Ferill 124. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 124 . mál.


393. Tillaga til rökstuddrar dagskrár



í málinu: Frv. til l. um breyt. á l. nr. 40 15. maí 1990, um Hagræðingarsjóð sjávútvegsins.

Frá Steingrími J. Sigfússyni, Halldóri Ásgrímssyni, Stefáni Guðmundssyni,


Jóhanni Ársælssyni og Önnu Ólafsdóttur Björnsson.



    Fyrir liggur mjög hörð andstaða allra helstu hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi og margra talsmanna landsbyggðarinnar við þetta frumvarp og jafnframt að ekkert samráð var við þá haft frekar en sjávarútvegsnefnd við undirbúning málsins.
    Nú þegar árið 1992 er gengið í garð, en á því ári á að ljúka endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og laga um Hagræðingarsjóð, er enn fráleitara en ella að taka málefni Hagræðingarsjóðs út úr með þeim hætti sem hér á að gera. Úr því sem komið er er langeðlilegast að hraða þessari endurskoðun og leiða hana til lykta á grundvelli gildandi lagaákvæða með tilheyrandi samráði við hagsmunaaðila og sjávarútvegsnefnd Alþingis.
    Fyrir liggur að stjórnarandstaðan er hvenær sem er tilbúin til að samþykkja þau ákvæði sem varða úthlutun á yfirstandandi fiskveiðiári og einnig hækkun á úreldingargreiðslum úr 10 í 30% af tryggingarverðmæti skipa. En meginefni frumvarpsins eru tillögumenn algjörlega andvígir og úr því það er ætlun ríkisstjórnarinnar að knýja það í gegn er lagt til að frumvarpinu sé vísað frá og fyrir tekið næsta mál á dagskrá.