Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 167 . mál.


299. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur á þeim skamma tíma, sem gefist hefur, reynt eftir föngum að kanna efni frumvarpsins. Fallist var á þá tillögu stjórnarandstöðunnar við 1. umr. að helstu efnisköflum þessa safnfrumvarps (bandorms) yrði vísað til viðkomandi fagnefnda og verður í álitinu víða vísað í álit nefndanna eða álit meiri hluta (landbúnaðarnefndar) eða minni hluta eftir því sem við á. Þessi skoðun málsins í fagnefndum var þeim mun mikilvægari þar sem frumvarpið er þannig uppbyggt að þar ægir saman hreinum faglegum eða stefnumarkandi atriðum sem sum hver hafa engin áhrif á útgjöld ríkisins og öðrum sem eru meira fjármálalegs eðlis.
     Í tveimur tilvikum (í heilbrigðisnefnd og allsherjarnefnd) náðist full samstaða um breytingar á frumvarpinu og sannar það gildi þess að viðkomandi nefndir fái í slíkum tilvikum að fjalla um málin á faglegum grundvelli.
     Óhjákvæmilegt er að fjalla nokkuð um þær vinnuaðstæður sem nefndinni voru skapaðar. Ber þar auðvitað hæst þá staðreynd að ríkisstjórnin sjálf hafði ekki, þegar frumvarpið var tekið fyrir, komið sér saman um marga veigamikla þætti efnahags- og ríkisfjármálanna (og hefur reyndar ekki gert enn að því er best verður séð). Þetta leiddi til þess að fullkomin óvissa ríkti um stöðu mála. Frumvarpið, eins og það var lagt fram, fól í raun einungis í sér tilraun til útfærslu á þeim sparnaði sem boðaður var í forsendum og greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Það var því þegar orðið löngu úrelt þegar það loks birtist í þinginu og enn frekar er það kom til umræðu.
     Fréttir af nýjum ákvörðunum um viðbótarniðurskurð eða aðrar ráðstafanir bárust þingmönnum gegnum fjölmiðla eftir næturfundi og tóku síðan breytingum eða urðu að engu sumar hverjar á næstu sólarhringum. Þannig fór mikill tími í síðustu viku í umræður um ákvarðanir, sem teknar voru á hinum langa næturfundi ríkisstjórnarinnar, um að færa með einhliða ákvörðun yfir á sveitarfélögin verkefni á sviði málefna fatlaðra með tilheyrandi 400 millj. kr. kostnaði, auk um 300 millj. kr. upptöku á tekjustofnum sveitarfélaganna. Eftir hörð viðbrögð gaf ríkisstjórnin þessi áform upp á bátinn. Þess í stað fór það um síðustu helgi að kvisast að nú hygðist ríkisstjórnin leggja á nefskatt sem til málamynda yrði merktur útgjöldum ríkisins vegna löggæslu. Þessi áform ásamt fleira birtust svo nefndarmönnum stjórnarandstöðunnar í efnahags- og viðskiptanefnd í formi breytingartillagna frá meiri hlutanum á mánudagsmorgun, þ.e. fyrir réttum tveimur sólarhringum.
     Þessi upptalning, ásamt þeirri augljósu og algeru upplausn sem ríkir á stjórnarheimilinu og birst hefur allri þjóðinni, ætti að nægja til að gefa mönnum hugmynd um þær óviðunandi aðstæður sem nefndinni hafa verið búnar.
     Eitt megineinkenni vinnubragða ríkisstjórnarinnar í þessum málum öllum hefur verið að hunsa allt eðlilegt samráð og láta samskiptavenjur, sem við lýði hafa verið milli ríkisvaldsins og samtaka og hagsmunaaðila úti í þjóðfélaginu, lönd og leið. Ber þar öllum, sem koma til viðtals við nefndina, sveitarfélögum, aðilum vinnumarkaðarins, hagsmunasamtökum o.s.frv., saman um að ekkert hafi verið við þau talað, lögboðið samráð jafnvel einskis virt eins og á við um skyldu ríkisvaldsins til samráðs við sveitarfélögin.
     Annað einkenni á málsmeðferð er að ríkisstjórnin telur sig ekki þurfa að virða samninga, sbr. búvörusamning og framkvæmdasamninga í vegamálum.
     Þessum vinnubrögðum mótmælir minni hlutinn.
     Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar hlýtur því að taka fram að hann vísar allri ábyrgð á þessum handahófskenndu vinnubrögðum á hendur ríkisstjórninni. Það er mat minni hlutans að málið hafi engan veginn verið þannig unnið að réttlætanlegt væri að taka það út úr nefnd að kvöldi 17. desember eins og fulltrúar meiri hlutans ákváðu að gera.
     Hér á eftir verður gerð grein fyrir afstöðu minni hlutans til einstakra efnisþátta frumvarpsins og þeirra breytingartillagna sem fyrir lágu af hálfu meiri hlutans eftir því sem kostur er.
     Einstakir nefndarmenn og fulltrúar flokkanna munu gera nánari grein fyrir afstöðu sinni og sinna flokka í umræðum. Þeir áskilja sér og rétt til að flytja eða fylgja einstökum breytingartillögum.

1.         Um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla, 1.–3. gr. frumvarpsins.
    Minni hlutinn er andvígur þessum breytingum og mótmælir því að slíkum grundvallarbreytingum í skólamálum sé lætt með í skjóli ráðstafana í ríkisfjármálum. Þessar breytingar hafa óveruleg kostnaðaráhrif og fylgir þeim í reynd lítill sparnaður umfram það sem hvort eð er væri hægt að ná fram á grundvelli heimilda. Ýmis önnur atriði, sem lagt er til að frestað verði eða felld niður með öllu, snerta aðra en ríkið.
    Minni hluti telur að í þessum breytingum felist afturför í skólamálum og vísar í því sambandi til umsagnar minni hluta menntamálanefndar og bréfs frá Kennarasambandi Íslands og Kennarafélagi Reykjavíkur, sjá fskj. I.
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur því til að þessum hluta frumvarpsins, 1.–3. gr., verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Breytingartillaga meiri hlutans um að b- og c-liðir 1. gr. frumvarpsins falli brott og þar með fái ákvæðin um grunnskólaráð og heimild til ráðningar aðstoðarskólastjóra að vera í friði í grunnskólalögunum er vissulega til bóta. Þetta nær þó því miður svo skammt að engu breytir um kaflann í heild og andstöðu minni hlutans við hann.

2.         Um breytingu á jarðræktarlögum, nr. 56/1987.
    Minni hlutinn vísar til umsagnar landbúnaðarnefndar, en meiri hluti nefndarinnar, skipaður þeim Agli Jónssyni, Kristínu Ástgeirsdóttur, Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, Guðna Ágústssyni og Sigurði Hlöðvessyni, leggur til að 4. gr. frumvarpsins verði ekki lögfest.
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur því til að þessum hluta frumvarpsins verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

3.         Um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.
    Þessi 5. gr. frumvarpsins felur í sér, ef að lögum verður, tvöföldun á svonefndu veiðieftirlitsgjaldi og mun það þá standa að fullu undir veiðieftirliti ráðuneytisins. Heildarkostnaður við veiðieftirlitið er samkvæmt fjárlagafrumvarpi áætlaður 80,7 millj. kr. þannig að þessum breytingum fylgir rúmlega 40 millj. kr. kostnaðarauki fyrir sjávarútveginn. Hér er því á ferðinni rétt ein tillagan enn sem felur í sér auknar álögur á sjávarútveginn og atvinnulífið. Við venjulegar aðstæður mundi breyting af þessu tagi ekki teljast stórvægilegt mál fyrir greinina né skipta sköpum. Við þær aðstæður sem sjávarútvegurinn býr við nú sem einkennist af miklum taprekstri og með hliðsjón af stórauknum álögum á sjávarútveginn og sjómenn sem ríkisstjórnin er með á prjónunum, treystir minni hlutinn sér ekki til að mæla með samþykkt þessa ákvæðis og leggur því til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
4.         Um breytingu á lögum nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis.
    Meiri hlutinn leggur til í breytingartillögum sínum að 6.–8. gr., sem snerta auglýsingakostnað í tengslum við alþingiskosningar, falli brott. Minni hlutinn er samþykkur þessari breytingartillögu en telur það athyglisvert að frá ríkisstjórninni sjálfri skyldu koma hugmyndir um að draga úr ríkisútgjöldum á næsta ári með því að breyta framkvæmdaratriðum varðandi alþingiskosningar.

5.         Um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, breytingu á lögum nr. 88/1990, um ríkisábyrgð á launum.
    Í frumvarpinu sjálfu var gert ráð fyrir að sett yrðu sjálfstæð lagaákvæði (lög) um nýjan ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Af uppsetningu frumvarpsins verður ekkert ráðið um það hvernig samspil hins nýja sjóðs við gildandi lög um ríkisábyrgð á launum átti að vera. Ekki væru heldur í frumvarpinu ákvæði um að fella þau lög úr gildi. Úr þessu hyggst meiri hlutinn nú bæta í breytingartillögum sínum þar sem gert er ráð fyrir að hluti laganna um ríkisábyrgð á launum gildi áfram.
    Minni hlutinn er algerlega andvígur þessum breytingum og tekur undir hörð mótmæli aðila vinnumarkaðarins. Það kemur úr hörðustu átt að sjálf ríkisstjórnin, sem hefur gert gjaldþrot að aðalsmerki efnahagsstefnu sinnar, skuli um leið ætla að ráðast á þau réttindi sem launafólki eru tryggð þegar slíkar aðstæður skapast.
    Búast má við því að holskefla gjaldþrota sé í vændum vegna versnandi efnahagsástands og úrræða- og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar. Við slíkar aðstæður er sérstaklega alvarlegt að skerða nú stórlega réttindi launafólks í þessu tilliti og velta útgjaldaþunganum yfir á atvinnulífið og/eða launafólk.
    Minni hlutinn leggur því til að þessum hluta frumvarpsins verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

6.         Um breytingu á lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.
    Ekki vannst tími til að taka fyrir málefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra sérstaklega. Minni hlutinn treystir sér því ekki til að bera ábyrgð á áhrifum þeirra breytinga, sem lagðar eru til í 11. gr. frumvarpsins, á fjárhag og framkvæmdagetu sjóðsins.
    Hins vegar mæla ýmis rök með því að skynsamlegt geti verið að ráðstafa meira fé til viðhalds og meiri háttar endurbóta og því mun minni hlutinn ekki leggjast gegn afgreiðslu þessara breytinga.

7.         Um breytingu á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum.
    Minni hlutinn vísar í álit minni hluta félagsmálanefndar (fskj. III) en þar kemur fram að hér eru á ferðinni breytingar þar sem lagðar eru auknar álögur á sveitarfélögin. Byggingar félagslegra íbúða eru auðvitað mikið hagsmunamál og áhugamál sveitarfélaganna. Þess vegna hefði mátt ætla að sveitarfélögin tækju ekki illa í viðræður um aukna hlutdeild/þátttöku í þessum málaflokki ef til slíkra hefði verið boðað með eðlilegum hætti og ekkert annað kæmi til. En í ljósi þess að hér er í fyrsta lagi um einhliða aðgerðir ríkisvaldsins til íþyngingar sveitarfélögunum að ræða og ekkert var við þau rætt og í öðru lagi er ríkisstjórnin með á prjónunum margar aðrar aðgerðir sem fela í sér stórfelldan útgjaldaauka leggst minni hlutinn gegn því að þetta sé afgreitt við núverandi aðstæður og leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Er þá eðlilegt að það taki til allra greinanna sem fjalla um húsnæðismál, einnig 14. gr., en í greinargerð frumvarpsins er einmitt fullyrt að húsbréfakerfið hafi „fyllilega“ leyst af hólmi almennar lánveitingar til húsnæðismála, þær sem áður tíðkuðust úr Byggingarsjóði ríkisins. Ekki virðist vanþörf á að hæstvirt ríkisstjórn stilli betur saman strengi sína í þessu máli eins og fleirum og það ætti því að vera í hennar þágu að fá málið aftur til skoðunar.

8.         Um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, og lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu.
    Varðandi þennan kafla frumvarpsins og 15.–21. gr. vísar minni hlutinn í álit heilbrigðis- og trygginganefndar og gerir það að sínu. Minni hlutinn leggst ekki gegn samþykkt þessa hluta frumvarpsins, 15.–21. gr., að báðum meðtöldum, að því tilskildu að breytingartillögur þær, sem heilbrigðis- og trygginganefnd leggur til, nái fram að ganga.
    Minni hlutinn telur að þær tillögur frumvarpsins, sem snúa að tannréttingum, gangi of langt og þarfnist endurskoðunar.

9.         Um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni, skráningu og mat fasteigna og lögum um Iðnlánasjóð.
    Minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við þennan hluta frumvarpsins, 22.–24. gr., en bendir á að sáralítill tími vannst til að huga að ákvæðum þeirra.

10.         Um breytingu á hafnalögum, nr. 69/1984 (9. tölul. breytingartillagna meiri hlutans).
    Með breytingum er lagt til að sérstakt álag komi ofan á vörugjöld sem hingað til hafa eingöngu runnið til hafnanna sjálfra. Þetta gjald verði í formi 25% álags á allar vörugjaldshafnir og renni í Hafnabótasjóð. Framlag ríkisins til hafnarframkvæmda lækkar þá að sama skapi og er sú upphæð áætluð 125 millj. kr. á næsta ári.
    Ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin um vinnslu málsins og öllum spurningum er enn ósvarað um innheimtuna. Vitað er að vandkvæði geta orðið á þessari innheimtu til ríkisins fyrir sumar minni hafnir. Ekki verður séð að til standi á nokkurn hátt að koma í veg fyrir uppsöfnunaráhrif gjaldsins og engar upplýsingar liggja fyrir um áhrif gjaldtökunnar, t.d. á vöruverð úti á landsbyggðinni. Ekki er heldur ljóst í hvaða mæli þetta íþyngir útflutningsatvinnuvegunum, t.d. sjávarútveginum, en ljóst virðist að hann verður þolandi þessa í ríkum mæli hvað álag á vöruútflutninginn snertir.
    Minni hlutinn telur því allan aðdraganda þessa máls óhæfan og leggur til að tillögunni verði vísað frá. Sjá einnig fskj. V, álit minni hluta samgöngunefndar, Hafnasambands sveitarfélaga og Reykjavíkurhafnar.

11.         Um breytingu á lögum nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka (10. tölul. breytingartillagna meiri hlutans).
    Minni hlutinn hefur fengið sáralítinn tíma til að athuga þær upplýsingar sem nefndinni bárust varðandi þetta efni. Ástæða er þó til að óttast um hag ýmissa minnstu sveitarfélaga landsins ef áform ríkisstjórnarinnar um nýjar álögur á sveitarfélögin ná fram að ganga. Með hliðsjón af þessu telur minni hlutinn eðlilegt að vísa þessum hluta málsins aftur til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar.

12.         Skerðing vegafjár (12. tölul. breytingartillagna meiri hlutans, a-liður).
    Þessi breyting felur í sér skerðingu á tekjum Vegasjóðs um 265 millj. kr. og skulu þeir fjármunir renna í ríkissjóð. Minni hlutinn er þessari skerðingu vegafjár andvígur og mótmælir þeirri aðferð að tengja þennan niðurskurð einni tiltekinni framkvæmd og einu tilteknu sveitarfélagi á Vestfjörðum.
    Upplýst var að skerðing vegafjár yrði samtals um 766 millj. kr. miðað við gildandi vegáætlun. Minni hlutinn telur svo harkalegan niðurskurð vegaframkvæmda mjög óskynsamlegan, hvort heldur litið er til ástands vegamála og samgangna eða atvinnuástands og framkvæmdastigs í landinu eins og nú horfir.
    Það er kafli út af fyrir sig að ríkisstjórnin virðist í þessu tilviki eins og fleirum ekki telja það tiltökumál að brjóta gerða samninga, eins þótt þeir í tilviki Vestfjarðaganga séu að undangengnu alþjóðlegu útboði.

13.         Nefskattur vegna löggæslukostnaðar (12. tölul. breytingartillagna meiri hlutans, c-liður).
    Með þessum sakleysislega lið upp á tæpar sjö línur yrði skellt á sveitarfélögin í landinu nefskatti sem næmi mismunandi upphæðum á hvern íbúa þeirra eftir íbúafjölda sveitarfélaganna. Þessi tillaga leit dagsins ljós sem breytingartillaga frá meiri hlutanum í efnahags- og viðskiptanefnd á mánudagsmorgun fyrir rétt rúmum tveimur sólarhringum.
    Í nefndinni hefur komið fram í viðræðum við forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga að ekkert samráð var haft við þá frekar en áður um þetta atriði, nema það sé kallað samráð að þeim var tilkynnt um þessa „ákvörðun“ ríkisstjórnarinnar. Mótmæli sveitarfélaganna við þessum nýju álögum eru því í fullu gildi, sbr. samþykkt sambandsstjórnar frá 11. desember sl., sjá fskj. VII.
    Ekki gafst kostur á að afla neinna teljandi upplýsinga um áhrif þessarar gjaldtöku á afkomu sveitarfélaga en ljóst virðist að annars vegar samsvarar álagning þessa nefskatts umtalsverðum hluta af heildartekjum sveitarfélaga, líklega í mörgum tilvikum á bilinu 2–5%, og hins vegar muni þetta hafa áhrif á tekjujöfnun milli sveitarfélaganna. Þegar liggur fyrir að einhver sveitarfélög munu grípa til þess ráðs að hækka skatta og nýta til fulls tekjustofna sína. Þar með munu þau öðlast rétt til greiðslna úr Jöfnunarsjóði ef þau lenda undir tilheyrandi viðmiðunarmörkum. Afleiðing þessa getur hins vegar orðið að þessar álögur bitni með tvöföldum þunga á ýmsum verst stöddu sveitarfélögum landsins sem mestrar tekjujöfnunar hafa notið úr Jöfnunarsjóði.
    Samkvæmt upplýsingum fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, sem mætti á fund nefndarinnar, er þar ekki á nokkurn hátt litið á þessa breytingu sem verkefnatilfærslu, enda tæki slíkt langan tíma, kannski eitt ár, og er auk þess umdeilt. Hér er því um hreina skatttöku að ræða án nokkurs samhengis við viðkomandi verkefni og án þess að nokkurt forræði fylgi með í viðkomandi málaflokki.
    Áætlað er að „lögguskatturinn“ kosti sveitarfélögin rúmlega 700 millj. kr., en útkoma hinna einstöku sveitarfélaga getur orðið nokkuð misjöfn. Augljóst er að hrópandi ósamræmi kemur upp, t.d. milli sveitarfélags með 299 íbúa sem borgar þá 299 x 1.700 kr. = 508.300 kr. og sveitarfélags með 300 íbúa sem greiðir 300 x 2.850 kr. = 855.000 kr. Þrjúhundruðasti íbúinn, sem bættist við í sveitarfélagi, yrði því ærið dýru verði keyptur í þessum skilningi eða á 346.700 kr. Álitamál hlýtur einnig að vera hvort svonefnd jafnræðisregla sé ekki brotin með þessari mismunun í skattlagningu.
    Reynt var eftir föngum að afla gagna um þetta mál á þeim tveimur sólarhringum sem til stefnu voru og eru þau birt með áliti þessu sem fskj. VI. Einnig þótti minni hlutanum rétt að birta sem fskj. VII nýstaðfestan Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga.
    Minni hlutinn mótmælir harðlega gerræðislegum og ólögmætum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í þessu máli og er því algerlega andvígur að þetta mál nái fram að ganga. Minni hlutinn leggur því til að þessum hluta frumvarpsins verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar þaðan sem það kom.

14.          Um II. kafla frumvarpsins.
    Umfjöllun nefndarinnar um II. kafla frumvarpsins var sama marki brennd og vinnan að öðru leyti. Sáralítill tími gafst til að fara yfir þessi atriði. Efni barst frá nokkrum aðilum, svo sem Kvikmyndasjóði, og auk þess komu á fund nefndarinnar þeir Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda, og Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri.
    Varðandi 34. gr. frumvarpsins, þar sem skert eru um u.þ.b. helming lögboðin framlög ríkisins í Framleiðnisjóð bænda, tók formaður Stéttarsambandsins það fram að þessi skerðing, ef hún næði fram að ganga, væri að sínu mati fyrstu eiginlegu vanefndir ríkisins á samningum þess við bændur frá 1985 ef frá væru talin minni háttar framkvæmdaratriði sem leyst hefðu verið með samkomulagi. Báðir viðmælendur nefndarinnar tóku fram að skerðing Framleiðnisjóðs nú kæmi á alversta tíma fyrir landbúnaðinn og sveitir landsins.
    Að lokum vill minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar ítreka mótmæli sín gegn þeim vinnubrögðum sem ríkisstjórnin hefur beitt í þessu máli og lýsir miklum áhyggjum yfir þeim ólýðræðislegu starfs- og samskiptaháttum sem nýir stjórnarherrar hafa innleitt gagnvart þingi og þjóð.
    Fulltrúi Kvennalistans í nefndinni vill taka fram eftirfarandi:
    Lagasetning af því tagi sem hér um ræðir, þar sem blandað er saman alls óskyldum málum og tækifærið notað til að koma í gegnum þingið lagabreytingum, sem koma „ráðstöfunum í ríkisfjármálum“ ekkert við, er algjör óhæfa og óvirðing við löggjafarhlutverk Alþingis. Þá er tíðkað að gera „eyrnamerkta“ lögbundna tekjustofna upptæka að hluta til eða að fullu. Þar með er gengið þvert á fyrri samþykktir Alþingis og komið í veg fyrir að brýn mál nái fram að ganga. Lög á að virða en Alþingi þarf einnig að vanda sig betur og samþykkja ekki lög nema ljóst sé hvaða kostnað þau hafa í för með sér.

Alþingi, 18. des. 1991.



Steingrímur J. Sigfússon,

Halldór Ásgrímsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.


frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.




Fylgiskjal I.

1.–3. GR.: GRUNNSKÓLI



Umsögn minni hluta menntamálanefndar um I. kafla frumvarps til laga


um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, 167. mál.


    Efnahags- og viðskiptanefnd sendi frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 til umsagnar menntamálanefndar sem hélt tvo fundi um málið. Á fundi nefndarinnar komu Örlygur Geirsson, Sólrún Jensdóttir og Ólafur Darri Andrason frá menntamálaráðuneytinu og Svanhildur Kaaber og Birna Sigurjónsdóttir frá Kennarasambandi Íslands. Samstaða varð ekki um málið í nefndinni og skilar minni hluti nefndarinnar sérstakri umsögn.
    Með I. kafla frumvarpsins er verið að breyta grunnskólalögum í ýmsum grundvallaratriðum í skjóli ráðstafana í ríkisfjármálum. Þetta er gert án þess að breytingarnar feli í sér verulegan sparnað umfram þær heimildir sem ráðherra hefur til að fresta endurbótum. Önnur ákvæði, sem lagt er til að fresta eða afnema, snerta aðra en ríkið fjárhagslega. Margar breytingartillagnanna eiga því ekki heima í lögum um sparnað í ríkisrekstri.
    Fjármálaráðuneyti telur að sparnaður, sem leiddi af breytingum á grunnskólalögum, geti á næsta ári í mesta lagi numið 40 milljónum króna og 100 milljónum króna á árinu 1993. Heildarútgjöld til grunnskóla á næsta ári eru talin verða um 5.400 milljónir þannig að sparnaðurinn á árinu 1992 er langt innan við 1%. Fulltrúar menntamálaráðuneytis, sem komu á fund nefndarinnar, töldu raunar að sparnaðaráhrifin umfram það sem væri á færi ráðuneytisins að ákvarða væru minni eða aðeins um 20 m.kr., þ.e. vegna frestunar á fækkun nemenda í 1. og 3. bekk. Hugsanlegur kostnaður umfram 40 m.kr. varði heimildir (aðstoðarskólastjórar) eða ákvæði sem ósamið væri um (varsla kennara í tengslum við skólamáltíðir).
    Við 1. umr. um málið greindi menntamálaráðherra frá því að hann fyrirhugi að leggja fram frumvarp á yfirstandandi þingi um breytingar á grunnskólalögum.
    Minni hluti menntamálanefndar telur engin frambærileg rök fyrir því að breyta áformum um framkvæmd grunnskólalaga í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum ársins 1992. Þær upphæðir, sem um er að ræða, eru smámunir bæði í heildarsamhengi útgjalda til grunnskóla og þess sparnaðar sem ríkisstjórnin hyggst knýja fram.
    Sé það hins vegar ásetningur ríkisstjórnarinnar að láta niðurskurðinn bitna á starfi grunnskóla í landinu ber að takmarka breytingar í lögum sem þessum við slíkar fjármálalegar aðgerðir einvörðungu. Það nær engri átt að ætla Alþingi um leið að taka stórar og stefnumarkandi ákvarðanir varðandi framtíð grunnskólans. Það er því krafa minni hluta menntamálanefndar að öll ákvæði sem lúta að slíku verði felld út úr frumvarpinu við 2. umr. málsins. Þetta ætti að vera þeim mun sjálfsagðara sem menntamálaráðherra hefur í undirbúningi sérstakt frumvarp að efnislegum breytingum á grunnskólalögum.
    Hér verður vikið nokkrum orðum að einstökum breytingum skv. I. kafla frumvarpsins:
    1. gr. a-liður varðar málsverði á skólatíma sem kemur í hlut sveitarfélaga en ekki ríkisins að sjá um. Um framkvæmd þessa geta sveitarfélögin tekið ákvarðanir hvert á sínum forsendum.
    1. gr. b-liður varðar grunnskólaráð sem vera á samstarfsvettvangur um málefni grunnskólans og á m.a. að fylgjast með framkvæmd grunnskólalaga og aðalnámsskrár. Kostnaður við starfsemi þess er óverulegur, lauslega áætlað 100–200 þús. kr. að mati embættismanna menntamálaráðuneytis.
    1. gr. c-liður varðar heimildarákvæði um ráðningu aðstoðarskólastjóra. Í þessu felst ekki sparnaður heldur pólitísk stefna.
    1. gr. d-liður varðar vikulegan kennslutíma á nemanda í grunnskóla og skólaathvörf fyrir nemendur utan kennslutíma. Í bráðabirgðaákvæði gildandi laga er tiltekið að ákvæðin komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku. Hins vegar gat ráðherra tekið ákvörðun um frestun á næsta ári án lagabreytinga ef hugmyndin væri að standa við sett markmið um að skólabörn hérlendis séu svipaðan tíma í skólum og tíðkast í grannlöndum okkar. Hér er því verið að boða afturför í málefnum grunnskólans.
    Síðara ákvæðið snertir sveitarfélögin kostnaðarlega en ekki ríkið, en þar er um að ræða mikilsvert hagsmunamál barna og foreldra, ekki síst í stórum sveitarfélögum. Þá er í lögunum heimild til gjaldtöku fyrir dvöl nemenda í skólaathvörfum. Ekki verður séð hvaða ástæða liggur að baki því að tengja þetta atriði „ráðstöfunum í ríkisfjármálum“.
    2. gr. er flutt til að taka af vafa um að sveitarfélög borgi allan kostnað við byggingu grunnskólahúsnæðis eins og ráð var fyrir gert þá samið var um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga fyrir nokkrum árum. Minni hluti nefndarinnar gerir ekki efnislega athugasemd við þetta atriði sem þó hefði mátt bíða boðaðs frumvarps menntamálaráðherra.
    3. gr. Með henni eru gerðar miklar breytingar á bráðabirgðaákvæðum grunnskólalaga og allar til hins verra.
*    Frestað er fækkun nemanda í neðstu bekkjum grunnskólans og er sparnaðurinn talinn nema um 20 m.kr. á árinu 1992.
*    Fellt er niður ákvæði um námsráðgjafa við grunnskóla sem koma átti til framkvæmda á fimm árum.
*    Fellt er niður að ákvæði 3. gr. grunnskólalaga um einsetinn skóla skuli að fullu koma til framkvæmda á 10 árum.
*    Fellt er niður ákvæði um að málsverðir á skólatíma skuli koma til framkvæmda á þremur árum, en tillaga um frestun þess 1992 er fólgin í a-lið 1. gr. frv.
*    Sett er inn ákvæði þess efnis að ráðherra skuli með reglugerð kveða á um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þar með taldar valgreinar og um leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma. Ákvæðið varðar svonefnda viðmiðunarstundaskrá og ekki er ljóst af orðalagi hvort því megi beita til að skerða með reglugerð lágmarkstímafjölda barna í grunnskólum. Slíkt væri óhæfa og því nauðsynlegt að enginn vafi leiki á um hvað í ákvæðinu felst að þessu leyti.
    Eins og fram kemur af þessu yfirliti um efni I. kafla frumvarpsins fela ákvæði hans vart í sér meira en um 20 m.kr. sparnað á ríkisútgjöldum á árinu 1992. Þeim mun meira er hins vegar um skólapólitískar stefnuáherslur að ræða í 1. og 3. gr. frumvarpsins. Það er siðlaust að ætla Alþingi að taka á þeim málum efnislega í tengslum við fyrirliggjandi frumvarp.
    Með vísan til þess sem að ofan greinir leggur minni hlutinn til að I. kafli verði felldur út úr frumvarpinu.

Alþingi, 10. des. 1991.



Hjörleifur Guttormsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Valgerður Sverrisdóttir.



Ólafur Þ. Þórðarson.




Fskj. 1.

Bréf Kennarafélags Reykjavíkur til alþingismanna.


(5. desember 1991.)


    Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur hefur á fundi sínum fjallað um kennaraskort og aukinn fjölda leiðbeinenda í skólum Reykjavíkur. Kennarar í Reykjavík hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þess að ríkisvaldið virðist ekki gera sér grein fyrir því að ein forsenda farsæls skólastarfs eru vel menntaðir kennarar sem eru sáttir við laun sín og kjör. Miklu máli skiptir að stöðugleiki ríki í skólastarfinu ekki síst vegna breyttra aðstæðna og þarfa í nútímaþjóðfélagi.
    Kennarar fögnuðu því að ný grunnskólalög voru samþykkt í vor en í þeim er einmitt tekið tillit til breytts þjóðfélags og stefnt að lengingu skóladags nemenda, skólamáltíðum, skólaathvarfi og fækkun nemenda í bekkjardeildum. Þegar fjallað er um fjölda nemenda í bekkjardeildum er yfirleitt talað um meðaltal sem er mjög villandi. Þó meðaltal nemenda í bekk í Reykjavík hafi lækkað um 0,43 nemendur þá eru nú 132 bekkjardeildir með yfir 25 nemendur en þær voru 92 á skólaárinu 1990–1991.
    Kennarastarfið hefur tekið miklum breytingum vegna nýs og breytts þjónustuhlutverks skólanna við nemendur og foreldra. Samfélagið gerir nú meiri kröfur til skólanna og því þarf ríkisvaldið að koma til móts við nemendur og kennara með því að styrkja skólastarfið og fækka nemendum í bekkjardeildum, koma á einsetnum skóla og samfelldum skóladegi og síðast en ekki síst tryggja að kennarar komi til starfa í skólana. Því eru þau vinnubrögð, sem felast í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, óskiljanleg en þar eru felld úr gildi eða frestað þeim ákvæðum í lögum um grunnskóla sem samþykkt voru sl. vor sem eflt gætu og styrkt skólastarfið og hlýða kalli samfélagsins.
    Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundi stjórnar Kennarafélags Reykjavíkur 2. nóvember 1991:
    „Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fjölgunar leiðbeinenda í grunnskólum Reykjavíkur. Þegar skólar tóku til starfa í haust hafði ekki tekist að ráða kennara í allar kennarastöður og því var ýmist gripið til þess ráðs að ráða leiðbeinendur eða senda nemendur heim. Á skólaárinu 1990–1991 voru 24 leiðbeinendur í grunnskólum Reykjavíkur en eru 52 á þessu skólaári. Það er því ljóst að kennaraskorturinn, sem ríkt hefur á landsbyggðinni, hefur teygt sig inn í skóla höfuðborgarinnar.
    Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur skorar á yfirvöld að standa vörð um skólastarfið í landinu og bæta kjör kennara þannig að þeir komi til starfa í grunnskólum landsins.“
    „Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur mótmælir því harðlega að í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 er gert ráð fyrir að fresta eða fella út gildi ákvæði um málsverði í skólum, fjölgun vikulegra viðmiðunarstunda nemenda og fækkun nemenda í bekkjardeildum. Kennarar fögnuðu nýjum grunnskólalögum í vor einmitt m.a. vegna þessara ákvæða því þar með var komið til móts við breyttar þarfir nútímaþjóðfélags. Stjórnin mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem felast í því að samþykkja lög á einu þingi og ógilda á því næsta. Slík vinnubrögð eru ekki til að styrkja skólastarfið.
    Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur heitir á alþingismenn að standa vörð um skólastarfið í landinu og tryggja að grunnskólar starfi í anda laga um grunnskóla frá 1991.“

Virðingarfyllst,


f.h. Kennarafélags Reykjavíkur,


Guðrún Ebba Ólafsdóttir.



Fskj. 2.

Bréf Kennarasambands Íslands til alþingismanna.


(3. desember 1991.)


    Með bréfi sem dagsett var 9. október sl. vakti Kennarasamband Íslands athygli á þeirri óvissu sem ríkti um framkvæmd nýrra grunnskólalaga. Þar var því beint til þingmanna að standa vörð um sjálfsögð og mikilvæg ákvæði laganna og sjá til þess að skólastarfi grunnskólanna yrðu tryggðar fjárveitingar í samræmi við þau.
    Nú hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að fresta eða fella niður flest ákvæði nýju grunnskólalaganna sem til framfara horfa.
    Þegar nýju grunnskólalögin voru í undirbúningi og umfjöllun Alþingis á síðasta ári náðist um þau breið samstaða allra þingflokka. Þingmenn lýstu þannig vilja sínum til að tryggja farsælt skólastarf til framtíðar og festa í lög skipulag skólastarfs sem er í samræmi við þróun þjóðfélagsins á undanförnum árum.
    Grundvallarmenntun þjóðarinnar er tryggð í lögum um grunnskóla. Framvinda skólastarfsins er háð því að festa ríki í skipulagi skólanna. Festa og ró í skólastarfinu er líka undirstaða þess að gagnkvæmt trúnaðartraust ríki milli þeirra sem starfa við skólana og hinna sem njóta þjónustu þeirra, nemenda og foreldra. Starfið í skólunum er því enn viðkvæmara en starf flestra annarra opinberra stofnana fyrir þeirri hentistefnu sem nú virðist ríkja hjá stjórnvöldum.
    Með nýju grunnskólalögunum var m.a. stefnt að einsetnum grunnskóla, samfelldum sjö stunda skóladegi og fækkun nemenda í stórum bekkjardeildum. Þessi ákvæði laganna voru fyrst og fremst nemendum til hagsbóta og tryggðu þeim markvissari menntun en komu auk þess til móts við þarfir þjóðfélags sem byggir á vinnuframlagi beggja foreldra. Með frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum ráðgera núverandi stjórnvöld að fresta eða fella niður öll þessi mikilvægu ákvæði og mörg fleiri.
    Við slíkt ábyrgðarleysi verður ekki unað. Kennarasamband Íslands mótmælir því harðlega að lagaákvæði, sem samþykkt hafa verið og kynnt foreldrum og kennurum, skuli gerð marklaus á þann hátt sem nú er ráðgert.
    Kennarasamband Íslands heitir á alþingismenn að standa vörð um þær breytingar á grunnskólalögum sem allir þingflokkar voru sammála um á sl. vori og tryggja skólastarfinu fjárveitingar í samræmi við lög um grunnskóla frá 1991.

Með kveðju,


f.h. Kennarasambands Íslands,


Svanhildur Kaaber, formaður KÍ,


Birna Sigurjónsdóttir, formaður skólamálaráðs KÍ.



Fskj. 3.

Bréf Kennarasamband Íslands til alþingismanna.


(13. desember 1991.)


    Eftirfarandi ályktanir voru gerðar á fundi í stjórn Kennarasambands Íslands í dag:

Ályktun um niðurskurð í ríkisfjármálum.
    Kennarasamband Íslands mótmælir harðlega þeim tillögum ríkisstjórnarinnar sem birtast í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þær auka á kjaraskerðingu launafólks, vega að starfsöryggi þess og draga úr þjónustu velferðarkerfisins. Með tillögum sínum ræðst ríkisstjórnin enn einu sinni á þá þjóðfélagsþegna sem búa við bágust kjör og eiga erfiðast með að verja sig árásum hennar í stað þess að sækja aukið fjármagn með skattlagningu á háar launatekjur og fjármagnsgróða.
    Kennarasamband Íslands vísar á bug öllum tillögum um flatan niðurskurð á launa- og rekstrarkostnað ríkisstofnana sem nú þegar búa við allt of þröngan kost og geta margar hverjar ekki sinnt verkefnum sínum sem skyldi vegna fjárskorts. Einkum á þetta við um skóla- og heilbrigðiskerfið en einmitt þar er lagt til að niðurskurðurinn verði mestur.
    Nái tillögur ríkisstjórnarinnar um niðurskurð fram að ganga er augljóst að þær munu enn torvelda samningagerð og auka líkur á frekari átökum launafólks og vinnuveitenda.
    Kennarasamband Íslands skorar á Alþingi að standa vörð um hagsmuni almennings, vernda og bæta félagslega þjónustu en láta ekki gróða- og markaðshyggju ráða ferðinni.

Ályktun um tillögur til breytinga á grunnskólalögum.
    Í hugmyndum ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem nú liggja fyrir Alþingi, koma fram tillögur um breytingar á lögum um grunnskóla sem Alþingi samþykkti samhljóða sl. vor.
    Kennarasamband Íslands varar eindregið við tillögunum sem þar koma fram og varða m.a. lengingu skóladags, fjölda nemenda í bekkjardeildum, stjórnun grunnskóla, námsráðgjöf o.fl. Ekki verður betur séð en með tillögum ríkisstjórnarinnar séu gerðar grundvallarbreytingar á grunnskólalögum í skjóli ráðstafana í ríkisfjármálum. Það á sérstaklega við um þær tillögur sem fram koma um að taka lögbundin ákvæði um fjölda kennslustunda út úr lögum en heimila ákvörðun þeirra með reglugerð. Þannig verður ákvörðun um kennslustundafjölda í höndum ráðherra og starfsmanna hans á hverjum tíma en ekki Alþingis eins og lög gera ráð fyrir og opin leið fyrir stjórnvöld til niðurskurðar í grunnskólum án samráðs við Alþingi.
    Mjög hæpið er að þær tillögur, sem fyrir liggja, verði til sparnaðar í skólakerfinu þegar á heildina er litið, hættara er við að þær muni kalla á kostnaðarsamar hliðarráðstafanir, auk þess sem þær vega gróflega að hagsmunum nemenda og foreldra þeirra og gera skólunum enn erfiðara en nú er að sinna lögboðnum skyldum sínum.
    Kennarasamband Íslands skorar á Alþingi að standa við ákvarðanir sínar frá sl. vori og koma í veg fyrir að gerðar verði breytingar á grunnskólalögum sem ríkisstjórnin gerir nú tillögu um.

Með kveðju,


f.h. Kennarasambands Íslands,


Svanhildur Kaaber, formaður.




Fylgiskjal II.


4. GR.: JARÐRÆKTARLÖG



Umsögn landbúnaðarnefndar


um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.


(12. desember 1991.)


    Að ósk efnahags- og viðskiptanefndar hefur landbúnaðarnefnd fjallað um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 að því er tekur til landbúnaðar.
    Nefndin kynnti sér efni 31., 32., 33. og 34. gr. frumvarpsins. En þar sem nefndin fékk þau skilaboð að ekki væri leitað eftir tillögum varðandi II. kafla frumvarpsins tók hún ekki afstöðu til þeirra greina.
    Við umfjöllun nefndarinnar um 4. gr. frumvarpsins, er varðar jarðræktarlög, náðist ekki samstaða um sameiginlega afstöðu. Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar er eftirfarandi:
    Vísað er til kafla úr áliti nefndarinnar til fjárlaganefndar Alþingis, fskj. 1., og umsagnar Búnaðarfélags Íslands um framkvæmd jarðræktarlaga, fskj. 2., en þar koma fram mikilvægar skýringar um stöðu þessara mála. Nefndin vekur athygli á að skv. 4. gr. frumvarpsins, ef að lögum verður, er tekinn upp sami háttur og árið 1988 þegar greiðslur ríkissjóðs vegna jarðræktarframlaga voru bundnar fjárveitingu á fjárlögum.
    Vakin er athygli á að sú breyting, sem gerð var á jarðræktarlögum árið 1989, tók einkum mið af þeim vanda sem leiddi af vanskilum ríkissjóðs við bændur og um þá afgreiðslu náðist víðtækt samkomulag þegar málið var til umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi og þá þess vænst að friður yrði um þessi mál.
    Eins og fram kemur í fskj. 2 hefur orðið mikill samdráttur í jarðræktarframlögum á síðustu árum. Árið 1984 voru þessi framlög (verðl. 1991) 506 millj. kr. Síðan hafa þau lækkað ár frá ári niður í 94.8 millj. kr. árið 1991. Þannig hafa bændur landsins mætt aðstæðum breyttra tíma með stórfelldum sparnaði. Samt á nú að höggva öðru sinni í sama knérunn.
    Það er ríkt í fari menningarþjóða að vernda lendur sínar og bæta ræktunarlönd. Við erfiðari náttúrufarsleg skilyrði verður þessi þörf enn brýnni.
    Ákvæði 4. gr. frumvarpsins eru andstæð þessum markmiðum og ganga gegn því samkomulagi sem gert var við bændur landsins við breytingu jarðræktarlaga árið 1989. Eins og reynslan sýnir þarf að endurskoða jarðræktarlögin öðru hvoru að kröfu breyttra tíma. Slík endurskoðun þarf vandaðan undirbúning og samráð við bændur landsins. Hér skortir á að svo sé. Þess vegna leggur meiri hluti nefndarinnar, sem skipaður er Agli Jónsyni, Kristínu Ástgeirsdóttur, Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, Guðni Ágústssyni og Sigurði Hlöðvessyni, til að 4. gr. frumvarpsins um ráðstafanir í ríkisfjármálum verði ekki lögfest. Aðrir nefndarmenn, Geir H. Haarde, Árni Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson og Sigbjörn Gunnarsson, leggja til að 4. gr. verði óbreytt.

F.h. landbúnaðarnefndar,


Egill Jónsson,


formaður.



Fskj. 1.

KAFLI ÚR ÁLITI LANDBÚNAÐARNEFNDAR TIL FJÁRLAGANEFNDAR



Jarðræktarlög og búfjárræktarlög, liður 04-288.


    Að lokinni allvíðtækri umfjöllun um jarðræktarlög árið 1989 varð samkomulag við bændur um þá niðurstöðu sem leiddi til núgildandi jarðræktarlaga. Aðalatriði samkomulagsins er að framlög eru ekki háð ákvörðun fjárlaga hverju sinni, að framlög vegna ræktunar og skurðgraftar eru bundin við ákveðið hámark en aðrar framkvæmdir eru háðar samþykki landbúnaðarráðherra. Framlög til einstakra verkefna voru lækkuð og sum felld niður. Í framhaldi af þessu samkomulagi voru ógreidd framlög fyrri ára gerð upp. Þetta er ljóst af þeim málsskjölum sem fyrir liggja og ræðum þeirra alþingismanna sem að málinu unnu. Svo sem kunnugt er greinir Ríkisendurskoðun og ríkislögmann á um túlkun jarðræktarlaga.
    Búnaðarfélag Íslands hefur farið þess á leit að bændur stilli ræktunarframkvæmdum sem mest í hóf þar til greiðslum þeirra skuldabréfa, sem ríkissjóður gaf út vegna uppgjörs jarðræktarframlaga samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi, lýkur árið 1993.
    Ógreidd jarðræktarframlög frá síðasta ári nema 49.702 þús. kr. og framkvæmt hefur verið á þessu ári fyrir 74.421 þús. kr. Áfallin greiðsluskuldbinding er þannig 124.123 þús. kr. Til greiðslu eru eftirstöðvar af fjárveitingu samkvæmt fjárlögum 1991 að upphæð 41.295 þús. kr. og fjárveiting samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga að upphæð 35.000 þús. kr. eða 76.295 þús. kr. alls. Eftir standa því 47.828 þús. kr. Með fjárveitingu samkvæmt fjárlagafrumvarpi verður unnt að greiða áfallnar skuldbindingar þessa árs. Það má því segja að jarðræktarlögin búi við svipað ástand og var fyrir einu ári því ekkert fjármagn er fyrir hendi til greiðslu jarðræktarframkvæmda árið 1992.
    Hafa ber í huga að skuldbindingum ríkissjóðs vegna útgefinna skuldabréfa til uppgjörs jarðræktarframlaga lýkur árið 1993. Það auðveldar að koma þessum málum í það horf sem samkomulag varð um við bændur landsins árið 1989.

Fskj. 2.

Greinargerð um jarðræktarlög og framkvæmd þeirra.


    Jarðræktarlög voru fyrst sett árið 1923. Það er almennt viðurkennt að þau leiddu til byltingar í landbúnaði hér á landi. Eftir setningu þeirra hófst hér sú ræktunaralda, sem á næstu þremur áratugum, færði landbúnaðinn frá fleytingsbúskap yfir til þess að verða tæknivæddur ræktunarbúskapur.
    Jarðræktarlögum hefur margoft verið breytt og þau löguð að ríkjandi aðstæðum. Á árunum 1979–1986 voru í gildi skerðingarákvæði þar sem framlög til ákveðinna framkvæmda voru skert um 50% en því fé, sem með því sparaðist, var veitt í Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Nokkurn veginn var staðið við þau framlög sem lögbundin voru á þessum árum og nutu þá nokkur nýmæli í búskap framlaga fyrir vikið.
    Gagnger endurskoðun fór fram á jarðræktarlögum 1987 (lög nr. 56/1987). Hvort tveggja var að nokkur nýmæli voru tekin upp, svo sem framlög til loðdýrabygginga, til skjólbelta, til gróðurhúsa og garðávaxtageymslna og að takmarkanir voru settar á önnur framlög, svo sem til framræslu og grænfóðursræktar.
    Nýmæli var í þessum lögum að ráðherra gat ákveðið að sótt skyldi um framlög til ákveðinna hluta. Því var beitt hvað allar byggingar varðaði, svo og um framræslu sem lengi hafði aðeins farið fram eftir pöntunum.
    Lögin leiddu til verulegs sparnaðar fyrir ríkið. (Sjá meðfylgjandi tölur um framlög greidd 1987, 1988 og síðan. En þessi ár voru framlög greidd ári síðar en framkvæmdir voru unnar.)
    Í lánsfjárlögum fyrir árið 1988 (23. gr. laga nr. 5 frá 14. jan. 1988) var svo sett inn ákvæði svohljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. laga nr. 56/1987, jarðræktarlaga, skal greiðsla ríkissjóðs á framlagi til jarðabóta vegna framkvæmda á árinu 1987 ekki fara fram úr 141.000 þús. kr. á árinu 1988 en lokagreiðsla komi árið 1989.“
    Vegna framkvæmda sem unnar voru 1987 hefði átt að greiða 217 millj. kr. árið 1988 en greiddar voru 142,5 (sjá töflu hér á eftir).
    Samsvarandi ákvæði var sett í lánsfjárlög fyrir árið 1989. Þar stóð að framlag úr ríkissjóði til jarðabóta skyldi ekki „fara fram úr 100.000 þús. kr. á árinu 1989. Þó er fjármálaráðherra heimilt, að höfðu samráði við landbúnaðarráðherra og fjárveitinganefnd Alþingis, að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988.“
    Jarðræktarlögin voru svo enn endurskoðuð árið 1989 (lög nr. 65 frá 1989). Þá urðu allviðamiklar breytingar á þeim en sú mest að öll framlög eru nú háð því skilyrði að sótt hafi verið um að fá framlög árið áður en framkvæmd er fyrirhuguð. Umsóknarfrestur er nú til 15. sept. það ár.
    BÍ hefur því getað gert fjárveitingavaldinu grein fyrir samanlögðum óskum bænda um framlög tímanlega fyrir frágang fjárlaga.
    Í öðru lagi var sú breyting gerð að framlög skulu nú greiðast á sama hátt og framkvæmdir eru unnar. Það er fyrir 1. nóvember hafi úttekt þá borist en taka verðbótum mánaðarlega í samræmi við hækkanir jarðræktarvísitölu ef greiðsla dregst.
    Þá voru felld niður framlög til ákveðinna framkvæmda og hámark sett á heildarframlag til endurræktunar túna og skal hún nema 2.000 ha (sé um það magn sótt) og til viðhalds framræslu sem er 2 millj. m 3 og 500 km plógræsi.
    Þá voru öll framlög lækkuð að krónutölu eða sem hlutfall af framkvæmdakostnaði, sbr. framræslu og vatnsveitur, sem svaraði áætluðum hagnaði bænda af því að nú áttu þeir að fá framlögin greidd verulega fyrr en áður, sbr. gjald 1. nóvember.
    Árið 1990 var fyrsta árið sem þessi lög komu til fullra framkvæmda. Haustið 1989 var safnað pöntunum í allar framkvæmdir. Alls bárust pantanir um framkvæmdir sem hefðu kostað 206 millj. kr. í framlögum. (Sótt var um 4.500 ha endurræktun og 2,6 millj. m 3 skurðhreinsun.) Umsóknir innan stærðarmarka svöruðu til 160 millj. kr. framlaga. Fjárveiting ársins nam aðeins 50 millj. kr.
    Saga ársins 1991 er hliðstæð þessu. 50 millj. kr. eru á fjárlögum. Sú fjárveiting fór því sem næst til að greiða skuldbindingar frá árinu 1990.
    Af aukafjárveitingu í ár upp á 42,5 millj. kr. fóru 7,5 millj. kr. til að greiða hækkanir sem urðu á skuldbréfum er komu til greiðslu 1. ágúst sl. umfram það sem áætlað var.
    Því eru nú til ráðstöfunar 35 millj. kr. Úttektir, sem bárust fyrir 15. nóvember, nema um 95 millj. kr. Af þeim eru nokkrar sem ekki fullnægja öllum formsatriðum en ljóst er að til viðbótar 35 milljónunum þarf alla þá fjárveitingu sem fyrirhuguð er á næsta ári, 50 millj. kr., til að greiða út á framkvæmdir 1991. Er þá komið í það far sem áður var að ekki verður hægt að greiða framlögin fyrr en árið eftir framkvæmdir.
     Skuldabréf. Sá greiðsluhali, sem myndast hafði vegna framkvæmda áranna 1988 og 1989, var „gerður upp“ með útgáfu skuldabréfa. Skuldabréf vegna framkvæmda frá árinu 1988 voru send til bænda á miðju ári 1990. Þau skyldu taka hækkunum samkvæmt lánskjaravísitölu frá 1. ágúst 1989. Nafnverð þeirra var 96,3 millj. kr. Þau hafa nú verið greidd og námu á gjalddaga 118,9 millj. kr.
    Skuldabréf vegna framlaga sem greiðast áttu 1990 (framkvæmdir 1989) voru gefin út síðari hluta árs 1990. Þau miðast við verðlag (lánskjaravísitölu) 1. ágúst 1990 og eru með gjalddaga 1. ágúst 1992 og 1. ágúst 1993. Samanlögð upphæð þessara bréfa er 104,5 millj. kr. Skuldabréfin bera ekki vexti.

Jónas Jónsson.



Ríkisframlög til jarðabóta samkvæmt jarðræktarlögum árin 1984–1990.


(Í milljónum króna.)



Ár

Á verðlagi

Á verðlagi


hvers árs

1991



1984          
145,0
506,0
1985          
169,5
440,6
1986          
162,5
346,2
1987          
217,5
387,1
1988          
164,0
241,1
1989          
126,1
150,0
1990          
90,3
94,8


REPRÓ í Gutenberg bls. 10–11 í þskj. 285).




Fylgiskjal III.


9.–10. GR.: ÁBYRGÐASJÓÐUR LAUNA VEGNA GJALDÞROTA


12.–14. GR.: HÚSNÆÐISMÁL



Umsögn minni hluta félagsmálanefndar um frumvarp til laga


um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, 167. mál.


    Minni hluti félagsmálanefndar hefur farið yfir þær greinar frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 sem tengjast verksviði nefndarinnar og gerir eftirfarandi athugasemdir:
    Minni hlutinn mótmælir fyrirhuguðum breytingum á ríkisábyrgð á launum, sem fram koma í 9. og 10. gr. frumvarpsins og athugasemdum um þær. Verði þessar breytingar að veruleika munu þær skerða verulega réttarstöðu launafólks sem er ekki síst alvarlegt núna þegar við blasa verulegir rekstrarerfiðleikar hjá fjölmörgum fyrirtækjum og vaxandi fjöldi gjaldþrota. Verður ekki betur séð en að með sjóðstofnuninni verði réttur launafólks afleiddur af umfangi sjóðsins og fjölda gjaldþrota og því engin ábyrgð tekin á þessum rétti af ríkisins hálfu.
                  Í athugasemdum við 10. gr. frumvarpsins er boðað að ákvæði núgildandi laga um ríkisábyrgð á launum verði þrengd verulega án þess þó að frumvarp um það efni hafi verið lagt fram á Alþingi. Telur minni hluti félagsmálanefndar algerlega óviðunandi að staðið sé að málum með þessum hætti.
                  Þá vill minni hluti félagsmálanefndar vekja athygli á því að í umsögn frá VSÍ segir m.a. um fyrirhugað ábyrgðargjald: „Erfiðleikum í atvinnulífi fylgja að öðru jöfnu fjölgun gjaldþrota og það hlýtur a.m.k. að vera vafasöm hagfræði að auka á erfiðleika annarra í atvinnurekstrinum með auknum álögum af þessum toga“.
    Í 10., 13., 23. og 44. gr. frumvarpsins er verið að leggja á auknar álögur eða skerða tekjur sveitarfélaganna í landinu um upphæð sem nemur 220 m.kr. Þessu til viðbótar hefur ríkisstjórnin boðað tilflutning á verkefnum til sveitarfélaganna, sem gætu, að öðru óbreyttu, haft í för með sér aukin útgjöld fyrir þau upp á a.m.k. 900 m.kr. Ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin um þennan verkefnaflutning sem er í hróplegri andstöðu við gildandi lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Minni hluti félagsmálanefndar mótmælir harðlega þessum vinnubrögðum og mun ekki taka afstöðu til þeirra breytinga sem lagðar eru til í þessu frumvarpi fyrr en heildarmyndin liggur fyrir.
    Fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni, Jón Kristjánsson og Ingibjörg Pálmadóttir, eru andvígir þeim ákvæðum sem eru í 14. gr. frumvarpsins og varða lokun húsnæðislánakerfisins frá 1986. Fulltrúi Alþýðubandalagsins, Kristinn H. Gunnarsson, hefur fyrirvara um 14. gr. frumvarpsins.

Alþingi, 12. des. 1991.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Jón Kristjánsson.

Kristinn H. Gunnarsson.



Ingibjörg Pálmadóttir.




Fskj. 1.

Umsögn Vinnuveitendasambands Íslands um ábyrgðasjóð launa.


    Í framhaldi af beiðni um álit Vinnuveitendasambands Íslands á fram komnum tillögum í 9.–10. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, vill VSÍ láta eftirfarandi koma fram:
    VSÍ er um það kunnugt að ýmislegt mætti betur fara í framkvæmd ríkisábyrgðar á laun og að tilefni er til endurskoðunar einstakra þátta þar um gildandi reglna. Sú tillaga, sem í frumvarpinu felst, að fela höfuðsamtökum vinnumarkaðarins nokkra ábyrgð á framkvæmd er því til bóta og líkleg til að skerpa og bæta framkvæmd. Að því er varðar fjármögnun þeirrar ábyrgðar á launum og skyldum kröfum við gjaldþrot fyrirtækja hefur hingað til verið talið eðlilegt að samfélagið axlaði þær byrðar sameiginlega fyrir milligöngu ríkissjóðs sem lög mæltu fyrir að létt skuli af þeim sem fyrir tjóni verða. Það fyrirkomulag að jafna tjóninu af gjaldþrotum í atvinnurekstri á „eftirlifandi“ fyrirtæki er nálegt og til þess fallið að auka á erfiðleika í atvinnulífinu. Erfiðleikum í atvinnulífi fylgir að öðru jöfnu fjölgun gjaldþrota og það hlýtur a.m.k. að vera vafasöm hagfræði að auka á erfiðleika annarra í atvinnurekstrinum með auknum álögum af þessum toga. Frumvarpið miðar að 0,2% gjaldtöku af öllum launagreiðslum, en versni ástandið í atvinnulífinu enn er ráð fyrir því gert að þetta gjald geti enn hækkað. Þetta samhengi er augljóslega út í hött.
    Vinnuveitendasambandið leitar um þessar mundir eftir framlengingu almennra kjarasamninga án launahækkana. Þá á því byggt að viðmiðun gengisskráningar íslensku krónunnar verði haldið óbreyttri þrátt fyrir áætlaðan samdrátt þjóðartekna um allt að 6% og 8–10 milljarða króna samdrátt útflutningstekna. Við þessar aðstæður er þess engin von að fyrirtækin geti tekið á sig hækkun launa og sama gildir um hækkun launatengdra gjalda. Vinnuveitendasambandið mótmælir því eindregið þessum áformum um að veita einum kostnaðarlið ríkisvaldsins af erfiðleikum í atvinnulífi yfir á atvinnureksturinn og er þar sérstaklega fráleit opnun heimildar til hækkunar gjaldsins eftir því sem „þarfirnar“ verða.
    Þetta gjald hækkar raungengi krónunnar og gengur því þvert á það markmið að lækka raungengið með minni kostnaðarhækkunum hér á landi en meðal samkeppnislanda. Gjaldið mun lenda með fullum þunga á þeim fyrirtækjum sem um þessar mundir er verið að gera sérstakar ráðstafanir fyrir m.a. á vettvangi Atvinnutryggingarsjóðs.
    Með vísan til alls þessa væntir Vinnuveitendasambandið þess að fallið verði frá umræddum áformum um álagningu nýs launaskatts.

Virðingarfyllst,


Þórarinn V. Þórarinsson.




Fskj. 2.

Umsögn Alþýðusambands Íslands um ábyrgðasjóð launa.



Almennt um frumvarpið.
    Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram á Alþingi frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 þar sem í ýmsum atriðum er vegið að grundvallarréttindum launafólks. Þar má nefna kvöð um framlag sveitarfélaga til félagslegra íbúða sem líklegt er að dragi úr vilja sveitarfélaga til að fjölga félagslegum íbúðum. Einnig má nefna aukið sjálfdæmi ráðherra um greiðslur sjúklinga vegna læknisþjónustu og lyfja og útboð á heilbrigðisþjónustu.

Ríkisábyrgð á laun.
    Um þessi atriði verður ekki fjallað hér heldur einvörðungu þá atlögu að ríkisábyrgð á laun við gjaldþrot sem felst í frumvarpinu.

Afnám ábyrgða — hámarksfjárhæð á ári.
    Í stað ríkisábyrgðar á laun er ætlunin að setja á fót ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Sjóðurinn skal fjármagnaður með 0,2% gjaldi atvinnurekenda af greiddum vinnulaunum. Áætlað er að gjaldið muni skila 374 millj. kr. á næsta ári en í byrjun nóvember 1991 höfðu verið greiddar rúmlega 400 millj. kr. vegna gjaldþrotauppgjöra á þessu ári. Fátt bendir til þess að gjaldþrot verði minni á næsta ári, fremur meiri. Hér er því augljóslega um alvarlega skerðingu að ræða.
    Þar sem fjárhæðin er takmörkuð við hámark 0,2% atvinnurekendagjald er óvissa um hver réttur fólks yrði. Það færi eftir umfangi gjaldþrota hve mikið rétturinn skerist. Því væri ekki lengur um ábyrgð á ákveðnum rétti að ræða. Ábyrgðin færi eftir greiðslugetu sjóðsins og ásókn í sjóðinn.

Atvinnurekendagjald.
    Víða um lönd er fjár til ríkisábyrgðar aflað með atvinnurekendagjöldum. Sú aðferð er ekki fordæmanleg. Hitt er ljóst að atvinnurekendagjald í hlutfalli af launum gætu atvinnurekendur jafnauðveldlega greitt út í kaupi. Þeir sem fylgst hafa með samningaviðræðum á liðnum árum hafa heyrt atvinnurekendur ítrekað bjóðast til að hækka kaup á kostnað launatengdra greiðslna. Í samningsstöðunni er nú ljóst að nýtt atvinnurekendagjald verður á kostnað launahækkunarmöguleika í samningum.

Ótilgreind skerðing. Engin ábyrgð gagnvart lífeyrissjóðsgjöldum.
    Á síðasta ári var reglum breytt þannig að sett var hámark á greiðslur fyrir hvern mánuð, þrefaldar atvinnuleysisbætur eða um eitt hundrað og þrjátíu þúsund á mánuði. Einnig voru gerðar þær kröfur til lífeyrissjóðanna að þeir sýndu fram á að þeir hafi beitt tiltækum innheimtuaðgerðum en ekki látið undir höfuð leggjast að ganga eftir iðgjöldum í trausti þess að ríkisábyrgðin greiddi þau.
    Nú á að:
1.    takmarka tímabilið sem ábyrgðin nær til,
2.    setja þak á heildargreiðslur til hvers launþega,
3.    greiða almenna innlánsvexti á bæturnar,
4.    fella niður ábyrgðina á lífeyrissjóðsiðgjöldunum,
5.    skerða greiðslur kostnaðar vegna innheimtu.
    Lífeyrisréttur fellur niður sem svarar þeim lífeyrisiðgjöldum sem ekki innheimtast.

Hverjir eiga að bera áföllin?
    Það er yfirlýst efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar að fyrirtæki í rekstrarerfiðleikum eigi einfaldlega að fara á hausinn ef þau geta ekki sjálf bjargað sér út úr erfiðleikunum. Gjaldþrot fyrirtækja eru þannig í dag yfirlýst hagstjórnartæki. Í þeim efnahagserfiðleikum sem nú blasa við er fyrirsjáanlegt að mörg gjaldþrot eru fram undan.
    Það ætti ekki að koma á óvart við þessar aðstæður að útgjöld vegna ríkisábyrgðar á laun vegna gjaldþrota hafa vaxið að undanförnu og líklegt er að þau muni enn vaxa á næsta ári. Það er hins vegar ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli telja réttlætanlegt að ætla starfsfólki þeirra fyrirtækja sem verða gjaldþrota að taka þann kostnað á sig. Það er áfall að missa vinnuna og starfsfólkið hefur fæst haft minsta möguleika til að hafa áhrif á þær aðstæður sem leiddu til gjaldþrots, oft jafnvel ekki haft upplýsingar um stöðuna fyrr en að gjaldþrotinu kom.
    Nú þegar eru greiðslur vegna hvers mánaðar takmarkaðar við um 130 þúsund krónur á mánuði. Fólk með hærri laun fær því aðeins launatap bætt að hluta. Styttri bótatími kemur fyrst og fremst niður á því fólki sem ekki kemst í aðra vinnu eins og t.d. gerist á fámennum stöðum þegar meginvinnuveitandi staðarins verður gjaldþrota.
    Lífeyrissjóðsiðgjöldin gefa rétt til lífeyris á elliárum. Séu þau ekki greidd tapast sá réttur sem áunnist hefði með greiðslu þeirra. Ef lífeyrissjóðurinn veitir réttinn eftir sem áður skerðist staða hans sem því nemur. Nú þegar er óvissa um stöðu lífeyrissjóða ASÍ-fólks til að standa við skuldbindingar sínar. Réttindi án iðgjalda skerða stöðu þeirra enn frekar. Lífeyrissjóðir ASÍ-fólks njóta ekki ríkisábyrgðar og það fólk, sem þangað greiðir, nýtur þrátt fyrir meiri greiðslur minni réttar en opinbera kerfi tryggir. Skerðing á lífeyri ASÍ-fólks veldur aukinni mismunun.

Alþjóðasamþykktir.
    Um þessar mundir er af Íslands hálfu verið að yfirfara drög að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á skuldbindingu þjóða til að tryggja launafólk vegna gjaldþrota fyrirtækja sem síðan verða afgreidd á þingi ILO næsta sumar. Það er lygi líkast að á sama tíma skuli ríkisstjórnin ætla að hlaupst frá skuldbindingum sínum.
    Innan Evrópubandalagsins eru skýrar reglur um að launafólk skuli tryggt vegna launamissis við gjaldþrot fyrirtækja, sbr. tilskipun ráðsins frá 20. október 1980. Í nýgengnum dómi vegna máls á Ítalíu er því slegið föstu að sú ábyrgð hvíli á stjórnvöldum að bæta launafólki tjón vegna gjaldþrota hvort sem stjórnvöld hafa sett löggjöf eða ekki.
    Í viðræðum við Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um að EFTA-löndin samræmi reglur sínar því sem gerist í Evrópubandalaginu. Ef af Evrópska efnahagssvæðinu verður er skuldbinding Íslands því ófrávíkjanleg.


Fskj. 3.

Bréf Húsnæðisstofnunar ríkisins til þeirra sem hafa lánsrétt


samkvæmt reglum frá 1986 en hafa ekki fengið lán.


(19. nóvember 1991.)


    Með bréfi þessu er ætlunin að kanna hve margir þeirra sem hafa lánsrétt og keyptu eða byggðu án húsbréfaviðskipta mundu vilja komast í húsbréfakerfið ef sá möguleiki væri fyrir hendi.
    Með lögum nr. 47 frá 27. mars 1991 var almenna lánakerfið frá 1986 lagt niður.
    Í bráðabirgðaákvæði var þó tekið fram m.a. að ákvæði laganna eins og þau voru skyldu halda gildi sínu til 1. mars 1994 gagnvart þeim umsækjendum sem fengið hafa svar almenns eðlis um að þeir eigi rétt á láni. Samkvæmt þessu var gert ráð fyrir að afgreiða lán til þeirra sem eru í biðröðinni á tímabilinu frá 1992 til 1. mars 1994.
    Eftir myndun núverandi ríkisstjórnar var boðað að nú í haust mundi verða flutt frumvarp til laga þar sem umrætt bráðabirgðaákvæði yrði fellt niður. Það frumvarp mun vera í undirbúningi.
    Eitt af frumatriðum húsbréfakerfisins er að umsækjendur hafi fengið mat á greiðslugetu sinni áður en kaup eru gerð eða bygging hafin.
    Í reglugerð um húsbréfaviðskipti nr. 217/1990 voru þó ákvæði til bráðabirgða sem heimiluðu umsækjendum í biðröðinni aðgang að því kerfi þótt kaup væru þegar gerð eða byggjendur búnir að gera fokhelt. Þessar heimildir giltu til 15. maí 1991. Ýmsir, sem eru í biðröðinni og höfðu keypt eða byggt á þessum tíma, notfærðu sér ekki fyrrgreindan möguleika og einnig hafa einhverjir keypt eða gert fokhelt síðan.
    Þeir sem ofanritað á við og vilja eiga skuldabréfaviðskipti í húsbréfakerfinu, ef þess væri kostur, eru því beðnir að skila afritum af kaupsamningum sínum eða fokheldisvottorðum til Húsnæðisstofnunar ríkisins fyrir 15. desember næstkomandi. Verði húsbréfaviðskipti heimiluð fyrir þá sem hér um ræðir og hafa greiðslugetu munu þeir fá bréf fljótlega á næsta ári þar sem tilkynnt verður um fyrirkomulag skuldabréfaskiptanna.

Bréf Húsnæðisstofnunar ríkisins


til þeirra sem hafa lánsrétt vegna viðgerða og endurbóta.


(19. nóvember 1991.)


    Með reglugerð nr. 467/1991 var veitt heimild fyrir skuldabréfaskiptum í húsbréfakerfinu vegna endurbóta og endurnýjunar á notuðu húsnæði, en sá lánaflokkur var felldur niður úr eldra lánakerfi í mars sl. Þessi reglugerð fylgir hér með til glöggvunar fyrir þá sem hafa lánsrétt. Bent er sérstaklega á greinar 11, 12 og 34 í reglugerðinni hvað þetta varðar. Sérstök athygli er vakin á ákvæðum 34. gr. um afgreiðslutíma umsókna miðað við komutíma þeirra.
    Umsækjendur skulu sýna fram á greiðslugetu sína vegna væntanlegrar lántöku. Verða þeir því að leggja fram greiðslumat frá banka, sparisjóði eða annarri viðurkenndri fjármálastofnun.
    Lágmarksfjárhæð fasteignaveðbréfs, sem skipta má fyrir húsbréf samkvæmt reglugerðinni, er 650.000 kr. miðað við byggingarvísitölu 1. október 1991 187,0 stig. Það táknar að lánshæfar endurbætur verða a.m.k. að nema einni milljón króna.
    Framvísa verður greiðslumati sem fyrst til Húsnæðisstofnunar ríkisins og ekki seinna en 15. janúar næstkomandi. Eins og gefur að skilja tekur nokkurn tíma að vinna úr þeim upplýsingum sem berast í framhaldi af þessu bréfi. Má því gera ráð fyrir að nokkur tími líði frá því greiðslumat er lagt inn og þar til úrvinnsla umsókna hefur farið fram og haft verður samband við umsækjendur. Á meðan eru þeir beðnir að sýna þolinmæði og athuga að skipti á fasteignaveðbréfum fyrir húsbréf hefjast ekki fyrr en eftir 1. febrúar næstkomandi.

Bréf Húsnæðisstofnunar ríkisins um biðröðina í lánakerfinu frá 1986.


(6. desember 1991.)


    Með lögum nr. 47, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, frá 27. mars 1991 er almenna lánakerfið frá 1986 lagt niður. Í bráðabirgðaákvæði var þó tekið fram m.a. að ákvæði laganna eins og þau voru skyldu halda gildi sínu til 1. mars 1994 gagnvart þeim umsækjendum sem fengið hafa svar almenns eðlis um að þeir eigi rétt á láni. Eftir myndun núverandi ríkisstjórnar var boðað að nú í haust mundi verða flutt frumvarp til laga þar sem umrætt bráðabirgðaákvæði yrði fellt niður og mun það frumvarp vera í undirbúningi.
    Í þessari biðröð eru rúmlega 3.800 umsækjendur sem sótt hafa um lán til nýbygginga og til kaupa á notuðum íbúðum. Um 2.000 umsækjendur, sem sóttu um lán í lánakerfinu frá 1986 en fengu ekki afgreiðslu í því kerfi, hafa fengið afgreiðslu í húsbréfakerfinu. Ekki liggur endanlega fyrir hversu margir af þessum 3.800 umsækjendum hafa nú þegar gert fokhelt eða fest kaup á íbúð því að í þessu lánakerfi er nóg að tilkynna það þremur mánuðum fyrir tilkynntan útborgunardag lánsins. Þrátt fyrir það hafði stofnunin fengið fokheldisvottorð og kaupsamninga frá um 160 umsækjendum 15. nóvember 1991. Nýlega hefur verið sent bréf til umsækjenda í biðröðinni til að kanna hversu margir hafa þegar gert fokhelt eða gert kaupsamning og mundu vilja komast í húsbréfakerfið ef sá möguleiki væri fyrir hendi.
    Eitt mikilvægasta ákvæðið í húsbréfalögunum er að umsækjendur hafi fengið mat á greiðslugetu sinni áður en kaup eru gerð eða bygging hafin. Í reglugerð um húsbréfaviðskipti nr. 217/1990 voru þó ákvæði til bráðabirgða sem heimiluðu umsækjendum í biðröðinni aðgang að því kerfi þótt kaup væru þegar gerð eða byggjendur búnir að gera fokhelt. Þessi bráðabirgðaákvæði giltu til 15. maí 1991. Um 350 umsækjendur notfærðu sér þennan möguleika en ljóst er að það gerðu ekki allir sem rétt höfðu til þess. Í umræddu frumvarpi, sem lagt verður væntanlega fram á næstu vikum, verður því að vera ákvæði til bráðabirgða sem ná til þessara umsækjenda.



Fylgiskjal IV.



12.–14. GR.: ALMANNATRYGGINGAR, HÚSNÆÐISMÁL



Umsögn heilbrigðis- og trygginganefndar


um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.


(13. desember 1991.)


    Með vísan til bréfs efnahags- og viðskiptanefndar 9. desember sl. hefur heilbrigðis-og trygginganefnd fjallað um þau ákvæði sem varða málefnasvið hennar í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, 167. mál. Þau ákvæði, sem um er að ræða, eru 15.–22. gr. frumvarpsins. Nefndin hefur einnig rætt við fjölda aðila um málið. Niðurstaða nefndarinnar er sú að æskilegt sé að fluttar verði breytingartillögur við nokkrar greinar frumvarpsins. Nefndin er sammála um eftirfarandi tillögur, en jafnframt áskilja einstakir nefndarmenn sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma eftir meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd.
    Þær breytingar, sem nefndin leggur til við efnahags- og viðskiptanefnd að gerðar verði á frumvarpinu, eru:
    Við a-lið 16. gr. Orðin „Heimilt er að ákveða með reglugerð að gjaldið skuli vera hlutfallsgjald“ falli niður.
        Við b-lið 16. gr. Orðin „og er heimilt að hafa gjaldið hlutfallsgjald“ falli niður.
        Við c-lið 16. gr. Orðin „og er heimilt að hafa gjaldið hlutfallsgjald“ falli niður.
        Við d-lið 16. gr. Á eftir 1. málsl. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er með reglugerð heimilt að ákveða að gjald skv. a-, b-, c- og d-liðum skuli vera hlutfallsgjald og tiltaka hámark þess gjalds sem sjúklingi ber að greiða.
    1. og 2. tölul. 17. gr. orðist svo:
    1.    Um þátttöku í kostnaði við tannlækningar barna og unglinga 15 ára og yngri aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð fer eftir því sem hér segir:
         
    
    Sjúkratryggingar greiða að fullu skoðun og fyrirbyggjandi tannlækningar, svo sem tannfræðslu, tannhreinsun, flúorverndun tanna og skorufyllingar.
         
    
    Fyrir aðrar tannlækningar en þær sem tilgreindar eru í a-lið greiða sjúkratryggingar 85% kostnaðar.
         
    
    Ráðherra skal setja gjaldskrá fyrir skólatannlækningar. Skal gjaldskráin miðuð við raunverulegan kostnað vegna þeirra. Með skólatannlækningum er hér jafnt átt við tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera eða samkvæmt útboði.
         
    
    Þegar skólatannlækningar standa til boða skal ekki greiða fyrir tannlækningar samkvæmt a-lið sé leitað til annarra tannlækna en skólatannlækna, nema um annað hafi verið samið. Í sömu tilvikum fer um hlutdeild sjúkratrygginga samkvæmt b-lið eftir gjaldskrá sem ráðherra setur með hliðsjón af gjaldskrá fyrir skólatannlækningar eða raunverulegum kostnaði sé hann lægri.
         
    
    Sé þjónusta skólatannlækna ekki fyrir hendi fer um greiðslur sjúkratrygginga samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur og tekur mið af raunverulegum kostnaði.
    2.    Fyrir 16 ára unglinga skal greiða 50% kostnaðar í samræmi við ákvæði 1. tölul.
    Í c-lið 18. gr. komi á eftir „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ orðin: að höfðu samráði við viðkomandi stofnanir.
    Við 19. gr. 2. málsl. fellur niður.
    Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýtt ákvæði, sem verður I., og hljóðar svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði 45. gr. laga þessara öðlast c-, d- og e-liðir 1. tölul. 17. gr. gildi 1. mars 1992. Fram til 1. mars 1992 skal hlutdeild sjúkratrygginga miðast við gildandi gjaldskrá tannlækna. Ráðherra er þó heimilt að fresta gildistöku c-, d- og e-liða 17. gr. fram til 1. september 1992.
    Í ákvæði til bráðabrigða II, sem verði III, komi í stað „I.“: II.

F.h. heilbrigðis- og trygginganefndar,



Sigbjörn Gunnarsson,


formaður.




Fylgiskjal V.



ÁLAG Á VÖRUGJÖLD Í HÖFNUM


(9. tölul. breytingartillagna meiri hlutans.)



Umsögn minni hluta samgöngunefndar um breytingartillögu


við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.


    Við mótmælum harðlega þeim hugmyndum sem koma fram í tillögunum og snerta samgöngumál en ekki síður þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru.
    25% hækkun á vörugjöldum í höfnum mun hækka vöruverð og auka margföldunaráhrif gjaldsins úti á landsbyggðinni. Einnig er óafsakanlegt að setja innheimtu slíks skatts í hendur sveitarfélaga án alls samráðs við þau, ekki síst þar sem ljóst er að mörg vandamál skjóta upp kollinum við að framkvæma þá innheimtu.
    Mótmælt er sérstaklega stórkostlegri skerðingu framkvæmdafjár til vegagerðar til viðbótar þeim samdrætti sem lagður var til í fjárlagafrumvarpinu. Í fljótu bragði virðist niðurskurður á vegafé með þessari viðbót kominn á annan milljarð króna — en ekki liggja fyrir fullnægjandi gögn um það atriði.
    Nefndinni er ætlað að skila áliti á nokkrum klukkutímum um málið. Engar upplýsingar liggja fyrir um hvaða áhrif þessar breytingar hafa á framkvæmdir næsta árs. Ekkert samráð hefur verið haft við neina viðkomandi aðila um þessi mál.
    Vinnubrögð af þessu tagi eru alls óviðunandi og er hér með mótmælt harðlega og þá ekki síst því að samgöngunefnd skyldi ekki gefast lágmarkstími til að veita heilsteypta faglega umsögn um málið.


Fskj. 1.

Umsögn stjórnar Hafnasambands sveitarfélaga


um tillögu í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1992.


    Rætt var um tillögu í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1992 um að leggja sérstakt álag á vörugjöld sem eru einn af tekjustofnum hafnarsjóða. Tekjur af þessu gjaldi skulu renna til hafnarframkvæmda samkvæmt ákvörðun Alþingis.
    Stjórn Hafnasambandsins minnir á að 21. ársfundur Hafnasambandsins varaði haustið 1990 við að lagðir yrðu á nýir skattar á þennan hátt og gerði fyrirvara með hvaða hætti slíkir skattar verði útfærðir.
    Stjórn Hafnasambandsins varar við fyrirliggjandi tillögu á þeim forsendum að óæskilegt sé að nota tekjustofna hafnasjóða sem grunn að skattlagningu fyrir ríkissjóð. Viðskiptavinir munu eiga erfitt með að greina á milli gjaldtöku hafna og álaga ríkissjóðs. Álagið gerir hafnasjóðum erfiðara um vik að koma fram leiðréttingum á gjaldskrá. Þá mun skattlagning af þessu tagi lenda eingöngu á sjóflutningum og skaða samkeppnishæfni þeirra við aðrar flutningsleiðir. Þá er ekki sanngjarnt að hafnir landsins taki að sér vinnu og ábyrgð við innheimtu skatts fyrir ríkissjóð.


Fskj. 2.

Umsögn hafnarstjórnar Reykjavíkur


um tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um framkvæmdagjald.


    Hafnarstjórn Reykjavíkur mótmælir harðlega tillögu meiri hluta fjárlaganefndar Alþingis um að leggja skatt á tekjustofna hafnasjóða. Samkvæmt hafnalögum hafa hafnir tekjur af vöru-, afla- og skipagjöldum til að standa straum af hluta hafnasjóða af kostnaði við fjármögnun, rekstur og viðhald hafnarmannvirkja.
    Mótmælt er að nota eigi þessa tekjustofna hafnasjóða sem grunn að skattlagningu fyrir ríkissjóð, m.a. af eftirfarandi ástæðum:
—    Viðskiptamenn hafna munu ekki greina í milli annars vegar eðlilegra gjalda fyrir afnot hafna til hafnasjóða og hins vegar skattlagningar ríkissjóðs.
—    Hætta er á að stjórnvöld muni í framtíðinni auka sinn hlut í þessari gjaldtöku á kostnað hafnasjóða.
—    Minnt er á að markaðir tekjustofnar eins og þessi hafa tilhneigingu til að hækka og vera ráðstafað til annarra verkefna en upphafleg áform gerðu ráð fyrir.
—    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1991 var tillaga um skattlagningu í þessa veru. 21. ársþing Hafnasambands sveitarfélaga varaði við slíkum skatti haustið 1990 og var þá fallið frá þeim áformum.
    Hafnarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að taka fullt tillit til afstöðu hafnarstjórnar Reykjavíkur og Hafnasambands sveitarfélaga í þessu máli.



Fylgiskjal VI.

NEFSKATTUR


(12. tölul. breytingartillagna meiri hlutans.)


Yfirlýsing stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga


vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að brjóta samkomulag ríkis og sveitarfélaga


um tekjustofna og verkaskipti og stórfelldar álögur á sveitarfélögin

.

(Samþykkt á stjórnarfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga 11. des. 1991.

)

    Ríkisstjórnin hefur nú einhliða og án alls samráðs við sveitarfélögin og samtök þeirra lagt fram tillögur um breytingar á tveimur af veigamestu tekjustofnum sveitarfélaganna, útsvari og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Jafnframt felast í tillögunum stórfelldar nýjar álögur á sveitarfélögin. Samtals leiða þessar tillögur til a.m.k. eins milljarðs króna útgjaldaauka eða tekjuskerðingar fyrir sveitarfélögin.
    Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga mótmælir harðlega þessum áformum ríkisstjórnarinnar og telur þau alvarlegt brot á nýgerðu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna og verkaskipti.
    Í tillögunum er enn fremur gert ráð fyrir misnotkun á sameiginlegu innheimtukerfi ríkis og sveitarfélaga, „staðgreiðslukerfinu“, og ganga þær hugmyndir þvert á samkomulag fjármálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 30. apríl 1990 um það efni.
    Samráðsfundur stjórnar sambandsins með ríkisstjórninni var haldinn 18. nóvember sl. Árleg fjármálaráðstefna sambandsins var síðan haldin 21. og 22. nóvember sl. Á þessa fundi komu sex ráðherrar ríkisstjórnarinnar og gerðu grein fyrir stefnu sinna ráðuneyta og ríkisstjórnarinnar í heild í málefnum sveitarfélaganna. Þar kom ekkert fram sem benti til þess að ríkisstjórnin hefði í hyggju þær stórfelldu breytingar á tekjustofnum og verkaskiptum og fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem tillögurnar gera ráð fyrir.
    Ekkert samráð hefur verið haft við forsvarsmenn sveitarfélaganna né Samband íslenskra sveitarfélaga um þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur nú lagt fram þrátt fyrir skýr ákvæði samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga um samráð þessara aðila varðandi sameiginleg hagsmunamál og ákvæði í 116. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, þar sem segir: „Ríkisstjórnin skal hafa náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um þau mál er varða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur samskipti þessara aðila.“
    Samningsbundið og lögformlegt samstarf er þannig rofið og það einskis virt af ríkisstjórninni.
    Slík vinnubrögð leiða til alvarlegs trúnaðarbrests milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins. Nú liggja fyrir nýjar hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga og endurskoðun á verkefnum, tekjum og öðrum samskiptum þeirra við ríkisvaldið sem góð samstaða gæti náðst um. Framgangur þess máls byggist á því að trúnaður ríki milli aðila og að því sé hægt að treysta að samningar og lög um samskipti þeirra séu virt.
    Mörg sveitarfélag standa nú frammi fyrir miklum fjárhagsvanda. Gerðar eru kröfur á hendur þeirra hringinn í kringum landið um fjárhagslega þátttöku í atvinnulífinu. Einnig hefur ríkisvaldið að undanförnu aukið fjárhagslegar skyldur sveitarfélaganna með lögbindingu nýrra verkefna og hertum reglugerðarákvæðum.
    Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hvetur ríkisstjórnina til að falla frá áformum sínum og að efnt verði til samráðs ríkis og sveitarfélaga á jafnréttisgrundvelli svo sem samningar og lög gera ráð fyrir.


Repró í Gutenberg (gögn Samb. ísl sveitarfél. og reglugerð).


Um það bil 28 síður.





Fylgiskjal VII.

Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga.

(Lögð fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga sem gerður var í Strasborg 15. október 1985.

A t h u g a s e m d i r v i ð þ i n g s á l y k t u n a r t i l l ö g u þ e s s a .


    Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga sem gerður var í Strassborg 15. október 1985. Sáttmálinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.

A. Tilurð sáttmálans.


    Evrópusáttmálinn um sjálfsstjórn sveitarfélaga er árangur af frumkvæði ýmissa aðila og margra ára umræðum í Evrópuráðinu.
    Það hafði lengi verið áhugamál sveitarstjórnarmanna að vernda og styrkja sjálfsstjórn sveitarfélaga í Evrópu með gerð samþykktar þar sem fram kæmu þær meginreglur sem eru í heiðri hafðar í öllum lýðræðisríkjum Evrópu.
    Evrópuráðið var kjörinn vettvangur til að gera drög að slíkri samþykkt. Þegar árið 1957 viðurkenndi ráðið mikilvægi sveitarstjórna með því að setja á stofn, í þeirra þágu, evrópskt fulltrúaráð er síðan hefur haldið reglulega fundi um málefni sveitar - og héraðsstjórna í Evrópu (CLRAE).
    Árið 1981 ákvað CLRAE að senda til ráðherranefndar Evrópuráðsins drög að Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga.
    Þau drög voru rædd á 5. ráðstefnu ráðherra Evrópuríkja, sem fara með sveitarstjórnarmál, sem haldin var í Luganó í októbermánuði 1982. Í niðurstöðum ráðherranna, sem sátu ráðstefnuna, kom fram að þeir
     „telja að drögin að þessum Evrópusáttmála sé mikilvægt skref í því skyni að skilgreina meginreglur um sjálfsstjórn sveitarfélaga . . . ;
     fara þess á leit við ráðherranefnd Evrópuráðsins að hún feli nefnd um málefni héraðsstjórna og borga (CDRM) að gera, í samráði við ráðstefnuna um málefni sveitar - og héraðsstjórna í Evrópu, nauðsynlegar breytingar á drögum að Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga í samræmi við þær athugasemdir um form og efni hans sem fram komu á ráðstefnunni þannig að unnt verði að leggja þau fyrir næstu ráðstefnu þeirra til samþykktar“.
    Eftir að CDRM hafði endurskoðað drögin að sáttmálanum voru þau lögð fyrir 6. ráðstefnu ráðherra Evrópuríkja sem fara með sveitarstjórnarmál, en hún kom saman í Róm í nóvembermánuði 1984. Meginreglur í drögunum voru samþykktar einróma.
    Með hliðsjón af áliti ráðherrafundarins í Róm samþykkti ráðherranefnd Evrópuráðsins Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga í júní 1985 og var hann undirritaður í Strasborg 15. október 1985 á 20. allsherjarfundi CLRAE. Hann var undirritaður fyrir Íslands hönd 20. nóvember 1985 með fyrirvara um fullgildingu. Sáttmálinn hefur verið undirritaður af 18 ríkjum og fullgiltur af eftirtöldum tíu ríkjum: Austurríki, Danmörku, Grikklandi, Ítalíu, Kípur, Liechtenstein, Lúxemborg, Noregi, Spáni, Svíþjóð og Sambandslýðveldinu Þýskalandi.
    Samband íslenskra sveitarfélaga hefur eindregið mælt með að sáttmálinn verði fullgiltur af Íslands hálfu.

B. Almennar athugasemdir.


    Megintilgangur sáttmálans er að vernda réttindi sveitarstjórna og þannig veita íbúum sveitarfélaga tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta næsta umhverfi þeirra.
    Meginreglur sáttmálans er að finna í fyrsta og öðrum hluta hans. Í fyrsta hluta er kveðið á um þær meginreglur sem sveitarstjórnir starfa eftir, þ.e. stjórnskipulegan og lagalegan grundvöll sjálfsstjórnar sveitarfélaga. Fjallað er um vernd staðarmarka sveitarfélaga, hvernig sveitarstjórnir geta ákveðið eigið stjórnkerfi, starfsskilyrði sveitarstjórnarmanna, eftirlit stjórnvalda með starfsemi sveitarstjórna, tekjustofna sveitarfélaga, rétt sveitarstjórna til að stofna samtök, svo og lögvernd sjálfsstjórnar sveitarfélaga.
    Í öðrum hluta eru ýmis ákvæði sem varða umfang skuldbindinga aðila að sáttmálanum.
    Í sáttmálanum er ekki gert ráð fyrir skipulegu kerfi til að fylgjast með framkvæmd hans að undanskilinni þeirri kröfu að aðilar veiti allar viðeigandi upplýsingar um lagasetningu eða aðrar ráðstafanir sem gerðar eru í því skyni að framfylgja ákvæðum hans.

C. Einstakar greinar sáttmálans.


    Almennt eru ákvæði sáttmálans í samræmi við sveitarstjórnarlög, nr. 8/1986, og lög nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga. Hvað varðar meginregluna í 1. gr. sáttmálans vísast til 1. og 2. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í 5. gr. sáttmálans segir að ekki megi breyta staðarmörkum sveitarfélaga án samráðs við viðkomandi sveitarfélag og vísast í því sambandi til 3. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra.
    Í 2. tölul. 6. gr. sáttmálans er kveðið á um ráðningarkjör starfsmanna sveitarfélaga. Í 73. gr. sveitarstjórnarlaga eru ákvæði um starfsmenn sveitarfélaga en þar eru ekki settar fram sömu kröfur og fram koma í sáttmálanum og heldur ekki í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem getið er í þeirri grein. Launanefnd sveitarfélaga og Reykjavíkurborg gera kjarasamninga fyrir hönd sveitarfélaga. Ráðningarkjör eru þar af leiðandi alfarið á þeirra valdi en stefnt er að samræmingu launa og starfskjara.
    Í 8. gr. sáttmálans er fjallað um eftirlit stjórnvalda. Í 2. gr. sveitarstjórnarlaga segir að félagsmálaráðuneytið fari með málefni sveitarfélaga. Í 118. gr. sömu laga er kveðið nánar á um eftirlitshlutverk ráðuneytisins.
    Í 5. tölul. 9. gr. sáttmálans er kveðið á um fyrirkomulag til að leiðrétta áhrif ójafnrar tekjuskiptingar og útgjalda. Í lögum nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga, er að finna ákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem er ætlað það hlutverk að úthluta framlögum í þessu skyni.
    Samkvæmt 12. gr. sáttmálans skulu aðilar að honum staðfesta minnst 20 ákvæði sáttmálans. Íslensk stjórnvöld telja rétt að öll ákvæði hans verði staðfest þar sem telja verður að íslensk lög uppfylli allar þær kröfur sem hann kveður á um.



Fylgiskjal.


REPRÓ í Gutenberg (fylgiskjal í þskj. 152 frá 113. þingi, í fyrra).