarþingi 1985 (497. mál).
*    Álit nefndar um tengsl milli héraða- og bæjarnáttúrugripasafna og Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 13. september 1973.
*    Álit nefndar um stefnumótun í umhverfisrannsóknum frá júní 1975.
     NNN-nefnd skilaði áfangaáliti til menntamálaráðuneytis 29. september 1989 og voru helstu niðurstöður þess kynntar í tengslum við 100 ára afmælishátíð Hins íslenska náttúrufræðifélags 1. október 1989 og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Nefndin hélt 33 sameiginlega fundi auk þess sem hún skiptist í vinnuhópa sem áttu fundi með mörgum aðilum.
     Nefndin leitaði víða fanga í störfum sínum, m.a. var aflað upplýsinga frá náttúrufræðisöfnum og svonefndum vísindasöfnum (science museums) í mörgum löndum. Einstakir nefndarmenn skoðuðu slík söfn erlendis eftir að nefndin hóf störf, heimsóttu m.a. athyglisvert safn, Heureka, í bænum Vanda rétt utan við Helsinki í Finnlandi. Forstöðumaður Heurekasafnsins Hannu J. Miettinen, kom hingað til lands í boði menntamálaráðherra í tengslum við afmælishátíð Hins íslenska náttúrufræðifélags og átti nefndin fund með honum.
     Á meðan NNN-nefndin var að störfum kynnti hún ýmsum aðilum sjónarmið sín og hugmyndir og átti viðræður m.a. við starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands, starfsfólk Grasagarðsins í Reykjavík, viðræðunefnd um málefni Náttúrufræðistofnunar Norðurlands og starfsfólk stofnunarinnar á Akureyri, Magnús Magnússon, varaformann Vísindaráðs, og stjórnarmenn náttúruvísindadeildar Vísindaráðs, þá Axel Björnsson, Gísla Má Gíslason og Sigfús Schopka, svo og við Pál Hersteinsson veiðistjóra og Þorvald S. Þorvaldsson, forstöðumann Borgarskipulags Reykjavíkur. Á fund nefndarinnar komu einnig forstöðumenn rannsóknastofnana: Jakob Björnsson orkumálastjóri, Jakob Jakobsson, forstöðumaður Hafrannsóknastofnunar, og Þorsteinn Tómasson, forstöðumaður Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.
     Þá áttu fulltrúar frá nefndinni viðræður við Davíð Oddsson, borgarstjóra í Reykjavík, og Sigmund Guðbjarnason háskólarektor um aðild Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands að náttúrufræðihúsi.
     NNN-nefndin sendi drög að frumvarpi, sem fylgdu áfangaáliti hennar, til umsagnar allmargra aðila. Skrifleg svör bárust frá eftirtöldum: stjórn Vísindaráðs og náttúruvísindadeild Vísindaráðs, Rannsóknaráði ríkisins, viðræðunefnd um málefni Náttúruvísindastofnunar Norðurlands, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, veiðistjóra, starfshópi um náttúrfræðistofnun Austurlands, Náttúrugripasafninu í Neskaupstað, Fjórðungssambandi Norðlendinga og Vestmannaeyjabæ.
     Nefndin ræddi við suma af umsagnaraðilum og átti m.a. nokkra fundi með fulltrúum Vísindaráðs, Rannsóknaráðs og viðræðunefnd um málefni Náttúrufræðistofnunar Norðurlands. Að því búnu gerði nefndin enn verulegar breytingar á frumvarpsdrögunum. Hinn 22. mars 1990 skilaði nefndin frumvarpi til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur til menntamálaráðherra. Frumvarpið var ekki lagt fram á Alþingi, m.a. vegna þess að með lögum nr. 47/1990 voru málefni Náttúrufræðistofnunar Íslands lögð til umhverfisráðuneytis.

Endurskoðun umhverfisráðuneytis.


    
Umhverfisráðuneytið fékk frumvarp NNN-nefndarinnar til meðferðar sumarið 1990
og taldi þá rétt að kanna betur nokkur atriði í frumvarpinu áður en það yrði lagt fyrir Alþingi, einkum þau sem lúta að stjórn og skipulagi Náttúrufræðistofnunar. Við endurskoðun á vegum ráðuneytisins störfuðu Jón Gunnar Ottósson og Davíð Þór Björgvinsson dósent og áttu m.a. viðræður við starfsfólk Náttúrufræðistofnunnar Íslands. Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu í framhaldi af því og var það lagt fram á Alþingi skömmu fyrir þinglok á 113. löggjafarþingi 1990–91. Frumvarpinu var vísað til nefndar sem sendi það til umsagnar ýmissa aðila, en varð ekki útrætt.
     Umhverfisráðherra skipaði nefnd, eins og áður segir, 8. ágúst 1991 til að fara yfir frumvarpið. Nefndin endurskoðaði frumvarpið, m.a. með hliðsjón af umsögnum um það frá eftirtöldum aðilum: Náttúrufræðistofnun Norðurlands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og aðalfundi HÍN, Háskóla Íslands, Rannsóknaráði ríkisins, Orkustofnun, Veiðistjóra, Landssambandi hestamannafélaga, Grasagarði Reykjavíkur, Náttúrugripasafninu í Neskaupsstað og fjármálaráðuneytinu. Á fund nefndarinnar kom Sveinn Jakobsson, forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, ásamt Eyþóri Einarssyni og Ævari Petersen, deildarstjórum stofnunarinnar. Nefndin skilaði frumvarpi í þeirri mynd sem hér liggur fyrir til umhverfisráðherra 18. nóvember 1991 og var full samstaða í nefndinni um þær breytingar sem gerðar voru.

Helstu atriði frumvarpsins.


    
Frumvarpinu er ætlað að koma í stað gildandi laga nr. 48/1965, um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands. Ákvæði um almennar náttúrurannsóknir falla að mestu burt þannig að frumvarpið fjallar um Náttúrufræðistofnun Íslands í breyttri mynd. Þá er aukið við nýjum ákvæðum, m.a. um náttúrustofur í landshlutum og sýningarstarfsemi.
     Helstu nýmæli samkvæmt frumvarpinu eru þessi:
*    Náttúrfræðistofnun er skilgreind sem landsstofnun og geta setur hennar verið á allt að 5 stöðum á landinu. Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða er þó aðeins gert ráð fyrir einu setri utan Reykjavíkur á næstu fimm árum. Stofnunin lýtur sérstakri stjórn sem skipuð er af ráðherra.
*    Ráðinn verður forstjóri að Náttúrufræðistofnun Íslands sem starfi í umboði stjórnar sem framkvæmdastjóri hennar og stofnunarinnar í heild.
*    Heimild er til að veita náttúrustofum í kjördæmum tiltekinn fjárhagsstuðning frá ríkinu, enda falli þær undir ákvæði laga þessara (II. kafla), m.a. um verkefni og stjórn.
*    Uppbygging og rekstur náttúrusýningarsafna verði ekki lengur lögbundið verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, heldur sérstakra félaga, e.t.v. sem sjálfseignarstofnana. Eftir sem áður aðstoði Náttúrufræðistofnun við uppbyggingu slíkra safna og getur gerst aðili að þeim með leyfi ráðherra.
*    Rannsóknir er tengjast umhverfismálum geta verið meðal verkefna Náttúrufræðistofnunar og náttúrustofa og fer umhverfisráðherra með málefni sem lögin taka til.
*    Kveðið er á um tengsl Náttúrufræðistofnunar við aðrar rannsóknastofnanir og samstarf hennar og náttúrustofa.
*    Gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð um menntunarkröfur deildarstjóra og sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar hliðstæðar því sem gerðar eru í Háskóla Íslands.

Breyttar aðstæður í náttúrurannsóknum.


    
Mikil breyting hefur orðið á aðstöðu og tilhögun náttúrurannsókna frá því sett voru
lög um Náttúrufræðistofnun Íslands 1965. Rannsóknastofnanir atvinnuveganna hafa eflst til muna, þar á meðal Hafrannsóknastofnun, Orkustofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Náttúrugripasöfn hafa verið stofnuð á nokkrum stöðum á landinu og við sum þeirra eru stundaðar allvíðtækar rannsóknir. Við Háskóla Íslands er nú kennsla í líffræði og jarðfræði og þar vinna margir prófessorar og sérfræðingar að rannsóknum. Stofnaður hefur verið Háskóli á Akureyri. Norræn eldfjallastöð er komin á fót hérlendis og við hana fara fram margþættar jarðfræðirannsóknir.
     Lög um Rannsóknaráð ríkisins hafa verið endurskoðuð og sett á fót sérstakt Vísindaráð sem hefur m.a. það verkefni „að gera tillögur um stefnumörkun fyrir vísindastarfsemi í landinu og fylgjast með starfi og skipulagi vísindastofnana“. Við samningu frumvarpsins var leitast við að taka tillit til þessara breyttu aðstæðna og ábendinga sem fram komu hjá ýmsum viðmælendum nefndarinnar.
     Verkefni NNN-nefndarinnar var að fjalla um þann þátt náttúrurannsókna sem snýr að Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrurannsóknum utan Reykjavíkur. Skyldi höfð hliðsjón af gildandi lögum nr. 48/1965 og fyrri tillögum, m.a. um náttúrufræðistofur, náttúrusýningarsöfn og umhverfisrannsóknir.
     Nefndin leit ekki á það sem verkefni sitt að fjalla um málefni náttúrurannsókna almennt á vegum þeirra mörgu stofnana sem þær stunda eða gera langtímaáætlun um þróun þeirra rannsókna. Slíkt fellur eðlilega undir verksvið Vísindaráðs lögum samkvæmt og er verkefni sem tekur óhjákvæmilega nokkur ár að leysa eftir að í það er ráðist.
     Í tillögum að fyrirliggjandi frumvarpi voru að yfirveguðu ráði og vegna breyttra aðstæðna felld niður ákvæði um almennar náttúrurannsóknir sem orðin voru úrelt og breytist heiti frumvarpsins til samræmis við það. Frumvarpið er þannig takmarkað við málefni Náttúrufræðistofnunar og náttúrustofur. Með frumvarpinu er ekki verið að takmarka verksvið annarra rannsóknastofnana frá því sem verið hefur, né heldur verið að veita Náttúrufræðistofnun eða náttúrustofum neinn einkarétt til rannsókna á náttúru landsins eða umhverfisþáttum.

Er þörf á Náttúrufræðistofnun?


     Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hvort ekki sé rétt að leggja Náttúrufræðistofnun Íslands niður í núverandi mynd og fela öðrum stofnunum verkefni hennar. Hefur þá einkum verið bent á náttúrufræðirannsóknir sem vaxið hafa upp við Háskóla Íslands.
     NNN-nefnd taldi það ekki verkefni sitt að svara þeirri spurningu litið til langs tíma en velti því hins vegar fyrir sér hvort svo róttæk breyting væri skynsamleg og framkvæmanleg við núverandi aðstæður. Niðurstaða nefndarinnar er eindregið sú að svo sé ekki, heldur beri að gera breytingar á aðstöðu og starfsemi Náttúrufræðistofnunar sem m.a. auðveldi tengsl og samskipti við aðra rannsóknastarfsemi á sviði náttúruvísinda. Helstu rök nefndarinnar fyrir þeirri niðurstöðu eru eftirtalin:
    Æskilegt er að sérstök stofnun hafi það verkefni að sjá um skipulega söfnun heimilda um náttúru Íslands og að varðveita niðurstöður í fræðilegum söfnum sem verði öllum opin og aðgengileg.
    Eðlilegt er að aðstaða til slíkra rannsókna sé til staðar á nokkrum stöðum á landinu og að stofnunin sé þannig landsstofnun sem eigi sér fleiri en eitt setur.
    Fræðileg söfn og rannsóknir eru víðast hvar bakhjarl sýningarsafna á sviði náttúrufræða fyrir almenning. Því þykir rétt að tryggja áfram tengsl Náttúrufræðistofnunar við sýningarsöfn.
    Eðlilegt er að ætla Náttúrufræðistofnun almannatengsl og fræðsluhlutverk. Einnig af þeirri ástæðu eru samskipti við náttúrusýningarsöfn æskileg þótt slík söfn verði byggð upp og rekin sem sjálfstæðar stofnanir með þátttöku fleiri aðila en ríkisins.
    Hefð er fyrir nánu sambandi milli almennra náttúrurannsókna, náttúrusýninga og áhugamannafélaga í Reykjavík og víðar á landinu. Ástæða er til að hlúa að slíkum samskiptum fremur en rjúfa þau þótt komið verði á breyttri skipan um sýningarsöfn frá því sem verið hefur.
    Rannsóknir á sviði umhverfismála hafa verið stundaðar af Náttúrufræðistofnun og náttúrugripasöfnum undanfarin 15 ár og eðlilegt að þær verði hluti af starfsemi þeirra framvegis þótt margir aðrir komi þar við sögu. Tengsl Náttúrufræðistofnunar við náttúrustofur í kjördæmum landsins falla vel að slíkri starfsemi og fleiri verkefnum sem tengjast umhverfisvernd.

Um einstaka þætti frumvarpsins.


Verkefni Náttúrufræðistofnunar.


    
Kveðið er á um verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands í 5. og 6. gr. frumvarpsins. Þar er m.a. gert ráð fyrir að stofnunin stundi almennar rannsóknir á náttúru Íslands á sviði dýrafræði, grasafræði, jarðfræði og umhverfismála og annist skipulega söfnun og vörslu heimilda í fræðilegum söfnum. Rannsóknaniðurstöður í vörslu stofnunarinnar eiga að vera opnar og aðgengilegar og skráðar á samræmdan hátt þannig að fá megi sem best yfirlit um náttúru landsins.
     Áhersla verði sem hingað til lögð á útbreiðslu og flokkun tegunda lífvera, svo og vistfræði þeirra og söfnun og greiningu sýna af steinum, bergtegundum og steingervingum. Stofnunin byggir upp og rekur fræðileg sýningarsöfn og lánar gripi til rannsókna og sýninga. Hún sér um gerð yfirlitskorta um jarðfræði landsins og setur hennar annast fuglamerkingar. Umhverfisrannsóknir stofnunarinnar beinast að því að auðvelda mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum landnotkunar og mannvirkjagerðar á náttúru. Þá á Náttúrufræðistofnun að styðja við uppbyggingu náttúrusýningarsafna og miðla fræðsluefni um íslenska náttúru.

Skipulag og stjórn Náttúrufræðistofnunar.


    
Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um skipulag og stjórn Náttúrufræðistofnunar. Tekið er fram að hún sé í eigu íslenska ríkisins og geti auk aðseturs í Reykjavík haft setur utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig er gert ráð fyrir að lögin heimili allt að fimm setur stofnunarinnar, þ.e. fjögur til viðbótar starfseminni í Reykjavík. Skal hvert þeirra hafa sjálfstæðan fjárhag. Frumvarpið gerir ráð fyrir að nánari ákvæði um stjórn og skipulag setra verði settar í reglugerð. Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að við gildistöku laganna verði stofnað setur Náttúrufræðistofnunar á Akureyri og innan tveggja ára komið á fót náttúrustofum í tveimur landsfjórðungum.
     Stjórn skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn skal annast yfirstjórn stofnunarinnar, stuðla að samræmingu rannsókna á hennar vegum og eðlilegri verkaskiptingu milli setra. Þá á stjórnin að gæta samráðs við ráð og stofnanir sem starfa á líkum sviðum.
     Ráðherra skipar formann stjórnar, fastráðnir starfsmenn hvers seturs Náttúrufræðistofnunar tilnefna einn mann í stjórn og forstöðumenn náttúrustofa með ríkisaðild í kjördæmum einn sameiginlega. Stjórnin fjallar um starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar og fer yfir fjárhagsáætlanir setra og fylgist með fjárhag þeirra og ráðstöfun fjár. Fjármál einstakra setra eru að öðru leyti á ábyrgð forstöðumanna þeirra.
     Ráðherra skipar jafnframt forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og forstöðumenn setra hennar til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Forstjóri starfar í umboði stjórnar sem framkvæmdastjóri hennar og stofnunarinnar í heild.
     Með þessu fyrirkomulagi er í senn stefnt að landfræðilegri dreifingu og samhæfingu verkefna, en jafnframt er hverju setri veitt nokkurt sjálfstæði. Hér er gert ráð fyrir öðrum tengslum en venjulega eru milli miðstöðvar og útibús og eykur það sveigjanleika innan stofnunarinnar í heild og hvetur til frumkvæðis hvers seturs.

Náttúrustofur með ríkisaðild í kjördæmum.


    Annar kafli frumvarpsins fjallar um náttúrustofur með ríkisstuðningi en í eigu heimaaðila í kjördæmum landsins. Geta þær notið tiltekins fjárstuðnings úr ríkissjóði sem nemi launum forstöðumanns og helmingi stofnkostnaðar. Náttúrustofum er slíks stuðnings njóta er ætlað að starfa í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og tilnefnir ráðherra formann stjórnar.
     Hlutverk náttúrustofa eru tilgreind í 11. gr. og felast m.a. í heimildasöfnun um náttúrufar og stuðningi við umhverfisvernd og náttúrurannsóknir í viðkomandi landshluta. Einnig er þeim ætlað að aðstoða við fræðslu og gerð nýrra sýninga og eiga hlut að sýningarsöfnum sem hafi sjálfstæðan fjárhag. Verkefnin eru þannig að nokkru svipaðs eðlis og hjá setrum Náttúrufræðistofnunar en skyldur lögum samkvæmt færri. Gert er ráð fyrir að setur Náttúrufræðistofnunar utan Reykjavíkur vaxi upp úr náttúrustofum sem starfræktar hafa verið undir nafni náttúrugripasafna um nokkurt skeið.
     Frumvarpið gerir ráð fyrir a.m.k. árlegum samráðsfundum sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar og forstöðumanna náttúrustofa að frumkvæði stjórnar Náttúrufræðistofnunar. Á þessum fundum verði leitast við að samræma rannsóknir þessara aðila sem best og að koma á samvinnu um útgáfustarfsemi og fleiri þætti sem til hagkvæmni horfa.

Náttúrusýningar og fræðsla.


    Samkvæmt frumvarpinu á að greina fjárhagslega og rekstrarlega milli rannsóknastarfsemi og varðveislu á rannsóknagögnum og náttúrugripum til vísindalegra nota annars vegar og náttúrusýninga hins vegar. Þó er gert ráð fyrir því að Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur styðji við starfsemi sýningarsafna með ýmsum hætti og að ríkið geti verið eignaraðili að slíkum söfnum samkvæmt sérstökum stofnsamningi.
     Slík náttúrusöfn hafa mikið gildi fyrir skóla og almenning. Fræðslustarf þeirra er af margvíslegum toga, m.a. á að vera auðvelt að tengja það lifandi náttúru og skoðunarferðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Kveðið er á um að stofnunin sé óháð hagsmunatengdum aðilum og þiggi ekki af þeim framlög eða gjafir. Ákvæðið vísar til þess að stofnunin sem rannsókna- og umsagnaraðili til stjórnvalda gangist hvorki beint eða óbeint undir kvaðir með því að veita viðtöku gjöfum frá framkvæmdaaðilum eða fyrirtækjum sem gætu átt sitt undir umsögn stofnunarinnar. Hins vegar er stofnuninni heimilt að veita viðtöku fjárframlögum, vísindastyrkjum, vísindalegum eintökum og náttúrugripum frá einstaklingum eða öðrum sem ekki verða taldir til hagsmunatengdra aðila. Rísi ágreiningur um túlkun þessa ákvæðis sker ráðherra úr.

Um 3. gr.


    Greinin felur í sér það nýmæli að heimild er veitt til að Náttúrufræðistofnun hafi aðsetur utan Reykjavíkur. Þannig gætu setur stofnunarinnar alls orðið fimm talsins, að setrinu í Reykjavík meðtöldu. Gert er ráð fyrir að þegar fram líða stundir verði heimildir veittar fyrir einu setri í hverjum landsfjórðungi og að nafngiftir setranna verði samræmdar þannig að þau yrðu kennd við viðkomandi stað.
     Tiltekið er að hvert setur hafi sjálfstæðan fjárhag, en í því felst m.a. að við afgreiðslu fjárlaga sé tekin ákvörðun um fjárveitingar til hvers seturs fyrir sig.

Um 4. gr.


    Greinin kveður á um stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands, skipun hennar og verksvið, og um samráð hennar við önnur ráð og stofnanir sem sinna skyldum verkefnum. Samkvæmt greininni yrðu fjórir í stjórn við samþykkt frumvarpsins, en stjórnarmönnum fjölgar með tilkomu nýrra setra.
     Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglur um fyrirkomulag á tilnefningu stjórnarmanna frá setrum Náttúrufræðistofnunar og frá náttúrustofum. Við samsetningu stjórnar er m.a. haft í huga að tryggja samhæfingu innan stofnunarinnar og tengsl við náttúrustofur.
     Forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og forstöðumenn setra skulu skipaðir af ráðherra til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Forstjóri starfar í umboði stjórnar og er í senn framkvæmdastjóri hennar og stofnunarinnar í heild. Þannig á að tryggja samnefnara fyrir stofnunina út á við og samhæfingu inn á við milli setra og létta á stjórnunarstörfum forstöðumanna þeirra. Þar eð starf forstjóra tengist ekki einu setri öðrum fremur er gert ráð fyrir að ráðherra kveði á um það á hverjum tíma hvar skrifstofa hans sé staðsett að höfðu samráði við stjórnina.
     Stjórnin fjallar um starfsáætlanir stofnunarinnar, fer yfir fjárhagsáætlanir setra og fylgist með fjárhag þeirra og ráðstöfun fjár. Hún samræmir eftir föngum rannsóknir á vegum setranna með eðlilega verkaskiptingu í huga og stuðlar að samvinnu við náttúrustofur.
     Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglur um hlutverk og starfsskyldur forstjóra, forstöðumanna og stjórnar.

Um 5. gr.


    Greinin kveður á um helstu verkefni Náttúrufræðistofnunar. Henni er ætlað að standa að rannsóknum og skipulegri heimildasöfnun um náttúru landsins, sbr. 6. gr., og varðveita niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum og gagnasafni þannig að sem best yfirlit liggi fyrir um náttúru landsins.
     Þar eð gert er ráð fyrir að stofnunin eigi aðsetur á nokkrum stöðum á landinu er mikilvægara en ella að gætt verði samræmis við flokkun og skráningu upplýsinga og að þær séu varðveittar í samtengdu gagnasafni.
     Upptalning aðalverkefna er fyllri en í gildandi lögum og tekur mið af viðfangsefnum stofnunarinnar til þessa og breytingum samkvæmt frumvarpinu. Ný eru ákvæði undir a-, c-, d- og f-liðum.
     Ekki er lengur kveðið á um eins og í gildandi lögum að stofnunin skuli koma upp sýningarsafni þar eð frumvarpið gerir ráð fyrir að fleiri sameinist um það verkefni, sbr. 8. gr. Þá er létt af stofnuninni kvöð um „að hafa eftirlit með almennum rannsóknum erlendra náttúrufræðinga hér á landi“, þar eð slíkt hefur í reynd verið í verkahring Rannsóknaráðs ríkisins, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 107/1968, og hefur síðan verið falið Vísindaráði með lögum nr. 48/1987.
     Ákvæði um fuglamerkingar er óbreytt frá gildandi lögum og talið rétt að stofnunin hafi sem hingað til ein heimild til að láta merkja villta fugla hérlendis þannig að fyllsta samræmis sé gætt.

Um 6. gr.


    Greinin kveður á um rétt Náttúrufræðistofnunar til að fá upplýsingar er varða starfsemi hennar frá opinberum stofnunum en jafnframt um skyldur stofnunarinnar til að veita aðgang að upplýsingum í aðgengilegu formi. Um það efni verða settar reglur sem eðlilegt er að stjórn stofnunarinnar geri tillögur um til ráðherra.
     Þá fjallar greinin um afnot vísindamanna af niðurstöðum rannsókna og grunngögnum í vörslu Náttúrufræðistofnunar. Er þá átt við rannsóknir sem stundaðar hafa verið á vegum viðkomandi stofnana, skrásetningar og hliðstæðar upplýsingar, en hins vegar ekki persónubundnar rannsóknir eða gögn sem einstaklingur hefur undir höndum og hefur aflað á eigin vegum þótt hann starfi við opinbera rannsóknastofnun.

Um 7. gr.


    Greinin gerir ráð fyrir að setur Náttúrufræðistofnunar geti verið deildaskipt, en deildaskipting verði ákveðin í reglugerð, sbr. ákvæði 16. gr. frumvarpsins. Með deildaskiptingu er skapaður meiri sveigjanleiki í uppbyggingu stofnunarinnar.
     Kveðið er á um tilhögun á ráðningu deildarstjóra og fastráðinna sérfræðinga. Deildarstjórar og sérfræðingar skulu hafa lokið háskólaprófum á viðkomandi fræðasviði eða vera að öðru leyti viðurkenndir fræðimenn á sérsviði sínu. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um starfsskyldur og tilhögun á ráðningu deildarstjóra og fastráðinna sérfræðinga. Eðlilegt er að gera hliðstæðar kröfur og gilda þegar ráðið er í stöður við Háskóla Íslands.

Um 8. gr.


    Með greininni er Náttúrufræðistofnun heimilað með leyfi ráðherra að gerast formlegur aðili að náttúrusýningarsöfnum sem rekin eru af öðrum en ríkinu. Slík aðild getur verið með ýmsum hætti samkvæmt samningi, t.d. fjárhagsleg, með framlagi til uppsetningar sýninga og í formi vinnu án endurgjalds.
     Í staðinn er létt af lagakvöð á Náttúrufræðistofnun um „að koma upp sýningarsafni er veiti sem gleggst yfirlit um náttúru Íslands og sé opið almenningi, . . .
     Þá er með greininni gert ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun aðstoði við gerð sýninga á sviði náttúrufræða. Er m.a. veitt heimild til að stofnunin láni gripi úr vísindasöfnum setranna til slíkra sýninga.

Um 9. gr.


    Með ákvæðum greinarinnar er ráðherra veitt heimild til að leyfa í hverju kjördæmi starfrækslu einnar náttúrustofu sem njóti fjárhagslegs stuðnings frá ríkinu eins og tiltekið er í 10. gr. frumvarpsins.
     Eigendur og rekstraraðilar slíkra stofa eru heimaaðilar á viðkomandi svæði. Fjárhagsstuðningur ríkisins á ekki að fara yfir tiltekin mörk þótt ákveðið verði að starfsemi stofunnar verði á fleiri en einum stað í kjördæminu. Kjördæmum er heimilt að sameinast um eina náttúrustofu.

Um 10. gr.


     Greinin kveður á um fjárhag náttúrustofu. Framlag ríkissjóðs takmarkast við laun forstöðumanns og eins er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs taki til stofnkostnaðar vegna húsnæðis, innréttinga, bóka- og tækjakaupa stofunnar eftir því sem ákveðið er á fjárlögum hverju sinni, enda liggi fyrir trygging fyrir jafnháu framlagi frá heimaaðilum. Starfi stofan í leiguhúsnæði fer með sama hætti um greiðslu kostnaðar, enda rúmist leigugreiðslur innan ramma fjárlaga. Heimaaðilar stæðu að öðru leyti undir stofn- og rekstrarkostnaði, en fengju í sinn hlut sértekjur af starfsemi stofunnar, þar á meðal tekjur af útseldri vinnu. Þá er kveðið á um að framlag ríkissjóðs verði bundið því skilyrði að eigur er til stofnkostnaðar teljast verði einvörðungu nýttar í þágu náttúrustofu nema fyrir liggi samþykki ráðuneytis um annað.

Um 11. gr.


    Greinin skilgreinir helstu verkefni sem náttúrustofu er ætlað að rækja. Þar er öðru fremur átt við verk er tengjast viðkomandi svæði eða landshluta. Nýting á heimild 2. mgr. um aðild stofunnar að sýningarsafni breytir engu um fjárstuðning af hálfu ríkisins, nema sérstakt samkomulag sé gert það að lútandi.

Um 12. gr.


    Greinin kveður á um skipun stjórnar náttúrustofa. Þar eð ráðherra skipar formann stjórnar er eðlilegt að ráðuneytið standi straum af kostnaði vegna þátttöku hans í störfum stjórnar stofunnar, en að öðru leyti séu útgjöld vegna stjórnarstarfa hluti af rekstrarkostnaði hennar.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 15. gr.


    Þessi grein er samhljóða 2. gr. núgildandi laga nr. 48/1965, um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands, að öðru leyti en því að 4. mgr. er nýmæli.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.


    Greinin fjallar um gildistöku laganna 1. janúar 1992. Um leið falla úr gildi lög nr. 48/1965, um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Með ákvæðinu er mótuð stefna um notkun heimilda frumvarpsins varðandi setur Náttúrufræðistofnunar Íslands norðan lands og um náttúrustofur í tveimur kjördæmum.
     Óskir liggja fyrir frá bæjarstjórn Akureyrar (Náttúrfræðistofnun Norðurlands) og bæjarstjórn Neskaupstaðar (Náttúrugripasafninu í Neskaupstað) um aðild ríkisins að starfsemi þessara stofnana, m.a. varðandi yfirtöku á kostnaði vegna náttúrurannsókna sem þar eru stundaðar. Með ákvæðinu er því slegið föstu að heimild samkvæmt frumvarpinu verði notuð í ársbyrjun 1993 varðandi Norðurland (Akureyri) með því að stofna setur Náttúrufræðistofnunar þar nyrðra. Ári síðar eða frá 1. janúar 1994 yrði notuð heimild til að stofna náttúrustofu fyrir Austurland í Neskaupstað og með hliðstæðum hætti 1995 fyrir Suðurland.Fylgiskjal I.


Sögulegt yfirlit.


Hið íslenska náttúrufræðifélag, Náttúrugripasafnið


í Reykjavík og Náttúrufræðistofnun Íslands.


    
Á árinu 1989 urðu merkileg tímamót í sögu íslenskrar náttúrufræði, en þá voru liðin 100 ár frá stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags. Félagið var stofnað 16. júlí 1889 „með það sérstaklega fyrir mark og mið að koma upp náttúrugripasafni hér í Reykjavík, því vér erum sannfærðir um, að slíkt safn hlýtur með tímanum að verða aðaluppspretta alls náttúrufróðleiks hér á landi, og fá stórmikla vísindalega þýðingu, auk þess sem það yrði til mikils sóma fyrir land vort og þjóð“ eins og segir í áskorun um stofnun félagsins frá 9. júlí 1889.
     Félagið hóf strax að safna náttúrugripum og þegar á fyrsta ári þess varð til fyrsti vísir að náttúrugripasafninu sem fljótlega var farið að kalla Náttúrugripasafnið í Reykjavík. Safnið var eign Hins íslenska náttúrufræðifélags þar til í ársbyrjun 1947 að ríkið tók við rekstri þess.
     Fyrstu lögin voru sett um Náttúrugripasafnið árið 1951 og hlaut það þá nafnið Náttúrugripasafn Íslands. Þau lög voru aukin og endurbætt árið 1965 og nafninu þá breytt í Náttúrufræðstofnun Íslands. Nafnbreytingin var gerð til samræmis við það meginákvæði hinna nýju laga að safnið skyldi vera miðstöð almennra náttúrurannsókna, þ.e. undirstöðurannsókna í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði. Samkvæmt lögunum, sem hafa verið óbreytt fram á þennan dag, er stofnuninni einnig falið að koma upp vísindalegu safni náttúrugripa og sýningarsafni er opið sé almenningi og veiti sem gleggst yfirlit um náttúru landsins.

Húsnæðismál Náttúrugripasafnsins og Náttúrufræðistofnunar


— hugmyndir um safnbyggingu.


    
Allt frá stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags ólu félagsmenn þá von í brjósti að
Náttúrugripasafnið kæmist í eigið húsnæði, en frá upphafi hafa húsnæðismál safnsins verið eitt helsta vandamál þess. Fyrstu árin var það í leiguhúsnæði á hinum og þessum stöðum í bænum, en fékk haustið 1908 inni í hinu nýbyggða safnahúsi við Hverfisgötu. Þar hafði það um 140 fermetra sýningaraðstöðu til ársins 1960, en þá varð safnið að víkja vegna þarfa Landsbókasafnsins.
     Þegar félagið nálgaðist fertugt voru gerðir frumdrættir að safnabyggingu og rætt við stjórnvöld um málið, en engin niðurstaða fékkst. Byggingarmálið var enn á ný tekið upp þegar leið að fimmtugsafmælinu og þá ekki bara við stjórnvöld eins og áður, heldur var leitað eftir samvinnu við Háskólann. Skipuð var sérstök byggingarnefnd 1942 og önnur 1946 þá með aðild Háskóla Íslands þar sem í ráði var að hann léti byggja hús fyrir Náttúrugripasafnið fyrir ágóða af happdrætti sínu. Undirbúningur byggingar var vel á veg kominn þegar ákveðið var að afhenda ríkinu Náttúrugripasafnið í ársbyrjun 1947. Sama ár var arkitekt fenginn til að teikna hús fyrir Náttúrugripasafnið og voru teikningar og líkan af húsinu tilbúnar um 1950. En málið tafðist og ekkert varð af byggingu hússins. Húsnæðisvandann var brýnt að leysa og því var afráðið að Háskóli Íslands keypti fyrir happdrættisfé hæð undir starfsemina í húsi við Hlemmtorg í Reykjavík, en lengi var happdrættisleyfi Háskóla Íslands háð því skilyrði að háskólinn byggði yfir Náttúrugripasafnið.
     Flutt var inn í húsnæðið við Hlemmtorg haustið 1959 og síðar innréttaður þar til bráðabirgða um 100 fermetra sýningarsalur sem var opnaður árið 1967. Nú, rúmum tveimur áratugum síðar, er enn notast við sama sýningarsal, en innréttingar og sýningar í honum hafa verið endurnýjaðar að öllu leyti. Hann var opnaður á aldarafmæli Hins íslenska náttúrufræðifélags og Náttúrufræðistofnunar sl. sumar og fyrr á afmælisárinu var tekinn í notkun nýr sýningarsalur á 4. hæð í húsnæði Náttúrufræðistofnunar við Hlemmtorg þannig að sýningarrými er nú um 200 fermetrar. En hvorki er þar rúm fyrir geymslur né þá nútímalegu sýningar- og fræðslustarfsemi sem nauðsynlegt er að koma á laggirnar.
     Þegar Náttúrufræðstofnun Íslands flutti inn í húsnæðið við Hlemmtorg haustið 1959 var litið á það sem bráðabirgðahúsnæði til að leysa aðkallandi vanda. Nú þremur áratugum síðar er stofnunin enn á sama stað en húsrými hefur samt aukist verulega. Auk 3. hæðar, sem Háskólinn keypti þá, hefur stofnunin afnot af rúmum helmingi 4. hæðar, þar sem einkum eru geymslur og svo annar sýningarsalur stofnunarinnar, og hálfrar 5. hæðar þar sem bókasafn og fundar- og kaffistofa eru. Alls eru fastráðnir starfsmenn 11, sjö náttúrufræðingar að deildarstjórum og forstöðumanni meðtöldum, bókavörður, hamskeri og tveir starfsmenn við ritvinnslu- og skrifstofustörf. Að auki starfa sýningarsalaverðir, ræstingarfólk og lausráðið aðstoðarfólk (einkum náttúrufræðistúdentar) á sumrin.

Náttúrufræðisafn á háskólalóð.


    
Forráðamenn Náttúrufræðistofnunar og fleiri aðilar hafa á liðnum árum gert ítrekaðar tilraunir til að koma hreyfingu á byggingarmál stofnunarinnar og sýningarsafns, m.a. með því að leita eftir samvinnu við Háskóla Íslands um málið. Háskólaráð heimilaði þegar á árinu 1942 að hús fyrir náttúrugripasafn risi á háskólalóðinni og enn í dag beinast sjónir manna að nálægð og tengslum við Háskólann.
     Tillaga til þingsályktunar um náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu var lögð fram á Alþingi veturinn 1984–85. Flutningsmenn tillögunnar voru þingmenn úr öllum þingflokkum á Alþingi og er í tillögunni skorað á ríkisstjórnina að hraða, m.a. í samráði við hóp áhugamanna og Náttúrufræðistofnun Íslands, undirbúningi að byggingu yfir nútímalegt náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu. Í greinargerð segir m.a. að ef góður hugur og stuðningur af hálfu framkvæmdarvaldsins við hugmyndina um nútímalegt náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu komi til og Alþingi lýsi sig þar að auki fúst til að leggja fram fé til undirbúnings og framkvæmda á næstu árum sé þess að vænta að draumur brautryðjendanna verði að veruleika innan fárra ára. Í tillögunni var að því stefnt að náttúrufræðisafn opnaði í nýjum húsakynnum á árinu 1989, á aldarafmæli Hins íslenska náttúrufræðifélags og náttúrugripasafns á þess vegum. Í greinargerð með tillögunni segir að slíkt meginsafn á sviði náttúrufræða ætti einnig að geta orðið til stuðnings hliðstæðum söfnum víða á landinu og nauðsynlegt sé að finna samstarfi þessara safna ákveðinn farveg. Með þeim hætti geti hér orðið um þjóðarsafn að ræða til ómetanlegrar eflingar náttúruvísinda í landinu.

Nefnd um Náttúrufræðisafn 1985–1987.


    
Fljótlega eftir að ofangreind tillaga var flutt á Alþingi skipaði menntamálaráðherra nefnd til að fjalla um tilhögun og uppbyggingu náttúrufræðisafns og skilaði hún áliti í árslok 1987. Þar kom fram að nefndin teldi að efla þyrfti til muna sýningar og fræðslu á sviði náttúrufræði og tækni og lagt var til að byggt yrði hið fyrsta náttúrufræðihús fyrir þessa starfsemi, svo og safnvinnu og rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ekki var full samstaða í nefndinni um rekstrarform sýninga- og fræðslustarfsemi og lagði meiri hluti til að hún yrði í höndum sjálfseignarstofnunar með aðild ríkis, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og fleiri skóla, rannsóknastofnana og samtaka. Minni hluti lagði til að hún yrði rekin sem ný deild í Náttúrufræðistofnun með þátttöku Reykjavíkurborgar og fleiri aðila.
     Umsagnaraðilar tóku í öllum veigamiklum atriðum undir álit nefndarinnar, menn greindi ekki á um þörfina fyrir náttúrufræðihús og almennt var það sjónarmið ríkjandi að best færi á að það væri rekið sem sjálfseignarstofnun í nánum tengslum við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Nefnd um tengsl milli héraða- og bæjanáttúrugripasafna


og Náttúrufræðistofnunar Íslands.


    
Menntamálaráðherra skipaði nefnd 26. október 1972 sem falið var það hlutverk „að
gera athugun og gefa ráðuneytinu skýrslu um hvort æskilegt muni vera að koma á formlegum tengslum milli héraða- og bæjanáttúrugripasafna og Náttúrufræðistofnunar Íslands og þá með hvaða hætti“.
     Nefndin skilaði álitsgerð í formi lagafrumvarps 13. september 1973, ásamt ítarlegri greinargerð. Í frumvarpinu voru gerðar tillögur um stofnsetningu náttúrufræðistofa í landshlutunum er ætlað væri víðara hlutverk en það eitt að sýna náttúrugripi. Þeim var samkvæmt tillögunum ætlað að vinna að umhverfisvernd og heimildasöfnun um landshlutann, taka þátt í að skipuleggja landnýtingu og vinna að rannsóknum. Með tillögunum var að því stefnt að samræma skipulag og þróun náttúrugripasafna úti um land og tryggja að ákveðinn fjöldi safna hlyti föst framlög úr ríkissjóði til starfsemi sinnar. Nefndarálitið var byggt upp sem viðbót við lög nr. 48/1965, um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands, en svo fór að það var aldrei lagt fram á Alþingi.

Náttúrugripasöfn og náttúrurannsóknir utan Reykjavíkur.


    
Nokkur sveitarfélög hafa á síðustu áratugum komið upp náttúrugripasöfnum en notið lítils stuðnings af hálfu ríkisins og eru engin formleg tengsl milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrugripasafna annars staðar á landinu.
     Nokkuð erfitt er að ákveða hve mörg skuli telja þessi söfn þar sem staða þeirra er mjög mismunandi. Sum eru sjálfstæð söfn, önnur eru deildir í byggðasöfnum eða safnahúsum. Af fyrri gerðinni eru náttúrugripasöfnin á Akureyri (Náttúrufræðistofnun Norðurlands), í Kópavogi, í Neskaupstað og í Vestmannaeyjum. Af síðari gerðinni eru söfnin í Borgarnesi, á Dalvík, á Húsavík, á Höfn í Hornafirði, á Selfossi, á Seltjarnarnesi og í Varmahlíð. Nokkur ofangreindra safna (a.m.k. söfnin á Akureyri, í Neskaupstað og Vestmannaeyjum) hafa á liðnum árum notið einhverra framlaga á fjárlögum og fá nú greitt af fjárlagalið menntamálaráðuneytisins. Önnur hafa árlega fengið styrki frá ráðuneytinu. Auk ofangreindra safna eru svo skólasöfn, eign ákveðinna skóla og sveitarfélaga. Þessi skólasöfn eru misstór og misvel búin, en óhætt mun vera að fullyrða að flestir skólar eiga einhverja náttúrugripi sem notaðir eru til kennslu.
     Hér verður í stórum dráttum rakin saga stærstu náttúrugripasafnanna, þ.e. á Akureyri og í Neskaupstað og veitt yfirlit yfir starfsemi þeirra.

Náttúrugripasafnið á Akureyri og Lystigarðurinn á Akureyri


— Náttúrufræðistofnun Norðurlands.


    
Náttúrurannsóknir eiga sér langa og merkilega hefð í Eyjafirði. Þær eru taldar byrja
með stofnun Möðruvallaskólans árið 1880 og var síðan haldið við af kennurum þess skóla, Gagnfræðaskólanum á Akureyri, svo og af starfsmönnum Ræktunarfélags Norðurlands.
     Á árunum 1964–1970 má segja að Náttúrugripasafnið hafi tekið við þessari arfleifð og hafi síðan verið miðstöð náttúrurannsókna í Norðlendingafjórðungi. Um áramótin 1987 voru formlega sameinuð Náttúrugripasafnið á Akureyri og Lystigarðurinn og hinni sameinuðu stofnun gefið nafnið Náttúrufræðistofnun Norðurlands. Samstarf Náttúrugripasafnsins og Lystigarðsins hafði þá um árabil verið mikið og náið, en með heitinu Náttúrufræðistofnun Norðurlands var áhersla á það lögð að henni væri ætlað að þjóna Norðurlandi öllu. Akureyrarbær sér um rekstur Náttúrufræðistofnunar Norðurlands, en þess hefur verið farið á leit við menntamálaráðuneytið að ríkissjóður fjármagni rannsóknastarfsemi stofnunarinnar.
     Náttúrugripasafnið á Akureyri var stofnað árið 1951. Upphaflega var það sýningarsafn, en þróun safnsins, frá sýningarsafni til rannsóknastofnunar, hófst á árunum 1963–1964 þegar skipuleg könnun á náttúrufari fjórðungsins hófst, með tilheyrandi söfnun náttúrugripa, einkum þó plöntusöfnun. Hafa rannsóknir Náttúrugripasafnsins á undanförnum áratugum náð til ýmissa sviða líffræði, vistfræði og landfræði. Á áttunda áratugnum tók safnið í auknum mæli að sér hagnýtar umhverfisrannsóknir og efldist starfsemi þess til muna. Upphaf hagnýtra umhverfisrannsókna má rekja til mengunarrannsókna safnsins 1971 og þátttöku í rannsóknum í Þjórsárverum sama ár. Sérgreinar Náttúrugripasafnsins eru sveppa- og fléttufræði og eru í stofnuninni stærstu söfn á þessum sviðum hér á landi.

Lystigarðurinn á Akureyri.


    
Um Lystigarðinn á Akureyri var stofnað félag 1. maí 1910 en garðurinn opnaður almenningi sumarið 1912. Safngarði var komið á fót innan Lystigarðsins 1956 og hefur þar verið áhersla á það lögð að sýna íslenskar plöntur. Þar er svo til öll íslenska flóran og einnig er þar mikið safn plantna frá heimskautasvæðunum. Í garðinum eru nú ræktaðar um 2.500 tegundir og afbrigði og þar fara fram tilraunir með nýjar tegundir trjáa og runna og er leitað staðbrigða sem henta vel íslenskum aðstæðum.

Jónasarhús.


    
Náttúrufræðstofnun Norðurlands er til húsa að Hafnarstræti 81 á Akureyri og hefur Náttúrugripasafnið þar yfir að ráða um 100 fermetra sýningarsal. Húsnæðismálin hafa jafnan verið aðstandendum þess og velunnurum mikill höfuðverkur. Hvorki stærð salarins né hönnun hússins gera það kleift að halda skiptanlegar sýningar og er rými fyrir gesti mjög takmarkað. Vegna húsnæðisskorts hefur ekki verið unnt að efla sýningarsafnið, en lengi hafa verið uppi hugmyndir um endurbætt og aukið sýningarsafn á vegum Náttúrufræðistofnunar Norðurlands. Á þrítugsafmæli safnsins árið 1982 ákvað stjórn þess að leggja til nýja byggingu fyrir Náttúrugripasafnið og Lystigarðinn og stofna byggingarsjóð til að hrinda af stað framkvæmdum. Þessi fyrirhugaða bygging hefur verið nefnd Jónasarhús til heiðurs Jónasi Hallgrímssyni, náttúrufræðingi og skáldi, og hefur verið valinn staður vestan við Lystigarðinn.
     Á fundi 7. apríl 1987 samþykkti bæjarstjórn tillögu í tilefni af formlegri sameiningu Lystigarðsins og Náttúrugripasafnsins um að kjósa nefnd til að kanna húsnæðisþörf Náttúrufræðistofnunar Norðurlands og samstarf við aðra aðila um rekstur stofnunarinnar. Þá lýsti bæjarstjórn Akureyrar stuðningi við þá hugmynd að kenna stofnunina við nafn Jónasar Hallgrímssonar. Síðar var skipuð undirnefnd, viðræðunefnd um málefni Náttúrufræðistofnunar Norðurlands, vegna viðræðna við ríkisvaldið um þátttöku þess í rekstri stofnunarinnar. Viðræðunefndinni var einnig ætlað að leita leiða í samvinnu við ríkisvaldið til að leggja grundvöll að vísinda- og gagnamiðstöð á Akureyri og móta hugmyndir um rekstur slíkrar stofnunar.
     Með vísinda- og gagnamiðstöðinni er fyrirhugað að efna til samstarfs Náttúrufræðistofnunar Norðurlands, framhaldsskólanna á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Fjórðungssjúkrahússins þar sem yrði m.a. sameiginlegt bókasafn fyrir þessar stofnanir. Er ætlunin að vísinda- og gagnamiðstöðin verði hluti af Jónasarhúsi.
     Viðræður milli bæjarstjórnar Akureyrar og menntamálaráðuneytisins um málefni Náttúrufræðistofnunar Norðurlands hófust á fyrri hluta árs 1988 og sumarið 1989 var NNN-nefnd m.a. falið að fara yfir fyrirliggjandi hugmyndir um byggingu náttúrufræðihúss á Akureyri og stöðu náttúrugripasafna með tilliti til rannsókna og samstarfs við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Náttúrugripasafnið í Neskaupstað.


    
Náttúrugripasafnið í Neskaupstað er höfuðsafn sinnar tegundar á Austurlandi og hluti
af Safnastofnun Austurlands sem er samræmingar- og stuðningsstofnun fyrir söfn í fjórðungnum. Hin síðari ár hefur safnið verið eflt til mikilla muna og hefur með höndum rannsóknastarfsemi í auknum mæli, auk þess að reka sýningarsal með náttúruminjum.
     Til náttúrugripasafns í Neskaupstað var stofnað árið 1965 með því að sett var á laggirnar náttúrugripasafnsnefnd Neskaupstaðar. Hófst nefndin þegar handa um efnisöflun og hefur Náttúrugripasafnið frá árinu 1971 haft opna sýningu fyrir almenning. Safnið er nú til húsa að Miðstræti 1 sem því var afhent að gjöf 16. september 1986.
     Á vegum Náttúrugripasafnsins í Neskaupstað hefur frá því fyrsta verið unnið að söfnun náttúrugripa og rannsóknum á náttúrufari á Austurlandi. Söfnunin hefur einkum beinst að plöntum og steintegundum en einnig hefur verið safnað talsverðu af skordýrum og flækingsfuglum. Er þar nú mjög gott safn steintegunda og plantna, einkum af Austurlandi, auk margvíslegra náttúrugripa úr dýraríkinu.
     Nokkuð hefur verið unnið að rannsóknum við Náttúrugripasafnið í Neskaupstað, einkum á flóru Austfjarða, en einnig umhverfisrannsóknum fyrir Orkustofnun vegna áformaðra virkjana á Fljóstdals- og Jökuldalsheiði og vegna orkufreks iðnaðar í Reyðarfirði fyrir staðarvalsnefnd um iðnrekstur. Í samvinnu við Náttúruverndarsamtök Austurlands hefur verið unnið að rannsóknum á ákveðnum svæðum vegna náttúruminjaskráningar og friðlýsingar. Þá hefur Náttúrugripasafnið um nokkurt skeið annast eftirlit með mannvirkjagerð á Austurlandi fyrir Náttúruverndarráð.
     Náttúrugripasafnið er rekið af bæjarsjóði Neskaupstaðar með lítils háttar styrk frá ríkissjóði og er við safnið einn fastráðinn starfsmaður, forstöðumaður í 1 / 4 hluta starfi. Auk þess er ráðið í vörslu sýningar yfir sumarmánuðina.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrufræðistofur.


    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992 er fjárveiting til Náttúrufræðistofnunar Íslands um 33 m.kr. Vegna aukinna verkefna Náttúrufræðistofnunar á landsbyggðinni hefur frumvarp þetta til laga í för með sér að lágmarki 22–24 m.kr. í árlegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð þegar öllum ákvæðum frumvarpsins hefur verið framfylgt. Kostnaðarauki skýrist af eftirfarandi:
     Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra skipi forstöðumann hvers seturs til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar Náttúrufræðistofnunar. Að auki skipar ráðherra forstjóra (framkvæmdastjóra) Náttúrufræðistofnunar Íslands til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar. Gera má ráð fyrir að kostnaðarauki vegna skipan forstjóra geti verið um 3 m.kr. á ári.
     Ráðgert er að stofna nýtt setur Náttúrufræðistofnunar á Akureyri í ársbyrjun 1993. Hugmyndir eru einnig uppi um að Náttúrufræðistofnun Íslands yfirtaki rekstur vegna almennra náttúrurannsókna hjá Náttúrufræðistofnun Norðurlands. Áætlaður kostnaðarauki ríkissjóðs vegna yfirtökunnar er um 8–9 m.kr. á ári. Vegna aukinna umsvifa á Akureyri er þörf á fjölgun stöðugilda og stækkun húsnæðis og er kostnaðarauki metinn á um 5–6 m.kr. á ári.
     Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða er gert ráð fyrir kostnaðarþátttöku ríkissjóðs við rekstur náttúrufræðistofu á Austurlandi eigi síðar en í ársbyrjun 1994 og á Suðurlandi eigi síðar en í ársbyrjun 1995. Í 10. gr. er kveðið á um að framlag ríkissjóðs til náttúrustofu takmarkist við laun forstöðumanns í fullu starfi og stofnkostnað vegna húsnæðis, innréttinga og bóka- og tækjakaupa eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni, enda liggi fyrir trygging um jafnhátt framlag frá heimaaðilum. Starfi náttúrustofa í leiguhúsnæði á það sama við um leigukostnað. Vegna launa forstöðumanna og húsaleigu má gera ráð fyrir um 3 m.kr. á ári vegna hvorrar náttúrustofu, auk stofnkostnaðar samkvæmt fjárveitingu í fjárlögum hverju sinni.