Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 167 . mál.


383. Framhaldsnefndarálit



um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin tók málið til umræðu að nýju eftir að henni barst bréf forsætisráðherra 7. janúar sl. þar sem þess er farið á leit við nefndina að nokkrar breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu umfram þær sem meiri hluti nefndarinnar hefur þegar lagt til að gerðar verði. Efnahags- og viðskiptanefnd ákvað að senda heilbrigðis- og trygginganefnd, menntamálanefnd og samgöngunefnd til umsagnar þær breytingartillögur sem varða þá málaflokka sem nefndirnar fjalla um. Eru svör nefndanna birt sem fylgiskjöl með þessu framhaldsnefndaráliti en samkomulag varð um það í nefndinni að minni hluti nefndarinnar birti með sínu áliti þau fylgiskjöl sem minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar og menntamálanefndar sendu efnahags- og viðskiptanefnd.
    Nefndin kvaddi við þessa framhaldsumfjöllun eftirfarandi gesti á sinn fund: Indriða H. Þorláksson, Halldór Árnason, Steingrím Ara Arason, Jón Ragnar Blöndal og Rúnu S. Geirsdóttur frá fjármálaráðuneytinu, Þorkel Helgason og Dögg Pálsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Ara Edwald frá dómsmálaráðuneytinu, Ásmund Stefánsson og Guðmund Gylfa Guðmundsson frá ASÍ, Björn Grétar Sveinsson frá Verkamannasambandi Íslands, Ögmund Jónasson og Björn Arnórsson frá BSRB, Pál Halldórsson og Birgi Björn Sigurjónsson frá BHMR, Ingvar Viktorsson, Jón G. Tómasson, Valgarð Hilmarsson, Ólaf Kristjánsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Húnboga Þorsteinsson og Inga Val Jóhannsson frá félagsmálaráðuneytinu, Unni Halldórsdóttur frá Samtökum foreldra og kennara, Sigurð Þórðarson vararíkisendurskoðanda, Grétar J. Guðmundsson og Hilmar Þórisson frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Óskar Vigfússon og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Magnús H. Magnússon frá Samtökum aldraðra, Hilmar Björgvinsson frá Tryggingastofnun ríkisins og Árna Guðmundsson, forstöðumann Lífeyrissjóðs sjómanna. Margir þessara manna lögðu fram gögn á fundum eða sendu síðar en auk þess bárust nefndinni nokkrar aðrar umsagnir um frumvarpið.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu og einnig á tillögum meiri hlutans á þskj. 286. Þær nefndir, sem fengu málið til umsagnar, hafa mælt með nokkrum breytingum, ýmist meiri hluti nefndar eða nefndin í sameiningu, og eru þær teknar upp í breytingartillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sbr. og fylgiskjöl með nefndarálitinu. Breytingartillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru þessar:
    Í stað þess að fastákveða að 29 nemendur skuli vera í hverjum bekk í 3.–10. bekk eins og gert er í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að nemendur skuli vera 28 í bekk næsta skólaár og að fræðslustjóra verði heimilt að ákveða þegar sérstaklega stendur á að fjölga um allt að tvo nemendur í bekkjardeild.
    Samkvæmt tillögum meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar er lagt til að við frumvarpið bætist sex nýjar greinar er fjalla um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.
         
    
    Um breytingu á 11., 12. og 19. gr. laganna.
                            Lagt er til að grunnlífeyrir verði skertur hjá þeim ellilífeyrisþegum sem hafa tekjur umfram ákveðin mörk. Skerðing hefst við þær tekjur þar sem tekjutryggingu lýkur, en það er við 65.847 kr. á mánuði. Tekjur úr lífeyrissjóðum valda ekki skerðingu. Skerðingarhlutfall verður 25%, þ.e. lífeyrir er skertur sem nemur fjórðungi þeirra tekna sem eru yfir tekjumarkinu. Lífeyririnn verður að fullu skertur þegar tekjur eru umfram 114.339 kr. á mánuði. Breyting þessi hefur í för með sér að grunnlífeyrir lækkar hjá 11,9% ellilífeyrisþega. Hlutfall þeirra sem missa lífeyrinn er 4,7%.
                            Þá er lagt til að heimild til frestunar lífeyrisaldurs verði afnumin. Samkvæmt núgildandi lögum eiga ellilífeyrisþegar kost á að fresta töku lífeyris og hljóta við það nokkra hækkun grunnlífeyris. Aftur á móti hækkar tekjutrygging eða heimilisuppbætur ekki við þessa frestun, en þessar síðarnefndu bætur eru nú orðnar helstu bætur tryggingakerfisins. Sárafáir nýta sér þennan rétt. Afnám heimildarinnar er nauðsynlegt til þess að ekki sé hægt að skjóta sér undan þeirri skerðingu sem tekjutenging lífeyris hefur í för með sér.
                            Að lokum er lagt til að grunnlífeyrir öryrkja skerðist ef árstekjur eru umfram 67.236 kr. á mánuði. Skerðingarhlutfall verður 25%. Þeir fjármunir, sem sparast með skerðingu grunnlífeyris öryrkja, gera það að verkum að unnt er að hækka grunnupphæð tekjutryggingar og hækka þannig tekjutryggingu öryrkja um 7.500 kr. á ári. Allir þeir, sem nú njóta einhverrar tekjutryggingar, munu verða þessarar hækkunar aðnjótandi, eða um 85–90% öryrkja.
         
    
    Um breytingu á 14. gr. laganna.
                            Lagt er til að bætt verði við ákvæði þess efnis að skerðing elli- og örorkulífeyris skerði ekki barnalífeyri. Er það gert til að taka af öll tvímæli.
         
    
    Um breytingu á 34. gr. laganna.
                            Lagt er til að kveðið sé beint á um það í lagatextanum að skerðingarákvæði örorkulífeyris eigi ekki að ná til þeirra sem fá lífeyri samkvæmt slysatryggingarákvæðum almannatryggingalaga. Óhjákvæmilegt er að þessir bótaþegar sleppi við skerðingu lífeyris ella skapast ósamræmi milli þeirra sem fá einskiptisbætur og hinna.
         
    
    Um breytingu á 79. gr. laganna.
                            Lagt er til að láta ekki almenn ákvæði 79. gr. nægja til að heimila verðbreytingu skerðingarmarka heldur verði kveðið á um það beint í ákvæðinu.
    Að tillögu heilbrigðis- og trygginganefndar er lagt til að orðalagi d-liðar 6. tölul. á þskj. 286, sem breytir 17. gr. frumvarpsins (44. gr. laga um almannatryggingar), verði breytt. Ekki er um efnisbreytingu að ræða heldur er orðalag gert skýrara til þess að ekki verði um villst við hvað er átt.
    Í b-lið 9. tölul. brtt. á þskj. 286 er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 12. gr. hafnalaga og fjallar hún um hvert sérstakt vörugjald renni og um gjaldstofn. Hér er lagt til að auk hennar verði tveimur málsgreinum til viðbótar bætt við greinina. Í þeim er fjallað um innheimtu og skil á gjaldinu og uppgjörstímabil. Að tillögu samgöngunefndar er lagt til að skiladagur skuli vera fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabil. Ráðherra getur kveðið nánar á um innheimtu og skil á gjaldinu og bendir samgöngunefnd í umsögn sinni til efnahags- og viðskiptanefndar á að mikilvægt sé að settar verði skýrar reglur um þetta atriði.
    Lagt er til að í lög um aukatekjur ríkissjóðs verði bætt inn nýjum kafla sem fjallar um afgreiðslugjald skipa. Um er að ræða gjald fyrir afgreiðslu erlendra fiskiskipa sem hingað koma eingöngu vegna fiskveiða, vöru- og flutningaskipa er koma frá útlöndum og farþegaskipa og fyrir að láta skipunum í té þau skilríki sem þau eiga að fá hér. Farþegaskip greiða helmingi lægra gjald en önnur skip. Skip, sem leita hafnar í neyð, ásamt herskipum og spítalaskipum, eru undanþegin gjaldinu.
                  Þá er einnig lagt til að tekinn verði af allur vafi um að ákvæði laganna, sem fjalla um fjárnám, gildi einnig um lögtök fram til 1. júlí 1992 þegar ný lög um aðför o.fl. öðlast gildi samfara aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
    Hér er lagt til að gerð verði sú breyting á lögum um eftirlit með ráðningu starfsmanna og með húsnæðismálum ríkisstofnana að ráðherra verði heimilt að tilnefna tilsjónarmenn ríkisstofnana ef sýnt þykir að rekstur þeirra fari fram úr þeim fjárveitingum sem fjárlög ákveða. Setning tilsjónarmanna samkvæmt þessu ákvæði, sem hér er lagt til að verði lögfest, takmarkar þó ekki þær almennu heimildir sem í gildi eru til þess að hafa afskipti af rekstri stofnana án þess að sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Afskipti tilsjónarmanna varða hinn fjármálalega þátt rekstursins og þar með t.d. umfang starfsmannahalds en ekki mat á umsækjendum um tilteknar stöður. Ítrekað er að tilsjónarmenn skulu hafa samráð við ráðherra um störf sín og að þeim skal sett erindisbréf þar sem verkefnum þeirra og ábyrgðarsviði er lýst nánar. Sjálfseignarstofnanir falla ekki undir þetta ákvæði sem hér er lagt til að verði lögfest.
    Vegna lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár er lagt til að hlutur sveitarfélaga vegna kostnaðar við löggæslu á árinu 1992 lækki nokkuð.
    Lagt er til að 100 m.kr. aukaframlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem ákveðið var á fjárlögum þessa árs, verði einvörðungu varið til jöfnunarframlaga skv. 14. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.
    Að tillögu heilbrigðis- og trygginganefndar er lagt til að upphafsmálslið 1. gr. laga nr. 80/1991, um breytingu á lögum um eftirlaun til aldraðra, verði breytt til að taka af allan vafa um að átt sé við breytingu á 1. mgr. 6. gr. laga um eftirlaun til aldraðra.
    Þörf er að breyta gildistökuákvæði laganna og er lagt til að þau öðlist þegar gildi að undanskildum 13.–18. gr. er öðlast gildi 1. febrúar 1992.
    Lagt er til að við bætist tvö ákvæði til bráðabirgða. Það fyrra mælir fyrir um að svo lengi sem vextir, verðbætur og gengishagnaður séu frádráttarbærar tekjur við ákvörðun á tekjuskattsstofni séu þær ekki tekjur til skerðingar á elli- og örorkulífeyri og tekjutryggingu samkvæmt almannatryggingalögum. Þessar greiðslur samkvæmt almannatryggingalögum tengjast með öðrum orðum tekjuskattsstofni á hverjum tíma.
                  Seinna ákvæðið tryggir að réttur þeirra haldist sem þegar hafa sótt um frestun á lífeyristöku þrátt fyrir afnám heimildarinnar.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstökum þingskjölum.
    Einar K. Guðfinnsson tók þátt í afgreiðslu málsins í fjarveru Guðjóns A. Kristjánssonar, sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa.

Alþingi, 14. jan. 1992.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Sólveig Pétursdóttir.

Vilhjálmur Egilsson.


varaform., frsm.



Ingi Björn Albertsson,

Einar K. Guðfinnsson.


með fyrirvara.





Fylgiskjal I.


Álit heilbrigðis- og trygginganefndar.


(13. jan. 1992.)


    Heilbrigðis- og trygginganefnd fer þess hér með á leit við efnahags- og viðskiptanefnd að gerðar verði eftirfarandi breytingar við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992, 167. mál.
    Lagt er til að gerðar verði breytingartillögur við breytingartillögur við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sbr. þskj. 286. Breytingarnar varða breytingar á lögum um almannatryggingar. Tillagan er eftirfarandi:
         Við 6. tölul., 1.d. Stafliðurinn verði svohljóðandi:
                  Sé leitað til annarra tannlækna en skólatannlækna skal því aðeins greiða fyrir tannlækningar skv. a-lið að um það hafi verið samið. Hlutdeild sjúkratrygginga skv. b-lið fer eftir gjaldskrá sem ráðherra setur með hliðsjón af gjaldskrá fyrir skólatannlækningar eða raunverulegum kostnaði sé hann lægri.
                  Í þessum breytingartillögum felast ekki efnislegar breytingar heldur er verið að leggja til skýrara orðalag þannig að ekki verði um villst hvað við er átt.
          Við 7. tölul. Á eftir orðunum „að höfðu“ komi: nánu.
    Lagt er til að bætt verði inn í frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum leiðréttingu á tilvísun í lögum nr. 80/1991, sem eru breyting á lögum um eftirlaun til aldraðra, nr. 2/1985, sbr. lög nr. 130/1989, og samþykkt voru núna fyrir jólin. Tillagan er eftirfarandi:
                  Upphafsmálsliður 1. gr. laganna orðist svo: Í stað lokamálsliðar 1. mgr. 6. gr. laganna komi þrír nýir málsliðir er orðist svo.
     Vísast til meðfylgjandi minnisblaðs frá 9. janúar sl. til skýringar.

    Að tillögum þessum stendur heilbrigðis- og trygginganefnd.

F.h. heilbrigðis- og trygginganefndar,



Sigbjörn Gunnarsson

,

formaður.





Fylgiskjal II.


Álit meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


(13. jan. 1992.)


    Með vísan til bréfs efnahags- og viðskiptanefndar 7. jan. sl. hefur heilbrigðis- og trygginganefnd fjallað um 2., 8. og 9. tölul. breytingartillagna dags. 6. jan. sl. sem ríkisstjórnin óskaði eftir að efnahags- og viðskiptanefnd gerði við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992. Til viðræðna við nefndina komu Þorkell Helgason, Páll Sigurðsson og Dögg Pálsdóttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Arnþór Helgason og Helgi Seljan frá Öryrkjabandalagi Íslands, Ólafur Jónsson frá Landssambandi aldraðra, Magnús H. Magnússon frá Samtökum aldraðra, Guðríður Ólafsdóttir frá Félagi eldri borgara, Sveinn Ragnarsson og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, Björn Grétar Sveinsson frá Verkamannasambandi Íslands, Hilmar Björgvinsson og Haukur Haraldsson frá Tryggingastofnun ríkisins og Stefán Jansen frá Þjóðhagsstofnun.
    Þær breytingar, sem meiri hluti nefndarinnar leggur til við efnahags- og viðskiptanefnd að gerðar verði á breytingartillögunum frá 6. jan. sl., eru:
    Breytingar við 2. tölul.:
    Við a-lið. Í stað upphæðarinnar „790.164“ í 2. mgr. a-liðar komi: 790.160.
         Tryggingastofnun ríkisins upphækkar tölur öðruvísi en ráð var fyrir gert í breytingartillögunum. Er rétt að breyta tölum til samræmis við það.
    Við b-lið. Í stað upphæðarinnar „826.164“ í b-lið komi: 806.827.
          Í breytingartillögunni er öryrkjum ívilnað með því að hækka frítekjumark í tekjutryggingu. Fram hafa farið viðræður við ýmsa forvígismenn öryrkja um þessa ívilnun, jafnframt því sem borist hefur bréf frá Öryrkjabandalagi Íslands. Hefur komið í ljós að talsmenn öryrkja kjósa aðra aðferð en þá sem felst í tillögunni. Leggja þeir til að upphæð tekjutryggingar verði hækkuð í staðinn. Þessi breyting kallar að vísu á eilitla lækkun skerðingarmarka grunnlífeyris hjá örorkulífeyrisþegum frá því sem áður hafði verið ráðgert. Er það í samræmi við þá hugsun að skerðing grunnlífeyris eigi að hefjast um leið og tekjutryggingu lýkur. Talið er rétt að verða við framangreindum óskum og er því lagt til að ákvæðið um lengingu frítekjumarks falli niður en þess í stað verði þeim fjármunum, sem sparast með skerðingu grunnlífeyris hjá öryrkjum, varið til hækkunar grunnupphæðar tekjutryggingar. Með því móti er unnt að hækka tekjutryggingu öryrkja um 7.500 kr. á ári. Allir þeir, sem nú njóta einhverrar tekjutryggingar, munu verða þessarar hækkunar aðnjótandi, eða um 85–90% öryrkja.
    Nýr liður, er verði c-liður (15. gr.), bætist aftan við b-lið. Hann verði svohljóðandi:
                  Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hvorki skerðingarákvæði 2. mgr. 11. gr. né 6. mgr. 12. gr. takmarka rétt til barnalífeyris.
         Ekki mun hafa verið ætlunin að skerða barnalífeyri. Er þessi breyting æskileg til þess að taka af öll tvímæli.
    Við c-lið (sem nú verður d).
        1.    Í stað upphæðanna „231.360“ í b-lið komi: 195.360.
        2.     Í stað upphæðarinnar „267.660“ í b-lið komi: 275.160.
                  Breytingin á sér sömu ástæður og um getur í skýringum við b-lið hér að ofan.
    Við c-lið (sem nú verður d). Aftan við b-lið bætist nýr liður, c-liður, svohljóðandi:
             Í stað orðanna „1. mgr.“ í 2. mgr. (sem nú verður 3. mgr.) komi: 1. og 2. mgr.
              Breytingin á sér sömu ástæður og um getur í skýringum við b-lið hér að ofan.
    Við c-lið (sem nú verður d). Í c-lið (sem nú verður d) falla út orðin „breytist tilvísun í 1. málsl. úr 1.–4. málsgr.“.
    Nýr liður, er verði e-liður (17. gr.) bætist aftan við d-lið. Hann verður svohljóðandi:
                  Eftirtaldar breytingar verði á 34. gr. laganna:
        a.    Í stað orðanna „síðustu málsgr.“ í 1. mgr. komi: 5. mgr.
        b.    Við 1. mgr. bætist: Skerðingarákvæði 6. mgr. 12. gr. skulu ekki taka til örorkulífeyris samkvæmt þessari grein.
         Skerðingarákvæði örorkulífeyris eiga ekki að ná til þeirra sem fá lífeyri samkvæmt slysatryggingaákvæðum almannatryggingalaga. Óhjákvæmilegt er að sleppa þessu fólki við skerðingu lífeyris ella skapast ósamræmi milli þeirra sem fá einskiptisbætur og hinna. Skýrast er að kveða á um þetta beint í lagatextanum.
    Nýr liður, er verði f-liður (18. gr.), bætist við 2. tölul., svohljóðandi:
                  Eftirtaldar breytingar verði á 79. gr. laganna:
        a.    Í stað orðanna „1. mgr. 19. gr.“ í 2. málsl. komi: 1. og 2. mgr. 19. gr.
        b.    Nýr málsliður bætist við greinina svohljóðandi: Heimilt er að breyta fjárhæðum skv. 2. mgr. 11. gr. svo og 6. mgr. 12. gr., þó þannig að aldrei komi til skerðingar lífeyris samkvæmt þessum málsgreinum hjá þeim sem rétt eiga á tekjutryggingu, skertri eða óskertri, samkvæmt ákvæðum 19. gr.
                  Talið er rétt að láta ekki almenn ákvæði 79. gr. laganna nægja til að heimila verðbreytingu skerðingarmarka.

    Meiri hluta nefndarinnar skipa Sigbjörn Gunnarsson, Guðmundur Hallvarðsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir og Sólveig Pétursdóttir.

F.h. meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar,



Sigbjörn Gunnarsson,


formaður.




Fylgiskjal III.


Álit minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


    Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis hefur fjallað um tillögur þær er nefndinni bárust 7. jan. sl. og snerta breytingar á frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992. Breytingartillögur þessar gera ráð fyrir tekjutengingu elli- og örorkulífeyris. Til fundar við nefndina komu Arnþór Helgason og Helgi Seljan frá Öryrkjabandalagi Íslands, Páll Sigurðsson, Þorkell Helgason og Dögg Pálsdóttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Magnús H. Magnússon, fyrrverandi varaformaður Alþýðuflokksins og fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir hönd Samtaka aldraðra, Björn Grétar Sveinsson, formaður Verkamannasambands Íslands, Hilmar Björgvinsson og Haukur Haraldsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Ólafur Jónsson frá Landssambandi aldraðra, Guðríður Ólafsdóttir frá Félagi eldri borgara í Reykjavík, Sveinn Ragnarsson og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Stefán Jansen frá Þjóðhagsstofnun.
    Minni hlutinn getur ekki fallist á breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og mun greiða atkvæði gegn þeim. Ástæðurnar eru eftirfarandi.
    Tillögurnar eru handahófskenndar, vanhugsaðar, illa undirbúnar og illframkvæmanlegar. Í meðförum nefndarinnar hafa tillögurnar verið að taka sífelldum breytingum vegna ábendinga minni hluta nefndarinnar og þeirra sem til fundar við nefndina hafa komið. Margt af því sem var í upphaflegum tillögum ríkisstjórnarinnar stóðst ekki og var óframkvæmanlegt. Það kom fram hjá þeim fulltrúum Tryggingastofnunar ríkisins sem nefndina heimsóttu að stofnunin getur ekki framkvæmt tillögurnar miðað við að þær taki gildi 1. febrúar. Því var um tíma í starfi nefndarinnar gengið út frá því að gildistakan yrði 1. mars. Til að Tryggingastofnun ríkisins geti framkvæmt tillögurnar þá þarf hún verulegan viðbótarmannafla. Það kom fram hjá þeim fulltrúum Tryggingastofnunar sem komu til fundar við nefndina að ekkert samráð hafði verið haft við stofnunina um mótun og gerð þessara tillagna. Forráðamenn hennar heyrðu fyrst um tillögurnar sl. föstudag.
    Tillögurnar eru sértækar og ekki liggur ljóst fyrir hvort og þá hversu víðtæk áhrif þær hafa á aðra bótaflokka almannatrygginganna sem tengjast elli- og örorkulífeyrinum. Þó er ljóst að ýmsar bætur til öryrkja, eins og bensínstyrkur og styrkur til kaupa á hjálpartækjum til að breyta bílum, munu falla niður nema komið verði í veg fyrir það hjá Tryggingastofnun ríkisins með sérstökum ráðstöfunum. Það orkar hins vegar tvímælis hvort stofnunin hafi lagaheimild til að beita slíkum innanhússráðstöfunum. Tryggingayfirlæknir sér um að úrskurða í ýmsum málum sem tengjast örorkulífeyrinum og því hefði verið eðlilegt að kalla hann á fund nefndarinnar eins og minni hluti nefndarinnar óskaði eftir en meiri hlutinn hafnaði. Af hálfu minni hluta nefndarinnar var lögð á það áhersla að horfið yrði frá þeirri fyrirætlan ríkisstjórnar að tekjutengja örorkulífeyrinn, en því var hafnað.
    Með tillögunum er réttur sjómanna til töku lífeyris við 60 ára aldur nánast afnuminn. Það kom fram hjá Hilmari Björgvinssyni, deildarstjóra lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar, að langflestir þeirra 600 sjómanna, sem nú njóta sjómannalífeyris, munu verða fyrir verulegri skerðingu eða missa lífeyrinn að fullu. Alls munu um 2.500 ellilífeyrisþegar verða fyrir skerðingu og eru sjómenn á aldrinum 60–67 ára 1 / 5 hluti hópsins. Ríkisstjórnin hefur nýverið staðið fyrir skerðingu á sjómannaafslætti og nú leitar hún aftur fanga hjá þessari sömu þjóðfélagsstétt í viðleitni sinni til að draga úr ríkisútgjöldum. Af þessum sökum óskaði minni hlutinn eftir því að fulltrúar sjómanna yrðu boðaðir til fundar við nefndina, en meiri hlutinn sá sér ekki fært að verða við þeim tilmælum.
    Tillögurnar leiða til þess að nýtt skattþrep verður til sem er hærra en skattþrepið í staðgreiðslu tekjuskatts eða í kringum 55%. Elli- og örorkulífeyrisþegar verða því þeir einu sem verða látnir greiða samkvæmt þessu háa skattþrepi á sama tíma og ríkisstjórnin hafnar tillögum um að leggja á hátekjuskatt og skattleggja eignatekjur.
    Tillögurnar eru ekki hluti af heildarendurskoðun almannatryggingalaganna. Tekjutenging elli- og örorkulífeyris getur verið réttlætanleg, en þá er eðlilegt að það sé gert samtímis heildarendurskoðun almannatryggingalaganna og að sá sparnaður, sem af því hlytist, yrði notaður til þess að hækka bætur, auka bótarétt og tryggja hagsmuni þeirra sem mest þurfa á almannatryggingum að halda.
    Tillögurnar munu gera flókið almannatryggingakerfi enn flóknara. Almannatryggingar þurfa að vera skýrar, einfaldar og auðveldar í framkvæmd þannig að almenningur geti gert sér grein fyrir rétti sínum.
    Þær breytingar, sem ríkisstjórnin er að gera og hefur verið að gera að undanförnu á almannatryggingunum, eru gerðar án nokkurrar fyrirhyggju. Ríkisstjórnina skortir heildaryfirsýn yfir málaflokkinn og það er ámælisvert að hún skuli meðhöndla jafn flókinn og viðkvæman málaflokk með þeim flumbrugangi sem raun ber vitni. Ríkisstjórnin hyggst spara 260 milljónir króna á tekjutengingu elli- og örorkulífeyris á árinu 1992. Nú þegar er ljóst að a.m.k. 1 / 12 hluti þess sparnaðar muni ekki nást þar sem bætur janúarmánaðar hafa nú þegar verið greiddar út. Það er því með öllu óljóst hver sparnaðurinn muni verða, ekki síst þegar haft er í huga að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu án efa draga úr atvinnuþátttöku elli- og örorkulífeyrisþega. Það gæti aftur leitt til aukinna útgjalda á öðrum stöðum í almannatryggingum eins og í tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstakri heimilisuppbót.
    Af þessum ástæðum og öðrum, sem gerð verður grein fyrir í umræðum, mun minni hlutinn greiða atkvæði gegn frumvarpsákvæðum þeim sem heilbrigðis- og trygginganefnd hefur fjallað um. Minni hlutinn vísar til umsagna sem nefndinni bárust og birtast þær með skilabréfi þessu.

Alþingi, 13. jan. 1992.



Finnur Ingólfsson.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Ingibjörg Pálmadóttir.


Svavar Gestsson.





Fylgiskjal IV.


Álit meiri hluta menntamálanefndar.


(9. jan. 1992.)


    Menntamálanefnd hefur fjallað um bréf yðar, dags. 7. janúar 1992, þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um breytingartillögu sem ríkisstjórnin hefur sent efnahags- og viðskiptanefnd og óskað að flutt verði við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Ólaf G. Einarsson menntamálaráðherra, Örlyg Geirsson, skrifstofustjóra fjármálaskrifstofu menntamálaráðuneytisins, Svanhildi Kaaber og Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Kára Arnórsson frá Félagi skólastjóra í Reykjavík og Viktor Guðlaugsson frá Félagi skólastjóra og yfirkennara.
    Meiri hluti nefndarinnar, sem skipaður er Sigríði Önnu Þórðardóttur, Birni Bjarnasyni, Tómasi Inga Olrich, Árna Johnsen og Rannveigu Guðmundsdóttur, leggur til að breytingartillagan verði samþykkt óbreytt.

Sigríður Anna Þórðardóttir

,

formaður

.


Fylgiskjal V.


Álit frá minni hluta menntamálanefndar um breytingartillögu


við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.


    Menntamálanefnd hefur haft til umsagnar breytingartillögu við fyrsta kafla frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 (bandorminn) sem fram kom við 2. umr. um málið. Í fyrsta kafla bandormsins eru lagðar til breytingar á grunnskólalögum sem ganga þvert á mótaða skólastefnu og eiga að leiða til þess að „komið verði í veg fyrir um 40 millj. kr. kostnaðarauka“ að sögn ráðuneytismanna. Nefndin ræddi á sínum tíma fyrsta kafla frumvarpsins og skilaði minni hluti nefndarinnar ítarlegu nefndaráliti sem birt er í þskj. 299 þar sem lagt er til að kaflinn verði felldur út úr frumvarpinu.
     Breytingartillagan, sem nú var rædd, þýðir um 40 millj. kr. sparnað til viðbótar þeim 40 millj. kr. niðurskurði sem frumvarpið felur í sér. Þar að auki er menntamálaráðuneytinu ætlað að skera niður um 180 millj. kr. í grunnskólum landsins vegna hins flata niðurskurðar sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar tóku inn í fjárlög ársins 1992. Samtals er hér því um að ræða niðurskurð upp á um 260 millj. kr., en honum fylgja margháttaðar neikvæðar breytingar á skólastarfi. Því má ljóst vera að grunnskólinn stendur frammi fyrir mjög alvarlegum niðurskurði sem á eftir að valda miklum skaða.
     Tillagan var rædd á þremur fundum og komu á fund nefndarinnar Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra, Örlygur Geirsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu, Kári Arnórsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Viktor Guðlaugsson frá Félagi skólastjóra og yfirkennara, ásamt þeim Svanhildi Kaaber og Eiríki Jónssyni frá Kennarasambandi Íslands.
     Til að samhengið skiljist milli þeirra tillagna sem fyrir liggja og þeirra aðgerða sem boðaðar hafa verið í grunnskólum landsins er nauðsynlegt að rifja upp hvað felst í fyrsta kafla bandormsins. Megininntakið er að frestað er gildistöku nokkurra ákvæða í nýju grunnskólalögunum og vegur þar einna þyngst að frestað er fækkun nemenda í bekkjardeildum. Þá er að finna í 3. gr. frumvarpsins tillögu um varanlega heimild til ráðherra til að ákveða vikulegan kennslustundafjölda nemenda.
     Nú er lagt til samkvæmt breytingartillögunni að fjöldi nemenda skuli miðast við 22 í 1. og 2. bekk og 28 nemendur í 3.–10. bekk skólaárið 1992–1993, en auk þess skuli heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að fjölga nemendum upp í 30 í bekk.
    Samkvæmt grunnskólalögum á hámark nemenda í 3.–10. bekk að vera 28, en í bandorminum er gert ráð fyrir 29. Með breytingartillögunni er verið að opna fyrir fjölgun í bekkjardeildum í allt að 30 nemendur í stað gildandi lagaákvæða sem gera ráð fyrir þróun í þveröfuga átt. Bekkir með 28–30 nemendur eru allt of stórir. Með þessum tillögum er verið að veita menntamálaráðherra vald til að skera niður kennslu og fjölga í bekkjum frá því sem nú er. Þess ber að geta að meðalfjöldi nemenda, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, er 23 nemendur í bekk og meðalkennslustundafjöldi 32 stundir á viku, en þær á að skerða samkvæmt því sem boðað hefur verið. Þessar tillögur fela því í sér verri kennslu og verri skóla. Það er ekki það sem þjóðfélag okkar þarf á að halda.
    Eftir að verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga var breytt standa mál í grunnskólakerfinu þannig að ríkið greiðir kennurum og öðru starfsfólki laun, en annað er í umsjá sveitarfélaganna. Ætli ríkið sér að spara í grunnskólakerfinu er um það eitt að ræða að skera launakostnaðinn niður. Að því er nú stefnt með því að:
    Skera niður kennslustundafjölda.
    Fjölga nemendum í bekkjum þannig að bekkjardeildir verði færri.
    Velta kostnaði yfir á sveitarfélögin, m.a. með akstri á nemendum sem gert væri að nýta húsnæði annarra skóla.
    Menntamálaráðherra hélt því fram er hann kom á fund nefndarinnar að kennslustundum yrði fækkað í efri bekkjum grunnskólans. Tók ráðherra dæmi af því að með því að fækka kennslustundum um tvær á viku í 7.–10. bekk næðist á haustmissiri sparnaður upp á 52 millj. kr.
    Kennarasambandið metur dæmið svo að niðurskurður upp á 40 millj. kr. þýði að 33 bekkjardeildir mundu hverfa og eigi að ná áætluðum sparnaði á árinu 1992 gæti það þýtt að skera verði niður 260–270 kennarastöður. Til samanburðar má nefna að á Vestfjörðum eru stöðugildi kennara í grunnskólum 140!
    Það er ljóst að framkvæmd þessara niðurskurðartillagna mun koma mjög misjafnlega niður á skólum og landshlutum. Erfitt mun reynast að fjölga nemendum í bekkjum í fámennum skólum og niðurskurðurinn mun því bitna harðar á þéttbýlisstöðum og þá einkum höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Ráðherra staðfesti á fundi menntamálanefndar að til umræðu væri að aka nemendum á milli skóla á höfuðborgarsvæðinu, en sá kostnaður lendir á viðkomandi sveitarfélögum. Í þessu sambandi ber að nefna að það mál hefur ekki verið rætt við sveitarfélögin. Hugmyndir ráðherrans um akstur á nemendum milli skóla sýna svo ekki verður um villst að til stendur að fækka bekkjum og flytja þá nemendur sem „afgangs“ verða í aðra skóla þar sem þeim verður deilt niður á bekki.
    Þetta er fyrirkomulag sem óverjandi er að bjóða börnum upp á. Þær spurningar vakna hvort yfirleitt séu kennslustofur fyrir svo stóra bekki í skólum landsins og hvort virkilega sé ætlunin að troða börnum inn í skólastofur eins og rollum í rétt. Við hljótum einnig að spyrja hvort það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að þvinga foreldra til að grípa til sinna ráða með stofnun einkaskóla. Ef svo er standa þeir verst að vígi sem verst hafa kjörin í samfélaginu.
    Fulltrúar skólastjóra og kennara, sem ræddu við nefndina, lýstu harðri andstöðu við fyrirhugaðan niðurskurð og kom fram að verið væri að skapa neyðarástand í skólum og að búast mætti við miklum óróa meðal kennara, foreldra og nemenda. Þá var undirstrikað að alvarlegast væri að með þessum aðgerðum væri fyrst og fremst verið að skerða hag barnanna og verið að ganga þvert á framtíðarhagsmuni þeirra og þjóðfélagsins alls. Hér væri verið að stíga stórt skref til baka í skólamálum og þeim mun tilfinnanlegra þar sem áður hefði verið gripið til skerðinga og stofninn, sem af væri tekið, væri allt of veikburða. Að þessu sinni er seilst til svokallaðra viðbótarstunda sem skólarnir hafa til ráðstöfunar og notaðar eru til þeirra verkefna sem talin eru brýnust, svo sem eflingar kennslu í íslensku, stærðfræði og erlendum tungumálum.
    Þá ber að nefna að þótt einkum sé hér um að ræða hagsmunamál barna þessa lands mun þetta einnig leiða til þess að kennarar verði fyrir verulegri kjaraskerðingu og uppsögnum. Kjör kennara eru til vansa og því óverjandi að ráðast á þá með þessum hætti.
    Sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni hafa lýst áhyggjum vegna þess hvernig þetta mál horfir við þeim, en kjaraskerðing kennara kann að kalla á aukinn stuðning sveitarfélaga við kennara í dreifðum byggðum landsins.
    Minni hluti menntamálanefndar mótmælir harðlega því tilræði við skólakerfið sem felst í fyrsta kafla frumvarpsins um ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992 og þeirri breytingartillögu sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Þessar tillögur verður að fella! Það er hlutverk Alþingis að setja lög um grunnskóla og það á að vera í höndum þess að ákveða hvaða kennslu ber að veita. Vald til að fjölga eða fækka kennslustundum á ekki að vera í höndum ráðherra og ráðast af því hvernig vindurinn blæs í ríkisfjármálum.
    Góð menntun er fjöregg þjóðarinnar og sá grundvöllur sem framtíð okkar byggist á. Því er niðurskurður af því tagi sem ríkisstjórnin stefnir að óverjandi og óþolandi!
    Á samdráttartímum ber að efla menntun og rannsóknir vegna þess að þaðan er helst að vænta nýjunga og nýsköpunar í atvinnulífi. Víða í hinum iðnvædda heimi er verið að efla skóla og auka fjárveitingar til þeirra þar sem mönnum er ljóst að þannig má best búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.
    Því miður hefur núverandi ríkisstjórn markað stefnu sem gengur þvert á æskilega þróun. Hún situr við að saga af alla vaxtarbrodda og höggva á þær rætur sem eiga að næra íslenskt þjóðlíf. Að þessu sinni eru það börnin sem gjalda niðurskurðarins og er þar ráðist á garðinn þar sem hann lægstur. Hér er um ranga stefnu að ræða og aðgerðir sem verður að stöðva áður en alvarlegt tjón hlýst af. Því leggur minni hlutinn til að allar niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar í skólamálum verði felldar út úr frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Alþingi, 10. jan. 1992.



Kristín Ástgeirsdóttir.


Hjörleifur Guttormsson.


Ólafur Þ. Þórðarson.


Valgerður Sverrisdóttir.




Fylgiskjal VI.



Álit samgöngunefndar.


(8. jan. 1992.)


    Nefndin hefur fjallað um bréf yðar, dags. 7. janúar 1992, þar sem óskað er umsagnar samgöngunefndar um breytingartillögu sem ríkisstjórnin hefur sent efnahags- og viðskiptanefnd og óskað að flutt verði við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Samgöngunefnd fékk á sinn fund til viðræðna um málið Snorra Olsen og Braga Gunnarsson frá fjármálaráðuneytinu og Hannes Valdimarsson, varaformann Hafnasambands sveitarfélaga. Nefndin vill koma eftirfarandi á framfæri:
    1.     Nefndin leggur til að ákvæði um skiladag uppgjörs vegna skila Hafnasjóðs á sérstöku vörugjaldi verði breytt. Því er lagt til að ákvæði 2. málsl. 2. efnismgr. í 3. tölul. breytingartillagnanna orðist svo: Skiladagur skal vera fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
    2.     Nefndin vill vekja athygli á því að fulltrúi Hafnasambands sveitarfélaga lýsti því yfir á fundi nefndarinnar að hafnasjóðir gætu ekki tekið ábyrgð á gjöldum sem ekki innheimtust, t.d. vegna gjaldþrota. Nefndin telur mikilvægt að settar séu skýrar reglur um innheimtu og skil á vörugjaldinu og vísar í því sambandi til þess að ráðherra á að vera heimilt samkvæmt breytingartillögunni að setja slíkar reglur.
    Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni hafa fyrirvara um afgreiðslu málsins.

F.h. samgöngunefndar

,

Árni M. Mathiesen

,

formaður

.