Ferill 61. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 61 . mál.


229. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Markús Sigurbjörnsson prófessor, Hrafn Bragason, hæstaréttardómara og formann réttarfarsnefndar, Gest Jónsson, formann Lögmannafélags Íslands, Valtý Sigurðsson, formann Dómarafélags Íslands, Garðar Gíslason, formann Lögfræðingafélags Íslands, Rúnar Guðjónsson, formann Sýslumannafélags Íslands, Þorstein Geirsson, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, Ara Edwald, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, Þorstein A. Jónsson, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu, og Þorbjörn Hlyn Árnason biskupsritara. Þá barst nefndinni umsögn formanns réttarfarsnefndar og dómsmálaráðuneytisins um frumvarpið.
    Í frumvarpinu eru ákvæði sem mæla fyrir um breytingar á lögum sem ætlunin er að breyta samkvæmt frumvörpum sem lögð hafa verið fram á þessu þingi. Í varúðarskyni ákvað nefndin að hrófla ekki við þessum ákvæðum.
    Nefndin leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Í 7. gr. frv. er ranglega vísað í 8. gr. laga nr. 12/1922. Þar skal vísað í 5. gr.
    Lagt er til að úrelt upphæð fæðispeninga lögreglustjóra, umboðsmanns hans eða hreppsstjóra í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 42/1926 verði felld brott.
    Lagt er til að felld verði úr gildi lög nr. 43/1930, lög nr. 32/1957, lög nr. 22/1960 og lög nr. 36/1967, en þau hafa nú öll lokið hlutverki sínu.
    Lögð er til breyting við 28. gr. frumvarpsins. Tilvísun í orð 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1953 bætist til skýringar við 2. mgr. 2. gr. sömu laga.
    Lagt er til að ákvæði 2. málsliðar a-liðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 3/1963 verði breytt til samræmis við það að dómarar við Hæstarétt Íslands eru nú átta.
    Í 102. gr. frv. eru lög nr. 90/1989 ranglega tilgreind sem lög nr. 90/1990.
    Lagt er til að ný grein, 103. gr., komi aftan við 102. gr. frv. Til þess að héraðsdómarar geti hafið störf við gildistöku laga nr. 92/1989 þann 1. júlí 1992 er nauðsynlegt að þeir hafi verið skipaðir fyrir þann tíma. Skipa verður því nú þegar dómnefnd til að fjalla um hæfi umsækjenda til embættis héraðsdómara. Enn fremur er lagt til að dómsmálaráðherra verði gert kleift að skipa dómstjóra við héraðsdóma fyrir gildistöku laganna. Ákvæði þessi hafa því aðeins þýðingu að þau öðlist þegar gildi.
    Lagt er til að heitið rannsóknari í lögum nr. 19/1991 haldist. Þeir töluliðir 106. gr., sem leggja áttu niður hugtakið rannsóknari úr lögum nr. 19/1991, falli því brott.
    Lagt er til að heiti laganna sé breytt með vísan til tillögu nefndarinnar um brottfall fernra laga.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum þessum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. des. 1991.



Sólveig Pétursdóttir,

Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson.

Ingi Björn Albertsson.

Jón Helgason.



Kristinn H. Gunnarsson,

Ólafur Þ. Þórðarson.

Össur Skarphéðinsson.


með fyrirvara.