Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 30 . mál.


245. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Fjárlaganefnd fól nefndinni með bréfi dags. 19. nóvember 1991 að fjalla um frumvarp til lánsfjárlaga fyrir árið 1992 í samræmi við ákvæði 2. mgr. 25. gr. þingskapa. Þá barst nefndinni enn fremur ósk um að hún lyki afgreiðslu málsins til 2. umr.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið. Á fund nefndarinnar komu Sigurgeir Jónsson og Pétur Kristinsson frá Lánasýslu ríkisins, Ólafur Ísleifsson frá Seðlabanka Íslands, Halldór Jónatansson, Örn Marinósson og Jóhann Már Maríusson frá Landsvirkjun, Jóhanna Ottesen frá Útflutningslánasjóði, Már Elísson, forstjóri Fiskveiðasjóðs, Guðmundur Malmquist, forstjóri Byggðastofnunar, Leifur Kr. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Bragi Hannesson, forstjóri Iðnlánasjóðs, Þorvarður Alfonsson, forstöðumaður Iðnþróunarsjóðs, Harald Andrésson frá Ríkisábyrgðasjóði, Pétur Einarsson, Haukur Hauksson og Ágúst Valgeirsson frá Flugmálastjórn, Sveinbjörn Óskarsson, fulltrúi fjármálaráðuneytisins í byggingarnefnd Herjólfs, Lárus Jónsson og Guðjón Valdimarsson frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Bjarni Bragi Jónsson aðstoðarseðlabankastjóri, Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, og Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins. Halldór Árnason og Jón Ragnar Blöndal frá fjármálaráðuneytinu sátu flesta fundi nefndarinnar um þetta mál. Gestir komu með ýmis gögn sem útbýtt var á fundum.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar eru eftirtaldar:
    Við 1. gr. Hækkun lántökuheimildar ríkissjóðs er í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í sumar um aðstoð við fiskeldisfyrirtæki.
    Við 3. gr. Með þessari breytingu er tilgreint hvernig ráðstafa skuli þeirri viðbótarlántökuheimild sem kveðið er á um í breytingu við 1. gr.
    Við 4. gr.
         
    
    Lækkun lántökuheimildar Landsvirkjunar er vegna frestunar á virkjunarframkvæmdum.
         
    
    Felldir eru brott 7.–10. tölul. 4. gr. Með þeirri breytingu er verið að fella niður ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Útflutningslánasjóðs frá og með 1. janúar 1992. Jafnframt er í öðrum breytingartillögum meiri hlutans bætt við nýjum greinum sem taka af allan vafa um að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum þessara sjóða sem stofnað er til eftir 31. desember 1991. Ekki er talin þörf á að breyta lögum um Útflutningslánasjóð. Þessi breyting er undirbúningur þess að gera þessa sjóði að hlutafélögum.
         
    
    Nýlega kom fram ósk frá Ferðamálasjóði um lántökuheimild að upphæð 130 m.kr. fyrir árið 1992. Lagt er til að fallist verði á þessa beiðni Ferðamálasjóðs.
    Við 5. gr.
         
    
    Felld er niður ábyrgðarheimild handa Vatnsleysustrandarhreppi vegna hafnarframkvæmda þar sem frestun verður á framkvæmdum við álver á Keilisnesi.
         
    
    Gerð er tillaga um að fjármálaráðherra verði heimilt að ábyrgjast lántöku Hitaveitu Akureyrar og Bæjarveitna Vestmannaeyja. Um er að ræða skuldbreytingu á lánum sem koma til gjalda á næsta ári.
    Við 6. gr. Breytingin er gerð til að setja hámark á þær lántökur sem fjármálaráðherra er heimilt að taka erlendis.
    Við 7. gr. Lagt er til að greinin falli brott þar sem efni greinarinnar hefur verið fellt inn í 6. gr.
    Rétt þykir að nefna að Flugmálastjórn óskaði eftir 70 m.kr. hækkun á lántökuheimild en meiri hluti nefndarinnar telur ekki þörf á slíkri breytingu í frumvarpinu þar sem Flugmálastjórn mun á næsta ári samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu geta notað vannýttar heimildir frá árinu 1991 sem svarar til þessarar þarfar.

Alþingi, 9. des. 1991.



Matthías Bjarnason,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Geir H. Haarde.


form., frsm.



Ingi Björn Albertsson.

Sólveig Pétursdóttir.