Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 218 . mál.


313. Frumvarp til laga



um Háskólann á Akureyri.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



I. KAFLI


Hlutverk.


1. gr.


    Háskólinn á Akureyri skal vera vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun er veiti nemendum sínum menntun til að gegna ýmsum störfum í atvinnulífinu, öðrum ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu og stunda frekara háskólanám. Háskólanum er einnig heimilt að annast endurmenntun á vettvangi fræða sem kennd eru í deildum skólans, sbr. 9. gr.
     Kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði.

II. KAFLI


Stjórn.


2. gr.


    Háskólinn á Akureyri á stjórnarfarslega undir menntamálaráðuneyti.
     Í háskólanefnd eiga sæti:
    Rektor sem jafnframt er formaður nefndarinnar.
    Forstöðumenn deilda háskólans.
    Einn fulltrúi fastráðinna kennara og annar til vara, kjörnir til tveggja ára á almennum fundi þeirra.
    Einn fulltrúi og annar til vara, kjörnir af starfsmönnum öðrum en fastráðnum kennurum til tveggja ára á almennum fundi þeirra.
    Tveir fulltrúar nemenda og tveir til vara kjörnir til eins árs á almennum fundi þeirra.
    Tveir fulltrúar tilnefndir til fjögurra ára. Annar fulltrúinn og varamaður hans eru tilnefndir af bæjarstjórn Akureyrar og hinn fulltrúinn ásamt varamanni af heildarsamtökum sveitarfélaga á Norðurlandi.
    Framkvæmdastjóri, sbr. 4. gr., á sæti á fundum nefndarinnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Framkvæmdastjóri er ritari nefndarinnar.
     Háskólanefnd kýs sér varaformann úr hópi forstöðumanna deilda til eins árs í senn og er hann jafnframt staðgengill rektors.
     Rektor boðar til funda í háskólanefnd eftir þörfum. Skylt er að boða til fundar ef fjórir eða fleiri nefndarmenn krefjast þess. Varamenn sitja fundi nefndarinnar í forföllum aðalfulltrúa. Háskólanefnd er ályktunarhæf ef tveir þriðju hlutar nefndarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði rektors.
     Háskólanefnd, undir forsæti rektors, fer með yfirstjórn málefna er varða háskólann í heild, stuðlar að, skipuleggur og hefur umsjón með samvinnu deilda og samskiptum við aðila utan skólans, þar með talið samstarf við aðra skóla og rannsóknastofnanir. Enn fremur afgreiðir háskólanefnd árlega fjárhagsáætlun fyrir skólann í heild og hefur að öðru leyti úrskurðarvald í málefnum háskólans eftir því sem lög mæla og nánar er ákveðið í reglugerð.

3. gr.


    Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans. Hann vinnur að mörkun heildarstefnu í málefnum háskólans og hefur eftirlit með rekstri hans, kennslu, rannsóknum, þjónustu og annarri starfsemi.
     Rektor er skipaður af menntamálaráðuneyti til fimm ára. Skal staðan auglýst laus til umsóknar.
     Háskólanefnd skipar hverju sinni þriggja manna nefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna stöðu rektors. Menntamálaráðuneytið tilnefnir einn mann í nefndina en háskólanefnd Háskólans á Akureyri hina tvo og er annar þeirra formaður nefndarinnar. Í nefnd þessa má skipa þá eina sem lokið hafa æðri prófgráðu við háskóla og öðlast stjórnunarreynslu á háskólastigi.
     Hæfni umsækjanda um rektorsembætti skal metin eftir vísinda- og útgáfustörfum hans, ferli hans sem háskólakennara, stjórnunarreynslu og öðrum störfum sem á einhvern hátt lúta að háskólastjórn og æðri menntun. Engum manni má veita embætti rektors við Háskólann á Akureyri nema meiri hluti dómnefndar hafi látið í ljós það álit að hann sé hæfur til þess og meiri hluti háskólanefndar hafi mælt með honum.
     Heimilt er að tillögu háskólanefndar að endurskipa sama mann rektor önnur fimm ár.

4. gr.


    Rektor ræður framkvæmdastjóra að fengnum tillögum háskólanefndar. Framkvæmdastjóri stýrir í umboði rektors og í samvinnu við forstöðumenn deilda skrifstofuhaldi háskólans og annast fjárreiður hans. Með sama hætti undirbýr hann árlega fjárhagsáætlun og hefur eftirlit með því að rekstur skólans sé í samræmi við gildandi heimildir.
     Rektor ræður annað starfslið við stjórnsýslu og rekstur eftir því sem fjárveitingar leyfa og heimildir standa til.

5. gr.


    Forstöðumaður, í umboði deildarfundar, hefur yfirumsjón með starfsemi og rekstri deildar og vinnur að stefnumörkun í málefnum hennar. Hann á jafnframt sæti í háskólanefnd.
     Forstöðumaður hverrar deildar er kjörinn á deildarfundi. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Kjörgengur er hver sá umsækjandi sem uppfyllir hæfnisskilyrði um stöðu háskólakennara, sbr. 10. gr. þessara laga, 11. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, eða 32. gr. laga nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands, á vettvangi fræða sem annaðhvort eru kennd í viðkomandi deild eða tengjast viðfangsefnum hennar. Að fengnu samþykki háskólanefndar ræður rektor þann sem kjör hlýtur til þriggja ára. Deildarfundur kýs jafnframt staðgengil hans til þriggja ára úr hópi fastráðinna kennara við deildina. Í reglugerð skal kveða nánar á um tilhögun við kjör forstöðumanns.

6. gr.


    Á deildarfundum eiga sæti forstöðumaður deildar, prófessorar, dósentar og lektorar hvort sem þeir gegna fullu starfi eða hlutastarfi. Einnig eiga þar sæti tveir fulltrúar stundakennara og tveir fulltrúar nemenda viðkomandi deildar. Framkvæmdastjóra eða fulltrúa hans er heimilt að sitja deildarfundi með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.
     Deildarfundur er ályktunarfær ef fund sækir meira en helmingur atkvæðisbærra manna. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði forstöðumanns.
     Deildarfundur fjallar um meginatriði í starfsemi viðkomandi deildar og ber ásamt forstöðumanni ábyrgð á að hún sé í samræmi við lög og gildandi reglur. Deildarfundur sker úr málum er varða skipulag kennslu og próf, kýs forstöðumann, leggur fram tillögu til háskólanefndar um árlega fjárhagsáætlun deildarinnar og sinnir að öðru leyti þeim verkefnum sem honum eru falin í lögum og reglugerð.

7. gr.


    Nánar skal ákveðið í reglugerð um verksvið og starfsskyldur háskólanefndar, deildarfunda, rektors, framkvæmdastjóra, forstöðumanna deilda og annars starfsfólks háskólans.

8. gr.


    Háskólinn á Akureyri og einstakar deildir hans skulu fyrir sitt leyti hafa samráð og samstarf við aðra skóla á háskólastigi til að nýta sem best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttari menntunartækifærum. Í því skyni skulu samstarfsaðilar m.a. setja framkvæmdareglur um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta. Háskólanum er einnig heimilt að gera samstarfssamninga við aðrar stofnanir, sem tengjast starfssviði skólans, um kennslu, rannsóknir og ráðningu starfsfólks. Réttindi þess skulu skilgreind í reglugerð.

III. KAFLI


Kennarar, deildir og stofnanir háskólans.


9. gr.


    Í Háskólanum á Akureyri eru þessar deildir: heilbrigðisdeild, rekstrardeild og sjávarútvegsdeild. Menntamálaráðuneytið getur samþykkt stofnun fleiri deilda og skiptingu deilda í námsbrautir að fengnum tillögum háskólanefndar og innan marka fjárveitinga í fjárlögum.
     Deildir háskólans skulu hafa með sér náið samstarf. Þannig skal með samnýtingu mannafla, bókasafns, kennslutækja og annarrar aðstöðu stefnt að því að efla fjölbreytta menntunarkosti og tryggja hagkvæmni í rekstri. Í þessu skyni má nýta starfsskyldu þeirra sem ráðnir eru til starfa við einhverja deild háskólans í þágu annarra deilda eða skólans í heild.
     Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um deildir háskólans, þar með talið mat á starfsemi þeirra.

10. gr.


    Fastir kennarar háskólans eru lektorar, dósentar eða prófessorar. Einnig starfa stundakennarar við skólann. Dósents- eða prófessorsstöðu skal því aðeins stofna að forsendur séu fyrir því að staðan tengist rannsóknastörfum.
     Forseti Íslands skipar prófessora, menntamálaráðuneyti skipar dósenta, en háskólanefnd ræður lektora. Rektor ræður stundakennara.

     Þá eina má skipa fasta kennara sem lokið hafa fullnaðarprófi frá háskóla eða annarri sambærilegri stofnun í aðalgrein þeirri er þeir eiga að kenna.
     Háskólanefnd skipar hverju sinni þriggja manna nefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna fastri stöðu prófessors, dósents eða lektors. Menntamálaráðuneyti tilnefnir einn mann í nefndina, Háskóli Íslands annan, háskólanefnd Háskólans á Akureyri hinn þriðja og er hann formaður nefndarinnar. Í nefnd þessa má skipa þá eina sem lokið hafa háskólaprófi í hlutaðeigandi grein eða eru að öðru leyti viðurkenndir sérfræðingar í greininni.
     Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda svo og námsferli hans og störfum megi ráða að hann sé hæfur til að gegna embættinu. Álitsgerð nefndarinnar skal höfð til hliðsjónar þegar embættið er veitt og má engum manni veita embætti prófessors, dósents eða lektors við Háskólann á Akureyri nema meiri hluti dómnefndar hafi látið í ljós það álit að hann sé hæfur til þess og að meiri hluti háskólanefndar hafi mælt með honum.
     Um starfsskyldur og réttindi kennara fer eftir kjarasamningum og nánari ákvæðum í lögum og reglugerðum.

11. gr.


    Háskólanefnd er heimilt að veita kennurum og öðrum fastráðnum starfsmönnum háskólans orlof um allt að eins árs skeið með föstum embættislaunum, enda liggi fyrir fullnægjandi greinargerð um hvernig umsækjandi hyggst verja orlofinu til að auka þekkingu sína eða sinna sérstökum rannsóknaverkefnum. Leita skal umsagnar rektors um orlofsumsókn.
     Eftir því sem fjárlög heimila getur háskólanefnd veitt einstaklingi, sem orlof hlýtur, styrk til að standa straum af nauðsynlegum ferða- og dvalarkostnaði í sambandi við orlofið.
     Nánari reglur um orlof og styrkveitingar má setja í reglugerð.

12. gr.


    Háskólanum er heimilt með samþykki menntamálaráðuneytis að koma á fót rannsóknastofnun á eigin vegum eða í samvinnu við aðra aðila.
     Kennarar skólans geta fullnægt rannsóknaskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu stofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga til starfa við hana.
     Í reglugerð skal m.a. kveða á um starfssvið og deildir stofnunarinnar, stjórn, tengsl við háskólanefnd og deildir skólans, samstarf við rannsóknastofnanir sjávarútvegsins og aðrar stofnanir sem tengjast kennslu- og rannsóknasviði háskólans hverju sinni.
     Háskólanefnd skal setja reglur um skipulag og ráðstöfun á rannsóknasjóðum sem háskólinn hefur til umráða.

13. gr.


    Við háskólann er rannsókna- og sérfræðibókasafn sem tengist fræðasviðum skólans. Hlutverk þess er að veita nemendum og kennurum háskólans og öðrum lánþegum safnsins sérhæfða þjónustu vegna kennslu, náms og rannsókna.
     Rektor ræður yfirbókavörð að fengnum tillögum háskólanefndar. Setja skal í reglugerð nánari ákvæði um starfrækslu bókasafns og tilhögun ráðninga yfirbókavarðar og annars starfsfólks safnsins.

IV. KAFLI


Nemendur, kennsla og próf.


14. gr.


    Háskólaárið telst frá 15. ágúst til jafnlengdar næsta ár. Kennsluár skiptist í tvö kennslumissiri, haustmissiri og vormissiri. Á kennslumissiri skulu vera eigi færri en 15 kennsluvikur, próf og leyfi koma þar til viðbótar. Missiraskipting, próftímabil, leyfi og önnur kennsluhlé skulu ákveðin í reglugerð.

15. gr.


    Hver sá, sem staðist hefur stúdentspróf frá íslenskum skóla sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta, getur sótt um að skrá sig til náms við háskólann gegn því að greiða skrásetningargjald. Háskólanefnd er heimilt að leyfa skrásetningu einstaklinga er lokið hafa öðrum prófum en að ofan greinir ef hlutaðeigandi deild eða námsbraut telur að um sé að ræða fullnægjandi undirbúning til náms við háskólann. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um inntökuskilyrði.
     Inntaka nemenda er í höndum háskólanefndar og getur hún að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis takmarkað fjölda þeirra sem hefja nám við deildir skólans. Setja skal í reglugerð ákvæði er mæla fyrir um árlega skráningu nemenda. Skrásetningargjöld skulu háð árlegu samþykki háskólanefndar og menntamálaráðuneytis.

16. gr.


    Í reglugerð háskólans skal setja ákvæði um prófgreinar, próftíma, fullnaðarpróf, einkunnir, prófdómara og annað er að prófum lýtur.

V. KAFLI


Ýmis ákvæði.


17. gr.


    Menntamálaráðherra setur, að fengnum tillögum háskólanefndar, reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd laganna.

18. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi lög nr. 18/1988, um Háskólann á Akureyri.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Háskólinn á Akureyri var formlega stofnaður með lögum nr. 18/1988. Í 14. gr. laganna er kveðið á um endurskoðun þeirra áður en þrjú ár eru liðin frá setningu þeirra og niðurstöður lagðar fyrir Alþingi fyrir árslok 1991. Með bréfi dags. 28. júní 1990 skipaði Svavar Gestsson menntamálaráðherra nefnd til þess að endurskoða umrædd lög. Í nefndina voru skipaðir Haraldur Bessason, rektor Háskólans á Akureyri, Lárus Ægir Guðmundsson framkvæmdastjóri, Skagaströnd, og Þorsteinn Gunnarsson, deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneyti, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Ólafur Búi Gunnlaugsson, skrifstofustjóri Háskólans á Akureyri, var ritari nefndarinnar.
     Nefndin sendi gildandi lög ýmsum aðilum til umsagnar, einkum með tilliti til æskilegra breytinga á þeim. Athugasemdir bárust frá rekstrardeild og sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri, bókasafnsnefnd og félagi starfsfólks háskólans, bæjarráði Akureyrar og Fjórðungssambandi Norðlendinga. Við samningu þessa frumvarps hafði nefndin ofangreindar umsagnir til hliðsjónar en auk þeirra var einnig leitað fanga í núgildandi löggjöf og frumvörpum um aðra háskóla hér á landi. Einnig var stuðst við drög að framkvæmdaáætlun menntamálaráðuneytisins í skólamálum.
     Þær tillögur um lagafrumvarp, sem hér liggja fyrir, voru einnig sendar til umsagnar framangreindra aðila og voru ræddar á fundi með fulltrúum þeirra. Flestir umsagnaraðilar skiluðu skriflegum ábendingum sem hafðar voru til hliðsjónar við lokafrágang á tillögum nefndarinnar. Í flestum tilvikum lýstu umsagnaraðilar yfir fylgi við tillögur nefndarinnar.
     Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, er reist á grunni laga nr. 18/1988 en þó eru þar lagðar til ýmsar breytingar og viðbætur. Með hliðsjón af umfangi þeirra breytinga kaus nefndin að semja nýtt frumvarp fremur en að gera breytingartillögur við einstakar greinar gildandi laga.
     Með bréfi dags. 18. júní 1991 sendi menntamálaráðuneytið drög að frumvarpi til laga um Háskólann á Akureyri eftirfarandi aðilum til umsagnar: háskólanefnd Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, bæjarstjórn Akureyrar, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknaráði ríkisins, Vísindaráði og Bandalagi háskólamanna.
     Umsagnir bárust frá öllum þessum aðilum. Í flestum tilvikum virðast umsagnaraðilar vera sammála efni frumvarpsdraganna en nokkrir gera þó fyrirvara um einstök ákvæði. Við lokafrágang frumvarpsins var höfð hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu í ofantöldum umsögnum.
     Helstu nýmæli, sem fram koma í frumvarpinu og breytingar frá núgildandi lögum, felast í eftirfarandi:
.*    Skýrar er kveðið á um rannsóknarhlutverk háskólans, sbr. 1. gr., og jafnframt er heimilað að koma á fót rannsóknastofnun við hann, sbr. 12. gr.
.*    Lagt er til að háskólinn tengist nágrenni sínu traustari böndum með því að einn fulltrúi tilnefndur af bæjarstjórn Akureyrar og annar af heildarsamtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eigi aðild að háskólanefnd, sbr. 2. gr.
.*    Lagt er til að skipaðar verði dómnefndir um hæfi umsækjenda um rektorsembætti, sbr. 3. gr.
.*    Ítarlegri ákvæði eru um verkaskiptingu og hlutverk stjórnsýslu háskólans, svo sem háskólanefndar, rektors, framkvæmdastjóra, forstöðumanna deilda og deildarfunda, sbr. 2.–6. gr. Þá er gert ráð fyrir skipan varamanna í háskólanefnd, staðgengli rektors og varamönnum forstöðumanna deilda, sbr. 2. og 5. gr.
.*    Gert er ráð fyrir samstarfi háskólans við aðrar háskóla- og rannsóknastofnanir, sbr. 8. og 12. gr. í því skyni að styrkja kennslu og rannsóknir í skólanum og gera menntunartækifæri fjölbreyttari.
.*    Sett eru ákvæði um samstarf einstakra deilda háskólans og einnig er tiltekið að sjávarútvegsdeild starfi við skólann, sbr. 9. gr.
.*    Lagt er til að háskólinn fái aukið forræði um mannaráðningar, sbr. 4., 10. og 13. gr., og inntöku nemenda, sbr. 15. gr.
.*    Sett eru ákvæði um rannsóknarorlof kennara og annarra fastráðinna starfsmanna háskólans, sbr. 11. gr.
.*    Sett eru ákvæði um að rannsókna- og sérfræðibókasafn starfi við skólann, sbr. 13. gr.
.*    Lagt er til að lengd kennslumissiris skuli vera 15 vikur, próf og leyfi koma þar til viðbótar, sbr. 14. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Sú breyting er frá 1. gr. gildandi laga að kveðið er skýrt á um rannsóknarhlutverk háskólans. Rannsóknir eru undirstöðuþáttur í starfi nútímaháskóla og eins og fram kemur í áfangaskýrslu þróunarnefndar háskólans, fskj. I, hafa umtalsverðar rannsóknir farið þar fram allt frá stofnun hans. Gert er ráð fyrir að rannsóknirnar tengist einkum fræðasviðum skólans, sbr. 9. gr., og þeim rannsóknastofnunum sem starfa á Akureyri.
     Önnur breyting frá 1. gr. gildandi laga er að gert er ráð fyrir að háskólinn annist endurmenntun en mikilvægi hennar fer sem kunnugt er ört vaxandi í nútímaþjóðfélagi þar sem auknar kröfur eru gerðar til samstarfs háskóla og atvinnulífs um þetta viðfangsefni.

Um 2. gr.


    Greinin er að nokkru byggð á 2. og 4. gr. gildandi laga en í henni eru nokkur nýmæli.
     Lagt er til að háskólinn tengist nágrenni sínu traustari böndum með því að einn fulltrúi tilnefndur af bæjarstjórn Akureyrar og annar af heildarsamtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eigi aðild að háskólanefnd. Rétt er að benda á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 18/1988 áttu fulltrúar sambærilegra stofnana aðild að háskólanefnd frá 1988–1990. Þátttaka aðila utan háskóla í stjórn þeirra er vel þekkt bæði hérlendis og erlendis. Skólanefnd Tækniskóla Íslands er, auk rektors, eingöngu skipuð fulltrúum utan þess skóla. Sömu reglur gilda um Samvinnuháskólann Bifröst og Bændaskólann á Hvanneyri en búvísindadeild á háskólastigi starfar innan vébanda þess skóla. Samkvæmt frumvarpinu er greinin málamiðlun milli þeirra andstæðu skoðana að yfirstjórn háskóla eigi alfarið að vera á hendi aðila utan hans eða að starfsfólk háskóla eigi eingöngu að fara með stjórn viðkomandi stofnunar.
     Gert er ráð fyrir eins og í gildandi lögum að fjöldi fulltrúa í háskólanefnd ráðist af fjölda háskóladeilda þar sem forstöðumenn þeirra taka sæti samkvæmt stöðu sinni. Miðað við fjölda deilda, sbr. 9. gr., verða nefndarmenn 11 að rektor og framkvæmdastjóra meðtöldum en samkvæmt gildandi lögum eru nefndarmenn átta. Vegna tiltekins lágmarksfjölda á fundum er ákvæði um varamenn nauðsynlegt. Þá er gert ráð fyrir að háskólanefnd kjósi sér varaformann sem jafnframt verði staðgengill rektors.
     Lokamálsgreinin er nýmæli og skilgreinir háskólanefnd sem yfirstjórn skólans.

Um 3. gr.


    Greinin byggist á 2. og 3. gr. gildandi laga og felur enn fremur í sér tvenns konar breytingar.
     1. mgr. ræðir um hlutverk rektors sem ætlað er að hafa heildarsýn yfir málefni háskólans og yfirumsjón með starfsemi hans. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir sömu tilhögun um skipan rektors og í gildandi lögum, nema hvað lagt er til að dómnefnd fjalli um umsækjendur um rektorsembætti.
     3. og 4. mgr. eru nýmæli og fjalla um dómnefndir um hæfi umsækjenda um rektorsembætti. Þar sem rektor er ekki kjörinn beinni kosningu af kennurum, öðrum starfsmönnum eða nemendum, eins og tíðkast við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, þykir eðlilegt að dómnefndir skili faglegum umsögnum um hæfi þeirra á svipaðan hátt og áskilið er þegar lektorar, dósentar og prófessorar eru skipaðir. Vegna þess að hér er um að ræða æðsta embættismann skólans er lagt til að háskólanefnd tilnefni meiri hluta dómnefndar um hæfi umsækjenda. Eftir því sem nemendum og kennurum fjölgar við háskólann kann að þykja nauðsynlegt að endurskoða ákvæði um ráðningu rektors og færa það til samræmis við löggjöf um kjör rektors við aðrar sambærilegar háskólastofnanir hér á landi.
     Lokamálsgreinin er að mestu óbreytt frá 3. málsl. 3. gr. gildandi laga.

Um 4. gr.


    Greinin er að mestu nýmæli en samsvarandi ákvæði er þó að finna í 2. og 3. mgr. 6. gr. gildandi laga.
     Í stað gildandi laga sem kveða á um að menntamálaráðherra skipi skrifstofustjóra er rektor hér heimilað að ráða framkvæmdastjóra að háskólanum að fengnum tillögum háskólanefndar. Framkvæmdastjóri, í umboði rektors, hefur yfirumsjón með fjármálum og skrifstofuhaldi stofnunarinnar og hefur samráð við forstöðumenn deilda um gerð fjárhagsáætlana.

Um 5. gr.


    Ákvæði um forstöðumenn deilda háskólans er að finna í 1. mgr. 6. gr. gildandi laga.
     Í 1. mgr. 5. gr. er starfssvið forstöðumanna skilgreint og er það nýmæli frá gildandi lögum. Í 2. mgr. er fjallað um ráðningu forstöðumanna. Gert er ráð fyrir að þeir séu kjörnir á deildarfundi en ráðnir af rektor og eru þeir einu starfsmenn skólans sem ráðnir eru með þeim hætti. Kjörgengur í embætti forstöðumanns er hver sá umsækjandi sem dómnefnd, er skipuð hefur verið skv. 10. gr. þessara laga, 11. gr. laga nr. 131/1990 eða 32. gr. laga nr. 29/1988, hefur talið hæfan til að gegna starfi prófessors, dósents eða lektors. Einnig er áskilið að fræðasvið viðkomandi tengist á einhvern hátt fræðasviði deildar. Ráðning er tímabundin til þriggja ára í senn og er háð umfjöllun sérstakrar dómnefndar, jafnframt því að leitað skal samþykkis háskólanefndar. Endurráðning er heimil, enda hafi staðan verið auglýst að nýju.

Um 6. gr.


    Greinin er nýmæli og fjallar um skipan, hlutverk og helstu verkefni deildarfunda. Á deildarfundi, sem starfar undir forsæti forstöðumanns, en er að öðru leyti skipaður fastráðnum kennurum, fulltrúum stundakennara og nemenda, er fjallað um fagleg mál sem varða starfsemi deildar og kennsluhætti. Jafnframt er þar leyst úr ýmsum einstaklingsbundnum málum sem eðlilegt þykir að leggja undir úrskurð deildarfundar.

Um 7. gr.


    Greinin er nánast óbreytt frá 7. gr. gildandi laga, nema hvað eðlilegt þykir að nánar sé fjallað um deildarfundi í reglugerð. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Greinin er nýmæli.
     Samvinna háskólans við aðra skóla og stofnanir, sem tengjast starfssviði hans, getur annars vegar aukið möguleika á fjölþættari kostum bæði hvað varðar menntun og rannsóknir og hins vegar leitt af sér hagkvæmni og sparnað. Háskólinn hefur þegar hafið umfangsmikið samstarf um rannsóknir við Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og hefur tekist samkomulag um að tiltekinn fjöldi sérfræðinga við þessar rannsóknastofnanir hafi kennsluskyldu við háskólann. Eðlilegt þykir að reglugerð skilgreini nánar réttindi og skyldur þeirra sem ráðnir eru með þessum hætti, t.d. atkvæðisrétt á deildarfundum og þátttöku í stjórnun háskólans.

Um 9. gr.


    Eins og í gildandi lögum er hér gert ráð fyrir að háskólinn skiptist í deildir og að í hverri deild geti verið námsbrautir. Greinin kveður á um þær deildir sem nú eru starfræktar við skólann, þ.e. heilbrigðisdeild, rekstrardeild og sjávarútvegsdeild. Ákvæði um sjávarútvegsdeild er nýmæli en hún var stofnuð með heimild menntamálaráðherra 4. janúar 1990.
     2. mgr. er nýmæli en inniheldur nokkur þau atriði og markmið sem samstarf deilda háskólans á að beinast að. Í því sambandi er mikilvægt að nýtt verði þau tækifæri sem samvinna deildanna og skipuleg verkaskipting veitir til að auka fjölbreytni námstækifæra og koma í veg fyrir tvíverknað í kennslu. Að því lýtur m.a. heimild til að kveða á um að starfsskylda sé ekki takmörkuð við eina deild háskólans.
     Lokamálsgreinin er að mestu óbreytt frá 2. mgr. 8. gr. gildandi laga nema hvað eðlilegt þykir að í reglugerð verði fjallað nánar um starfsemi deilda og mat á störfum þeirra.

Um 10. gr.


    1. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.
     Í 2. mgr. er lagt til að forræði háskólans varðandi ráðningu kennara verði aukið á þann hátt að tímabundin ráðning lektora verði í höndum háskólanefndar. Breyting þessi er í samræmi við stefnu menntamálaráðuneytis um að auka ábyrgð háskólastofnana í starfsmannahaldi.
     3. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.
     4. mgr. er efnislega óbreytt frá fyrri lögum nema skýrt er tekið fram að háskólanefnd skipar dómnefndir um prófessora, dósenta og lektora.
     5. og 6. mgr. eru efnislega óbreyttar frá gildandi lögum.

Um 11. gr.


    Greinin er nýmæli en sambærilegt ákvæði er að finna í 34. gr. laga nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands. Ákvæði frumvarpsins er sett til að tryggja starfsmönnum háskólans sambærilegan rétt til rannsóknarorlofa og tíðkast við aðrar háskólastofnanir hérlendis.

Um 12. gr.


    Í samræmi við rannsóknarhlutverk skólans, sbr. 1. gr., heimilar þessi nýja grein háskólanum að koma á fót rannsóknastofnun þar sem rannsóknir á fræðasviðum skólans yrðu stundaðar. Um nauðsyn samvinnu rannsóknastofnunar við deildir skólans og aðrar rannsóknastofnanir vísast í athugasemdir við 8. og 9. gr. Eðlilegt má telja að nánari ákvæði um hlutverk, starfssvið og stjórn rannsóknastofnunar verði settar í reglugerð.

Um 13. gr.


    Þessi nýja grein þarfnast naumast skýringar en leggja ber áherslu á mikilvægi vel búins rannsókna- og sérfræðibókasafns til að háskólinn geti rækt kennslu-, rannsóknar- og þjónustuhlutverk sitt. Auk þjónustu við aðila innan skólans er gert ráð fyrir að bókasafnið geti einnig veitt aðilum atvinnulífsins, sérfræðingum og fræðimönnum þjónustu og stuðlað þannig að auknum tengslum háskólans við atvinnulífið í nágrenni hans.
     Í stað ákvæðis í gildandi lögum sem kveða á um að menntamálaráðherra skipi bókavörð er rektor heimilað að ráða yfirbókavörð að fengnum tillögum háskólanefndar.

Um 14. gr.


    Greinin felur í sér breytingu frá 10. gr. gildandi laga. Í stað 1. september er háskólaárið talið hefjast 15. ágúst þannig að nægjanlegt svigrúm gefist til að undirbúa skólahald og ljúka 15 vikna kennslumissiri fyrir jólaleyfi. Lengd kennslumissiris er tiltekin í reglugerð nr. 405/1990 en eðlilegt þykir að slíkt grundvallaratriði sé ákveðið af löggjafarvaldinu. Ákvæði um 15 vikna kennslumissiri er sett með hliðsjón af þeirri vinnureglu sem beitt er á háskólastigi hérlendis sem víða erlendis að á bak við hverja einingu í háskólanámi sé a.m.k. ein full vinnuvika í námi. Til að tryggja nauðsynlegan sveigjanleika í starfsemi háskólans er honum þó heimilt að hafa fleiri en 15 kennsluvikur á missiri.

Um 15. gr.


    Gert er ráð fyrir eins og í gildandi lögum að stúdentspróf sé að meginreglu skilyrði til inngöngu í Háskólann á Akureyri en að önnur undirbúningsmenntun geti þó komið í þess stað ef hún telst fullnægjandi til að stunda nám við skólann. Eðlilegt þykir hins vegar að heimila yfirstjórn skólans að setja nánari inntökuskilyrði ef þörf krefur, m.a. heimild til almennrar takmörkunar á inntöku nemenda í skólann vegna óviðráðanlegs fjölda umsókna og heimild til að kveða á um lágmarkseinkunnir eða sérstakan undirbúning í einstökum greinum eða fyrir einstakar deildir háskólans.

Um 16. gr.


    Greinin er óbreytt frá 12. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 17. og 18. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjöl.
    Áfangaskýrsla þróunarnefndar Háskólans á Akureyri.
    Kostnaðarumsögn menntamálaráðuneytis.
    Kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis.




Fylgiskjal I.

Áfangaskýrsla þróunarnefndar Háskólans á Akureyri í október 1991.


(Endurskoðuð.)



1. Inngangur.


    Í tengslum við endurskoðun laga nr. 18/1988, um Háskólann á Akureyri, var talið eðlilegt að vinna jafnhliða að þróunaráætlun fyrir háskólann og með bréfi dags. 31. maí 1991 skipaði Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra þróunarnefnd Háskólans á Akureyri. Eins og segir í skipunarbréfi nefndarinnar er hlutverk hennar „að meta stöðu háskólans og gera tillögur að þróun hans næstu árin, þar á meðal um forgangsröð verkefna um uppbyggingu námsbrauta, gera spá um nemendafjölda, mannaflaþörf og þörf fyrir húsnæði og aðra aðstöðu. Þróunartillögunum skal fylgja kostnaðaráætlun“.
     Nefndin er þannig skipuð: Elsa Björk Friðfinnsdóttir lektor, Háskólanum á Akureyri, Halldór Jóhannsson arkitekt, Jón Hallur Pétursson viðskiptafræðingur, Þorsteinn Gunnarsson uppeldisfræðingur, menntamálaráðuneyti, og Þórir Sigurðsson lektor, Háskólanum á Akureyri, sem á fyrsta fundi nefndarinnar var valinn formaður hennar.
     Starfsmaður nefndarinnar var ráðinn Þorleifur Þór Jónsson lektor, Háskólanum á Akureyri. Nefndin hefur haldið tíu fundi og á fund hennar hafa eftirtaldir mætt: rektor, skrifstofustjóri, forstöðumenn deilda og deildarstjóri bókasafns háskólans. Að auki mættu til viðtals Kristján Kristjánsson heimspekingur sem unnið hefur að undirbúningi kennaradeildar, Pétur Bjarnason, fulltrúi nefndar Akureyrarbæjar um málefni háskólans, og Tómas Ingi Olrich alþingismaður. Kristján var auk þess meðhöfundur og ráðgjafi við skýrslugerð.

2. Almennt yfirlit um skólann.


    
Umræður um stofnun háskóla á Akureyri hófust af fullri alvöru snemma á 9. áratugnum. Á vegum menntamálaráðuneytisins starfaði um hríð nefnd er sinnti undirbúningi málsins auk undirnefnda sem fjölluðu um einstakar námsgreinar. Frá því í nóvember 1985 vann svo nefnd á vegum Akureyrarbæjar að stofnun skólans í samvinnu við aðra undirbúningsaðila. Skilaði nefndin þremur skýrslum um væntanlegan háskóla á Akureyri á tímabilinu frá því hún var sett á fót og fram til febrúar 1987.
     Háskólinn á Akureyri hóf starfsemi með kennslu á tveimur brautum, iðnrekstrar- og hjúkrunarbraut 5. september 1987, en var þó ekki formlega stofnaður með lögum frá Alþingi fyrr en vorið eftir. Reglugerð fyrir Háskólann á Akureyri var svo undirrituð af menntamálaráðherra 1. október 1990.
     Samkvæmt núgildandi reglugerð eru þrjár deildir við Háskólann á Akureyri: heilbrigðisdeild, rekstrardeild og sjávarútvegsdeild. Tvær brautir eru við rekstrardeild, iðnrekstrarbraut og rekstrarbraut. Með eðlilegri námsframvindu útskrifast nemendur með BS-próf í hjúkrunarfræði eftir fjögurra ára nám (120 einingar), sem sjávarútvegsfræðingar eftir jafnlangt nám, en sem rekstrar- eða iðnrekstrarfræðingar eftir tveggja ára nám (70 einingar). Fyrstu iðnrekstrarfræðingarnir brautskráðust á vordögum 1989 en fyrstu hjúkrunarfræðingarnir nú í vor. Auk þessa námsframboðs heimilaði menntamálaráðherra með bréfi dags. 25. mars 1991 að nám á gæðastjórnunarbraut hæfist nú á haustmissiri en þar er um að ræða tveggja ára framhaldsnám í rekstrardeild sem lýkur með BS-prófi. Í haust hófu um 170 nemendur nám við skólann og er það töluverð fjölgun frá undanförnum árum. Auk fleiri beinna umsókna má einnig greina vaxandi fjölda fyrirspurna um þá námskosti sem skólinn býður upp á.
     Háskólinn er nú til húsa á tveimur stöðum í bænum. Annars vegar hefur hann aðstöðu í mestöllum fyrri húsakynnum Verkmenntaskólans (áður Iðnskólans) á horni Þingvalla- og Þórunnarstrætis. Það hús er að hálfu í eigu Akureyrarbæjar en að hálfu í eigu ríkisins. Hins vegar léði Kaupfélag Eyfirðinga skólanum húsnæði í Glerárgötu 36, leigulaust til þriggja ára. Þar hefur sjávarútvegsdeild rúmar tvær hæðir til afnota en í húsnæðinu eru jafnframt útibú Hafrannsóknastofnunar, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og skrifstofa Fiskeldis Eyjafjarðar. Er sjávarútvegsdeildinni að sjálfsögðu mikill akkur í sambýli og samvinnu við þessar stofnanir.
     Hafist var handa við að skipuleggja bókasafn Háskólans á Akureyri á útmánuðum 1988. Hefur það síðan byggst hratt upp, bæði í krafti bókagjafa frá ýmsum aðilum og eigin kaupa. Safnið á nú um 8000 bækur og tímarit. Auk þess er það tengt gagnabönkum bæði hér á landi og erlendis og leitast við að hafa forgöngu um tölvuvædda upplýsingaþjónustu, sjá nánar í kafla 3.3.1.
     Félagsstofnun stúdenta hóf starfsemi upp úr áramótum 1989 og stóð þegar á því ári fyrir byggingu fyrsta stúdentagarðsins, Útsteins. Nú í ágústmánuði var síðan tekin fyrsta skóflustungan að nýjum görðum við Klettastíg og er stefnt að því að taka í notkun fyrsta áfanga þeirra á næsta ári. Tilvist Útsteins hefur þegar gert mörgum nemendum kleift að stunda nám við Háskólann á Akureyri sem ella hefðu þurft frá að hverfa vegna skorts á nægu húsnæði í bænum á viðráðanlegu verði. Nýju garðarnir munu bæta hér enn úr skák.
     Frá upphafi hafa forráðamenn Háskólans á Akureyri hugað að nýjum kostum er eflt gætu skólann sem „vísindalega fræðslustofnun“, eins og segir í lögunum um hann, og jafnframt rennt stoðum undir líf og starf fólks á landsbyggðinni. Þótt skólinn eigi vitaskuld að þjóna landinu öllu hafa forráðamenn hans frá byrjun verið þess sinnis að hann ætti ríkustum skyldum að gegna við landsbyggðina, atvinnuvegi hennar og menningu.
     Skólaárið 1989–90 starfaði óformleg nefnd innan skólans er hugleiddi ýmsa kosti á stækkun hans og styrkingu. M.a. var rætt um nám í iðjuþjálfun og öðrum umönnunargreinum innan heilbrigðisdeildar, auk framhaldsnáms í hjúkrun. Imprað var á hugmyndum um áframhaldandi uppbyggingu hagfræði og markaðsfræðigreina í rekstrardeild og á möguleikanum að kenna matvæla- eða næringarfræði innan sjávarútvegsdeildar. Þá var brotið upp á hugmyndum um „húmaniska deild“ innan skólans, kennaranám og ýmsa endurmenntunarkosti. Nefndin komst hins vegar ekki að neinni formlegri niðurstöðu. Í mars 1990 skipaði menntamálaráðherra hins vegar nefnd fjögurra manna til að kanna forsendur fyrir viðbótarnámi við rekstrardeild háskólans. Gerði nefndin í nóvember sama ár tillögur um fjórar námsbrautir, þ.e. gæðastjórnunar-, matvælafræði-, stjórnmálahagfræði- og markaðsfræðibraut sem lyki með BA- eða BS-prófi. Stofnun gæðastjórnunarbrautarinnar nú í haust er beinn ávöxtur af starfi þessarar nefndar.
     Á Akureyri og í grennd hefur fólk í auknum mæli rætt nauðsyn þess að háskólinn láti nú þegar endurmenntun og almenningsfræðslu til sín taka. M.a. hefur borist formlegt erindi frá íslenskukennurum í framhaldsskólum um að haldin verði endurmenntunarnámskeið fyrir framhaldsskólakennara. Slíkur þrýstingur þarf ekki að koma á óvart. Í könnun menntamálaráðuneytisins 1990 á viðhorfum ýmissa aðila til tíu helstu forgangsverkefna í skólamálum á næsta áratug var endurmenntun kennara ofarlega á blaði.
     Almenningur spyrst auk þess í vaxandi mæli fyrir um möguleika á að sækja einstök námskeið innan skólans, t.d. fólk sem lokið hefur stúdentsprófi á Akureyri á undanförnum árum en hefur af fjölskylduástæðum ekki átt þess kost að sækja frekari menntun suður yfir heiðar. Finnst þessu fólki oft sem núverandi nám við skólann sé of sérhæft og tæknilegt. Mest eftirspurn virðist eftir námi í „húmaniskum greinum“. Af þessum sökum og mörgum öðrum spratt aftur fram á sl. vetri hugmynd um almenna kennaradeild við skólann. Samkvæmt tillögu sem samþykkt var á fundi háskólanefndar í apríl var ráðinn starfsmaður til að kanna möguleika á stofnun slíkrar deildar og sendi hann nýverið frá sér skýrslu um málið eins og nánar segir frá í kafla 4.8. Í framhaldi af henni samþykkti háskólanefnd á fundi 7. október sl. að stefna að stofnun kennaradeildar og fela rektor að vinna að framgangi málsins. Þá hefur verið rætt við endurmenntunarnefnd Háskóla Íslands um möguleika á samvinnu. Er í ráði að fara af stað nú á haustdögum með tvö endurmenntunarnámskeið á vegum skólans, annað í íslensku fyrir kennara á svæðinu og hitt fyrir aðila í viðskiptalífinu. Einnig verður athugað hvort einhver þeirra námskeiða sem nú eru á boðstólum á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands gætu nýst hér síðar á vetrinum.
     Nú þegar Háskólinn á Akureyri hefur hafið sitt 5. starfsár er hollt að horfa um öxl og skyggnast í tillögur háskólanefndar Akureyrar frá febrúar 1987. Þar er gert ráð fyrir því að skólinn verði sjálfstæð stofnun „sem dreifir ekki um of kröftum sínum en sérhæfir sig í vissum greinum og lagar sig að þörfum atvinnuvega þjóðarinnar“. Þess er vænst að skólinn skapi ný störf og styrki efnahagslegan og menningarlegan grundvöll Eyjafjarðarsvæðisins. Hann sé þó ekki fyrir Norðlendinga eina heldur eigi að hasla sér völl sem nýr kostur í skólakerfi þjóðarinnar og verða í þeim gæðaflokki að nemendur hvaðanæva af landinu sæki hann. Þannig stuðli hann að jafnvægi í byggðaþróun. Helsta menntunarmarkmið Háskólans á Akureyri átti samkvæmt þessum tillögum að vera að veita nemendum hagnýta menntun sem gerði þá „hæfa til að takast á hendur sérhæfð störf og stjórnunarstörf í þágu atvinnuveganna“.
     Hér kemur fram áhersla á fræðilega burði skólans, sérhæfingu, tengsl við atvinnuvegi og þátt hans í almennri byggðastefnu. Eðlilegt hlýtur að vera að velta því fyrir sér nú að hve miklu leyti þessum upphaflegu markmiðum hafi verið náð og að hverju skólinn skuli stefna í framtíðinni. Verða meginleiðarljós hans hin sömu og fyrr eða eiga önnur að koma í staðinn?

3. Stöðumat.


3.1. Stjórnun og fjármál.


    
Stjórn háskólans er falin háskólanefnd og rektor. Háskólanefnd hefur úrskurðarvald
í málefnum háskólans eftir því sem lög mæla fyrir og nánar er kveðið á um í reglugerð. Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans. Hann hefur daglegt eftirlit með rekstri skólans, kennslu og annarri starfsemi. Forstöðumenn deilda hafa umsjón með málefnum einstakra deilda og skrifstofustjóri stýrir skrifstofuhaldi skólans og annast fjárreiður hans.
     Á aðalskrifstofu starfa auk skrifstofustjóra þrír fulltrúar. Tveir þeirra eru í hálfu starfi á aðalskrifstofu og auk þess í hálfu starfi sem deildarfulltrúar. Starfsmaður sá, sem hefur umsjón með aðstöðu í Glerárgötu, heyrir að hluta til undir aðalskrifstofu. Aðalskrifstofa hefur stöðuheimildir fyrir tveimur og hálfum fulltrúa. Skrifstofan annast m.a. einkunnabókhald og nemendaskráningu auk þess að halda utan um fjárreiður skólans. Undir aðalskrifstofu falla einnig þeir starfsmenn skólans sem sinna þjónustu við allar deildir hans. Eru það kerfisfræðingur skólans og húsvörður. Með húsverði starfa í hlutastarfi sjö ræstingarkonur. Þegar starfsemi aðalskrifstofu verður komin í fastar skorður, m.a. með tölvuvæddri námsferilsskrá, mun ekki þurfa að auka þar við, hvorki hvað varðar húsnæði né starfsmannafjölda. Talið er að tveir almennir fulltrúar á aðalskrifstofu og deildarfulltrúar í fullu starfi fyrir hverja deild nægi til að annast skrifstofuhald í nánustu framtíð þrátt fyrir fyrirsjáanlega fjölgun nemenda.
     Fjárveitingar til háskólans eru ákveðnar á fjárlögum ár hvert. Á eftirfarandi töflu má sjá hvert framlag til skólans hefur verið á hverju ári, fært til verðlags 1991, ásamt fjölda nemenda. Árið 1987 var veitt sérstakri aukafjárveitingu til skólans.







    Töflur repró.
















    Auk þess eru heimildir fyrir stöðum eins prófessors, þriggja dósenta og þriggja lektora sem ekki hefur verið ráðið í. Kennsluskyldu þeirra er gegnt af stundakennurum.

3.2. Húsnæðismál.


    
Í trausti þess að Háskólinn á Akureyri verði öflugur og margbrotinn þarf þegar að huga að framtíð húsnæðismála hans svo skortur á hentugu húsnæði verði ekki að hengingaról.

3.2.1. Núverandi húsakostur.


    Skólinn fékk til umráða við stofnun iðnskólahús við Þingvallastræti sem er um 2000 m 2 á fjórum hæðum. Þar fer nú fram kennsla í rekstrar- og heilbrigðisdeild. Einnig eru þar skrifstofur skólans, bókasafn, tölvustofa og vinnuaðstaða kennara. Allt kennslurými þar, samtals sjö kennslustofur, er nú þegar fullnýtt fram til u.þ.b. kl. 14:00 hvern dag. Skólinn hefur einnig til umráða leigulaust til 1993 tvær 400 m 2 hæðir að Glerárgötu 36. Þar er nú aðsetur sjávarútvegsdeildar. Auk þessa fer kennsla í heilbrigðisdeild einnig fram á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
     Félagsstofnun stúdenta hóf starfsemi 1989. Þegar það ár stóð stofnunin fyrir byggingu stúdentagarðs, Útsteins. Þar eru tvær þriggja herbergja íbúðir, fjórar tveggja herbergja íbúðir, fjórar paríbúðir og fjórtán einstaklingsherbergi.
     Þegar er hafin bygging nýrra garða. Stefnt er að því að taka 1. áfanga, sem er níu tveggja og þriggja herbergja íbúðir, í notkun 1992. 1993 til 1994 er vonast til að ljúki smíði níu íbúða og tólf einstaklingsherbergja til viðbótar.

3.2.2. Frambærilegt húsnæði á Akureyri.


    Um þessar mundir er nokkuð af lausu og/eða vannýttu húsnæði á Akureyri sem hugsanlegt er að fá til afnota a.m.k. í skemmri tíma meðan unnið er að varanlegri lausn á húsnæðismálum skólans. Hér á eftir er upptalning á nokkrum möguleikum í því sambandi:
—    Safnaðarheimili Akureyrarkirkju. Þar er stór salur sem gæti hentað fyrir stærri fyrirlestra.
—    Borgarbíó. Þar eru tveir salir sem standa auðir fram til kl. 17 hvern dag.
—    Sjallinn. Stór salur sem er að jafnaði ekkert notaður virka daga.
—    KA-heimilið. Tveir salir eða kennslustofur fyrri hluta dags.
    Annað, sem kemur til greina en mun eflaust kosta einhverjar breytingar og/eða er í byggingu, er t.d.:
—    Hæðir við Glerárgötu, t.d. 26, 28 og 34.
—    Hafnarstræti 100.
—    Verksmiðjuhús á Gleráreyrum.
—    Listagilið — salir Akureyrarbæjar.
—    Nýja Oddfellowhúsið, o.fl.

3.3. Bókasafn og rannsóknir.


3.3.1. Bókasafn.


     Safnið hefur nú til umráða um 100 m 2 húsnæði á fyrstu hæð aðalbyggingar. Í safninu sjálfu er mjög takmörkuð les- og vinnuaðstaða, en í nærliggjandi lesstofu er pláss fyrir um 20 manns. Safnið hefur að geyma um 8.000 bindi. Í uppbyggingu safnsins hefur verið lögð megináhersla á að útvega þau gögn sem á hefur þurft að halda hverju sinni vegna rannsókna og kennslu. Vegna þess hve safnið er nýtt og hefur enn ekki allan þann bókakost sem nauðsynlegur er hefur verið notast við millisafnalán sem úrræði til öflunar upplýsinga og hefur það skilað árangri. Stöðuheimild við bókasafn er einungis ein, en í dag starfa þar auk deildarstjóra einn bókasafnsfræðingur og einn aðstoðarmaður. Bókasafnsfræðingur var ekki ráðinn fyrr en skólinn hafði verið starfandi í eitt ár og lá þá þegar fyrir mjög mikið uppsafnað verk til skráningar og uppröðunar. Hefur mikill tími farið í að koma safninu í fastar skorður eftir þetta upphaf auk þess sem starfsemi þess hefur farið vaxandi frá ári til árs eins og sjá má af meðfylgjandi mynd sem sýnir útlán bóka frá safninu síðustu þrjú ár.


    MYND útlán bóka.



3.3.2. Rannsóknasjóður.


    
Í febrúar 1989 samþykkti menntamálaráðuneytið reglur fyrir Rannsóknasjóð Háskólans á Akureyri. Var það vonum seinna því að háskóli stendur ekki undir nafni nema þar séu stundaðar vísindalegar rannsóknir. Samkvæmt reglunum veitir sjóðurinn styrki til beinna rannsókna fastra kennara, stundakennara og bókasafnsfræðinga og styrki til ráðstefnuhalds og útgáfu fræðirita. Fé er veitt til sjóðsins á fjárlögum.
     Úthlutað var úr sjóðnum haustið 1989, vor og haust 1990 og vorið 1991. Umsóknir voru samtals að upphæð tæplega 16 milljónir króna, en veitt var rúmlega 7 milljónum króna til 15 einstaklinga og 29 verkefna. Upphæðin skiptist eins og eftirfarandi myndrit sýna.



MYND


Rannsóknasjóður HA

Úthlutun eftir fræðasviðum.

Úthlutun eftir deildum 1989–91.










    Þegar einstakar umsóknir eru kannaðar vekur einkum tvennt athygli: fjölbreytt verkefnaval og lítið samstarf milli umsækjenda. Rannsóknastarfsemin virðist vera einkaframtak án sameiginlegra markmiða og samvinna við aðila utan skólans er algengari en innan hans. Einnig er unnið að rannsóknum án styrkja úr sjóðnum. Sjávarútvegsdeild hefur hér sérstöðu vegna samninga við Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins um starfsmenn sem sinna rannsóknum við stofnanirnar og kenna við skólann.
    Yfirlit um rannsóknarverkefni verður birt í lokaskýrslu.

3.4. Rekstrardeild.


3.4.1. Upphaf og markmið.


    
Um haustið 1987, þegar starfsemi Háskólans á Akureyri hófst, fór af stað kennsla í iðnrekstrarfræði samkvæmt námsskrá Tækniskóla Íslands. Þetta nám var skipulagt sem eitt og hálft ár eða 60 einingar.
     Haustið 1988 var rekstrardeild formlega stofnuð með iðnrekstrarbraut og rekstrarbraut, námið lengt í tvö ár eða 70 einingar og kennt samkvæmt eigin námsskrá háskólans. Iðnrekstrarbrautin skiptist í tvö svið, framleiðslusvið og markaðssvið. Þess ber að geta að samnýting námskeiða á þessum tveim brautum rekstrardeildar er umtalsverð. Námsár rekstrardeildar skiptist í fjórar annir fyrstu tvö árin og tvær annir á þriðja og fjórða ári.
     Í nóvember 1990 skilaði nefnd, skipuð af Svavari Gestssyni, þáverandi menntamálaráðherra, tillögum um viðbótarnám við rekstrardeild Háskólans á Akureyri eins og frá var sagt í II. kafla. Ákveðið var að hefja kennslu á gæðastjórnunarbraut á þessu hausti og hófu 12 nemendur nám. Við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1992 var lagt til að fé yrði veitt til þess að hefja kennslu í markaðsfræðum.
     Markmið rekstrardeildar er að mennta einstaklinga til að gegna ýmsum ábyrgðar- og stjórnunarstörfum í atvinnulífinu.

3.4.2. Nám og kennsla.


    
Inntökuskilyrði í rekstrardeild er stúdentspróf eða sambærileg menntun og tekur deildin nemendur eingöngu inn á haustin. Áður en nemendur hefja nám í rekstrardeild verða þeir að taka stöðupróf í stærðfræði og ensku. Á fyrstu önn eru síðan haldin sérstök námskeið fyrir þá sem ekki standast þessi próf. Námi á fyrsta og öðru ári er skipt í tvær brautir, iðnrekstrarbraut og rekstrarbraut. Í iðnrekstrarfræði er meira af framleiðslu- og tæknigreinum en í rekstrarfræði meira af viðskipta- og hagfræðigreinum.
     Nám á iðnrekstrar- og rekstrarbraut er 70 einingar og skiptist í eftirfarandi þætti:
—    grunnnámsgreinar og lokaverkefni 12 og 5 einingar,
—    stjórnun og samskipti 6 einingar,
—    viðskipta- og hagfræðigreinar 21–40 einingar,
—    framleiðslu- og tæknigreinar 7–26 einingar.
     Nám á gæðastjórnunarbraut er á þriðja og fjórða ári og er 60 einingar. Lýkur því með BS-prófi. Megináhersla er lögð á gæðaeftirlit og gæðastjórnun fyrirtækja í víðum skilningi.

3.4.3. Nemendur og starfsfólk.


    
Fyrsta árið sem skólinn starfaði hófu 32 einstaklingar fullt nám við deildina og fimm sem sóttu valda fyrirlestra. Næstu tvö árin fækkaði þeim sem hófu nám við rekstrardeild, en skólaárið 1990/91 fjölgaði nemendum á ný og í ár hóf 31 nemandi fullt nám og fimm til viðbótar sem sækja valda áfanga. Í gæðastjórnun byrjuðu átta nemendur í fullu námi og fjórir sem hyggjast sækja valda áfanga. Í haust hófu því alls 48 nemendur nám við rekstrardeild. Bendir flest til þess að nemendum deildarinnar muni fjölga enn frekar í framtíðinni. Verulegt fráhvarf frá námi hefur orðið í deildinni á þessum fjórum árum sem hún hefur starfað. Komið hefur í ljós að nokkurn hóp nemenda skortir verulega almenna grunnþekkingu, einkum í íslensku, ensku og stærðfræði, sem ætla mætti að nemendur með stúdentspróf ættu að hafa tileinkað sér.
     Þeir nemendur, sem rekstrardeild hefur útskrifað, hafa flestir fengið áhugaverðar stöður í fyrirtækjum og stofnunum, einkum á landsbyggðinni. Eru fyrirtæki í auknum mæli farin að leita til háskólans eftir vænlegum starfsmönnum.
     Frá stofnun rekstrardeildarinnar hefur dr. Stefán G. Jónsson veitt deildinni forstöðu og stjórnun og uppbygging hennar hvílt að mestu leyti á hans herðum. Rekstrardeildin hefur allt frá stofnun verið undirmönnuð hvað varðar fasta kennara og starfsfólk og mikið þurft að reiða sig á stundakennara. Nú í ár telst hún í fyrsta skipti þokkalega skipuð föstum starfsmönnum, en þeir eru eftirfarandi: forstöðumaður, þrír lektorar í heilum stöðum, fjórir lektorar í hálfum stöðum og einn fulltrúi í hálfri stöðu.
     Auk þessa hafa lektorar annarra deilda og annað fast starfsfólk við háskólann tekið að sér í auknum mæli kennslu í deildinni. Þetta hefur leitt til þess að minna hefur þurft að sækja til stundakennara utan skólans en áður og meiri festa hefur komist á skólastarfið.
     Til þessa dags hefur vinna fastráðinna starfsmanna að mestu leyti farið í þróun og uppbyggingu deildarinnar. Að mati forstöðumanns telst nám í iðnrekstrarfræði og rekstrarfræði orðið nokkuð fullmótað, en nám í gæðastjórnun sem hófst í haust og nám í markaðsfræðum sem gæti hafist næsta haust er enn í mótun.
     Rekstrardeildin hefur frá upphafi lagt mikið upp úr sterkum tengslum við atvinnulífið. Hafa nemendur deildarinnar unnið töluvert af verkefnum á vegum skólans í samvinnu við fyrirtæki á Norðurlandi og nær undantekningarlaust hafa lokaverkefni nemenda verið raunhæf verkefni í tengslum við tiltekin fyrirtæki eða stofnanir.

3.5. Heilbrigðisdeild.


3.5.1. Upphaf og markmið.


    
Þegar umræður um háskóla á Akureyri hófust var ekki gert ráð fyrir kennslu í heilbrigðisvísindum. Áhersla var lögð á að skólinn skapaði sér sérstöðu, þ.e. byði upp á aðrar námsbrautir en fyrir voru í skólum á háskólastigi á Íslandi.
     Vegna skorts á hjúkrunarfræðingum hér norðan lands varð mikill þrýstingur á þá er unnu að undirbúningi háskóla á Akureyri að þar yrði námsbraut í hjúkrunarfræði. Gerðu menn sér vonir um að þeir hjúkrunarfræðingar, er hlotið hefðu menntun sína utan Reykjavíkur, mundu fremur setjast að á landsbyggðinni en þeir hjúkrunarfræðingar sem útskrifaðir eru frá Háskóla Íslands. Hjúkrunarfræði varð því önnur tveggja námsleiða er fyrstu nemendur skólans gátu valið haustið 1987.
     Strax í upphafi var deildin nefnd heilbrigðisdeild, þannig að fjölga mætti námsbrautum á sviði heilbrigðismála þegar fram liðu stundir. Markmið heilbrigðisdeildar er „að mennta einstaklinga í undirstöðugreinum heilbrigðisfræða í samræmi við þarfir samfélagsins hverju sinni og þjálfa þá í beitingu faglegra vinnubragða í störfum á sviði heilbrigðismála og heilbrigðisþjónustu“. (Samþykkt á deildarfundi heilbrigðisdeildar 17. júlí 1991.)
    Enn sem komið er er hjúkrunarfræði eina námsbraut heilbrigðisdeildar.

3.5.2. Nám og kennsla.


    
Nám í hjúkrunarfræði er 120 einingar (4 námsár) og skiptist í eftirfarandi þætti:
—    raunvísindi 39 einingar,
—    hug- og félagsvísindi 14 einingar,
—    læknisfræði 11 einingar,
—    hjúkrunarfræði 58 einingar.

    Nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri hefur nokkra sérstöðu í samanburði við námið í Háskóla Íslands. Helstu atriðin eru:
—    önnur uppröðun námsefnis milli ára,
—    vægi hjúkrunargreina aukið fyrstu 2 árin,
—    valáfangi (2 einingar) á 4. ári,
—    verkleg þjálfun nemenda hefst strax á 1. ári.

    Verklegt nám í hjúkrunarfræði fer fram á ýmsum heilbrigðisstofnunum. Nemendur hafa stundað nám á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Heilsugæslustöðinni á Akureyri, Kristnesspítala, Sjúkrahúsi Húsavíkur, Sjúkrahúsi Ísafjarðar, Heilsugæslustöðinni á Dalvík, Landakotsspítala, Landspítala og Borgarspítala.

3.5.3. Nemendur og starsfólk.


    
Nemendur koma víða að en einkum þó af Norðurlandi. Af 20 nemendum er hófu nám 1987 voru 15 frá Akureyri og nágrenni. Af 31 nemenda er innrituðust 1991 voru 20 frá Akureyri og nágrenni, fimm af höfuðborgarsvæðinu og sex annars staðar frá. Haustið 1991 er fjöldi nemanda í hjúkrunarfræði: á fyrsta ári 21 nemandi, á öðru ári 17 nemendur, á þriðja ári 16 nemendur og á fjórða ári 9 nemendur.
    Vorið 1991 útskrifuðust fyrstu hjúkrunarfræðingarnir frá Háskólanum á Akureyri, 11 talsins. Tveir þeirra fóru til starfa á höfuðborgarsvæðinu en hinir níu á landsbyggðinni, þar af sex á Akureyri. Til samanburðar má geta þess að af þeim 37 hjúkrunarfræðingum, sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands vorið 1991, fóru níu til starfa á landsbyggðinni.
    Í ársbyrjun 1991 voru starfsmenn við heilbrigðisdeild eftirfarandi: forstöðumaður, tveir lektorar í heilum stöðum, fjórir lektorar í hálfri stöðu, einn lektor í þriðjungs stöðu og einn fulltrúi í hálfri stöðu.
    Í upphafi var Margrét Tómasdóttir, MSN, ráðin forstöðumaður deildarinnar og gegndi hún því starfi til ágústmánaðar 1991, en þá tók við Sigríður Halldórsdóttir hjúkrunarfræðingur, MSN.

3.6. Sjávarútvegsdeild.


3.6.1. Upphaf og markmið.


    
Sjávarútvegsdeild tók til starfa um áramót 1989–90. Nefnd sérfróðra manna hóf undirbúning í mars 1988 og skilaði skýrslu í nóvember sama ár. Í desember 1988 var Jón Þórðarson sjávarútvegsfræðingur ráðinn til að fylgja eftir verki nefndarinnar og varð hann síðar forstöðumaður deildarinnar sem hann er enn. Í febrúar 1989 fékk hann til liðs við sig þrjá aðra sérfræðinga, sem eins og hann höfðu lokið námi í Tromsö í Noregi, til að gera nánari áætlun um námið og hefur verið farið eftir henni í meginatriðum. Markmið deildarinnar er að mennta fólk til rannsókna og stjórnstarfa í fyrirtækjum og stofnunum sem fást við sjávarútveg.

3.6.2. Nám og kennsla.


    
Nám í sjávarútvegsfræði tekur fjögur ár og er 120 námseiningar. Námið skiptist í eftirfarandi þætti:
—    viðskipta- og hagfræðigreinar
30 einingar

—    matvælafræðigreinar
20 einingar

—    félags- og skipulagsgreinar
13 einingar

—    tæknigreinar
16 einingar

—    líf- og fiskifræðigreinar
10 einingar

—    grunnnámsgreinar og lokaritgerð
16 og 15 einingar


     Aðal deildarinnar er samþætting raun-, viðskipta- og tæknigreina. Sambærilegt nám er ekki í boði við aðra skóla á Íslandi.
     Bókleg kennsla fer ýmist fram í aðalbyggingu skólans við Þórunnarstræti eða í leiguhúsnæðinu við Glerárgötu. Aðbúnaður verklegrar kennslu er þar góður undir sama þaki og Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem hafa gert samstarfssamning við Háskólann á Akureyri. Auk þess hafa fyrirtæki og samtök styrkt deildina með gjöfum án bindandi samkomulags. Sem dæmi um viðleitni deildarinnar til að tengja bókvit og verksvit má nefna að námskeið í veiðitækni fór fram á Ísafirði í fyrra undir stjórn sjávarútvegsfræðings og skipstjóra þar. Umræða um endurmenntun og ráðstefnur fer einnig fram innan deildarinnar.

3.6.3. Nemendur og starfsfólk.


    
Aðsókn að deildinni hefur ekki verið mikil og töluverð afföll: 12 hófu nám í ársbyrjun 1990, átta eru eftir. 13 byrjuðu haustið 1990, en aðeins þrír eru eftir (auk þriggja sem færðu sig í rekstrardeild). Tólf eru að byrja haustið 1991. Lítil reynsla er því komin á þetta nám, en grunngreinarnar, stærðfræði og efnafræði, hafa reynst mörgum erfiðar svo að sumir hafa hætt en aðrir tafist. Ekki er fyrirsjáanlegt að fleiri en 5–10 ljúki náminu fyrstu brautskráningarárin. Það virðist léleg nýting, en þá er þess að geta að samkennsla með rekstrardeild í stærðfræði, tölvunotkun og viðskiptagreinum og sameining tveggja árganga í sérgreinum minnkar einingarkostnað verulega.
     Við sjávarútvegsbraut starfa nú: forstöðumaður, þrír lektorar í heilum stöðum, þrír sérfræðingar með hálfa kennsluskyldu, einn rannsóknamaður á efnafræðistofu í fullri stöðu, tveir sérfræðingar í hálfu starfi um takmarkaðan tíma og einn ritari á skrifstofu í hálfri stöðu.

4. Framtíðarsýn.


4.1. Stjórn og skipulag.


    Allt frá stofnun Háskólans á Akureyri hefur a.m.k. í orði verið stefnt að því að gera hann öðruvísi háskóla en Háskóla Íslands. Ef hins vegar er litið á stjórnun og námsskipan virðist sá fyrrnefndi vera um of smækkuð mynd af þeim síðarnefnda þar sem háskólasamfélagið er aðgreint í deildir sem eiga fátt annað sameiginlegt en vera tengdar nafni stofnunarinnar. Fyrir jafn fámenna háskólastofnun og Háskólann á Akureyri er svo ósveigjanleg deildaskipting ónauðsynleg, óhagkvæm og auk þess erfið hindrun fyrir þekkingarleit nemenda og kennara. Sérstaða Háskólans á Akureyri, fámennur nemendahópur og þverfaglegt eðli fræðasviða skólans gefur honum kjörið tækifæri til að setja fram raunhæfan valkost gegn hefðbundinni hugmyndafræði íslenskrar háskólamenntunar þar sem upphafs og enda þekkingar er aðeins leitað innan fræðasviðs þeirrar starfsmenntunar sem nemandinn sérhæfir sig í. Stjórnun og skipulag náms við Háskólann á Akureyri á að vera djörf en öguð yfirlýsing um sammannlegt eðli vísindalegrar þekkingar.
     Til að vinna gegn vaxandi einangrun deilda er mikilvægast að öllum deildum sé þjónað af aðalskrifstofu skólans en að ekki verði settar upp sérstakar skrifstofur fyrir hverja deild. Missiraskipting, kennsluvikur og próftímabil verði þau sömu fyrir allar deildir, en þannig er hægt að tryggja samnýtingu námskeiða á milli deilda og auka möguleika á fjölbreyttara námsvali fyrir nemendur. Varðandi skipulag rannsókna verði tekin sú afstaða að koma á fót einni rannsóknastofnun fyrir háskólann en ekki sérstökum rannsóknastofnunum fyrir hverja deild.
     Viss sérhæfing er að sönnu nauðsynleg en þar sem heimur okkar er aðeins einn og sjónarhorn fræðigreinanna á þennan sammannlega heim takmörkuð þarf sönn háskólamenntun að fela í sér hæfni til að geta aðgreint, skilið og tengt saman sjónarhorn ólíkra fræðigreina. Í þessu samhengi eru eftirfarandi hugmyndir um framtíðarskipulag náms við Háskólann á Akureyri settar fram til umræðu. Miðað er við nám í fjórum deildum: heilbrigðisdeild, menntadeild (kennaradeild), rekstrardeild og sjávarútvegsdeild.

1. missiri.
    Efnisheimur og lífheimur: Sameiginlegt nám deilda heilbrigðis, mennta og sjávarútvegs.
    Sérnám rekstrardeildar.
2. missiri.
    Lífheimur og samfélag: Sameiginlegt nám deilda heilbrigðis, mennta og sjávarútvegs.
    Sérnám rekstrardeildar.
3. missiri.
    Vísindi, framleiðsla og rekstur: Sameiginlegt nám rekstrardeildar og sjávarútvegsdeildar.
     Sérnám deilda heilbrigðis og mennta.
4. missiri.
    Þekking, miðlun þekkingar, rannsóknir og stjórnun: Sameiginlegt nám allra deilda.
5.–8. missiri.
    Sérhæfing einstakra deilda, einhver samkennsla námskeiða, einkum í deildum sjávarútvegs og rekstrar.

4.2. Skipulags- og byggingarmál.


    
Þegar hugað er að framtíð og „vaxtarlagi“ skólans er rétt að huga að mismunandi hugmyndafræði í skipulagi og byggingarmáta sem hægt er að hafa til grundvallar. Hér á eftir fer stutt lýsing á þeim meginstefnum sem mögulegt er að fylgja við ákvarðanatöku varðandi húsnæðismál skólans í framtíðinni.

4.2.1. „Vetrarborgarskólinn“ (winter city campus).


    
Við uppbyggingu er tekið mið af aðstæðum á norðlægri slóð. Lögð er áhersla á almenna mannlega vellíðan og þægindi við nám og skólasókn með sérstöku tilliti til veðurfars- og hegðunarfræði. Kennslu-, lestrar- og afþreyingarrými og jafnvel íbúðir eru öll samtengd undir þaki og/eða tengd með skýldum göngustígum. Lögð er áhersla á björt rými með gróðri og lit þar sem fólki líður vel þrátt fyrir erfitt veðurfar og skammdegi.
     Auðvelt þarf að vera að komast að og frá skólanum fyrir þá sem ekki búa á skólasvæðinu. Þessu er t.d. náð með: góðu göngustíganeti um bæinn; góðum tengslum við almenningssamgöngunet; aðgengilegum, skjólgóðum bílastæðum; miðlægri staðsetningu.
     Til að Háskólinn á Akureyri geti orðið að þvílíkum skóla þarf að byggja upp á stóru svæði þar sem vaxtarmöguleikar eru nægir. Hugsanlegt er að byggja upp þar sem skólinn er nú með aðalaðsetur og byggja smám saman yfir reitinn sem markast af Þórunnarstræti, Byggðavegi, Þingvallastræti og Hrafnagilsstræti. Núverandi byggingar, svo sem Húsmæðraskólinn, geta fallið inn í og tengst nýjum byggingum. Annað svæði, sem kemur til greina fyrir framtíðaruppbyggingu, er svæðið sunnan Verkmenntaskólans.
     Helstu kostir „vetrarborgaruppbyggingar“ eru þægindin sem slíku umhverfi fylgja. Áreynslan við að sækja námið er í lágmarki og möguleikar á samskiptum nemenda í ólíkum deildum eru óskertir. Rekstrarlega getur hlotist af mikil hagkvæmi, t.d. í samnýtingu húsnæðis, svo sem kennslustofa, stærri fyrirlestraraðstöðu, lestraraðstöðu, bókasafns, afþreyingarrýma, o.s.frv.; skrifstofuhaldi; samnýtingu kennara; o.fl. Einnig verða utanhússrými, svo sem bílastæði umfangsminni en þau þyrftu ella að vera. Helsti ókosturinn er að kostnaður við uppbyggingu, þ.e. tengirými, verður óhjákvæmilega nokkur.

4.2.2. Bæjarskólinn (city campus).


    
Einkenni slíkra skóla eru að deildir eru einatt hver með sitt hús, sbr. Háskóla Íslands, óháðar og jafnvel lítt tengdar öðrum deildum sama skóla. Ýmist er um markvissa uppbyggingu að ræða á stóru fyrir fram afmörkuðu svæði eða þá að aðliggjandi mannvirki hverju sinni eru yfirtekin og mótuð fyrir kennslu þegar þeirra er þörf.
     Blöndun nemenda við samfélagið utan skólans verður oftast meiri ef kennslurými og íbúðir eru dreifðar um bæinn en hún verður í sambyggðum skóla. Veðurfar og ýmsir erfiðleikar, sem það getur skapað, gera þó oftast meira en að vega á móti þessum kosti. Óhjákvæmilega verður samgangur nemenda í ólíkum deildum einnig í lágmarki.
     Kostir slíkrar uppbyggingar skóla eru helst að áfangar við byggingarframkvæmdir geta oft verið umfangsminni en í sambyggðu kerfi. Helstu ókostir eru að þegar uppbyggingin fer þannig fram er oftast mjög erfitt að mynda sterka heildarmynd og samkennd jafnt innan skólans sem út á við. Rekstrarlega verður skólaeiningin einnig óhagkvæm og erfitt að samnýta aðstöðu og vinnuafl.

4.3. Bókasafn.


    
Stækkunarmöguleikar safnsins eru í nánustu framtíð samtenging þess við lesstofu. Það er bráðabirgðalausn, en knýjandi er að safninu verði valinn staður þegar ákveðið verður endanlega hvernig skólinn þróast í húsnæðismálum, þ.e. hvort hann verður að mestu á sama stað eða hvort hann verður dreifður út um bæ. Verði það síðara ofan á er ljóst að þörf verður á útibúum frá safninu sem dreifast á þá staði þar sem helst er kennt.
     Með bættri aðstöðu og aukinni getu til að sinna notendum utan háskólans er talinn góður möguleiki á að safnið verði meira notað af almenningi og fyrirtækjum í bænum. Það gefur einnig von um aukinn stuðning frá þeim fyrirtækjum sem sjá sér hag í að fyrir hendi sé gott tæknibókasafn sem geti þar með orðið lyftistöng við eflingu almennrar atvinnustarfsemi, auk þess sem gott bókasafn eflir starfsemi og uppbyggingu annarra skóla á svæðinu.

4.4. Rannsóknastofnun.


    
Fram kom í fyrri kafla að rannsóknastarf við skólann hefur ekki verið samhæft. Æskilegt er að marka því einhverja stefnu þótt áhugamál starfsmanna hljóti að ráða ferðinni. Síðan 1989 hefur legið fyrir í háskólanefnd uppkast að reglugerð fyrir Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri. Laganefnd gerir einnig ráð fyrir slíkri stofnun við endurskoðun laga nr. 18/1988. Heyrst hafa tillögur um fleiri en eina rannsóknastofnun, en þróunarnefnd hvetur til að sem fyrst verði tekin ákvörðun um eina stofnun sem skipuleggi rannsóknir við skólann og sjái um samskipti við innlenda og erlenda aðila á þeim vettvangi.
     Þessi stofnun þyrfti fjárveitingu eins og núverandi Rannsóknasjóður, en gæti auk þess haft tekjur af styrkjum frá einkaaðilum og þjónustuverkefnum þegar fram í sækir. Háskólinn á Akureyri ætti líka að geta styrkt starfsmenn sína til að fara á námskeið og ráðstefnur erlendis eins og Sáttmálasjóður Háskóla Íslands í Reykjavík. Annað er augljós mismunun.

4.5. Rekstrardeild.


    
Miðað við núverandi fyrirkomulag í rekstrardeild og þær áætlanir, sem nú eru uppi
um viðbótarnám við deildina, verður hægt að taka inn í reglulegt nám 50–60 manns á ári. Deildin gæti því orðið á bilinu 120–140 nemendur innan fárra ára. Þó er fyrirséð að stærð núverandi kennslustofa gæti hamlað nokkuð fjölgun nemenda í fyrirlestrum.
     Eftir því sem sjávarútvegsdeild háskólans vex fiskur um hrygg og gangi áætlanir um kennaradeild eftir gefur það ýmsa möguleika á samnýtingu kennsluáfanga og þar með fjölgun brauta og sviða við rekstrardeild á tiltölulega ódýran hátt. Gerðar hafa verið tillögur um fjórar mismunandi framhaldsbrautir á þriðja og fjórða ári við rekstrardeild, þ.e. gæðastjórnunar-, matvælafræði-, stjórnmálahagfræði- og markaðsfræðibraut, sem lyki með BA- eða BS-prófi. Gæðastjórnunarbrautin er sú eina sem nám hefur hafist á en stefnt er að því að markaðsfræðibraut taki til starfa haustið 1992.

4.6. Heilbrigðisdeild.


    
Eins og fram kom hér að framan var ætlunin strax í upphafi að fjölga námsbrautum
innan heilbrigðisdeildar. Nokkrir valkostir hafa verið skoðaðir og þó tveir öðrum fremur.
    Sjúkranudd hefur ekki verið kennt á Íslandi. Menntamálaráðherra skipaði 3. nóvember 1988 nefnd er átti að athuga hvort rétt væri að stofna til náms í sjúkranuddi innan heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri. Sú nefnd skilaði áliti 1. des. 1989. Ekki var talið tímabært að stofna til sérstaks náms í sjúkranuddi við Háskólann á Akureyri. Miðað við forsendur þeirrar niðurstöðu er álit nefndarinnar enn í fullu gildi.
     Iðjuþjálfun þykir mörgum vænlegur kostur þar sem töluverð skörun yrði fyrstu tvö árin við grunnfög í hjúkrunarfræði. Mikil þörf er fyrir fólk með þessa menntun innan heilbrigðiskerfisins en öll menntun í faginu fer nú fram erlendis. Þó þykir ljóst að sérmenntaðir kennarar eru enn um sinn ekki nógu margir til að unnt sé að hefja hér nám í iðjuþjálfun. Nefndin leggur þó áherslu á að þessi möguleiki verði kannaður til hlítar.
     Meðal hjúkrunarfræðinga er lokið hafa námi frá Hjúkrunarskóla Íslands (sem nú hefur verið lokað) hefur verið mikill vilji fyrir sérskipulögðu námi er leiði til BS-gráðu. Nú í haust hófst kennsla í slíku námi við Háskóla Íslands. Samkvæmt könnun, sem Sigríður Halldórsdóttir, þáverandi lektor Háskóla Íslands, gerði meðal hjúkrunarfræðinga árið 1990 hafa margir þeirra hjúkrunarfræðinga er starfa utan Reykjavíkur frekar áhuga á að stunda nám við Háskólann á Akureyri en Háskóla Íslands. Slíkt sérskipulagt BS-nám fyrir hjúkrunarfræðinga mundi aðeins krefjast 1–2 nýrra stöðuheimilda fyrir lektora í hjúkrunarfræði. Að öðru leyti yrði um samnýtingu að ræða með því grunnnámi sem fyrir er. Á deildarfundi heilbrigðisdeildar 9. september 1991 var samþykkt að stefnt skuli að því að kennsla í sérskipulögðu BS-námi fyrir hjúkrunarfræðinga áður útskrifaða úr Hjúkrunarskóla Íslands hefjist við Háskólann á Akureyri haustið 1992.
     Vegna smæðar heilbrigðisstofnana á Akureyri og nágrenni, sem veita hjúkrunarfræðinemum verklega þjálfun, takmarkast nemendafjöldi í hjúkrunarfræði við 20–30 á ári. Hjúkrunarfræðingar í sérskipulögðu BS-námi þarfnast ekki verklegrar námsaðstöðu en reikna má með um 10–20 nemendum á hvoru ári, sbr. könnun SH. Samtals geta því nemendur í hjúkrunarfræði orðið um 120.
     Mikil þörf er fyrir skipulagða endurmenntun meðal þeirra er starfa að heilbrigðismálum. Á það jafnt við um hjúkrunarfræðinga, lækna, sjúkraþjálfara, tannlækna og tannfræðinga. Endurmenntunardeild við Háskólann á Akureyri gæti haft þar miklu hlutverki að gegna.

4.7. Sjávarútvegsdeild.


    
Sambærilegt nám við það sem stundað er í sjávarútvegsdeild er ekki í boði við aðra
skóla hér á landi. Fyrirmyndin (með nokkrum áherslubreytingum) er Fiskerihögskolen við Háskólann í Tromsö þar sem nokkrir tugir Íslendinga hafa lært og komið heim til starfa. Álit þeirra er að mikil þörf sé á slíkri menntun hér á landi. Því veldur frekar dræm aðsókn vonbrigðum, en skýringin er ef til vill ónóg kynning á óvenjulegum menntunarkosti. Átak til að bæta úr þessu er í undirbúningi. Ýmsir aðilar í sjávarútvegi hafa stutt deildina, en samt virðist ekki vera almennur skilningur á mikilvægi menntunar í þessum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Þetta viðhorf breytist vonandi þegar námið vekur þá athygli sem vert er. Aðstaða hindrar ekki viðgang deildarinnar sem hæglega gæti tekið við 20–30 nýjum nemendum árlega í sjávarútvegsfræði. Enn fremur er auðvelt að skipuleggja nýjar námsbrautir, t.d. í matvælafræði. Að áliti forstöðumanns er ekki fráleitt að 100–200 manns gætu verið við nám í deildinni eftir 5–10 ára aðdraganda. Efla þarf tengsl við vinnustaði og stofnanir því að nauðsyn betri rekstrar, nákvæmara eftirlits og víðtækari rannsókna á veiðum, vinnslu og sölu íslenskra sjávarafurða er mikil.

4.8. Kennaradeild.


    
Eins og fram kom í II. kafla var samþykkt á fundi háskólanefndar í apríl að fá mann
til að kanna möguleika á stofnun kennaradeildar við skólann. Var dr. Kristján Kristjánsson ráðinn til verksins og skilaði hann skýrslu um málið í lok september.
     Í I. kafla skýrslunnar er rætt örlítið um sögu og núverandi stöðu Háskólans á Akureyri sem og vaxtarvonir hans — er helgast annars vegar af innri hagsmunum hans sjálfs og hins vegar þörf fólks á landsbyggðinni fyrir frekari námskosti. Sérstaklega er bent á mikla eftirspurn eftir endurmenntunarnámskeiðum og almennu „húmanisku“ námi frá fólki á svæðinu. Í II. kafla er lauslega greint frá sögu kennaranáms á Íslandi og núverandi skipan þess, einkum í Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. III. kafli kryfur þann alvarlega vanda sem stafar af skorti á réttindakennurum á landsbyggðinni og hugar að mögulegum lausnum. Í IV. kafla eru dregin fram helstu rökin fyrir stofnun kennaradeildar við Háskólann á Akureyri, kostur skólans á að greiða úr vanda landsbyggðarinnar með breyttum áherslum á ýmsum sviðum, völin á að auka í leiðinni almenningsfræðslu og endurmenntun og hin innri hagræðingarrök skólans sjálfs sem enn er of fámennur til að ná æskilegri hagkvæmni í rekstri. Þá er sagt frá undirtektum ólíkra aðila við hugmyndina um kennaradeild. Í V. kafla eru útskýrðar frumhugmyndir um námsskipan hinnar nýju deildar og undirstrikað á hvern hátt hún gæti skorið sig frá skipulaginu í Kennaraháskólanum — með auknu vægi sérsviðs, „kandídatsári“ sem að mestu yrði varið úti í skólunum á svæðinu og tilflutningi á meginþunga uppeldis- og kennslufræði frá fyrri stigum náms til hinna síðari. Í VI. kafla eru svo lögð fram drög að fjárhagsáætlun sem m.a. sýna að kostnaður á 1. ári yrði lítill og kostnaður á hvern nemanda þegar fram í sækir viðunandi miðað við aðrar háskólastofnanir.
     Kristján lýsir því í lok skýrslunnar sem skoðun sinni að af öllu framansögðu megi draga þá ályktun að byggðapólitísk, skipulagsleg, fræðileg og fjárhagsleg rök hnígi að því að Háskólanum á Akureyri verði heimilað að stofna til almennrar kennaradeildar við skólann. Slík deild yrði að sníða sér stakk eftir vexti, segir Kristján, og verr væri af stað farið en heima setið nema litið yrði á kennaramenntun á landsbyggðinni sem samvinnuverkefni hinnar nýju deildar og móttökuskólanna er kæmu til með að verða starfsvettvangur útskrifaðra kennara. Tækist vel til með slíka samvinnu hefði hins vegar verið boðið upp á nýjan, öflugan og álitlegan kost í kennaramenntun á Íslandi.
     Miklu varðar, að dómi Kristjáns, að því undirbúningsstarfi, sem þegar hefur verið hafið, verði haldið áfram og tengslin við þá aðila, er leitað hefur verið samráðs við, haldist órofin. Því er það tillaga hans sem fram er borin í lokaorðum skýrslunnar að stefnt verði að stofnun kennaradeildar við Háskólann á Akureyri á næstu mánuðum svo að fyrstu nemarnir geti sest þar á bekk á haustdögum 1992.

5. Samantekt.


5.1. Starf nefndarinnar.


    Vinna nefndarinnar skiptist lauslega í þrennt:
—    viðtöl við forráðamenn skólans og fulltrúa annarra nefnda sem unnið hafa að málefnum hans,
—    lestur skýrslna um aðra háskóla, hérlendis og erlendis,
—    umræður á fundum.
    Eftirfarandi samantekt er árangur tíu funda sem haldnir hafa verið til þessa dags. Hafa ber í huga að þetta er bráðabirgðaskýrsla. Lokaskýrslu er að vænta í febrúar 1992.

5.2. Stjórn skólans.


    
Nefndarmönnum og viðmælendum þeirra varð tíðrætt um „deildarmúra“ sem risið hafa innan skólans þótt nýr sé og smár. Það er ekki góðs viti og því ættu stjórnendur skólans að forðast þá þróun með sameiginlegu skrifstofuhaldi, samræmingu kennslu og prófa, samnýtingu kennara og samþættingu námskeiða á mismunandi námsbrautum án þess að fjölga deildum. Þetta er nauðsynlegt til að halda kostnaði í skefjum og vinna gegn of sérhæfðri menntun. Til greina kæmi að afnema núverandi deildaskiptingu og stokka upp í námsgreinaskorir. Þessum hugmyndum var lýst nánar í kafla 4.1.
     Skólinn er einnig of einangraður. Gera þarf gagnkvæma samninga við aðra skóla, hér á landi og í útlöndum, um viðurkenningu námsáfanga og námsbrauta, nemenda- og kennaraskipti, rannsóknir o.fl. Slíkt samstarf er varla til enn.

5.3. Stærð skólans.


    
Eftir fjögurra ára starfsemi er fjöldi nemenda ekki nema um 150. Hann hefur því vaxið hægar en gert var ráð fyrir í upphafi. Spáð er mikilli fjölgun á háskólastigi á næstu árum. Það er í samræmi við alþjóðlega þróun sem stafar bæði af almennri menntaþrá og þörf fyrir starfsmenntun. Nú eru um 8.000 Íslendingar við háskólanám og af þeim eru um 5.500 innan lands, langflestir við Háskóla Íslands. Um aldamót er gert ráð fyrir yfir 10.000 námsmönnum og um 8.000 innan lands. Mörg fræðileg, fjárhagsleg og félagsleg rök mæla með því að Háskólinn á Akureyri taki við verulegum hluta þessarar fjölgunar. Nefndin telur eðlilegt og æskilegt að um það bil 1.000 nemendur verði í skólanum árið 2001. Starfsmenn verða þá væntanlega á bilinu 100–200.

5.4. Kennsla og rannsóknir.


    
Nú eru þrjár deildir við skólann sem greinast í fimm námsbrautir. Til að koma til móts við þarfir stærri nemendahóps er fjölbreytilegra námsframboð óhjákvæmilegt. Nefndin leggur þó ekki til nema eina nýja deild, „menntadeild“, sem m.a. sjái um kennaramenntun. Hún tekur undir niðurstöður Kristjáns Kristjánssonar sem skýrt var frá í kafla 4.8. Námsbrautum verði að öðru leyti fjölgað með því að tengja saman námskeið á annan hátt en nú er gert, ýmist innan deilda eða milli þeirra.
    Endurmenntun gegnir lykilhlutverki í háskóla framtíðarinnar. Hún treystir innviðina og styrkir böndin við samfélagið, almenning og fyrirtæki. Ráða þarf nú þegar mann til að sjá um þessa starfsemi, ekki síst í tengslum við kennaranám. Stofnun kennaradeildar er nærtækasta aðferðin til að stækka skólann árið 1992.
     Annað meginhlutverk háskóla er rannsóknastarf, bæði kennilegt og hagnýtt. Hingað til hefur kennsluhlutverkið gengið fyrir og rannsóknir verið ómarkvissar. Því verður að breyta með sjálfstæðri rannsóknastofnun sem haldi utan um starfsemina og tryggi starfsmönnun sambærilega aðstöðu og kjör og Háskóli Íslands. Á því er misbrestur nú. Meira að segja hafa kennarar ekki enn fengið kjarasamning. Slíkt ástand stenst varla lög.

5.5. Byggingar.


    
Húsakost verður að auka og bæta jafnt og þétt. Nefndin ræddi í kafla 4.2. tvo meginkosti í húsnæðismálum: „vetrarborg“ og „bæjarskóla“. Fyrri kosturinn, sem er sérhannað skólahverfi á einum stað, er æskilegri en dýrari. Seinni kosturinn nýtir byggingar sem eru til í bænum og hefur í för með sér dreifðari byggð. Báðum kostum fylgir sú kvöð að koma upp nemendahúsnæði til að gera námsdvölina auðveldari og ódýrari. Takmark gæti verið að um helmingur nemenda fengi þar inni.
     Ekki er um að ræða eiginlega félagsaðstöðu við skólann nú. Hana þarf að skipuleggja í samræmi við framtíðaruppbyggingu hans.

5.6. Bókasafn.


    
Bókasafnið er bakhjarl bæði nemenda og kennara við nám og störf. Núverandi stefna
safnsins, að bæta úr smæð sinni með millisafnalánum og aðgangi að tölvusöfnum, hefur gefið góða raun. Framfarir eru hraðar í rafeindatækni um þessar mundir og setja þær mark sitt á geymslu, vinnslu og miðlun upplýsinga. Hönnun nútímabókasafns er því erfitt verkefni. Nýr skóli hlýtur að grípa slík tækifæri fegins hendi, en þau nýtast ekki nema í höndum hæfra starfsmanna. Kunnáttufólk í bókasafnsfræði er því jafnmikilvægt og sérfræðikennarar. Safnið á líka að geta þjónað atvinnulífi og almenningi. Byggingarstefna skólans ræður hvort safnið verður á einum stað eða dreifist um skólasvæðið. Safnamál bæjarins eru enn fremur í deiglunni, en hugmyndir eru um rannsókna- og sérfræðibókasafn í „Jónasarhúsi“ sem ætlað er að vera aðsetur Náttúrufræðistofnunar Norðurlands og e.t.v. fleiri aðila.

5.7. Kostnaður.


    
Þróunarnefnd hefur enn ekki gert vel sundurliðaða kostnaðaráætlun, svo að eftirfarandi tölur eru grófar heildarupphæðir, miðaðar við almenna reynslu og viðtekna staðla. Ef miðað er við að skólinn verði orðinn að 1.000 nemenda skóla um aldamót og hver nemandi þurfi að meðaltali 15 m 2 þarf að auka húsakost háskólans um samtals 12.000 til 15.000 m 2 . Áætlaður kostnaður á hvern m 2 er u.þ.b. 100.000 kr. Samtals verður byggingarkostnaður við háskólabyggingu fyrir 1.000 nemendur 1.200 til 1.500 milljónir króna.
     Bæjarskóli í húsnæði, sem keypt yrði á markaðsverði um þessar mundir, kostaði hins vegar um 500 milljónir. Jafnstórt leiguhúsnæði á núverandi markaðsverði kostar 40–60 milljónir króna á ári. Í báðum þessum tilfellum þyrfti að kosta til endurbóta og lagfæringa á húsnæðinu þannig að það hentaði skólanum. Fjárveitingavaldið verður að ákveða í samráði við stjórn skólans hvort hagkvæmast er að byggja, kaupa eða leigja, en lokamarkmið hlýtur að vera húsaþyrping á vel völdum stað.
     Fram hefur komið að rekstrarkostnaður reiknaður á hvern nemanda er allhár, a.m.k. 750 þús. kr. á ári. Nefndin telur að með fjölgun nemenda og bættri nýtingu megi lækka þennan kostnað niður í um það bil 500 þús. kr. Þessi upphæð styðst við allnákvæma áætlun Kristjáns Kristjánssonar í skýrslunni um kennaranám. Er hún síst meiri en í háskólum í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum. 1.000 manna skóli um aldamót mundi því kosta um 500 milljónir króna á ári.
     Hér er ótalinn kostnaður við íbúðabyggingar á vegum Félagsstofnunar stúdenta við háskólann, en þær falla undir Húsnæðisstofnun ríkisins.
     Þessar fjárhæðir þykja e.t.v. miklar en „hér er ei stoð að stafkarlsins auð“ eins og kveðið var um síðustu aldamót.

5.8. Lokaorð.


    
Þróunarnefnd Háskólans á Akureyri telur stofnun hans vera einn merkasta viðburðinn í menntamálum síðasta áratugar. Skólinn getur verið þungt lóð á byggðavog landsins og boðið nytsama námskosti í ákjósanlegu umhverfi. Með eflingu hans sameina stjórnmálamenn, menntamenn og athafnamenn krafta sína til að finna hinn gullna lykil að hæfileikum þjóðarinnar og auðlindum landsins fyrir næstu aldahvörf.
     Í skýrslu þessari eru reifaðar hugmyndir nefndarinnar um framtíð skólans næsta áratug, fram að aldamótum. Nefndin hvetur alla, sem láta sig málefni hans varða, til að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri áður en hún skilar lokaskýrslu í febrúar 1992.


Viðauki.

FASTIR STARFSMENN 1. MARS 1991



Haraldur Bessason     rektor
Fastir kennarar:
Björg Bjarnadóttir     lektor í sálarfræði 1)
Elsa Friðfinnsdóttir     lektor í hjúkrunarfræði 1)
Gunnar Karlsson     lektor í rekstrarhagfræði 1)
Hafdís Skúladóttir     lektor í hjúkrunarfræði 1)
Hermann Óskarsson     lektor í félagsfræði 1)
Hólmfríður Kristjánsdóttir     lektor í hjúkrunarfræði 1)
Dr. Ingvar Teitsson     lektor í sjúkdómafræði/lyfjafræði 1)
Jón Þórðarson     forstöðumaður sjávarútvegsdeildar
Lilja Mósesdóttir     lektor í þjóðhagfræði
Margrét Árnadóttir     lektor í hjúkrunarfræði 1)
Margrét Tómasdóttir     forstöðumaður heilbrigðisdeildar
Nicholas Cariglia     lektor í lífeðlisfræði 2)
Regína Stefnisdóttir     lektor í hjúkrunarfræði
Dr. Sigþór Pétursson     lektor í efnafræði
Smári Sigurðsson     lektor í iðnrekstrarfræði 1)
Dr. Stefán G. Jónsson     forstöðumaður rekstrardeildar
Dr. Steingrímur Jónsson     útibússtjóri 3)
Valtýr Hreiðarsson     lektor í rekstrarhagfræði
Þórir Sigurðsson     lektor í stærðfræði
Öivind Kaasa     sérfræðingur 3)
Aðrir starfsmenn:
Agnes Eyfjörð     fulltrúi (í leyfi) 1)
Astrid M. Magnúsdóttir     bókasafnsfræðingur
Ása Guðmundsdóttir     fulltrúi 1)
Ásdís Loftsdóttir     fulltrúi 1)
Edda Kristjánsdóttir     fulltrúi
Gunnur Ringsted     fulltrúi
Halldór Árnason     kerfisfræðingur
Ingimar Friðfinnsson     umsjónarmaður
Kristín Pétursdóttir     fulltrúi (í leyfi) 1)
Ólafur Búi Gunnlaugsson     skrifstofustjóri
Sigrún Magnúsdóttir     deildarstjóri bókasafns
Torfhildur S. Þorgeirsdóttir     fulltrúi

1) Í 50% starfi.
2) Í 37% starfi.
3) Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar með 50% starfsskyldu við háskólann.



Fylgiskjal II.


Menntamálaráðuneyti,
fjármálaskrifstofa.



Kostnaðarumsögn vegna frumvarps til laga um Háskólann á Akureyri.


(8. nóvember 1991.)


    Í frumvarpinu eru ný atriði sem hafa í för með sér kostnaðarauka. Fyrsta áætlun um
aukakostnað miðað við ákveðnar forsendur kynni að verða eitthvað í þá áttina sem hér segir. Ekki er tekið tillit til kostnaðarauka vegna eldri ákvarðana (svo sem fjölgunar árganga í deildum), fjölgunar nemenda og starfsfólks eða annarra atriða sem gildandi lög gera ráð fyrir.


Háskólanefnd     180.000 kr. 1)
Rannsóknarorlof     9.240.000 kr. 2)
Rannsóknastofnun, rekstur     3.150.000 kr. 3)
Samtals     12.570.000 kr.


Rannsóknastofnun, stofnbúnaður     1.000.000 kr. 4)



1. Háskólanefnd, 2. gr.
    Fjölgun verður í nefndinni um þrjá fulltrúa. Kostnaður við hvern er u.þ.b. 40.000 kr. á ári og því í heild 120.000 kr. Samkvæmt frumvarpinu skal nú boða varamann í forföllum og yrði kostnaður við það u.þ.b. 60.000 kr. á ári.

2. Rannsóknarorlof, 11. gr.
    
Ekki er kveðið á um í 11. gr. hve oft starfsmenn Háskólans á Akureyri eiga kost á að sækja um rannsóknarorlof og er því miðað við þær reglur sem í gildi eru við Háskóla Íslands. Þar eiga menn rétt á að sækja um rannsóknarorlof annaðhvort eftir sex missira starf og þá í eitt missiri eða eftir sex ár og þá í eitt ár. Við Háskólann á Akureyri eru nú tæplega 35 stöðugildi og mundu þá um 30 manns njóta þessara réttinda sem samsvarar 4,3 stöðum á ári. Skólinn er nú á fimmta starfsári og hefur enginn farið í rannsóknarorlof á þeim tíma því lög eða reglur um þau eru ekki fyrir hendi. Hér er því um að ræða afturvirkan vanda sem ekki er gert ráð fyrir í þessari áætlun.
    Meðalárslaun (dagvinna) fastra starfsmanna með launatengdum gjöldum eru nú nálægt 1.400.000 kr. eða 6.020.000 kr. miðað við 4,3 starfsmenn. Ferðakostnað er ekki unnt að áætla nákvæmlega þar sem sumir vinna að rannsóknum sínum hérlendis og aðrir erlendis, en ef gert er ráð fyrir að tveir starfsmenn fari utan og tveir verði heima má áætla fargjöld u.þ.b. 280.000 kr. Dagpeningadæmið er erfiðara að áætla. Erlendis fá menn þjálfunardagpeninga í tvo mánuði eða 100 SDR á dag (gengi nú rúmar 80 krónur) og síðan 26,2% eftir það en þó ekki meir en í tíu og hálfan mánuð á ári. Sama formúla er svo notuð við útreikning á dvalarkostnaði innan lands, nema að þar er miðað við opinbera dagpeninga sem nú eru 6.760 kr. á sólarhring fyrstu tvo mánuðina og síðan 26,2% af því þann tíma sem eftir er. Hér verður því að búa til eftirfarandi dæmi um dvalarkostnað:

    Einn maður erlendis í eitt ár gerir
1.130.000 kr.

    Einn maður erlendis í hálft ár gerir
850.000 kr.

    Tveir menn utan Akureyrar í eitt ár
960.000 kr.

     Samtals
2.940.000 kr.


3. Rannsóknastofnun/rekstur, 12. gr.
    
Til að byrja með er gert ráð fyrir einum starfsmanni, þ.e. framkvæmdastjóra og fimm manna stjórn. Árslaun framkvæmdastjórans með einhverri yfirvinnu gætu verið um 2.000.000 kr. og hver nefndarmaður gæti haft um 50.000 kr. í nefndarlaun á ári. Launakostnaður yrði því um 2.250.000 kr. (launtengd gjöld innifalin). Miðað við að stofnunin starfaði í leiguhúsnæði gæti kostnaður vegna leigu numið u.þ.b. 400.000 kr. á ári. Annar rekstrarkostnaður, skilgreindur sem sérkostnaður stofnunarinnar, yrði varla sundurgreinanlegur frá rekstri skólans en er hér áætlaður 500.000 kr. Heildarrekstrarkostnaður yrði því u.þ.b. 3.150.000 kr.
     Rétt er að geta þess að heildarkostnaður verður trúlega mun hærri en hér er gert ráð fyrir en ráðgert er að fjármagna þann mun með sértekjum, svo sem með útseldri þjónustu.

4. Rannsóknastofnun/stofnbúnaður, 12. gr.
    
Háskólinn telur að langmestan hluta stofnbúnaðar, sem skólinn á og mun eignast, muni rannsóknastofnun samnýta með honum. Samt er nauðsynlegt að gera ráð fyrir að útvega þurfi búnað og tæki fyrir stjórn og framkvæmdastjóra. Hér er gert ráð fyrir að stofnunin þurfi 1.000.000 kr. í húsbúnað og tæki. Leggja ber áherslu á að hér er um eingreiðslu að ræða en ekki árlegan kostnað.


Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Háskólann á Akureyri.


    

(3. desember 1991.)


    Með frumvarpinu fylgir kostnaðarumsögn frá menntamálaráðuneyti. Þar kemur fram
að áætluð kostnaðaraukning ríkissjóðs verði á bilinu 12 til 14 m.kr.
     Fjármálaráðuneytið gerir ekki athugasemdir við þetta mat en vill benda á að afar óæskilegt er að festa í lög fyrirmæli um kjör starfsmanna ríkisins með þeim hætti sem gert er í 11. gr. frumvarpsins.