Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 167 . mál.


285. Nefndarálit



um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Við upphaf umfjöllunar um þetta frumvarp, sem felur í sér breytingu á allmörgum lögum sem eru á forræði ýmissa ráðuneyta, var ákveðið að vísa einstökum hlutum þess til umsagnar annarra fastanefnda þingsins ef þeir vörðuðu málefnasvið þeirra. Óskað var umsagnar menntamálanefndar um 1.–3. gr. frumvarpsins, landbúnaðarnefndar um 4. gr., sjávarútvegsnefndar um 5. gr., allsherjarnefndar um 6.–8. gr., félagsmálanefndar um 9.–14. gr., heilbrigðis- og trygginganefndar um 15.–22. gr. og iðnaðarnefndar um 24. gr. frumvarpsins. Einnig var óskað umsagnar samgöngunefndar um tillögur, er síðar komu fram, um breytingar á ákvæðum hafnalaga og laga um fjáröflun til vegagerðar. Þær umsagnir, sem efnahags- og viðskiptanefnd bárust, eru birtar sem fylgiskjöl með þessu nefndaráliti. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur tekið upp í sínar breytingartillögur þær tillögur sem allsherjarnefnd og heilbrigðis- og trygginganefnd lögðu til við nefndina að gerðar yrðu á frumvarpinu.
    Á fund efnahags- og viðskiptanefndar komu Indriði H. Þorláksson og Snorri Olsen frá fjármálaráðuneytinu, Ásmundur Stefánsson og Lára V. Júlíusdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Þórarinn V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þórður Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Gunnar Ottósson frá umhverfisráðuneytinu, Arnór Sigfússon frá embætti veiðistjóra, Svend Richter, Jón Ásgeir Sigurðsson og Börkur Thoroddsen frá Tannlæknafélagi Íslands, Hannes Valdimarsson frá Hafnasambandi sveitarfélaga, Ari Edwald frá dómsmálaráðuneytinu, Helgi Hallgrímsson frá Vegagerð ríkisins, Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri og Haukur Halldórsson frá Stéttarsambandi bænda.
    Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir eftirfarandi tillögur til breytinga á frumvarpinu:
    Felldir eru niður tveir stafliðir í 1. gr. frumvarpsins. Þeir varða annars vegar grunnskólaráð og hins vegar ráðingu aðstoðarskólastjóra. Ákvæðum laganna að því er þessi tvö atriði varðar verður því ekki frestað.
    Síðasti málsliður 2. gr. fellur brott þar sem ákvæðið er óþarft.
    Ákvæði 6.–8. gr., um breytingu á kosningalögum, falli brott þar sem allsherjarnefnd telur ekki brýnt að lögfesta þessi ákvæði nú en lýsir sig reiðubúna til að athuga málið í tengslum við endurskoðun á kosningalögum.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein sem heimilar félagsmálaráðherra að ákveða með reglugerð hvaða vinnulaunakröfur og hversu háar njóti ábyrgðar hins nýja ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota sem gerð er tillaga um í 9. og 10. gr. frv. Í 2. mgr. hinnar nýju greinar, er verður 8. gr., eru sett meginefnisatriði reglugerðar að því er varðar lágmarksrétt launþega við gjaldþrot. Í 3. mgr. greinarinnar eru ákvæði um hvernig bregðast eigi við ef sjóðinn skortir fé til að standa við skuldbindingar sínar. Ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota er ætlað að leysa af hólmi beina ríkisábyrgð á launum frá og með 1. mars 1992. Í 13. tölul. breytingartillagnanna á þskj. 286 er ákvæði um gildistöku þessarar nýju greinar, en þá falla jafnframt úr gildi 1.–4. gr. laga nr. 88/1990, um ríkisábyrgð á launum. Er ákvæðum 9. og 10. gr. frumvarpsins, ásamt greininni sem gerð er tillaga um í 4. tölul. breytingartillagnanna, ætlað að koma í stað þessara greina. 5.–15. gr. laga nr. 88/1990, um ríkisábyrgð á launum, munu standa að efni óbreyttar, en frá 1. mars 1992 kemur ábyrgðasjóður í stað ríkissjóðs þar sem við á í lögunum. Í b-lið 13. tölul. breytingartillagna meiri hluta nefndarinnar er lagt til að þessi umræddu ákvæði verði gefin út að nýju sem samfelld lög með fyrirsögninni: Lög um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Er með þessum breytingartillögum verið að skilgreina umfang ábyrgðasjóðs og þá ábyrgð sem honum er ætlað að veita.
    Samkvæmt tillögum heilbrigðis- og trygginganefndar er lagt til að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra geti ákveðið að gjald, sem sjúklingar greiða fyrir almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa, við komu til sérfræðings, vegna lyfjakostnaðar og röntgengreiningar, skuli vera hlutfallsgjald. Einnig það nýmæli að tiltaka megi hámark þess gjalds sem sjúklingi ber að greiða. Hámarkið getur hvort sem er tekið til einstakra læknisverka eða lyfjaafgreiðslna eða til heildargreiðslna yfir tiltekið tímabil. Er heimildin sameinuð í breytingartillögunni, en í frumvarpinu er kveðið á um hana varðandi hvern einstakan þátt.
    Lagt er til að 17. gr. verði breytt til samræmis við tillögu heilbrigðis- og trygginganefndar. Sjúkratryggingar munu samkvæmt tillögunni að fullu greiða skoðun og fyrirbyggjandi tannlækningar barna og unglinga, en greiða 85% í öðrum almennum tannlækningum þessa hóps. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er ætlað að setja gjaldskrá fyrir skólatannlækningar sem miðuð verði við raunverulegan kostnað við þær. Lögð er til efnisbreyting á því ákvæði frumvarpsins að ekki skuli greiddur tannlæknakostnaður barna og unglinga hjá öðrum en skólatannlæknum þegar slík þjónusta (eða tannlækningar samkvæmt útboði) stendur til boða. Þetta ákvæði á samkvæmt breytingartillögunni einungis við skoðun og fyrirbyggjandi aðgerðir (enda hafi ekki verið um annað samið). Aftur á móti er nú annar almennur tannlæknakostnaður endurgreiddur enda þótt leitað sé til annarra tannlækna en skólatannlækna. Í þeim tilvikum skal þó einungis endurgreitt samkvæmt ámóta gjaldskrá og gildir um skólatannlækningar. Þar sem þær standa ekki til boða miðast endurgreiðsla þó alltaf við raunkostnað.
    Samkvæmt tillögu heilbrigðis- og trygginganefndar er lagt til að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi samráð við þær stofnanir sem hlut eiga að máli þegar ákveðin eru daggjöld sjúkrahúsa sem ekki eru á föstum fjárlögum.
    Vegna þeirra breytinga, sem lagt er til að verði á 17. gr. frumvarpsins, á 2. efnismálsl. 19. gr. þess ekki lengur við og því er lagt til að hann falli brott.
    Samkvæmt 9. tölul. breytingartillaganna er lagt til að tekið verði svokallað sérstakt vörugjald og skal það renna í sérstaka deild við Hafnabótasjóð. Skal gjaldið vera sem svarar 25% álagi á vörugjöld, önnur en aflagjald. Þessu fé á að verja til að standa straum af framkvæmdum við almennar hafnargerðir.
    Lagt er til að nýrri grein verði bætt við lög nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka. Samkvæmt greininni þurfa sveitarfélögin að senda sundurliðað reiknisyfirlit um kostnað við veiðar fyrir septemberlok sama ár og veiðarnar fara fram. Eins og nú háttar er sveitarfélögunum gert að skila skýrslum og reikningum um veiðarnar fyrir lok janúar ár hvert vegna veiða næsta árs á undan. Eftir þá breytingu á 13. gr. laga um eyðingu refa og minka, sem hér er lögð til, verður ljóst í upphafi árs hvaða fjármunir eru til ráðstöfunar í endurgreiðslu á hlut ríkissjóðs í kostnaði við minkaveiðar, grenjaleit og grenjavinnslu. Endurgreiðsla á að berast sveitarfélögum sama ár og veiðarnar fara fram. Veiðistjóra er ætlað að úrskurða reikninga í stað sýslumanna, en gera má ráð fyrir að hann sé betur í stakk búinn en sýslumenn til að meta reikningana heildstætt. Kostnaðarhlutur ríkissjóðs lækkar úr þremur fjórðu hlutum í helming af kostnaði við veiðarnar. Jafnframt er gert ráð fyrir að skipulagi veiðanna verði breytt þannig að þær verði markvissari og kostnaðarminni fyrir sveitarfélögin. Þó er ljóst að þessi breyting á hlut ríkissjóðs í kostnaði við refa- og minkaveiðar mun hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þau sveitarfélög þar sem ekki verður breyting á skipulagi veiðanna. Þessi aukakostnaður er áætlaður um 4 milljónir króna samanlagður og mun líklega leggjast á um 30 sveitarfélög. Þótt greiðsla berist fyrr en áður þykir rétt að ríkissjóður greiði hærra hlutfall af kostnaði við veiðarnar í þessum tilfellum, sbr. síðasta málslið greinarinnar.
    Í 44. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lögbundið framlag ríkissjóðs til skipulagsmála verði með öllu skert en hér er lagt til að framlagið verði 4.500 þús. kr.
    Gerð er tillaga um að þrjár nýjar greinar bætist við II. kafla frumvarpsins.
         
    
    Lagt er til að 265 m.kr. af innheimtuðum mörkuðum tekjum, sbr. 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, renni í ríkissjóð á næsta ári en verði ekki varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun.
         
    
    Tjón af völdum refa og minka er mismikið eftir svæðum. Því er talið heppilegra að draga úr útgjöldum til þessa viðfangsefnis með því að heimila umhverfisráðherra, í samráði við veiðistjóra, að taka ekki þátt í kostnaði við eyðingu þeirra á svæðum þar sem þeir valda minnstum usla fremur en að lækka hlutfall endurgreiðslu umfram það sem gert er ráð fyrir í næstsíðasta málslið nýrrar greinar í frumvarpi þessu (verður 24. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 52/1957). Meðal þeirra svæða, þar sem til greina kemur að hætta grenjaleit, eru miðhálendið, þjóðgarðar og friðlönd. Rétt þykir að létta af sveitarstjórnum og stjórnum upprekstrarfélaga kvöð um grenja- og minkaleitir á þeim svæðum þar sem ríkissjóður tekur ekki þátt í kostnaði við veiðarnar.
         
    
    Gerð er tillaga um að sveitarfélög greiði hluta kostnaðar við löggæslu á árinu 1992 þannig að sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiði 2.850 kr. á hvern íbúa en minni sveitarfélög greiði 1.700 kr. á hvern íbúa.
    Gerð er grein fyrir þessum breytingartillögum þar sem fjallað er um 4. lið þeirra hér að framan.
    Að tillögu heilbrigðis- og trygginganefndar er lagt til að c-, d-, og e-liðir 1. tölul. 17. gr. frumvarpsins (skólatannlækningar) taki ekki gildi fyrr en 1. mars 1992. Ráðherra er þó heimilt að fresta gildistökunni til 1. september 1992.
    Tillagan varðar skil eldri laga og yngri um meðferð krafna sem til álita koma gagnvart ábyrgð á launum vegna gjaldþrots.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Ingi Björn Albertsson undirritar nefndarálitið með fyrirvara.

Alþingi, 17. des. 1991.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Sólveig Pétursdóttir.

Vilhjálmur Egilsson.


varaform., frsm.



Ingi Björn Albertsson,

Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Fylgiskjal I.


13. desember 1991.

Hr. Matthías Bjarnason,
formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

    Með vísan til bréfs efnahags- og viðskiptanefndar 9. desember sl. hefur heilbrigðis- og trygginganefnd fjallað um þau ákvæði sem varða málefnasvið hennar í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, 167. mál. Þau ákvæði, sem um er að ræða, eru 15.–22. gr. frumvarpsins. Nefndin hefur einnig rætt við fjölda aðila um málið.     Niðurstaða nefndarinnar er sú að æskilegt sé að fluttar verði breytingartillögur við nokkrar greinar frumvarpsins. Nefndin er sammála um eftirfarandi tillögur, en jafnframt áskilja einstakir nefndarmenn sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma eftir meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd.
    Þær breytingar, sem nefndin leggur til við efnahags- og viðskiptanefnd að gerðar verði á frumvarpinu, eru:
    Við a-lið 16. gr. Orðin „Heimilt er að ákveða með reglugerð að gjaldið skuli vera hlutfallsgjald“ falli niður.
        Við b-lið 16. gr. Orðin „og er heimilt að hafa gjaldið hlutfallsgjald“ falli niður.
        Við c-lið 16. gr. Orðin „og er heimilt að hafa gjaldið hlutfallsgjald“ falli niður.
        Við d-lið 16. gr. Á eftir 1. málsl. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er með reglugerð heimilt að ákveða að gjald skv. a-, b-, c- og d-liðum skuli vera hlutfallsgjald og tiltaka hámark þess gjalds sem sjúklingi ber að greiða.
    1. og 2. tölul. 17. gr. orðist svo:
    1.    Um þátttöku í kostnaði við tannlækningar barna og unglinga 15 ára og yngri aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð fer eftir því sem hér segir:
         
    
    Sjúkratryggingar greiða að fullu skoðun og fyrirbyggjandi tannlækningar, svo sem tannfræðslu, tannhreinsun, flúorverndun tanna og skorufyllingar.
         
    
    Fyrir aðrar tannlækningar en þær sem tilgreindar eru í a-lið greiða sjúkratryggingar 85% kostnaðar.
         
    
    Ráðherra skal setja gjaldskrá fyrir skólatannlækningar. Skal gjaldskráin miðuð við raunverulegan kostnað vegna þeirra. Með skólatannlækningum er hér jafnt átt við tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera eða samkvæmt úboði.
         
    
    Þegar skólatannlækningar standa til boða skal ekki greiða fyrir tannlækningar skv. a-lið sé leitað til annarra tannlækna en skólatannlækna, nema um annað hafi verið samið. Í sömu tilvikum fer um hlutdeild sjúkratrygginga skv. b-lið eftir gjaldskrá sem ráðherra setur með hliðsjón af gjaldskrá fyrir skólatannlækningar eða raunverulegum kostnaði sé hann lægri.
         
    
    Sé þjónusta skólatannlækna ekki fyrir hendi fer um greiðslur sjúkratrygginga samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur og tekur mið af raunverulegum kostnaði.
    2.    Fyrir 16 ára unglinga skal greiða 50% kostnaðar í samræmi við ákvæði 1. tölul.
    Í c-lið 18. gr. komi á eftir „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ orðin: að höfðu samráði við viðkomandi stofnanir.
    Við 19. gr. 2. málsl. fellur niður.
    Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýtt ákvæði, sem verður I., og hljóðar svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði 45. gr. laga þessara öðlast c-, d- og e-liðir 1. tölul. 17. gr. gildi 1. mars 1992. Fram til 1. mars 1992 skal hlutdeild sjúkratrygginga miðast við gildandi gjaldskrá tannlækna. Ráðherra er þó heimilt að fresta gildistöku c-, d- og e-liða 17. gr. fram til 1. september 1992.
    Í ákvæði til bráðabrigða II., sem verði III., komi í stað „I.“: II.

F.h. heilbrigðis- og trygginganefndar,



Sigbjörn Gunnarsson


formaður.




Fylgiskjal II.


11. desember 1991.


Til efnahags- og viðskiptanefndar.

    Með vísan til bréfs efnahags- og viðskiptanefndar 9. desember sl. hefur sjávarútvegsnefnd fjallað um það ákvæði sem varðar málefnasvið hennar í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, 167. mál. Ákvæði það, sem um er að ræða, er 5. gr. frumvarpsins, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990.
    Meiri hluti nefndarinnar, sem skipaður er Matthíasi Bjarnasyni, Össuri Skarphéðinssyni, Guðmundi Hallvarðssyni og Árna R. Árnasyni, gerir ekki athugasemdir við ákvæðið. Minni hlutinn, sem skipaður er Steingrími J. Sigfússyni, Jóhanni Ársælssyni og Stefáni Guðmundssyni, er andvígur ákvæðinu. Anna Ólafsdóttir Björnsson, sem sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi, er andvíg ákvæði frumvarpsins. Vilhjálmur Egilsson og Halldór Ásgrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

F.h. sjávarútvegsnefndar,



Matthías Bjarnason


formaður.




Fylgiskjal III.
16. desember 1991.

Frú Rannveig Guðmundsdóttir,
varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

    Samgöngunefnd tók til athugunar 4. tölul. og a-lið 7. tölul. breytingartillagna meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sbr. bréf yðar dags. í dag, og hélt tvo fundi um málið þrátt fyrir að skammur tími væri gefinn til umfjöllunar. Á fund nefndarinnar komu Ólafur S. Valdimarsson, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri.
    Meiri hluti nefndarinnar, sem í eiga sæti auk undirritaðs, Árni Johnsen, Sigbjörn Gunnarsson, Sigríður Anna Þórðardóttir (fyrir Pálma Jónsson) og Árni R. Árnason (fyrir Sturlu Böðvarsson), gerir ekki athugasemdir við framkomnar tillögur.
    Minni hluti nefndarinnar, sem í eiga sæti Stefán Guðmundsson, Jóhann Ársælsson, Guðni Ágústsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, skila sérstakri umsögn.

F.h. meiri hluta samgöngunefndar,



Árni M. Mathiesen,


formaður.




Fylgiskjal IV.

10. desember 1991.

Hr. Matthías Bjarnason,
formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

    Menntamálanefnd hefur fjallað um þau ákvæði sem varða málefnasvið hennar í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, 167. mál, sbr. tilmæli efnahags- og viðskiptanefndar í bréfi dags. 9. des. 1991. Þau ákvæði, er hér um ræðir, eru 1.–3. gr. frumvarpsins og fela í sér breytingar á ákvæðum laga nr. 49/1991, um grunnskóla.
    Nefndin hélt tvo fundi um málið og fékk á sinn fund Örlyg Geirsson, Sólrúnu Jensdóttur og Ólaf Darra Andrason frá menntamálaráðuneytinu og Svanhildi Kaaber og Birnu Sigurjónsdóttur frá Kennarasambandi Íslands. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hluti nefndarinnar, sem skipaður er Rannveigu Guðmundsdóttur, Árna Johnsen, Árna Mathiesen, Birni Bjarnasyni og Tómasi Inga Olrich, gerir ekki athugasemdir við ákvæði frumvarpsins.

F.h. meiri hluta menntamálanefndar,



Rannveig Guðmundsdóttir,


varaformaður.




Fylgiskjal V.


Umsögn landbúnaðarnefndar


um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.


(12. desember 1991.)


    Að ósk efnahags- og viðskiptanefndar hefur landbúnaðarnefnd fjallað um frumvarp til laga umráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 að því er tekur til landbúnaðar.
    Nefndin kynnti sér efni 31., 32., 33. og 34. gr. frumvarpsins. En þar sem nefndin fékk þau skilaboð að ekki væri leitað eftir tillögum varðandi II. kafla frumvarpsins tók hún ekki afstöðu til þeirra greina.
    Við umfjöllun nefndarinnar um 4. gr. frumvarpsins, er varðar jarðræktarlög, náðist ekki samstaða um sameiginlega afstöðu. Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar er eftirfarandi:
    Vísað er til kafla úr áliti nefndarinnar til fjárlaganefndar Alþingis, fskj. 1., og umsagnar Búnaðarfélags Íslands um framkvæmd jarðræktarlaga, fskj. 2., en þar koma fram mikilvægar skýringar um stöðu þessara mála. Nefndin vekur athygli á að skv. 4. gr. frumvarpsins, ef að lögum verður, er tekinn upp sami háttur og árið 1988 þegar greiðslur ríkissjóðs vegna jarðræktarframlaga voru bundnar fjárveitingu á fjárlögum.
    Vakin er athygli á að sú breyting, sem gerð var á jarðræktarlögum árið 1989, tók einkum mið af þeim vanda sem leiddi af vanskilum ríkissjóðs við bændur og um þá afgreiðslu náðist víðtækt samkomulag þegar málið var til umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi og þá þess vænst að friður yrði um þessi mál.
    Eins og fram kemur í fskj. 2 hefur orðið mikill samdráttur í jarðræktarframlögum á síðustu árum. Árið 1984 voru þessi framlög (verðl. 1991) 506 millj. kr. Síðan hafa þau lækkað ár frá ári niður í 94,8 millj. kr. árið 1991. Þannig hafa bændur landsins mætt aðstæðum breyttra tíma með stórfelldum sparnaði. Samt á nú að höggva öðru sinni í sama knérunn.
    Það er ríkt í fari menningarþjóða að vernda lendur sínar og bæta ræktunarlönd. Við erfiðari náttúrufarsleg skilyrði verður þessi þörf enn brýnni.
    Ákvæði 4. gr. frumvarpsins eru andstæð þessum markmiðum og ganga gegn því samkomulagi sem gert var við bændur landsins við breytingu jarðræktarlaga árið 1989. Eins og reynslan sýnir þarf að endurskoða jarðræktarlögin öðru hvoru að kröfu breyttra tíma. Slík endurskoðun þarf vandaðan undirbúning og samráð við bændur landsins. Hér skortir á að svo sé. Þess vegna leggur meiri hluti nefndarinnar, sem skipaður er Agli Jónsyni, Kristínu Ástgeirsdóttur, Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, Guðna Ágústssyni og Sigurði Hlöðvessyni, til að 4. gr. frumvarpsins um ráðstafanir í ríkisfjármálum verði ekki lögfest. Aðrir nefndarmenn, Geir H. Haarde, Árni Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson og Sigbjörn Gunnarsson, leggja til að 4. gr. verði óbreytt.

Egill Jónsson,


formaður

.

Fskj. 1.

KAFLI ÚR ÁLITI LANDBÚNAÐARNEFNDAR TIL FJÁRLAGANEFNDAR


Jarðræktarlög og búfjárræktarlög, liður 04-288.


    Að lokinni allvíðtækri umfjöllun um jarðræktarlög árið 1989 varð samkomulag við bændur um þá niðurstöðu sem leiddi til núgildandi jarðræktarlaga. Aðalatriði samkomulagsins er að framlög eru ekki háð ákvörðun fjárlaga hverju sinni, að framlög vegna ræktunar og skurðgraftar eru bundin við ákveðið hámark en aðrar framkvæmdir eru háðar samþykki landbúnaðarráðherra. Framlög til einstakra verkefna voru lækkuð og sum felld niður. Í framhaldi af þessu samkomulagi voru ógreidd framlög fyrri ára gerð upp. Þetta er ljóst af þeim málsskjölum sem fyrir liggja og ræðum þeirra alþingismanna sem að málinu unnu. Svo sem kunnugt er greinir Ríkisendurskoðun og ríkislögmann á um túlkun jarðræktarlaga.
    Búnaðarfélag Íslands hefur farið þess á leit að bændur stilli ræktunarframkvæmdum sem mest í hóf þar til greiðslur þeirra skuldabréfa sem ríkissjóður gaf út vegna uppgjörs jarðræktarframlaga samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi lýkur árið 1993.
    Ógreidd jarðræktarframlög frá síðasta ári nema 49.702 þús. kr. og framkvæmt hefur verið á þessu ári fyrir 74.421 þús. kr. Áfallin greiðsluskuldbinding er þannig 124.123 þús. kr. Til greiðslu eru eftirstöðvar af fjárveitingu samkvæmt fjárlögum 1991 að upphæð 41.295 þús. kr. og fjárveiting samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga að upphæð 35.000 þús. kr. eða 76.295 þús. kr. alls. Eftir standa því 47.828 þús. kr. Með fjárveitingu samkvæmt fjárlagafrumvarpi verður unnt að greiða áfallnar skuldbindingar þessa árs. Það má því segja að jarðræktarlögin búi við svipað ástand og var fyrir einu ári því ekkert fjármagn er fyrir hendi til greiðslu jarðræktarframkvæmda árið 1992.
    Hafa ber í huga að skuldbindingum ríkissjóðs vegna útgefinna skuldabréfa til uppgjörs jarðræktarframlaga lýkur árið 1993. Það auðveldar að koma þessum málum í það horf sem samkomulag varð um við bændur landsins árið 1989.


Fskj. 2.

Greinargerð um jarðræktarlög og framkvæmd þeirra.


    Jarðræktarlög voru fyrst sett árið 1923. Það er almennt viðurkennt að þau leiddu til byltingar í landbúnaði hér á landi. Eftir setningu þeirra hófst hér sú ræktunaralda sem á næstu þremur áratugum færði landbúnaðinn frá fleytingsbúskap yfir til þess að verða tæknivæddur ræktunarbúskapur.
    Jarðræktarlögum hefur margoft verið breytt og þau löguð að ríkjandi aðstæðum. Á árunum 1979–1986 voru í gildi skerðingarákvæði þar sem framlög til ákveðinna framkvæmda voru skert um 50% en því fé, sem með því sparaðist, var veitt í Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Nokkurn veginn var staðið við þau framlög sem lögbundin voru á þessum árum og nutu þá nokkur nýmæli í búskap framlaga fyrir vikið.
    Gagnger endurskoðun fór fram á jarðræktarlögum 1987 (lög nr. 56/1987). Hvort tveggja var að nokkur nýmæli voru tekin upp, svo sem framlög til loðdýrabygginga, til skjólbelta, til gróðurhúsa og garðávaxtageymslna og að takmarkanir voru settar á önnur framlög, svo sem til framræslu og grænfóðursræktar.
    Nýmæli var í þessum lögum að ráðherra gat ákveðið að sótt skyldi um framlög til ákveðinna hluta. Því var beitt hvað allar byggingar varðaði, svo og um framræslu sem lengi hafði aðeins farið fram eftir pöntunum.
    Lögin leiddu til verulegs sparnaðar fyrir ríkið, sjá meðfylgjandi tölur um framlög greidd 1987, 1988 og síðan, en þessi ár voru framlög greidd ári síðar en framkvæmdir voru unnar.
    Í lánsfjárlögum fyrir árið 1988 (lög nr. 5 frá 14. jan. 1988, 23. gr.) var svo sett inn ákvæði svohljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. laga nr. 56/1987, jarðræktarlaga, skal greiðsla ríkissjóðs á framlagi til jarðabóta vegna framkvæmda á árinu 1987 ekki fara fram úr 141.000 þús. kr. á árinu 1988 en lokagreiðsla komi árið 1989.“
    Vegna framkvæmda, sem unnar voru 1987, hefði átt að greiða 217 millj. kr. árið 1988 en greiddar voru 142,5, sjá töflu.
    Samsvarandi ákvæði var sett í lánsfjárlög fyrir árið 1989. Þar stóð að framlag úr ríkissjóði til jarðabóta skyldi ekki „fara fram úr 100.000 þús. kr. á árinu 1989. Þó er fjármálaráðherra heimilt, að höfðu samráði við landbúnaðarráðherra og fjárveitinganefnd Alþingis, að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988.“
    Jarðræktarlögin voru svo enn endurskoðuð árið 1989 (lög nr. 65 frá 1989). Þá urðu allviðamiklar breytingar á þeim en sú mest að öll framlög eru nú háð því skilyrði að sótt hafi verið um að fá framlög árið áður en framkvæmd er fyrirhuguð. Umsóknarfrestur er nú til 15. sept. það ár.
    BÍ hefur því getað gert fjárveitingavaldinu grein fyrir samanlögðum óskum bænda um framlög tímanlega fyrir frágang fjárlaga.
    Í öðru lagi var sú breyting gerð að framlög skulu nú greiðast á sama hátt og framkvæmdir eru unnar, þ.e. fyrir 1. nóv., hafi úttekt þá borist en taka verðbætur mánaðarlega í samræmi við hækkanir jarðræktarvísitölu ef greiðsla dregst.
    Þá voru felld niður framlög til ákveðinna framkvæmda og hámark sett á heildarframlag til endurræktunar túna og skal hún nema 2000 ha (sé um það magn sótt) og til viðhalds framræslu sem er 2 millj. m 3 og 500 km plógræsi.
    Þá voru öll framlög lækkuð að krónutölu eða sem hlutfall af framkvæmdakostnaði, sbr. framræslu og vatnsveitur, sem svaraði áætluðum hagnaði bænda af því að nú áttu þeir að fá framlögin greidd verulega fyrr en áður, sbr. gjald 1. nóv.
    Árið 1990 var fyrsta árið sem þessi lög komu til fullra framkvæmda. Haustið 1989 var safnað pöntunum í allar framkvæmdir. Alls bárust pantanir um framkvæmdir sem hefðu kostað 206 milljónir í framlögum (sótt var um 4.500 ha endurræktun og 2,6 millj. m 3 skurðhreinsun). Umsóknir innan stærðarmarka svöruðu til 160 millj. kr. framlaga. Fjárveiting ársins nam aðeins 50 millj. kr.
    Saga ársins 1991 er hliðstæð þessu. 50 millj. kr. eru á fjárlögum. Sú fjárveiting fór því sem næst til að greiða skuldbindingar frá árinu 1990.
    Af aukafjárveitingu í ár upp á 42,5 millj. kr. fóru 7,5 millj. kr. til að greiða hækkanir sem urðu á skuldabréfum er komu til greiðslu 1. ágúst sl. umfram það sem áætlað var.
    Því eru nú til ráðstöfunar 35 millj. kr. Úttektir, sem bárust fyrir 15. nóvember, nema um 95 millj. kr. Af þeim eru nokkrar sem ekki fullnægja öllum formsatriðum en ljóst er að til viðbótar 35 milljónunum þarf alla þá fjárveitingu sem fyrirhuguð er á næsta ári, 50 millj. kr., til að greiða út á framkvæmdir 1991.
    Er þá komið í það far sem áður var að ekki verður hægt að greiða framlögin fyrr en árið eftir framkvæmdir.
     Skuldabréf. Sá greiðsluhali, sem myndast hafði vegna framkvæmda áranna 1988 og 1989, var „gerður upp“ með útgáfu skuldabréfa. Skuldabréf vegna framkvæmda frá árinu 1988 voru send til bænda á miðju ári 1990. Þau skyldu taka hækkunum samkvæmt lánskjaravísitölu frá 1. ágúst 1989. Nafnverð þeirra var 96,3 millj. kr. Þau hafa nú verið greidd og námu á gjalddaga 118,9 millj. kr.
    Skuldabréf vegna framlaga, sem greiðast áttu 1990 (framkvæmdir 1989), voru gefin út síðari hluta árs 1990. Þau miðast við verðlag (lánskjaravísitölu) 1. ágúst 1990 og eru með gjalddaga 1. ágúst 1992 og 1. ágúst 1993. Samanlögð upphæð þessara bréfa er 104,5 millj. kr. Skuldabréfin bera ekki vexti.

Jónas Jónsson.

Ríkisframlög til jarðabóta samkvæmt jarðræktarlögum árin 1984–1990.


(Í milljónum króna.)



Ár

Á verðlagi

Á verðlagi


hvers árs

1991



1984          
145,0
506,0
1985          
169,5
440,6
1986          
162,5
346,2
1987          
217,5
387,1
1988          
164,0
241,1
1989          
126,1
150,0
1990          
90,3
94,8




REPRÓ







Framlög samkvæmt jarðræktarlögum árin 1984–1991.



Repró



Fylgiskjal VI.

                                                 
10. desember 1991.


Hr. Matthías Bjarnason,
formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

    Með vísan til bréfs efnahags- og viðskiptanefndar þann 9. des. sl. hefur iðnaðarnefnd fjallað um það ákvæði sem varðar málefnasvið hennar í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992, 167. mál. Ákvæði það, sem um er að ræða, er 24. gr. frumvarpsins.
    Meiri hluti nefndarinnar, sem skipaður er Össuri Skarphéðinssyni, Tómasi Inga Olrich, Guðjóni Guðmundssyni, Birni Bjarnasyni og Árna R. Árnasyni, gerir ekki athugasemdir við ákvæðið.

F.h. meiri hluta nefndarinnar,



Össur Skarphéðinsson,


formaður.




Fylgiskjal VII.
10. desember 1991.

Hr. Matthías Bjarnason,
formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

    Með vísan til bréfs efnahags- og viðskiptanefndar 9. desember sl. hefur allsherjarnefnd fjallað um þau ákvæði sem varða málefnasvið hennar í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, 167. mál. Ákvæðin, sem um er að ræða, eru 6.–8. gr. frumvarpsins og fela þau í sér breytingar á ákvæðum laga um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, í þá átt að draga úr auglýsingakostnaði ríkisins við alþingiskosningar.
    Nefndin telur í sjálfu sér ekki brýnt að lögfesta þessi ákvæði nú og heppilegra væri að skoða málið í stærra samhengi. Lýsir nefndin sig reiðubúna til þess að athuga málið í tengslum við endurskoðun á kosningalögum.

Sólveig Pétursdóttir,


formaður.




Fylgiskjal VIII.


Umsögn minni hluta menntamálanefndar um I. kafla frumvarps til laga


um ráðstafanir í ríkisfjármálum, 167. mál.


    Efnahags- og viðskiptanefnd sendi frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 til umsagnar menntamálanefndar sem hélt tvo fundi um málið. Á fundi nefndarinnar komu Örlygur Geirsson, Sólrún Jensdóttir og Ólafur Darri Andrason frá menntamálaráðuneytinu og Svanhildur Kaaber og Birna Sigurjónsdóttir frá Kennarasambandi Íslands. Samstaða varð ekki um málið í nefndinni og skilar minni hluti nefndarinnar sérstakri umsögn.
    Með I. kafla frumvarpsins er verið að breyta grunnskólalögum í ýmsum grundvallaratriðum í skjóli ráðstafana í ríkisfjármálum. Þetta er gert án þess að breytingarnar feli í sér verulegan sparnað umfram þær heimildir sem ráðherra hefur til að fresta endurbótum. Önnur ákvæði, sem lagt er til að fresta eða afnema, snerta aðra en ríkið fjárhagslega. Margar breytingartillagnanna eiga því ekki heima í lögum um sparnað í ríkisrekstri.
    Fjármálaráðuneyti telur að sparnaður, sem leiddi af breytingum á grunnskólalögum, geti á næsta ári í mesta lagi numið 40 milljónum króna og 100 milljónum króna á árinu 1993. Heildarútgjöld til grunnskóla á næsta ári eru talin verða um 5.400 milljónir þannig að sparnaðurinn á árinu 1992 er langt innan við 1%. Fulltrúar menntamálaráðuneytis, sem komu á fund nefndarinnar, töldu raunar að sparnaðaráhrifin umfram það sem væri á færi ráðuneytisins að ákvarða væru minni eða aðeins um 20 m.kr., þ.e. vegna frestunar á fækkun nemenda í 1. og 3. bekk. Hugsanlegur kostnaður umfram 40 m.kr. varði heimildir (aðstoðarskólastjórar) eða ákvæði sem ósamið væri um (varsla kennara í tengslum við skólamáltíðir).
    Við 1. umr. um málið greindi menntamálaráðherra frá því að hann fyrirhugi að leggja fram frumvarp á yfirstandandi þingi um breytingar á grunnskólalögum.
    Minni hluti menntamálanefndar telur engin frambærileg rök fyrir því að breyta áformum um framkvæmd grunnskólalaga í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum ársins 1992. Þær upphæðir, sem um er að ræða, eru smámunir bæði í heildarsamhengi útgjalda til grunnskóla og þess sparnaðar sem ríkisstjórnin hyggst knýja fram.
    Sé það hins vegar ásetningur ríkisstjórnarinnar að láta niðurskurðinn bitna á starfi grunnskóla í landinu ber að takmarka breytingar í lögum sem þessum við slíkar fjármálalegar aðgerðir einvörðungu. Það nær engri átt að ætla Alþingi um leið að taka stórar og stefnumarkandi ákvarðanir varðandi framtíð grunnskólans. Það er því krafa minni hluta menntamálanefndar að öll ákvæði, sem lúta að slíku, verði felld út úr frumvarpinu við 2. umr. málsins. Þetta ætti að vera þeim mun sjálfsagðara sem menntamálaráðherra hefur í undirbúningi sérstakt frumvarp að efnislegum breytingum á grunnskólalögum.
    Hér verður vikið nokkrum orðum að einstökum breytingum skv. I. kafla frumvarpsins:
    1. gr. a-liður varðar málsverði á skólatíma sem kemur í hlut sveitarfélaga en ekki ríkisins að sjá um. Um framkvæmd þessa geta sveitarfélögin tekið ákvarðanir hvert á sínum forsendum.
    1. gr. b-liður varðar grunnskólaráð sem vera á samstarfsvettvangur um málefni grunnskólans og á m.a. að fylgjast með framkvæmd grunnskólalaga og aðalnámskrár. Kostnaður við starfsemi þess er óverulegur, lauslega áætlað 100–200 þús. kr. að mati embættismanna menntamálaráðuneytis.
    1. gr. c-liður varðar heimildarákvæði um ráðningu aðstoðarskólastjóra. Í þessu felst ekki sparnaður heldur pólitísk stefna.
    1. gr. d-liður varðar vikulegan kennslutíma á nemanda í grunnskóla og skólaathvörf fyrir nemendur utan kennslutíma. Í bráðabirgðaákvæði gildandi laga er tiltekið að ákvæðin komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku. Hins vegar gat ráðherra tekið ákvörðun um frestun á næsta ári án lagabreytinga ef hugmyndin væri að standa við sett markmið um að skólabörn hérlendis séu svipaðan tíma í skólum og tíðkast í grannlöndum okkar. Hér er því verið að boða afturför í málefnum grunnskólans.
    Síðara ákvæðið snertir sveitarfélögin kostnaðarlega en ekki ríkið. Þar er um að ræða mikilsvert hagsmunamál barna og foreldra, ekki síst í stórum sveitarfélögum. Þá er í lögunum heimild til gjaldtöku fyrir dvöl nemenda í skólaathvörfum. Ekki verður séð hvaða ástæða liggur að baki því að tengja þetta atriði „ráðstöfunum í ríkisfjármálum“.
    2. gr. er flutt til að taka af vafa um að sveitarfélög borgi allan kostnað við byggingu grunnskólahúsnæðis eins og ráð var fyrir gert þá samið var um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga fyrir nokkrum árum. Minni hluti nefndarinnar gerir ekki efnislega athugasemd við þetta atriði sem þó hefði mátt bíða boðaðs frumvarps menntamálaráðherra.
    3. gr. Með henni eru gerðar miklar breytingar á bráðabirgðaákvæðum grunnskólalaga og allar til hins verra.
*     Frestað er fækkun nemanda í neðstu bekkjum grunnskólans og er sparnaðurinn talinn nema um 20 m.kr. á árinu 1992.
*     Fellt er niður ákvæði um námsráðgjafa við grunnskóla sem koma átti til framkvæmda á fimm árum.
*     Fellt er niður að ákvæði 3. gr. grunnskólalaga um einsetinn skóla skuli að fullu koma til framkvæmda á 10 árum.
*     Fellt er niður ákvæði um að málsverðir á skólatíma skuli koma til framkvæmda á þremur árum, en tillaga um frestun þess 1992 er fólgin í a-lið 1. gr. frumvarpsins.
*     Sett er inn ákvæði þess efnis að ráðherra skuli með reglugerð kveða á um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þar með taldar valgreinar og um leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma. Ákvæðið varðar svonefnda viðmiðunarstundaskrá og ekki er ljóst af orðalagi hvort því megi beita til að skerða með reglugerð lágmarkstímafjölda barna í grunnskólum. Slíkt væri óhæfa og því nauðsynlegt að enginn vafi leiki á um hvað í ákvæðinu felst að þessu leyti.

    Eins og fram kemur af þessu yfirliti um efni I. kafla frumvarpsins fela ákvæði hans vart í sér meira en um 20 m.kr. sparnað á ríkisútgjöldum á árinu 1992. Þeim mun meira er hins vegar um skólapólitískar stefnuáherslur að ræða í 1. og 3. gr. frumvarpsins. Það er siðlaust að ætla Alþingi að taka á þeim málum efnislega í tengslum við fyrirliggjandi frumvarp.
    Með vísan til þess sem að ofan greinir leggur minni hlutinn til að I. kafli verði felldur út úr frumvarpinu.

Alþingi, 10. des. 1991.



Hjörleifur Guttormsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Valgerður Sverrisdóttir.



Ólafur Þ. Þórðarson.





Fskj. 1.

Bréf Kennarasambands Íslands til alþingismanna.


(3. desember 1991.)


    Með bréfi, sem dagsett var 9. október sl., vakti Kennarasamband Íslands athygli á þeirri óvissu sem ríkti um framkvæmd nýrra grunnskólalaga. Þar var því beint til þingmanna að standa vörð um sjálfsögð og mikilvæg ákvæði laganna og sjá til þess að skólastarfi grunnskólanna yrðu tryggðar fjárveitingar í samræmi við þau.
    Nú hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að fresta eða fella niður flest ákvæði nýju grunnskólalaganna sem til framfara horfa.
    Þegar nýju grunnskólalögin voru í undirbúningi og umfjöllun Alþingis á síðasta ári náðist um þau breið samstaða allra þingflokka. Þingmenn lýstu þannig vilja sínum til að tryggja farsælt skólastarf til framtíðar og festa í lög skipulag skólastarfs sem er í samræmi við þróun þjóðfélagsins á undanförnum árum.
    Grundvallarmenntun þjóðarinnar er tryggð í lögum um grunnskóla. Framvinda skólastarfsins er háð því að festa ríki í skipulagi skólanna. Festa og ró í skólastarfinu er líka undirstaða þess að gagnkvæmt trúnaðartraust ríki milli þeirra sem starfa við skólana og hinna sem njóta þjónustu þeirra, nemenda og foreldra. Starfið í skólunum er því enn viðkvæmara en starf flestra annarra opinberra stofnana fyrir þeirri hentistefnu sem nú virðist ríkja hjá stjórnvöldum.
    Með nýju grunnskólalögunum var m.a. stefnt að einsetnum grunnskóla, samfelldum sjö stunda skóladegi og fækkun nemenda í stórum bekkjardeildum. Þessi ákvæði laganna voru fyrst og fremst nemendum til hagsbóta og tryggðu þeim markvissari menntun en komu auk þess til móts við þarfir þjóðfélags sem byggir á vinnuframlagi beggja foreldra. Með frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum ráðgera núverandi stjórnvöld að fresta eða fella niður öll þessi mikilvægu ákvæði og mörg fleiri.
    Við slíkt ábyrgðarleysi verður ekki unað. Kennarasamband Íslands mótmælir því harðlega að lagaákvæði, sem samþykkt hafa verið og kynnt foreldrum og kennurum, skuli gerð marklaus á þann hátt sem nú er ráðgert.
    Kennarasamband Íslands heitir á alþingismenn að standa vörð um þær breytingar á grunnskólalögum sem allir þingflokkar voru sammála um á sl. vori og tryggja skólastarfinu fjárveitingar í samræmi við lög um grunnskóla frá 1991.

Með kveðju,


f.h. Kennarasambands Íslands,


Svanhildur Kaaber, formaður KÍ,


Birna Sigurjónsdóttir, formaður skólamálaráðs KÍ.





Fskj. 2.

Bréf Kennarafélags Reykjavíkur til alþingismanna.


(5. desember 1991.)


    Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur hefur á fundi sínum fjallað um kennaraskort og aukinn fjölda leiðbeinenda í skólum Reykjavíkur. Kennarar í Reykjavík hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þess að ríkisvaldið virðist ekki gera sér grein fyrir því að ein forsenda farsæls skólastarfs eru vel menntaðir kennarar sem eru sáttir við laun sín og kjör. Miklu máli skiptir að stöðugleiki ríki í skólastarfinu ekki síst vegna breyttra aðstæðna og þarfa í nútímaþjóðfélagi.
    Kennarar fögnuðu því að ný grunnskólalög voru samþykkt í vor en í þeim er einmitt tekið tillit til breytts þjóðfélags og stefnt að lengingu skóladags nemenda, skólamáltíðum, skólaathvarfi og fækkun nemenda í bekkjardeildum. Þegar fjallað er um fjölda nemenda í bekkjardeildum er yfirleitt talað um meðaltal sem er mjög villandi. Þó meðaltal nemenda í bekk í Reykjavík hafi lækkað um 0,43 nemendur þá eru nú 132 bekkjardeildir með yfir 25 nemendur en þær voru 92 á skólaárinu 1990–1991.
    Kennarastarfið hefur tekið miklum breytingum vegna nýs og breytts þjónustuhlutverks skólanna við nemendur og foreldra. Samfélagið gerir nú meiri kröfur til skólanna og því þarf ríkisvaldið að koma til móts við nemendur og kennara með því að styrkja skólastarfið og fækka nemendum í bekkjardeildum, koma á einsetnum skóla og samfelldum skóladegi og síðast en ekki síst tryggja að kennarar komi til starfa í skólana. Því eru þau vinnubrögð, sem felast í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, óskiljanleg en þar eru felld úr gildi eða frestað þeim ákvæðum í lögum um grunnskóla sem samþykkt voru sl. vor sem eflt gætu og styrkt skólastarfið og hlýða kalli samfélagsins.
    Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundi stjórnar Kennarafélags Reykjavíkur 2. nóvember 1991:
    „Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fjölgunar leiðbeinenda í grunnskólum Reykjavíkur. Þegar skólar tóku til starfa í haust hafði ekki tekist að ráða kennara í allar kennarastöður og því var ýmist gripið til þess ráðs að ráða leiðbeinendur eða senda nemendur heim. Á skólaárinu 1990–1991 voru 24 leiðbeinendur í grunnskólum Reykjavíkur en eru 52 á þessu skólaári. Það er því ljóst að kennaraskorturinn, sem ríkt hefur á landsbyggðinni, hefur teygt sig inn í skóla höfuðborgarinnar.
    Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur skorar á yfirvöld að standa vörð um skólastarfið í landinu og bæta kjör kennara þannig að þeir komi til starfa í grunnskólum landsins.“
    „Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur mótmælir því harðlega að í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 er gert ráð fyrir að fresta eða fella út gildi ákvæði um málsverði í skólum, fjölgun vikulegra viðmiðunarstunda nemenda og fækkun nemenda í bekkjardeildum. Kennarar fögnuðu nýjum grunnskólalögum í vor einmitt m.a. vegna þessara ákvæða því þar með var komið til móts við breyttar þarfir nútímaþjóðfélags. Stjórnin mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem felast í því að samþykkja lög á einu þingi og ógilda á því næsta. Slík vinnubrögð eru ekki til að styrkja skólastarfið.
    Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur heitir á alþingismenn að standa vörð um skólastarfið í landinu og tryggja að grunnskólar starfi í anda laga um grunnskóla frá 1991.“

Virðingarfyllst,


f.h. Kennarafélags Reykjavíkur,


Guðrún Ebba Ólafsdóttir.





Fylgiskjal IX.
12. desember 1991.



Hr. Matthías Bjarnason,
formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

    Félagsmálanefnd hefur fjallað um þau ákvæði sem varða málefnasvið hennar í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, sbr. tilmæli efnahags- og viðskiptanefndar í bréfi dags. 9. desember 1991. Þau ákvæði, er hér um ræðir, eru 9.–14. gr. frumvarpsins.
    Nefndin hélt tvo fundi um málið og fékk á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur, Húnboga Þorsteinsson og Sturlaug Tómasson frá félagsmálaráðuneytinu, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hilmar Þórisson og Hauk Sigurðsson frá húsnæðisstjórn. Þá var útbýtt gögnum frá Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Húsnæðisstofnun og skrifstofu Alþingis.
    Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hlutinn, sem skipaður er Rannveigu Guðmundsdóttur, Gunnlaugi Stefánssyni, Guðjóni Guðmundssyni, Einari K. Guðfinnssyni og Geir H. Haarde, gerir ekki athugasemdir við ákvæði frumvarpsins.

F.h. meiri hluta félagsmálanefndar,



Rannveig Guðmundsdóttir,


formaður

.


Fylgiskjal X.


Umsögn minni hluta félagsmálanefndar um frumvarp til laga


um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, 167. mál.


    Minni hluti félagsmálanefndar hefur farið yfir þær greinar frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 sem tengjast verksviði nefndarinnar og gerir eftirfarandi athugasemdir:
    Minni hlutinn mótmælir fyrirhuguðum breytingum á ríkisábyrgð á launum sem fram koma í 9. og 10. gr. frumvarpsins og athugasemdum um þær. Verði þessar breytingar að veruleika munu þær skerða verulega réttarstöðu launafólks sem er ekki síst alvarlegt núna þegar við blasa verulegir rekstrarerfiðleikar hjá fjölmörgum fyrirtækjum og vaxandi fjöldi gjaldþrota. Verður ekki betur séð en að með sjóðsstofnuninni verði réttur launafólks afleiddur af umfangi sjóðsins og fjölda gjaldþrota og því engin ábyrgð tekin á þessum rétti af ríkisins hálfu.
        Í athugasemdum við 10. gr. frumvarpsins er boðað að ákvæði núgildandi laga um ríkisábyrgð á launum verði þrengd verulega án þess þó að frumvarp um það efni hafi verið lagt fram á Alþingi. Telur minni hluti félagsmálanefndar algerlega óviðunandi að staðið sé að málum með þessum hætti.
        Þá vill minni hluti félagsmálanefndar vekja athygli á því að í umsögn frá VSÍ segir m.a. um fyrirhugað ábyrgðargjald: „Erfiðleikum í atvinnulífi fylgir að öðru jöfnu fjölgun gjaldþrota og það hlýtur a.m.k. að vera vafasöm hagfræði að auka á erfiðleika annarra í atvinnurekstrinum með auknum álögum af þessum toga.“
    Í 10., 13., 23. og 44. gr. frumvarpsins er verið að leggja auknar álögur eða skerða tekjur sveitarfélaganna í landinu um upphæð sem nemur 220 m.kr. Þessu til viðbótar hefur ríkisstjórnin boðað tilflutning á verkefnum til sveitarfélaganna sem gætu, að öðru óbreyttu, haft í för með sér aukin útgjöld fyrir þau upp á a.m.k. 900 m.kr. Ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin um þennan verkefnaflutning sem er í hróplegri andstöðu við gildandi lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Minni hluti félagsmálanefndar mótmælir harðlega þessum vinnubrögðum og mun ekki taka afstöðu til þeirra breytinga sem lagðar eru til í þessu frumvarpi fyrr en heildarmyndin liggur fyrir.
    Fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni, Jón Kristjánsson og Ingibjörg Pálmadóttir, eru andvígir þeim ákvæðum sem eru í 14. gr. frumvarpsins og varða lokun húsnæðislánakerfisins frá 1986. Fulltrúi Alþýðubandalagsins, Kristinn H. Gunnarsson, hefur fyrirvara um 14. gr. frumvarpsins.

Alþingi, 12. des. 1991.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Jón Kristjánsson.

Kristinn H. Gunnarsson.



Ingibjörg Pálmadóttir.





Fskj. 1.


Umsögn Alþýðusambands Íslands um ábyrgðasjóð launa.



Almennt um frumvarpið.
    Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram á Alþingi frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 þar sem í ýmsum atriðum er vegið að grundvallarréttindum launafólks. Þar má nefna kvöð um framlag sveitarfélaga til félagslegra íbúða sem líklegt er að dragi úr vilja sveitarfélaga til að fjölga félagslegum íbúðum. Einnig má nefna aukið sjálfdæmi ráðherra um greiðslur sjúklinga vegna læknisþjónustu og lyfja og útboð á heilbrigðisþjónustu.

Ríkisábyrgð á laun.
    Um þessi atriði verður ekki fjallað hér heldur einvörðungu þá atlögu að ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot sem felst í frumvarpinu.

Afnám ábyrgða — hámarksfjárhæð á ári.
    Í stað ríkisábyrgðar á laun er ætlunin að setja á fót ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Sjóðurinn skal fjármagnaður með 0,2% gjaldi atvinnurekenda af greiddum vinnulaunum. Áætlað er að gjaldið muni skila 374 millj. kr. á næsta ári en í byrjun nóvember 1991 höfðu verið greiddar rúmlega 400 millj. kr. vegna gjaldþrotauppgjöra á þessu ári. Fátt bendir til þess að gjaldþrot verði minni á næsta ári, fremur meiri. Hér er því augljóslega um alvarlega skerðingu að ræða.
    Þar sem fjárhæðin er takmörkuð við hámark 0,2% atvinnurekendagjald er óvissa um hver réttur fólks yrði. Það færi eftir umfangi gjaldþrota hve mikið rétturinn skerist. Því væri ekki lengur um ábyrgð á ákveðnum rétti að ræða. Ábyrgðin færi eftir greiðslugetu sjóðsins og ásókn í sjóðinn.

Atvinnurekendagjald.
    Víða um lönd er fjár til ríkisábyrgðar aflað með atvinnurekendagjöldum. Sú aðferð er ekki fordæmanleg. Hitt er ljóst að atvinnurekendagjald í hlutfalli af launum gætu atvinnurekendur jafnauðveldlega greitt út í kaupi. Þeir sem fylgst hafa með samningaviðræðum á liðnum árum hafa heyrt atvinnurekendur ítrekað bjóðast til að hækka kaup á kostnað launatengdra greiðslna. Í samningsstöðunni er nú ljóst að nýtt atvinnurekendagjald verður á kostnað launahækkunarmöguleika í samningum.

Ótilgreind skerðing. Engin ábyrgð gagnvart lífeyrissjóðsgjöldum.
    Á síðasta ári var reglum breytt þannig að sett var hámark á greiðslur fyrir hvern mánuð, þrefaldar atvinnuleysisbætur eða um eitt hundrað og þrjátíu þúsund á mánuði. Einnig voru gerðar þær kröfur til lífeyrissjóðanna að þeir sýni fram á að þeir hafi beitt tiltækum innheimtuaðgerðum en ekki látið undir höfuð leggjast að ganga eftir iðgjöldum í trausti þess að ríkisábyrgðin greiddi þau.
    Nú á að:
    takmarka tímabilið sem ábyrgðin nær til,
    setja þak á heildargreiðslur til hvers launþega,
    greiða almenna innlánsvexti á bæturnar,
    fella niður ábyrgðina á lífeyrissjóðsiðgjöldunum,
    skerða greiðslur kostnaðar vegna innheimtukostnaðar.
    Lífeyrisréttur fellur niður sem svarar þeim lífeyrisiðgjöldum sem ekki innheimtast.

Hverjir eiga að bera áföllin?
    Það er yfirlýst efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar að fyrirtæki í rekstrarerfiðleikum eigi einfaldlega að fara á hausinn ef þau geta ekki sjálf bjargað sér út úr erfiðleikunum. Gjaldþrot fyrirtækja eru þannig í dag yfirlýst hagstjórnartæki. Í þeim efnahagserfiðleikum, sem nú blasa við, er fyrirsjáanlegt að mörg gjaldþrot eru fram undan.
    Það ætti ekki að koma á óvart við þessar aðstæður að útgjöld vegna ríkisábyrgðar á laun vegna gjaldþrota hafa vaxið að undanförnu og líklegt er að þau muni enn vaxa á næsta ári. Það er hins vegar ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli telja réttlætanlegt að ætla starfsfólki þeirra fyrirtækja sem verða gjaldþrota að taka þann kostnað á sig.
    Það er áfall að missa vinnuna og starfsfólkið hefur fæst haft minsta möguleika til að hafa áhrif á þær aðstæður sem leiddu til gjaldþrots, oft jafnvel ekki haft upplýsingar um stöðuna fyrr en að gjaldþrotinu kom.
    Nú þegar eru greiðslur vegna hvers mánaðar takmarkaðar við um 130 þúsund krónur á mánuði. Fólk með hærri laun fær því aðeins launatap bætt að hluta. Styttri bótatími kemur fyrst og fremst niður á því fólki sem ekki kemst í aðra vinnu eins og t.d. gerist á fámennum stöðum þegar meginvinnuveitandi staðarins verður gjaldþrota.
    Lífeyrissjóðsiðgjöldin gefa rétt til lífeyris á elliárum. Séu þau ekki greidd tapast sá réttur sem áunnist hefði með greiðslu þeirra. Ef lífeyrissjóðurinn veitir réttinn eftir sem áður skerðist staða hans sem því nemur. Nú þegar er óvissa um stöðu lífeyrissjóða ASÍ-fólks til að standa við skuldbindingar sínar. Réttindi án iðgjalda skerða stöðu þeirra enn frekar. Lífeyrissjóðir ASÍ-fólks njóta ekki ríkisábyrgðar og það fólk, sem þangað greiðir, nýtur þrátt fyrir meiri greiðslur minni réttar en opinbera kerfi tryggir. Skerðing á lífeyri ASÍ-fólks veldur aukinni mismunun.

Alþjóðasamþykktir.
    Um þessar mundir er af Íslands hálfu verið að yfirfara drög að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á skuldbindingu þjóða til að tryggja launafólk vegna gjaldþrota fyrirtækja sem síðan verður afgreidd á þingi ILO næsta sumar. Það er lygi líkast að á sama tíma skuli ríkisstjórnin ætla að hlaupast frá skuldbindingum sínum.
    Innan Evrópubandalagsins eru skýrar reglur um að launafólk skuli tryggt vegna launamissis við gjaldþrot fyrirtækja, sbr. tilskipun ráðsins frá 20. október 1980. Í nýgengnum dómi vegna máls á Ítalíu er því slegið föstu að sú ábyrgð hvíli á stjórnvöldum að bæta launafólki tjón vegna gjaldþrota hvort sem stjórnvöld hafa sett löggjöf eða ekki.
    Í viðræðum við Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um að EFTA-löndin samræmi reglur sínar því sem gerist í Evrópubandalaginu. Ef af Evrópska efnahagssvæðinu verður er skuldbinding Íslands því ófrávíkjanleg.


Fskj. 2.

Umsögn Vinnuveitendasambands Íslands um ábyrgðasjóð launa.


    Í framhaldi af beiðni um álit Vinnuveitendasambands Íslands á framkomnum tillögum í 9.–10. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, vill VSÍ láta eftirfarandi koma fram:
    VSÍ er um það kunnugt að ýmislegt mætti betur fara í framkvæmd ríkisábyrgðar á laun og að tilefni er til endurskoðunar einstakra þátta þar um gildandi reglna. Sú tillaga, sem í frumvarpinu felst, að fela höfuðsamtökum vinnumarkaðarins nokkra ábyrgð á framkvæmd er því til bóta og líkleg til að skerpa og bæta framkvæmd. Að því er varðar fjármögnun þeirrar ábyrgðar á launum og skyldum kröfum við gjaldþrot fyrirtækja hefur hingað til verið talið eðlilegt að samfélagið axlaði þær byrðar sameiginlega fyrir milligöngu ríkissjóðs sem lög mæltu fyrir að létt skuli af þeim sem fyrir tjóni verða. Það fyrirkomulag að jafna tjóninu af gjaldþrotum í atvinnurekstri á „eftirlifandi“ fyrirtæki er nálegt og til þess fallið að auka á erfiðleika í atvinnulífinu. Erfiðleikum í atvinnulífi fylgja að öðru jöfnu fjölgun gjaldþrota og það hlýtur a.m.k. að vera vafasöm hagfræði að auka á erfiðleika annarra í atvinnurekstrinum með auknum álögum af þessum toga. Frumvarpið miðar að 0,2% gjaldtöku af öllum launagreiðslum, en versni ástandið í atvinnulífinu enn er ráð fyrir því gert að þetta gjald geti enn hækkað. Þetta samhengi er augljóslega út í hött.
    Vinnuveitendasambandið leitar um þessar mundir eftir framlengingu almennra kjarasamninga án launahækkana, þá á því byggt að viðmiðun gengisskráningar íslensku krónunnar verði haldið óbreyttri þrátt fyrir áætlaðan samdrátt þjóðartekna um allt að 6% og 8–10 milljarða samdrátt útflutningstekna. Við þessar aðstæður er þess engin von að fyrirtækin geti tekið á sig hækkun launa og sama gildir um hækkun launatengdra gjalda. Vinnuveitendasambandið mótmælir því eindregið þessum áformum um að veita einum kostnaðarlið ríkisvaldsins af erfiðleikum í atvinnulífi yfir á atvinnureksturinn og er þar sérstaklega fráleit opnun heimildar til hækkunar gjaldsins eftir því sem „þarfirnar“ verða.
    Þetta gjald hækkar raungengi krónunnar og gengur því þvert á það markmið að lækka raungengið með minni kostnaðarhækkunum hér á landi en meðal samkeppnislanda. Gjaldið mun lenda með fullum þunga á þeim fyrirtækjum sem um þessar mundir er verið að gera sérstakar ráðstafanir fyrir m.a. á vettvangi Atvinnutryggingarsjóðs.
    Með vísan til alls þessa væntir Vinnuveitendasambandið þess að fallið verði frá umræddum áformum um álagningu nýs launaskatts.

Virðingarfyllst,


Þórarinn V. Þórarinsson.


Fskj. 3.

Bréf Húsnæðisstofnunar ríkisins um biðröðina í lánakerfinu frá 1986.


(6. desember 1991.)


    Með lögum nr. 47, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, frá 27. mars 1991 er almenna lánakerfið frá 1986 lagt niður. Í bráðabirgðaákvæði var þó tekið fram m.a. að ákvæði laganna eins og þau voru skyldu halda gildi sínu til 1. mars 1994 gagnvart þeim umsækjendum sem fengið hafa svar almenns eðlis um að þeir eigi rétt á láni. Eftir myndun núverandi ríkisstjórnar var boðað að nú í haust mundi verða flutt frumvarp til laga þar sem umrætt bráðabirgðaákvæði yrði fellt niður og mun það frumvarp vera í undirbúningi.
    Í þessari biðröð eru rúmlega 3.800 umsækjendur sem sótt hafa um lán til nýbygginga og til kaupa á notuðum íbúðum. Um 2.000 umsækjendur, sem sóttu um lán í lánakerfinu frá 1986 en fengu ekki afgreiðslu í því kerfi, hafa fengið afgreiðslu í húsbréfakerfinu. Ekki liggur endanlega fyrir hversu margir af þessum 3.800 umsækjendum hafa nú þegar gert fokhelt eða fest kaup á íbúð því að í þessu lánakerfi er nóg að tilkynna það þremur mánuðum fyrir tilkynntan útborgunardag lánsins. Þrátt fyrir það hafði stofnunin fengið fokheldisvottorð og kaupsamninga frá um 160 umsækjendum 15. nóvember 1991. Nýlega hefur verið sent bréf til umsækjenda í biðröðinni til að kanna hversu margir hafa þegar gert fokhelt eða gert kaupsamning og mundu vilja komast í húsbréfakerfið ef sá möguleiki væri fyrir hendi.
    Eitt mikilvægasta ákvæðið í húsbréfalögunum er að umsækjendur hafi fengið mat á greiðslugetu sinni áður en kaup eru gerð eða bygging hafin. Í reglugerð um húsbréfaviðskipti nr. 217/1990 voru þó ákvæði til bráðabirgða sem heimiluðu umsækjendum í biðröðinni aðgang að því kerfi þótt kaup væru þegar gerð eða byggjendur búnir að gera fokhelt. Þessi bráðabirgðaákvæði giltu til 15. maí 1991. Um 350 umsækjendur notfærðu sér þennan möguleika en ljóst er að það gerðu ekki allir sem rétt höfðu til þess. Í umræddu frumvarpi, sem lagt verður væntanlega fram á næstu vikum, verður því að vera ákvæði til bráðabirgða sem ná til þessara umsækjenda.



Bréf Húsnæðisstofnunar ríkisins til þeirra sem hafa lánsrétt


samkvæmt reglum frá 1986 en hafa ekki fengið lán.


(19. nóvember 1991.)


    Með bréfi þessu er ætlunin að kanna hve margir þeirra sem hafa lánsrétt og keyptu eða byggðu án húsbréfaviðskipta mundu vilja komast í húsbréfakerfið ef sá möguleiki væri fyrir hendi.
    Með lögum nr. 47 frá 27. mars 1991 var almenna lánakerfið frá 1986 lagt niður.
    Í bráðabirgðaákvæði var þó tekið fram m.a. að ákvæði laganna eins og þau voru skyldu halda gildi sínu til 1. mars 1994 gagnvart þeim umsækjendum sem fengið hafa svar almenns eðlis um að þeir eigi rétt á láni.
    Samkvæmt þessu var gert ráð fyrir að afgreiða lán til þeirra sem eru í biðröðinni á tímabilinu frá 1992 til 1. mars 1994.
    Eftir myndun núverandi ríkisstjórnar var boðað að nú í haust mundi verða flutt frumvarp til laga þar sem umrætt bráðabirgðaákvæði yrði fellt niður. Það frumvarp mun vera í undirbúningi.
    Eitt af frumatriðum húsbréfakerfisins er að umsækjendur hafi fengið mat á greiðslugetu sinni áður en kaup eru gerð eða bygging hafin.
    Í reglugerð um húsbréfaviðskipti nr. 217/1990 voru þó ákvæði til bráðabirgða sem heimiluðu umsækjendum í biðröðinni aðgang að því kerfi þótt kaup væru þegar gerð eða byggjendur búnir að gera fokhelt.
    Þessar heimildir giltu til 15. maí 1991. Ýmsir, sem eru í biðröðinni og höfðu keypt eða byggt á þessum tíma, notfærðu sér ekki fyrrgreindan möguleika og einnig hafa einhverjir keypt eða gert fokhelt síðan.
    Þeir sem ofanritað á við og vilja eiga skuldabréfaviðskipti í húsbréfakerfinu ef þess væri kostur eru því beðnir að skila afritum af kaupsamningum sínum eða fokheldisvottorðum til Húsnæðisstofnunar ríkisins fyrir 15. des. nk.
    Verði húsbréfaviðskipti heimiluð fyrir þá sem hér um ræðir og hafa greiðslugetu munu þeir fá bréf fljótlega á næsta ári þar sem tilkynnt verður um fyrirkomulag skuldabréfaskiptanna.



Bréf Húsnæðisstofnunar ríkisins


til þeirra sem hafa lánsrétt vegna viðgerða og endurbóta.


(19. nóvember 1991.)


    Með reglugerð nr. 467/1991 var veitt heimild fyrir skuldabréfaskiptum í húsbréfakerfinu vegna endurbóta og endurnýjunar á notuðu húsnæði, en sá lánaflokkur var felldur niður úr eldra lánakerfi í mars sl. Þessi reglugerð fylgir hér með til glöggvunar fyrir þá sem hafa lánsrétt.
    Bent er sérstaklega á greinar 11, 12 og 34 í reglugerðinni hvað þetta varðar. Sérstök athygli er vakin á ákvæðum 34. gr. um afgreiðslutíma umsókna miðað við komutíma þeirra.
    Umsækjendur skulu sýna fram á greiðslugetu sína vegna væntanlegrar lántöku. Verða þeir því að leggja fram greiðslumat frá banka, sparisjóði eða annarri viðurkenndri fjármálastofnun.
    Lágmarksfjárhæð fasteignaveðbréfs, sem skipta má fyrir húsbréf samkvæmt reglugerðinni, er 650.000 kr. miðað við byggingarvísitölu 1. október 1991 187,0 stig.
    Það táknar að lánshæfar endurbætur verða a.m.k. að nema einni milljón króna.
    Framvísa verður greiðslumati sem fyrst til Húsnæðisstofnunar ríkisins og ekki seinna en 15. janúar næstkomandi.
    Eins og gefur að skilja tekur nokkurn tíma að vinna úr þeim upplýsingum sem berast í framhaldi af þessu bréfi. Má því gera ráð fyrir að nokkur tími líði frá því greiðslumat er lagt inn og þar til úrvinnsla umsókna hefur farið fram og haft verður samband við umsækjendur. Á meðan eru þeir beðnir að sýna þolinmæði og athuga að skipti á fasteignaveðbréfum fyrir húsbréf hefjast ekki fyrr en eftir 1. febr. nk.