Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 134 . mál.


272. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur haft til meðferðar frumvarp um tryggingagjald. Í því felst að innheimta opinberra gjalda verður einfölduð þannig að innheimt verða nokkur opinber gjöld, þar með talið tryggingagjald, á einum seðli í stað þess að gíróseðill var áður sendur út fyrir hvert gjald.
     Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp var gerður samningur milli fjármálaráðuneytisins og sveitarfélaganna í landinu um sameiginlega innheimtu. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga telur að verði af samþykkt þess frumvarps, sem hér um ræðir, sé um samningsbrot að ræða, enda ekkert samráð verið haft við sveitarfélögin um samningu frumvarpsins, sbr. fskj. I. Í bréfi fjármálaráðuneytisins, sem fylgir þessu nefndaráliti sem fskj. II, kemur fram að samkomulag verði að nást við sveitarfélögin eigi lögin að þjóna tilgangi sínum.
     Undirritaðir nefndarmenn eru efnislega samþykkir því að innheimta verði einfölduð, en telja eðlilegra að samkomulag verði gert við sveitarfélögin áður en lögum er breytt svo að tryggt verði að markmið þess nái fram að ganga. Í því skyni að kostur gefist á að undirbúa málið betur í samráði við og með samþykki sveitarfélaga landsins leggur minni hluti nefndarinnar því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 16. des. 1991.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Halldór Ásgrímsson.

Steingrímur J. Sigfússon.


frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.



Fylgiskjal I.

Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.


(12. desember 1991.)


    Formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær og komu á framfæri athugasemdum við ofangreint þingmál nr. 134.
    Í framhaldi af því hafa fulltrúar sambandsins átt fund með starfsmönnum fjármálaráðuneytis og Ríkisbókhalds um málið. Sá fundur breytti í engu afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er algjörlega mótfallið því að heimilað verði að innheimta tryggingagjald til ríkisins með staðgreiðslu skatta til ríkis og sveitarfélaga.
    Það er sveitarfélögunum mjög mikilvægt að skil til þeirra á útsvari, sem nema um 60% af öllum skatttekjum þeirra, séu skilvirk og glögg. Innheimta tryggingagjalds í staðgreiðslukerfinu leiðir til hins gagnstæða. Eðli tryggingagjalds er líka raunar allt annað en þeirra skatta sem innheimtir eru af launagreiðendum og skilað í staðgreiðslukerfið. Staðgreiðslukerfið er flókið og ástæðulaust að gera það enn flóknara.
    Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tók málið fyrir á fundi sínum í gær og mótmælti því harðlega að Alþingi heimilaði að tryggingagjald yrði innheimt í staðgreiðslukerfinu.

Samkomulag.


    Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga gera með sér svofellt samkomulag um uppgjör á staðgreiðslu við álagningu opinberra gjalda.

1. gr.


    Aðilar eru sammála um að við álagningu opinberra gjalda verði staðgreiðsla vegna viðkomandi tekjuárs gerð upp með þeim hætti að ríkissjóður taki á sig vanskil á staðgreiðslufé í þeim tilvikum þar sem búið er að gera grein fyrir launagreiðslum með skilagreinum til skattyfirvalda þar sem laun eru sundurliðuð niður á einstaka launamenn. Ríkissjóður tryggir sveitarfélögunum með þessum hætti 100% innheimtu á innheimtuhlutfalli útsvars í staðgreiðslu vegna viðkomandi tekjuárs þar sem laun eru sundurliðuð með skilagreinum niður á launamenn óháð því hvort greiðsla hefur borist með skilagreininni eða ekki.

2. gr.


    Á móti því að ríkissjóður tryggi sveitarfélögunum greiðslu á vangreiddri staðgreiðslu, sbr. 1. gr. þessa samkomulags, fær ríkissjóður í sinn hlut dráttarvexti og álag sem hefur innheimst og sem mun innheimtast vegna vangreiddrar staðgreiðslu viðkomandi tekjuárs.

3. gr.


    Ríkissjóður heldur greiðslum þar sem ekki hefur verið gerð grein fyrir því með skilagreinum til skattyfirvalda hvernig launin, sem staðgreiðslan er dregin af, skiptast niður á einstaka launamenn.

4. gr.


    Um leið og skilagreinum viðkomandi tekjuárs er skilað til skattyfirvalda eftir álagningu, þar sem sundurliðun kemur á einstaka launamenn, skal ríkissjóður greiða til viðkomandi sveitarfélags innheimtuhlutfall útsvars í staðgreiðslu vegna viðkomandi tekjuárs í samræmi við sundurliðunina.

5. gr.


    Allt sem innheimt er af vangreiddri staðgreiðslu vegna viðkomandi tekjuárs eftir að uppgjör hefur farið fram samkvæmt þessu samkomulagi verður eign ríkissjóðs.

6. gr.


    Aðilar þessa samkomulags eru sammála um það að ábyrgð á innheimtu á staðgreiðslu er hjá ríkissjóði þar sem ljóst er að vanskil hafa ekki áhrif á skil til sveitarfélaganna. Fjármálaráðuneytið fer því með yfirstjórn innheimtu á staðgreiðslu og getur gefið út fyrirmæli um innheimtuaðgerðir vegna innheimtu á staðgreiðslu.

7. gr.


    Aðilar eru sammála um það að ef beiðni kemur frá sveitarfélagi um að innheimtuaðgerðum vegna vanskila á staðgreiðslu verði frestað sé fjármálaráðuneytinu heimilt að halda eftir við skil til viðkomandi sveitarfélags sömu fjárhæð og innheimtuaðgerðum er frestað á vegna umræddrar beiðni.

8. gr.


    Endurgreiðslur vegna verðbóta á ofgreidda staðgreiðslu greiðast af rétthöfum staðgreiðslu í sömu hlutföllum og lögbundnir frádrættir tekjuskatts og útsvars sem koma til lækkunar á stofnum til álagningar tekjuskatts og útsvars sem koma fram á skattframtali viðkomandi gjaldanda.

9. gr.


    Aðilar eru sammála um að staðgreiðslu vegna viðkomandi staðgreiðsluárs skuli skipt samkvæmt samkomulagi sem gert var 20. febrúar 1989 um skil á staðgreiðslufé þar til álagning vegna viðkomandi staðgreiðsluárs fer fram.

10. gr.


    Aðilar eru sammála um að samkomulag þetta verði endurskoðað á hverju ári miðað við stöðu á innheimtri staðgreiðslu og hvernig samkomulag þetta kemur út fyrir samningsaðila. Gert er ráð fyrir því að samkomulagið verði endurskoðað með sama hætti og samkomulagið frá 6. júlí 1989 um sama efni. Skal þeirri endurskoðun lokið 1. mars ár hvert og sé þar með lokið fullnaðaruppgjöri vegna fyrra árs.

11. gr.


    Samkomulag þetta öðlast þegar gildi og gildir í fyrsta sinn við álagningu opinberra gjalda á árinu 1990 vegna tekna ársins 1989. Báðum aðilum er heimilt að segja þessu samkomulagi upp einhliða. Sá aðili, sem vill segja þessu samkomulagi upp, skal hafa gert það eigi síðar en 1. apríl það ár þegar viðkomandi aðili vill ekki að samkomulag þetta gildi við álagningu opinberra gjalda.

Samkomulag um gíróreikninga staðgreiðslu.


1. gr.


    Aðilar þessa samkomulags eru Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fjármálaráðuneytið f.h. ríkissjóðs.

2. gr.


    Aðilar eru sammála um að innborganir á skilafé staðgreiðslu fari fram með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í 3. gr. samkomulags þessa og ráðstöfun fjár og vaxtagreiðslur verði síðan með þeim hætti sem kveðið er á um í 4.–7. gr. samkomulags þessa.

3. gr.


    Innborganir á skilafé staðgreiðslu fara fram með tvenns konar hætti. Í fyrsta lagi er launagreiðendum í Reykjavík heimilt að greiða til Gjaldheimtunnar í Reykjavík eða inn á sérstakan gíróreikning Gjaldheimtunnar nr. 778899 við Landsbanka Íslands, aðalbanka. Í öðru lagi er launagreiðendum annars staðar en í Reykjavík heimilt að greiða til innheimtumanns í sínu umdæmi eða inn á gíróreikning nr. 025025 við Seðlabanka Íslands í Reykjavík.
    Innborganir í greinda gíróreikninga eru háðar því að greiðslur séu inntar af hendi með sérstökum gíróseðlum sem ríkisskattstjóri hefur látið gera.

4. gr.


    Gjaldheimtan í Reykjavík tekur alla fjármuni út af gíróreikningi nr. 778899 dag hvern. Ráðstafar hún áætluðum hlut Reykjavíkurborgar með þeim hætti sem Reykjavíkurborg ákveður, en það sem þá er eftir, hlutur ríkissjóðs og annarra sveitarfélaga, verði lagt inn á reikning nr. 025017 við Seðlabanka Íslands.

5. gr.


    Ríkisbókhald tekur alla fjármuni út af reikningi nr. 025025 við Seðlabanka Íslands dag hvern þannig að hlut ríkissjóðs er ráðstafað inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabanka en hlut sveitarfélaga annarra en Reykjavíkurborgar er ráðstafað samdægurs inn á bankareikning sem Samband íslenskra sveitarfélaga ákvarðar.

6. gr.


    Vikulega, nánar tiltekið hvern fimmtudag eða næsta virkan dag þar á eftir ef fimmtudag ber upp á helgidag, skal Ríkisbókhald skipta til annarra sveitarfélaga en Reykjavíkurborgar þeim fjármunum sem fyrir hendi eru á bankareikningi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

7. gr.


    Vöxtum af gíróreikningi 025025 skal skipta milli ríkissjóðs og allra sveitarfélaga nema Reykjavíkur einu sinni á ári hlutfallslega jafnt því sem þeir aðilar fengu í sinn hlut úr staðgreiðslu. Vextir til sveitarfélaga skulu vera þeir sömu og eru á bankareikningi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vextir greiðast ekki Reykjavíkurborg.

8. gr.


    Samkomulag þetta gildir til 1. júní 1991 og framlengist síðan ótímabundið eða þar til einhver samningsaðili segir samningunum upp með 3 mánaða fyrirvara.



Fylgiskjal II.


Bréf fjármálaráðuneytisins til Sambands ísl. sveitarfélaga.


(12. desember 1991.)


    Ráðuneytið vísar til bréfs yðar, dags. 5. þ.m., og fundar í dag með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi hugmyndir um að sameinuð verði á einum gíróseðli innheimta staðgreiðslu af launum, innheimta staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og innheimta á tryggingagjaldi.
    Í þessu sambandi vill ráðuneytið leiðrétta þann misskilning sem kemur fram í bréfi yðar að ekki verði hægt að skila útsvarshluta staðgreiðslu til sveitarfélaga daglega eins og gert er í dag. Þessu til staðfestingar sendist yður bréf Ríkisbókhalds, dags. 11. þ.m., þar sem kemur fram að innheimta á staðgreiðslu og tryggingagjaldi með einum gíróseðli mun ekki seinka skilum til sveitarfélaga.
    Jafnframt vill ráðuneytið benda á að í frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, er lagt til að fjármálaráðherra verði heimilað að fela öðrum en innheimtumönnum ríkissjóðs að innheimta tryggingagjald, t.d. sameiginlegri gjaldheimtu ríkis og sveitarfélaga. Þar sem um er að ræða sameiginlega gjaldheimtu ríkis og sveitarfélaga liggur til grundvallar samningur á milli aðila. Það er augljóst að ekki verður gerð breyting að því er þetta varðar nema til komi samkomulag á milli viðkomandi aðila. Ráðuneytið mun því, ef umrætt frumvarp verður að lögum, óska eftir viðræðum við sveitarfélögin um að innheimta á tryggingagjaldi og staðgreiðslu verði sameinuð.