Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 134 . mál.


262. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fund nefndarinnar komu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Indriði H. Þorláksson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, Snorri Olsen, deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu, og Jón Ragnar Blöndal frá fjármálaráðuneytinu. Umsagnir og gögn bárust frá Gjaldheimtunni í Reykjavík, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytinu.
    Með frumvarpinu er stefnt að hagræðingu í innheimtu á opinberum gjöldum. Stefnt er að því að sameina innheimtu nokkurra opinberra gjalda, þar á meðal tryggingagjalds, sem öll hafa sama gjalddaga þannig að gjaldandi fái einn gíróseðil í stað eins fyrir hvert gjald. Bæði næst með þessu sparnaður hins opinbera en mest vegur þó það hagræði sem gjaldendur hafa af því að geta greitt öll gjöldin með einum seðli.
    Í frumvarpinu er lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til þess að ákveða að sameiginlegum gjaldheimtum ríkis og sveitarfélaga verði falið að innheimta tryggingagjald í stað innheimtumanna ríkissjóðs. Þar sem um er að ræða sameiginlega gjaldheimtu ríkis og sveitarfélaga liggur til grundvallar samningur á milli aðila um slíkt fyrirkomulag. Fjármálaráðherra mun því ekki einhliða geta ákveðið að þessi háttur verði hafður á innheimtu tryggingagjalds heldur ber honum að leita samninga um það við sveitarfélög. Þrátt fyrir að slíkur samningur liggi ekki fyrir við neitt sveitarfélag telur meiri hluti nefndarinnar mikilvægt að fjármálaráðherra sé veitt þessi heimild þegar í stað.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt án breytinga.
    Geir H. Haarde sat fund nefndarinnar þegar málið var afgreitt í stað Sólveigar Pétursdóttur skv. 3. mgr. 17. gr. þingskapa.

Alþingi, 13. des. 1991.



Matthías Bjarnason,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Vilhjálmur Egilsson.


form., frsm.



Ingi Björn Albertsson.

Geir H. Haarde.