Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 171 . mál.


319. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, o.fl.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Ingimar Sigurðsson frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Helga Seljan og Gísla Helgason frá Öryrkjabandalaginu og Skúla Jónsson og Þorstein Ólafsson frá Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Í breytingartillögunni er lagt til að ákvæði um styrk, sem veittur er framfærendum fatlaðra og sjúkra barna sem dveljast í heimahúsi (barnaörorkustyrkur), verði áfram í lögum um almannatryggingar. Jafnframt er gert ráð fyrir að óbreytt haldist það ákvæði frumvarpsins að kveðið verði á um umönnunarbætur í lögum um almannatryggingar í stað laga um málefni fatlaðra. Varðandi styrkina er gert ráð fyrir að um framkvæmdina fari eins og verið hefur að því frátöldu að lagt er til að svæðisstjórnir um málefni fatlaðra geri tillögur um bæði styrkina og umönnunarbæturnar. Upphæð styrkja og umönnunarbóta tekur mið af þeirri hámarksupphæð sem greidd er um þessar mundir. Í breytingartillögu nefndarinnar felst að umönnunarbætur komi í stað styrks ef þjónusta við barn er yfir 40 klst. á mánuði og er það í samræmi við gildandi framkvæmd. Þá er lagt til að hægt verði við sérstakar aðstæður að hækka greiðslu umönnunarbóta í allt að 200 klst., en samtök fatlaðra hafa bent á nauðsyn þess að slíkt heimildarákvæði sé fyrir hendi. Nefndin telur ekki ástæðu til að dagleg þjónusta við barn utan heimilis skerði styrk, enda hefur slíkt ekki tíðkast. Hins vegar hafa umönnunarbætur verið skertar við slíka þjónustu og mun það gilda áfram samkvæmt breytingartillögunni.

Alþingi, 19. des. 1991.



Sigbjörn Gunnarsson,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Ingibjörg Pálmadóttir.


form., frsm.



Guðmundur Hallvarðsson.

Svavar Gestsson.

Sólveig Pétursdóttir.



Finnur Ingólfsson.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.