Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 214 . mál.


284. Frumvarp til laga



um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



I. KAFLI


Hlutverk og stjórn.


1. gr.


    Meginhlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að veita námsmönnum námslán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis.

2. gr.


    Lánasjóði er heimilt að veita öðrum námsmönnum námslán en þeim sem falla undir skilgreiningu 1. gr. enda hafi þeir náð 20 ára aldri á því almanaksári sem lán er veitt og stundi sérnám.

3. gr.


    Miða skal við að námslán samkvæmt lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að taka tillit til annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns.
     Stjórn sjóðsins setur nánari ákvæði um úthlutun námslána.

4. gr.


    Ráðherra skipar stjórn sjóðsins þannig: Einn samkvæmt tilnefningu stúdentaráðs Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra námsmanna erlendis, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra sérskólanema, einn samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra og tvo án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður stjórnar en hinn varaformaður.
     Stjórnin skal skipuð til tveggja ára í senn. Skipunartími fulltrúa menntamálaráðherra og fjármálaráðherra skal þó takmarkaður við embættistíma þeirra ráðherra sem skipuðu þá eða tilnefndu sitji þeir skemur. Varamenn í stjórn sjóðsins skulu skipaðir með sama hætti og til jafnlangs tíma.
     Verði atkvæði jöfn við afgreiðslu mála í stjórn sjóðsins sker atkvæði formanns úr.
     Ráðherra ræður framkvæmdastjóra til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk með samþykki sjóðstjórnar að fenginni heimild ráðuneytisins, sbr. ákvæði laga nr. 97/1974.

5. gr.


    Hlutverk stjórnar sjóðsins er:
    að veita námsmönnum námslán,
    að annast fjármál sjóðsins og gerð fjárhagsáætlana,
    að annast gagnasöfnun varðandi þörf námsmanna á námslánum,
    að setja reglur um úthlutun námslána,
    að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum með bókuðum samþykktum,
    að afla upplýsinga um námsskipan og námstíma þeirra skóla sem lánað er til,
    að hafa eftirlit með árangri og ástundun námsmanna,
    að annast útgáfustarfsemi og aðra kynningu á starfsemi sjóðsins.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að fela bankastofnunum útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu.
     Bókhaldi skal haga samkvæmt fyrirmælum Ríkisbókhalds, sbr. lög nr. 52/1966.

II. KAFLI


Námslán.


6. gr.


    Námslán skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur.
     Námsmaður skal að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju missiri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað.
     Námslán skal ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti.
     Námsmenn, sem fá lán úr sjóðnum, skulu undirrita skuldabréf við lántöku og leggja fram yfirlýsingu tveggja manna um að þeir taki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu þess.
     Stjórn sjóðsins ákveður hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða beggja, getur fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að innheimta lántökugjöld af veittum lánum.

7. gr.


    Lán úr sjóðnum skulu verðtryggð. Verðtryggingin er miðuð við breytingar á lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands, sbr. lög nr. 13/1979. Reiknast verðtryggingin frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að lán er veitt, eða einstakir hlutar þess greiddir út, til fyrsta dags þess mánaðar er greiðsla fer fram.
     Verði breyting á grundvelli lánskjaravísitölunnar eða við útreikning hennar skal þriggja manna nefnd ákveða hvernig vísitölur samkvæmt nýjum breyttum grundvelli skulu tengdar eldri vísitölum. Nefndin skal þannig skipuð að Seðlabanki Íslands tilnefnir einn mann, Hæstiréttur annan en hagstofustjóri skal vera formaður nefndarinnar.
     Þegar nýtt skuldabréf er gefið út skulu eldri skuldabréf sameinuð þannig að á hverju nýju skuldabréfi komi fram upphæð heildarskuldar námsmanns eins og hún er á útgáfudegi skuldabréfsins. Endurgreiðsla fer fram á grundvelli síðasta skuldabréfs sem námsmaður gefur út.
     Lánstími námsláns skal vera fjórfaldur eðlilegur tími þess náms sem lánað er til og skal lánstími tilgreindur í skuldabréfi. Ljúki námsmaður ekki námi skal lánstími vera tvöfaldur eðlilegur námstími. Endurgreiðsla hefst ári eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok og endurgreiðslutíma samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli.
     Lán úr sjóðnum skulu bera 3% ársvexti af höfuðstól skuldarinnar. Vextir reiknast frá námslokum.

8. gr.


    Námslán skal endurgreitt með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana, jafngreiðslulán, að viðbættum verðbótum samkvæmt lánskjaravísitölu.
     Árleg endurgreiðsla ákvarðast í tvennu lagi. Annars vegar er föst greiðsla sem innheimt er á fyrri hluta ársins, óháð tekjum, og hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins og er háð tekjum fyrra árs.
     Fasta ársgreiðslan nemur fjórðungi ársgreiðslu skv. 1. mgr. en viðbótargreiðslan nemur eftirstöðvum ársgreiðslu skv. 1. mgr., þó þannig ákvörðuð að heildarársgreiðslan sé að hámarki 4% af útsvarsstofni næsta árs á undan endurgreiðsluári.
     Ákvæði 3. mgr. gilda um afborganir af skuldabréfinu fyrstu fimm árin. Við næstu afborganir skal fastagreiðslan nema helmingi ársgreiðslu skv. 1. mgr. og heildarársgreiðslan nema að hámarki 8% af útsvarsstofni ársins á undan.
     Það sem ekki greiðist af ársgreiðslu skv. 1. mgr. vegna ákvæða 3. og 4. mgr. um hámark árlegrar endurgreiðslu leggst við höfuðstól lánsins. Verði eitthvað ógreitt eftir að greitt hefur verið í fjórfaldan námstíma greiðir skuldari hámarksgreiðslu skv. 4. mgr. þar til skuldin er að fullu greidd.
     Óski lánþegi eftir því að greiða fulla ársgreiðslu skv. 1. mgr. skal hann tilkynna það skriflega til Lánasjóðs.
     Skuldara ber á hverjum gjalddaga að greiða kostnað af innheimtu hverrar greiðslu.
     Hundraðshlutinn, sem ákvarðar hámark árlegrar endurgreiðslu skv. 3. og 4. mgr., skal margfaldaður samkvæmt hlutfallslegri breytingu á lánskjaravísitölu frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
     Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 7. mgr., skal leggja fyrir sjóðstjórn ítarlegar upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og önnur atriði er stjórnin telur máli skipta.
     Heimilt er að endurgreiða lán örar en mælt er fyrir í þessari grein.

9. gr.


    Hverri endurgreiðslu skal skipt í höfuðstól, verðbætur og vexti. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu skv. 7. gr. frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga.
     Skuldari skuldbindur sig til að greiða 3% ársvexti af höfuðstól skuldarinnar þegar hann hefur verið reiknaður út skv. 1. mgr. Vextir reiknast frá námslokum og greiðast eftir á á sömu gjalddögum og afborganir.
     Endurgreiðslur eru aðfararhæfar án undangengins dóms eða sáttar ef um vanskil er að ræða. Sama gildir um eftirstöðvar skuldar sem felld er í gjalddaga skv. 11. gr.
     Endurgreiðslur, sem falla í gjalddaga eftir að lánþegi andast, falla sjálfkrafa niður.

10. gr.


    Verði á endurgreiðslutíma námslána breyting á skattalögum þannig að veruleg breyting verði á því er telst útsvarsstofn frá því sem nú er skal hámark árlegrar endurgreiðslu skv. 8. gr. reiknað af stofni sem nefnd þriggja manna ákveður. Skal nefndin þannig skipuð að menntamálaráðherra tilnefnir einn nefndarmann, fjármálaráðherra annan en ríkisskattstjóri skal vera formaður nefndarinnar. Skal nefndin leitast við að setja reglur um útreikning endurgreiðslustofns sem geri hámark árlegrar endurgreiðslu hvers skuldara sem líkast því og orðið hefði að óbreyttum skattalögum.
     Sé skattþega áætlaður útsvarsstofn skal miða við hann. Komi í ljós að útsvarsstofn hafi verið of hátt áætlaður eða oftalinn og lánþegi því innt af hendi of háa greiðslu skal honum endurgreidd hin ofgreidda fjárhæð með þeim vöxtum sem á hverjum tíma eru reiknaðir af venjulegum sparisjóðsinnstæðum.
     Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að telja fram tekjur sínar til Lánasjóðs og yrði hámark árlegrar endurgreiðslu ákveðið í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verði framtal hans ósennilegt og ekki unnt að sannreyna útsvarsstofn samkvæmt því verður árleg endurgreiðsla hans ákveðin skv. 1. mgr. 8. gr.

11. gr.


    Verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námsláns skal stjórn sjóðsins heimilt að fella allt lánið í gjalddaga.
     Sömu heimild hefur sjóðstjórn ef í ljós kemur að lánþegi hefur vantalið tekjur á framtali sínu.
     Sú hækkun, sem verður á viðbótargreiðslu vegna endurskattlagningar lánþega, skal gjaldkræf þegar í stað og skulu reiknaðir af henni hæstu lögleyfðir dráttarvextir frá gjalddaga þeirrar viðbótargreiðslu sem hækkuð er.

12. gr.


    Sé námsmanni vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að dómi sjóðstjórnar að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild má veita honum aukalán úr sjóðnum enda verði höfð hliðsjón af þeim bótum sem hann fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf. Lán þessi eru veitt með sömu kjörum og almenn námslán.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita venjuleg skuldabréfalán sem séu verðtryggð og beri vexti sem eru sambærilegir við almenna útlánavexti banka á hverjum tíma. Vextir skulu reiknast frá útborgun láns. Lánstími skal að hámarki vera 10 ár. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um veitingu lána samkvæmt þessari málsgrein.

13. gr.


    Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða að námsmenn frá Norðurlöndum, sem heimilisfastir eru á Íslandi og stunda nám hérlendis, hafi rétt til námslána samkvæmt lögum þessum með sama hætti og íslenskir námsmenn enda njóti þeir ekki aðstoðar frá heimalandi sínu.
     Einnig er heimilt að láta ákvæði þessarar greinar taka til einstakra annarra erlendra ríkisborgara njóti íslenskir námsmenn sambærilegra réttinda í heimalandi þeirra.

14. gr.


    Umsækjendur um lán skulu láta fylgja umsókn sinni allar þær upplýsingar sem sjóðstjórn telur máli skipta við ákvörðun um veitingu námsláns.

     Umsækjendur skulu tilgreina í lánsumsókn hvort þeir óski eftir fullu láni samkvæmt reglum sjóðsins eða lægri fjárhæð.
     Innlendum skólum, sem lög þessi taka til, er skylt að láta Lánasjóði í té nauðsynlega aðstoð við framkvæmd laganna, þar á meðal upplýsingar um framvindu náms umsækjenda.
     Skattstjórum er skylt að láta Lánasjóði í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.
     Með einstaklingsbundnar upplýsingar, sem Lánasjóði eru látnar í té samkvæmt þessari grein, skal farið með sem trúnaðarmál.

III. KAFLI


Ráðstöfunarfé o.fl.


15. gr.


    Ráðstöfunarfé Lánasjóðs er:
    Endurgreiðslur samkvæmt lögum þessum og vextir og afborganir af eldri námslánum.
    Ríkisframlag.
    Lánsfé.
     Árlegur rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist af ráðstöfunarfé sjóðsins og með lántökugjöldum, sbr. 6. gr.
     Stjórn sjóðsins skal árlega gera fjárhagsáætlanir fyrir sjóðinn á næsta almanaksári með sama hætti og aðrar ríkisstofnanir.
     Ársreikningar sjóðsins skulu samþykktir af sjóðstjórn og endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun. Þeir skulu birtir í Stjórnartíðindum.

16. gr.


    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð frekari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
     Sjóðstjórn setur reglur um önnur atriði er greinir í lögum þessum og reglugerð skv. 1. mgr. Stjórnin gefur árlega út þessar reglur sem skulu samþykktar af ráðherra.
     Sjóðstjórn er heimilt, ef hagsmunasamtök námsmanna óska eftir, að draga félagsgjald frá láni enda komi ósk námsmanns þar að lútandi fram á lánsumsókn.

17. gr.


    Skjöl samkvæmt lögum þessum skulu undanþegin stimpilgjöldum samkvæmt lögum nr. 36/1978.

18. gr.


    Ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum getur hann annaðhvort greitt samkvæmt þeim lögum óháð og til viðbótar endurgreiðslum samkvæmt þessum lögum eða hann getur sameinað eldri skuld á skuldabréf sem hann gefur út samkvæmt þessum lögum og endurgreitt alla skuldina samkvæmt því, þó þannig að vextir reiknist eingöngu af lánum teknum samkvæmt þessum lögum.

19. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Falla samtímis úr gildi lög nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 6. júní 1991 skipaði Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra nefnd til að endurskoða lög um námslán og námsstyrki. Í nefndina voru skipaðir Guðmundur K. Magnússon prófessor, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Árni M. Mathiesen alþingismaður, Jón Bragi Bjarnason prófessor, Sigurbjörn Magnússon héraðsdómslögmaður og Vilhjálmur Þorsteinsson kerfisfræðingur. Starfsmaður nefndarinnar var Ingólfur Bender hagfræðingur. Nefndin skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra 3. október sl. Ráðherra sendi hagsmunasamtökum námsmanna tillögurnar til umsagnar. Þegar umsagnir þeirra lágu fyrir var nefndinni falið að semja frumvarp þetta. Jafnframt skipaði ráðherra tvo fulltrúa námsmanna í nefndina, þau Pétur Þ. Óskarsson, fulltrúa samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna, og Elsu Valsdóttur, formann Vöku, félags lýðræðissinnaðara stúdenta. Fyrir nefndinni lágu auk ofangreinds nefndarálits hugmyndir samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna um breytingar á LÍN og tillögur Vöku í málefnum Lánasjóðsins.
     Fulltrúar námsmanna kynntu sjónarmið samtaka sinna í nefndinni. Þeir standa ekki að frumvarpi þessu og skila séráliti, sbr. fskj. IV og VI, en meiri hluti nefndarinnar telur sig hafa tekið tillit til sjónarmiða þeirra og tillagna á ýmsan hátt, sérstaklega varðandi tekjutengt þak á endurgreiðslur.
     Tilgangur þeirra breytinga, sem felast í frumvarpi þessu, er fyrst og fremst að treysta fjárhagslega stöðu Lánasjóðsins til frambúðar og draga úr þeirri byrði sem ríkissjóður hefur af sjóðnum. Hinn mikilvægi stuðningur þjóðfélagsins við menntun verður áfram verulegur. Lánin verða hins vegar dýrari og greiðast upp fyrr en áður enda verður framtíð sjóðsins ekki tryggð með öðrum hætti án aukinna ríkisframlaga.
     Með þeim tillögum um breytingar á Lánasjóðnum, sem hér eru settar fram, næst það markmið að tryggja fjárhagsstöðu hans í framtíðinni, þ.e. eftir 10–15 ár miðað við svipað ríkisframlag og nú er til LÍN. Þessu má best lýsa með því að styrkhlutfall ríkisins lækkar úr um 65% nú í um 25% miðað við 6% ávöxtunarkröfu.
     Vegna tekjutengingar á endurgreiðslu lána næst ekki það markmið að ríkisframlag nemi um 2,2 milljörðum króna næstu árin að óbreyttu lántökuhlutfalli sjóðsins (55%) og óbreyttum útlánareglum. Ef stemma á stigu við aukningu ríkisframlags á næstu árum án þess að til lækkunar á námslánum komi verður að draga úr fjárþörf sjóðsins með einum eða öðrum hætti. Þar kemur helst til greina að herða kröfur um námsframvindu, skilyrða útborgun námláns því að námsárangri hafi verið skilað eða taka aukin lán vegna bættrar stöðu sjóðsins í framtíðinni ef þetta frumvarp verður samþykkt. Gert er ráð fyrir að það verði verkefni stjórnar sjóðsins að setja reglur um ofangreind atriði í samráði við menntamálaráðherra.
     Ljóst er að gildandi námslánakerfi, sem byggist á lögum nr. 72/1982, getur ekki til frambúðar tryggt Lánasjóði íslenskra námsmanna það ráðstöfunarfé sem hann þarf til þess að geta gegnt hlutverki sínu. Fjárþörf LÍN hefur aukist verulega á undanförnum árum. Þetta hefur valdið bæði auknum lántökum sjóðsins og vaxandi ríkisframlagi. Ef svo fer fram sem horfir mun spurn eftir námslánum vaxa á komandi árum. Á aukinni fjárþörf sjóðsins eru ýmsar skýringar: 1) Flest nám að loknum grunnskóla er nú talið lánshæft að einhverju leyti ef undan er skilið nám til stúdentsprófs. 2) Nemendum á háskólastigi og framhaldsskólastigi hefur fjölgað umtalsvert. 3) Við mat á lánsþörf er nú tekið tillit til fleiri atriða en áður, yfirleitt til hækkunar. 4) Framfærslu- og námskostnaður almennt, þar með talin skólagjöld, hafa aukist verulega. 5) Kostnaður sjóðsins vegna eigin lántöku hefur aukist vegna þess m.a. að ríkisframlag hefur ekki aukist til jafns við útlán. 6) Lítill hvati er í núgildandi kerfi fyrir námsmann til að takmarka lántökur sínar.
     Þrátt fyrir nýlega lækkun námslána þurfa framlög ríkissjóðs til LÍN að aukast á næstu árum ef komast á hjá frekari lækkun lánanna.
     Endurgreiðslur núgildandi laga eru í aðalatriðum þessar: Lánin eru vaxtalaus en verðtryggð og veitt til 40 ára. Eftirstöðvar falla niður þegar greitt hefur verið í 40 ár. Afborganir hefjast þremur árum eftir námslok og greitt er að hámarki 3,75% af útsvarsstofni ársins á undan, þó að lágmarki 26.391 kr. á ári.
     Ekki verður deilt um að þessar lánareglur eru ekki í samræmi við það sem almennt gerist í þjóðfélaginu. Þær hvetja ekki til ráðdeildar, jafnframt því sem skammta verður lán verulega vegna mikillar ásóknar í þau.
     Núgildandi lög um námslán frá 1982 voru sett þegar aðrar aðstæður ríktu á fjármagnsmarkaði og lánskjör á öðrum sviðum, svo sem í húsnæðismálum, voru hagstæðari en nú er. Kostnaður ríkissjóðs hefur einnig aukist vegna hærri raunvaxta en áður.
     Ríkisendurskoðun sendi til stjórnar LÍN og menntamálaráðuneytisins í apríl á þessu ári skýrslu er nefnist „Greinargerð um fjárhagsstöðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna.“ Þar segir m.a.:
     „Miðað við áframhaldandi starfsemi þarf sjóðurinn fyrirsjáanlega á miklum ríkisframlögum að halda á næstu árum vegna vaxtamunar inn- og útlána.
    Ríkissjóður hefur lagt mikla fjármuni í Lánasjóðinn á undanförnum árum. Fyrirsjáanlegt er að framlög til sjóðsins þurfa að hækka á komandi árum vegna aukinnar fjárbindingar í sjóðnum og aukinnar ásóknar í námslán. Mikill vaxtamunur er á námslánum sem ekki bera vexti og þeim lánum sem sjóðurinn þarf að taka til þess að fjármagna útlán. Vaxtamunur þessi er í dag rúmlega sex af hundraði. Fjárbinding í námslánakerfinu er í dag rúmir 20 milljarðar króna í vaxtalausum námslánum að teknu tilliti til affalla vegna takmarkana á endurgreiðslum. Miðað við óbreytt útlán mun fjármagn, sem bundið er í þessu kerfi, verða um 40 milljarðar króna innan tíu ára og 60 milljarðar króna innan tuttugu ára.
    Það er þó e.t.v. líklegra að útlán aukist nokkuð á komandi árum. Ef reiknað er með að útlán aukist um 2,5% á ári til ársins 2010 munu útistandandi námslán verða um 80 milljarðar króna eftir 20 ár sem er fjórföldun á því fjármagni sem er bundið í kerfinu í dag. Þar sem námslánin eru vaxtalaus fellur allur fjármagnskostnaður af þessari fjárhæð fyrr eða síðar á ríkissjóð.
     Kostnaður ríkissjóðs við námslánakerfið er um 66% af veittum lánum miðað við að eigið fé sjóðsins á hverjum tíma nægi til að standa við skuldbindingar vegna lána. Er þá gert ráð fyrir að vextir af lánum sem sjóðurinn taki séu 6%.
    Sem nálgun mætti segja að ríkisframlag verði að samsvara um 66% af lánveitingum Lánasjóðsins miðað við að eigið fé sjóðsins standi undir skuldbindingum en þær falli ekki síðar á ríkissjóð. Í þessu sambandi er gert ráð fyrir að vextir af lánum sem sjóðurinn taki séu 6%. Ef ríkisframlagið er lægra er gengið á eigið fé sjóðsins og ef það er hærra er verið að auka við eigið fé sjóðsins. Ef veitt námslán yrðu árlega 3,8 milljarðar króna þyrfti ríkisframlag samkvæmt framansögðu að vera 2,5 milljarðar króna á ári og lántaka um 1,7 milljarðar króna miðað við óbreytt útlán.
    Miðað við árlegt framlag úr ríkissjóði, 1,75 milljarða króna, sem er það sama og fjárlög gera ráð fyrir á árinu 1991 og að þeirri fjárþörf sem á vantar verði mætt með lántökum (reiknað er með að slík lán séu til 10 ára og beri 6% vexti) fæst sú niðurstaða að Lánasjóðurinn mun stöðugt þurfa að taka hærri lán og verður svo komið árið 2014 að vaxtagjöld verða orðin 3,9 milljarðar króna sem er hærri fjárhæð en útlán. Þannig skapast í raun vítahringur stigaukinna lántaka og vaxtagjalda.
    Kostnaður lækkar hins vegar ef gert er ráð fyrir að fjármagna útlán sjóðsins alfarið með ríkisframlögum án þess að tekin séu lán. Hér fæst sú niðurstaða að ríkissjóður þarf að leggja sjóðnum til 4,8 milljarða króna á árinu 1991. Stærsti hluti þessa fjár fer til fjármögnunar kerfisins og kemur þannig í stað lánsfjár. Framlög fara síðan smám saman lækkandi niður í um 800 milljónir króna. Þessi fjárhæð samsvarar árlegum kostnaði sjóðsins vegna rekstrar og affalla veittra námslána vegna takmarkana á endurgreiðslum.
    Styrkir vegna takmarkana á endurgreiðslum.
    Vegna endurgreiðslureglna eru námslán að hluta til styrkir. Endurgreiðsla er nú takmörkuð við 40 ár og 3,75% af tekjum. Þetta þýðir að um 19% af veittum námslánum eru í raun styrkir eða um 4,9 milljarðar króna af útistandandi lánum í árslok 1990.
     Styrkir vegna vaxtaniðurgreiðslna.
    Námslán eru verðtryggð en bera hins vegar enga vexti. Ef námslán eru borin saman við skuldabréf á almennum markaði kemur í ljós að vaxtaniðurgreiðsla ríkissjóðs á námslánum er veruleg. Ef gerð er 6% ávöxtunarkrafa til fjármagns verða afföll af útistandandi námslánum í árslok 1990 rúmir 9,8 milljarðar króna.“
    Meginbreytingin, sem felst í þessu frumvarpi, er sú að teknir eru upp vægir vextir á lánin, endurgreiðslur hefjast fyrr en áður og greitt er hraðar til baka. Eftirstöðvar falla ekki niður heldur skulu lánin greidd að fullu. Það skiptir því námsmanninn miklu máli að reyna að takmarka lántökur sínar sem kostur er því þá verður greiðslubyrðin minni að námi loknu. Í núgildandi kerfi skiptir ekki máli hversu hátt lán er tekið; greiðslubyrðin verður sú sama, þeir námsmenn sem taka hæst lán fá mesta styrki. Í frumvarpi þessu er þó gert ráð fyrir að greiðslubyrðin verði nánast sú sama fyrstu fimm endurgreiðsluárin og hún er nú.
     Í frumvarpi þessu er lögð áhersla á að LÍN geti áfram auðveldað fólki að afla sér menntunar með því að veita hagstæð lán jafnframt því sem lánareglur verði á þann veg að hvatt sé til ráðdeildar af hálfu námsmanna og framlög úr ríkissjóði minnki með því að endurgreiðslur lána standi í ríkari mæli undir útlánum.
     Reynt er að varðveita þá kosti sem núverandi námslánakerfi hefur, t.d. um að lána til næstum hvaða náms sem er að uppfylltum tilteknum almennum skilyrðum. Einnig er gert ráð fyrir að endurgreiðslur á hverju ári fari ekki fram úr tilteknu hlutfalli af tekjum fyrra árs.
     Lögð er áhersla á að raska sem minnst reglum um útlán sjóðsins en lagðar eru til veigamiklar breytingar á endurgreiðslureglum til að tryggja fjármögnun sjóðsins, þó áfram sé gert ráð fyrir að námslán séu meðal hagstæðustu lána sem í boði eru í þjóðfélaginu.
     Í frumvarpi þessu er lagt til að öll ákvæði um námsstyrki falli niður. Í því sambandi er rétt að taka fram að menntamálaráðherra mun beita sér fyrir endurskoðun laga nr. 51/1957, um Vísindasjóð, í þeim tilgangi að hann geti í ríkari mæli en nú veitt styrki til námsmanna í langskólanámi og til skólagjalda. Það leiðir til þess að þörf t.d. doktorsnema fyrir námslán ætti að minnka.
    Helstu breytingar frá núgildandi lögum, sem lagt er til að gerðar verði samkvæmt frumvarpi þessu, eru eftirfarandi:
    Námlán beri 3% vexti frá námslokum en séu vaxtalaus á námstíma.
    Endurgreiðslur hefjist ári eftir námslok í stað þriggja.
    Lánstími verði fjórfaldur námstími. Hámark árlegrar endurgreiðslu verði þó 4% af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári fyrstu fimm árin en 8% eftir það. Greitt verði af láninu þar til það er fullgreitt.
    Hætt verði að lána til sérnáms sem ekki er á háskólastigi, nema lánþegi verði 20 ára á því almanaksári sem lán er veitt.
    Felld verði niður öll ákvæði um námsstyrki en gert ráð fyrir að Vísindasjóður verði efldur til þess að veita námsstyrki.
    Felld verði niður ákvæði um lífeyrissjóðsgreiðslur.
    Sjóðnum verði heimilt að innheimta lántökugjöld til þess að greiða reksturskostnað.
    Gerð verði krafa um tvo ábyrgðarmenn í stað eins.
    Gert er ráð fyrir að skuldabréf verði sameinuð jafnóðum svo að ekki séu í gildi margar skuldaviðurkenningar frá lánþegum.
    Námsaðstoð verði aldrei greidd út fyrr en sýnt hefur verið fram á námsárangur.
    Stjórn sjóðsins verði heimilt að veita almenn skuldabréfalán.
    Heimild til að veita víxillán falli niður.
     Um talnaleg áhrif þeirra breytinga, sem felast í frumvarpi þessu, er aðallega vísað til sérstaks fylgiskjals en þó skal hér drepið á nokkur atriði.
     Með samþykkt þessa frumvarps mun að líkindum draga eitthvað úr spurn eftir námslánum þar sem þau verða ekki eins eftirsóknarverð og áður. Einnig er aðgangur að námslánum lítillega takmarkaður frá núgildandi lögum. Eins munu vextir, hertar endurgreiðslureglur, auknar kröfur um ábyrgðarmenn og lántökugjöld hvetja til varfærni og ráðdeildar. Í útreikningum þeim, sem fylgja frumvarpi þessu, er ekki gerð tilraun til þess að meta hve mikið gæti dregið úr spurn eftir námslánum.
     Miðað við áætlanir um fjölgun nemenda og fjárþörf LÍN í framtíðinni valda hugmyndirnar um 3% vexti og lánstíma sem er fjórfaldur námstími, greiðslur sem hefjast ári eftir námslok, 1,2% lántökugjald og fleira um 138 millj. kr. lækkun ríkisframlags árið 1993, 310 millj. kr. lækkun þess árið 1997 og 2.332 millj. kr. lækkun þess árið 2010.
     Stuðningur ríkisins (almennings) við menntun er áfram nauðsynlegur og er veittur með vaxtaleysi á námstíma og eftirgjöf á markaðsvöxtum. Árið 1992 er áætlað að þessi stuðningur ríkisins nemi 400 millj. kr. í formi vaxtaleysis á námstíma og 400 millj. kr. í formi vaxtaniðurgreiðslna. Samanlagður stuðningur ríkisins við menntun samkvæmt frumvarpi þessu yrði í heild nálægt einum milljarði króna árið 1992.
     Hér er um nokkuð veigamiklar breytingar að ræða frá fyrri lögum og þótti því rétt að leggja fram frumvarp til nýrra laga sem leysa af hólmi lög nr. 72/1982, þó margt sé óbreytt frá núgildandi lögum eins og fram kemur í athugasemdum við einstakar greinar.
     Enn fremur heitir frumvarpið „Frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna“ en núgildandi lög eru um námslán og námsstyrki.
     Þá hafa verið tekin í lagatexta nokkur atriði úr reglugerð nr. 578/1982. Enn fremur hefur stjórn sjóðsins verið falið vald í vissum tilvikum sem ráðherra hafði áður. Það ætti að draga úr þörf á að ráðherra setji sérstaka reglugerð um starfsemi sjóðsins þó vissulega hafi hann heimild til þess. Úthlutunarreglur og aðrar reglur stjórnar, samþykktar af ráðherra, ættu að nægja.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er samhljóða 1. gr. laga nr. 72/1982.

Um 2. gr.


    Lagt er til að ekki verði lánað til annars náms en fellur undir 1. gr. nema námsmaður verði 20 ára á því almanaksári sem lán er veitt og stundi sérnám. Gildir þetta um sérnám bæði innan lands og erlendis. Ástæða þessarar breytingar er sú að margt sérnám, t.d. iðnnám, hefur færst inn í fjölbrautaskólana sem liður í námi til stúdentsprófs, en ekki er lánað til slíks náms. Sanngjarnt hlýtur að vera að námsmenn sitji við sama borð á þessum árum og ógerlegt þykir að láta námslán taka til náms til stúdentsprófs. Þessi breyting snertir liðlega 300 lánþega hjá sjóðnum.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er lítillega breytt þeirri skilgreiningu sem var á hugtakinu „opinber aðstoð við námsmenn“ og þess í stað gefin viðmiðun um það fyrir hverju skuli lánað. Ekki er gert ráð fyrir neinum verulegum breytingum á útlánum sjóðsins en stjórnin hefur með þessari breytingu rýmra svigrúm til ákvörðunar á því fyrir hvaða útgjöldum námsmanns skuli lánað og hvaða tillit skuli taka til fjölskyldustærðar hans, tekna o.s.frv. Sjá enn fremur 12. gr.
     Þá er fellt niður ákvæði núgildandi laga um lífeyrissjóðsgreiðslur þar sem þau eru úrelt, m.a. vegna breyttra reglna um húsnæðislán. Námsmenn geta eftir sem áður keypt sér lífeyrisréttindi á frjálsum markaði.

Um 4. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 4. gr. laga 72/1982.
     Lítilega er breytt orðalagi í síðustu málsgrein um að framkvæmdastjóri hafi heimild til að ráða starfsfólk. Er það í samræmi við það sem verið hefur í framkvæmd.

Um 5. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 5. gr. laga nr. 72/1982 nema bætt hefur verið inn nokkrum liðum sem eru í 8. gr. reglugerðar nr. 578/1982. Gert er ráð fyrir að dregið verði úr þörf ráðherra til að setja reglugerð um starfsemi sjóðsins. Athygli er vakin á 5. tölul. en þar er stjórninni gert að afgreiða mál á formlegan hátt þannig að tryggt sé að lánþegar sitji við sama borð og fái sambærilega úrlausn mála sinna.

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. er gerð sú breyting að námslán séu ekki greidd út fyrr en eftir að sýnt hefur verið fram á fullnægjandi námsárangur. Þetta veitir stjórn sjóðsins rýmri heimild til þess að binda útborgun lánanna við framvindu náms. Þetta gildir nú um alla námsmenn en hefur hingað til einungis gilt um fyrsta árs nema.
     Ábyrgðarmönnum er fjölgað úr einum í tvo. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn geri sömu kröfur til ábyrgðarmanna og aðrar lánastofnanir.
     Þá er því bætt inn að sjóðurinn geti gert lántakendum að uppfylla tiltekin skilyrði sem eru sambærileg við þau skilyrði sem ábyrgðarmenn þurfa að uppfylla, t.d. að þeir séu ekki í vanskilum við sjóðinn eða gjaldþrota.

     Stjórn sjóðsins er veitt heimild til að innheimta lántökugjöld til að standa undir rekstrarkostnaði og lántökukostnaði líkt og tíðkast hjá öðrum lánastofnunum.
     Ekki er tilgreint í lögunum hversu hátt lántökugjaldið skuli vera en ákvörðun um það falin stjórn sjóðsins. Þó er gert ráð fyrir að það verði töluvert lægra en samkvæmt gjaldskrá bankanna. Í útreikningum þeim, sem fylgja frumvarpi þessu, er gert ráð fyrir að lántökugjaldið nemi 1,2% og sé dregið frá lánsfjárhæð.

Um 7. gr.


    Tekin er upp sú nýbreytni að á hverju nýju skuldabréfi, sem námsmaður gefur út, komi fram heildarskuld hans. Endurgreiðsla fer fram eftir síðasta skuldabréfi sem hann gefur út. Er þá eldra bréf eyðilagt um leið og nýtt er gefið út. Samkvæmt núgildandi lögum undirrita flestir lánþegar LÍN mörg skuldabréf sem falla öll í gjaldaga á sama tíma og væru þau innheimt samtímis yrði um margfalda greiðslubyrði að ræða. Þetta fyrirkomulag er enn fremur mjög óheppilegt þegar innheimta þarf vanskil. Hefur hér vafalaust verið um yfirsjón að ræða hjá löggjafanum þegar lög nr. 72/1982 voru sett því samkvæmt lögunum frá 1976 voru öll skuldabréf, sem námsmaður hafði gefið út meðan á námi stóð, sameinuð ári eftir námslok og fóru endurgreiðslur fram samkvæmt því skuldabréfi. Með frumvarpi þessu er horfið til þess fyrirkomulags sem gilti fyrir 1982, þó með öðru sniði.
     Sú breyting er gerð að endurgreiðslur hefjist ári eftir námslok í stað þriggja ára áður.
     Lánstíminn er skilgreindur sem fjórfaldur eðlilegur námstími og skal hann tilgreindur í skuldabréfi, þó með þeim fyrirvara að námsmaður ljúki því námi sem lánað er til annars endurgreiðist lánið á helmingi styttri tíma. Samkvæmt þessu yrði lánstími í þriggja ára BA-námi 12 ár óháð því í hversu mörg ár hann nýtti sér lánsrétt sinn enda ljúki hann viðkomandi námi. Haldi hann áfram til MA-gráðu eða lengra þá lengist lánstíminn fyrir allt lánið.
     Lánstíminn kann þó í reynd að verða lengri en fjórfaldur námstími vegna ákvæða í 8. gr. um hámark árlegrar endurgreiðslu. Stjórn LÍN ákveður lánstíma og námslok í vafatilvikum.
     Gert er ráð fyrir að námslán ber 3% ársvexti frá námslokum en séu vaxtalaus meðan á námi stendur.
     Heimild til að veita víxillán er felld niður. Hún hefur ekki verið notuð hjá sjóðnum um alllangt skeið og má segja að hún sé úrelt.

Um 8. gr.


    Endurgreiðslufyrirkomulag samkvæmt þessari grein er nokkurs konar sambland jafngreiðslu miðað við fjórfaldan námstíma og tekjutengdra endurgreiðslna eins og í núgildandi lögum.
     Heildarendurgreiðsla á ári ákvarðast af upphæð láns og endurgreiðslutíma skv. 1. mgr. en síðan er sett hámark á árlega endurgreiðslu miðað við ákveðinn hundraðshluta af tekjum. Það sem er umfram hámarkið bætist við höfuðstólinn. Ef skuldin verður ekki upp greidd á fjórföldum námstíma samkvæmt þessu þá verða eftirstöðvar greiddar með ársgreiðslu sem svarar til 8% af útsvarsstofni ársins á undan.
     Fasta greiðslan er ávallt innt af hendi án tillits til tekna eins og í núgildandi lögum. Hún er hins vegar ákveðin með öðrum hætti, þ.e. ákveðinn hundraðshluti af árlegri jafngreiðslu.


     Í greininni er heimild fyrir skuldara að óska eftir því við sjóðinn að hámarkið gildi ekki gagnvart sér. Skal hann gera það skriflega og eru þá endurgreiðslur óháðar tekjum og greiðist því lánið fyrr upp og vaxtagreiðslur verða lægri.
     Skuldara er gert að greiða kostnað við innheimtu hverrar afborgunar líkt og hjá öðrum lánastofnunum.
     Ákvæðin um heimild stjórnar til að veita undanþágu frá afborgunum eru óbreytt.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Nánast samhljóða 10. gr. laga nr. 72/1982.

Um 11. gr.


     Samhljóða 11. gr. laga nr. 72/1982.

Um 12. gr.


     Felld eru niður ákvæðin um námsstyrki en vísað til þess sem sagt er um Vísindasjóð
í athugasemdum við lagafrumvarp þetta. Heimild til aukaláns er óbreytt. Það skal einnig tekið fram að þótt ferðastyrkir falli niður samkvæmt þessri grein þá er stjórninni eftir sem áður heimilt að lána fyrir ferðakostnaði.
     Tekið er upp það nýmæli að stjórninni er veitt heimild til að veita almenn skuldabréfalán á markaðsvöxtum. Ekki eru í lögunum mótaðar reglur um hvernig þessi heimild skuli nýtt en rétt þótti að stjórnin hefði þessa heimild. Stjórnin verður sjálf að móta reglur um notkun hennar. Gera verður strangar kröfur um endurgreiðslugetu og tryggingar.

Um 13. gr.


    Þrengt er ákvæði um að lána erlendum ríkisborgurum öðrum en Norðurlandabúum og í raun sett það skilyrði að lánþegar, aðrir en Norðurlandabúar, séu íslenskir ríkisborgarar nema gagnkvæmir samningar séu fyrir hendi.

Um 14. gr.


    Í greinina er tekið upp það nýmæli að námsmaður tilgreini hvort hann sækir um allt það lán sem hann á rétt á eða einungis hluta þess. Hann getur því tekið hlutalán sem ekki er kleift í núgildandi kerfi. Að öðru leyti er greinin samhljóða 14. gr. laga nr. 72/1982.

Um 15. gr.


    Greinin er samhljóða 15. gr. laga nr. 72/1982. Ákvæði um greiðslu rekstrarkostnaðar sjóðsins er sett í þessa grein en var áður í 5. gr. núgildandi laga.

Um 16. gr.


    Í greininni er ráðherra heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna en honum er það ekki skylt eins og í núgildandi lögum. Talið er nægilegt að stjórn sjóðsins setji sér starfsreglur sem ráðherra samþykkir.
     Ákvæðinu um heimild til að innheimta félagsgjöld hagsmunasamtaka er lítilega breytt. Gert er ráð fyrir að stjórn sjóðins geti tekið slíka ákvörðun en ekki þurfi reglugerðarákvæði. Enn fremur er það gert að skilyrði að námsmaður óski eftir að greiða viðkomandi félagsgjöld.

Um 17. gr.


    Nú eru ekki greidd stimpilgjöld af skuldabréfum vegna námslána en fyrir því er engin lagastoð. Fjármálaráðuneytið hefur bent stjórn sjóðsins á það að þessi framkvæmd sé ekki ótvíræð. Því er nauðsynlegt að það séu tekin af öll tvímæli um það að skuldabréf vegna námslána séu undanþegin stimpilgjöldum.

Um 18. gr.


    Námsmaður getur valið hvernig hann vill endurgreiða skuld samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum. Annars vegar getur hann greitt þá skuld algerleg óháð og til viðbótar skuld samkvæmt þessum lögum. Hins vegar getur hann sameinað eldri skuld lánum samkvæmt þessum lögum og endurgreitt samkvæmt því. Þó greiðir hann aldrei vexti af eldra láninu. Þetta þýðir að námsmaður þarf að velja um það hvort hann greiðir af lánunum óháð hvort öðru eða endurgreiði eldra lán samkvæmt endurgreiðslureglum þessara laga. Í hvorugu tilfellinu greiðir hann vexti af eldra láninu.

Um 19. gr.


    Gert er ráð fyrir að lög þessi taki þegar gildi og komi til framkvæmda við úthlutun námslána fyrir skólaárið 1992–1993.

    Með frumvarpi þessu fylgja eftirfarandi fylgiskjöl:
    Yfirlit um töluleg áhrif helstu breytinga frumvarpsins.
    Yfirlit yfir námslánakerfi á Norðurlöndum í samanburði við Ísland.
    Útreikningar á greiðslubyrði nokkurra hópa.
    Sérálit fulltrúa samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna í nefnd um endurskoðun laga um LÍN.
    Útreikningar á áhrifum tillagna námsmanna á sjóðstreymi LÍN með og án 3% vaxta.
    Sérálit fulltrúa Vöku í nefnd um endurskoðun laga um LÍN.


Fylgiskjal I.



Repró

Fylgiskjal II.

Námsaðstoð á Norðurlöndum.




Repró


Fylgiskjal III.



Repró

Fylgiskjal IV.

SÉRÁLIT


fulltrúa samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna í nefnd um


endurskoðun laga um LÍN.




Repró

Fylgiskjal V.


Repró

Fylgiskjal VI.

Nefnd um endurskoðun laga Lánasjóðs íslenskra námsmanna:

SÉRÁLIT




Repró