Ferill 259. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 259 . mál.


436. Skýrsla



um norrænt samstarf frá janúar 1991 til febrúar 1992.

Frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs.



1. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
1.1. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild og fastanefndir Norðurlandaráðs.
    Alþingi kýs fulltrúa til setu í Norðurlandaráði til eins árs í senn og gildir kosningin frá kjördegi og þar til ný kosning hefur farið fram á næsta reglulegu þingi að því tilskildu að fulltrúar sitji á Alþingi þann tíma. Þann 28. nóvember 1990 voru eftirtaldir þingmenn kosnir til setu í Norðurlandaráði: Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Sighvatur Björgvinsson, Þorsteinn Pálsson, Hjörleifur Guttormsson, Jón Kristjánsson og Hreggviður Jónsson. Varamenn voru kosnir Valgerður Sverrisdóttir, Friðrik Sophusson, Rannveig Guðmundsdóttir, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Guðrún Helgadóttir, Guðni Ágústsson og Ingi Björn Albertsson. Á fundi 23. janúar 1991 skipti Íslandsdeild þannig með sér verkum að Ólafur G. Einarsson var endurkjörinn formaður Íslandsdeildar og fulltrúi í fjárlaga- og eftirlitsnefnd ráðsins auk þess sem hann var tilnefndur í forsætisnefnd. Páll Pétursson var endurkjörinn varaformaður Íslandsdeildar og í félags- og umhverfismálanefnd auk þess sem hann var tilnefndur í forsætisnefnd. Þorsteinn Pálsson og Hjörleifur Guttormsson voru endurkjörnir í efnahagsmálanefnd, Jón Kristjánsson kjörinn í menningarmálanefnd, Hreggviður Jónsson endurkjörinn í samgöngunefnd og Sighvatur Björgvinsson kjörinn í laganefnd. Hjörleifur Guttormsson og Jón Kristjánsson voru tilnefndir í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt og Ólafur G. Einarsson í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans fyrir tímabilið frá maí 1991 til maí 1993.
    Að loknum Alþingiskosningum 20. apríl 1991 og að lokinni myndun ríkisstjórnar urðu þær breytingar að Ólafur G. Einarsson, Sighvatur Björgvinsson, Þorsteinn Pálsson og Hreggviður Jónsson gengu úr Íslandsdeild. Í stað Ólafs G. Einarssonar, Þorsteins Pálssonar og Hreggviðs Jónssonar tilnefndi þingflokkur sjálfstæðismanna í maí 1991 Geir H. Haarde, Árna M. Mathiesen og Sigríði Önnu Þórðardóttur og þingflokkur Alþýðuflokks Rannveigu Guðmundsdóttur í stað Sighvats Björgvinssonar. Í ágúst tilnefndi þingflokkur framsóknarmanna Halldór Ásgrímsson í stað Páls Péturssonar. Við kjör í Íslandsdeild, sem fór fram 24. október 1991, voru þeir sömu sem þegar höfðu verið tilnefndir auk Hjörleifs Guttormssonar og Kristínar Einarsdóttur kosnir fulltrúar í Íslandsdeild. Varamenn voru þá kosnir Sturla Böðvarsson, Karl Steinar Guðnason, Árni Johnsen, Ingi Björn Albertsson, Valgerður Sverrisdóttir, Svavar Gestsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
    Á fyrsta fundi nýkjörinnar Íslandsdeildar 5. nóvember 1991 skipti hún þannig með sér verkum að formaður var kosinn Geir H. Haarde og varaformaður Hjörleifur Guttormsson sem einnig var kosinn í efnahagsmálanefnd. Í forsætisnefnd Norðurlandaráðs voru tilnefndir Geir H. Haarde og Halldór Ásgrímsson sem einnig var kosinn í félagsmálanefnd. Sigríður Anna Þórðardóttir var kosin í menningarmálanefnd, Kristín Einarsdóttir í umhverfismálanefnd, Rannveig Guðmundsdóttir í laganefnd og Árni M. Mathiesen í fjárlaganefnd. Geir H. Haarde var tilnefndur í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans út kjörtímabilið í stað Ólafs G. Einarssonar. Árni M. Mathiesen og Kristín Einarsdóttir voru tilnefnd í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt. Á fundi Íslandsdeildar 5. desember 1991 var Hjörleifur Guttormsson tilnefndur í kjörnefnd. Á fyrsta fundi deildarinnar voru bókuð þakkarorð til fráfarandi formanns og varaformanns fyrir unnin störf í þágu norræns samstarfs og deildarinnar.

2.2. Fundir Íslandsdeildar og störf.
2.2.1.
    Á síðasta starfsári var skipuð nefnd (skipulagsnefnd Norðurlandaráðs) af forsætisnefnd Norðurlandaráðs til að gera tillögur um bætt skipulag á starfsemi ráðsins. Formaður nefndarinnar var Bjarne Mörk Eidem sem þá sat í Norðurlandaráði. Fulltrúi Íslandsdeildar í nefndinni var Páll Pétursson. Nefndin skilaði áliti í október 1990. Tillögur hennar voru lagðar fyrir laganefnd Norðurlandaráðs og komu til afgreiðslu á 39. þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn um mánaðamót febrúar og mars 1991. Íslandsdeild hafði fylgst grannt með starfi nefndarinnar og stutt tillögur hennar í aðalatriðum. Á Norðurlandaráðsþinginu gerðist það hins vegar í fyrsta sinn að enginn Íslendingur var tilnefndur formaður í nokkurri af fastanefndunum sex. Í reglum ráðsins höfðu ekki verið ákvæði um að landsdeildirnar fimm skyldu sitja við sama borð hvað það varðar, en nánast verið litið á það sem óskráð lög. Hins vegar kom það skýlaust fram í Helsinki-samningnum að hver landsdeild ætti tvo hinna tíu fulltrúa sem skipuðu forsætisnefnd. Meðal áðurnefndra tillagna skipulagsnefndar voru tillögur um breytingar á Helsinki-sáttmálanum þess efnis að tala fulltrúa í forsætisnefnd yrði eigi lægri en tíu án þess að kveðið yrði á um hver hún yrði hæst. Í ljósi þess að nú var lagt til að nefndarformennska félli ekki í hlut neins Íslendings gerði Íslandsdeild sér ljóst að komið gæti til þess að fulltrúum í forsætisnefnd yrði í framtíðinni fjölgað til muna án þess að Íslendingum þar yrði fjölgað. Íslenski samstarfsráðherrann taldi sér því ekki fært að undirrita þær breytingar á Helsinki-samningnum sem skipulagsnefnd hafði lagt til fyrr en sátt næðist um að binda í reglur ráðsins annars vegar að allar landsdeildir ættu fulltrúa meðal nefndarformanna ráðsins og hins vegar að lögfesta í Helsinki-sáttmálanum að fjöldi fulltrúa í forsætisnefnd væri tíu eða ellefu auk áðurnefndra ákvæða um tvo fulltrúa frá hverri landsdeild. Ákvæðið um að hægt væri að fjölga fulltrúum í forsætisnefnd upp í ellefu var sett inn til að unnt yrði fyrir flokkahóp með minnst sex fulltrúa, sem hefði ekki atkvæðastyrk í neinni landsdeild til að hljóta tilnefningu fulltrúa í forsætisnefnd, að fá þar fulltrúa eigi að síður. Á fundi forseta Alþingis með formanni og varaformanni Íslandsdeildar var staða þessi rædd. Forsetarnir tóku það síðan upp á fundi forseta norrænu þjóðþinganna.
    Samkomulag um málið náðist ekki fyrr en um miðjan júní 1991 að undangenginni heimsókn aðalritara forsætisnefndar Norðurlandaráðs til Íslands. Hluti þess samkomulags var þess efnis að forsætisnefnd batt það í reglur kjörnefndar Norðurlandaráðs að allar landsdeildirnar fimm skyldu fá fulltrúa meðal nefndarformanna fastanefnda ráðsins. Umræddar breytingar á Helsinki-samningnum voru staðfestar á Alþingi með þingsályktun 21. desember 1991 og gengu þær í gildi um mánaðamót janúar og febrúar 1992. Sjá nánar um tillögur skipulagsnefndar í skýrslu Íslandsdeildar um starfsemina 1991, tölulið 2.2.9.

2.2.2.
    Að tillögu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs bauð Alþingi Íslendinga formanni utanríkismálanefndar Litáen, Emannuelis Zingieris, til Íslands til viðræðna í janúar 1991. Þann 23. janúar átti hann fund með Íslandsdeild. Tilefni heimsóknarinnar var að kynna málstað Litáens í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hann lýsti á fundinum aðgerðum fulltrúa Sovétríkjanna til að koma í veg fyrir frjálsa fjölmiðlun í Litáen. Hann kvað stuðning Íslendinga við málstað þjóðar sinnar mikilvægan þar sem hann gæti leitt til þess að fleiri fylgdu á eftir. Hann kvað menningarlegt samstarf Eystrasaltsríkjanna við Norðurlönd áhugaverðara en við stærri ríki og vísaði til sögulegrar reynslu því til stuðnings. Þess vegna sæktu þeir á um samstarf við Norðurlandaráð og hefðu mikinn áhuga á að senda fólk til náms á Norðurlöndum. Hann lagði ríka áherslu á nauðsyn þess að Norðurlönd ásamt öðrum Vestur-Evrópuríkjum ynnu að því að lýðræðisöflin fengju að þróast alls staðar í Sovétríkjunum.

2.2.3.
    Vegna alþingiskosninganna 20. apríl 1991 stóð Íslandsdeild Norðurlandaráðs að kosningafundi í Kaupmannahöfn 24. febrúar 1991. Var það gert að beiðni íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn. Frummælendur voru einn frá hverjum flokki og fundargestir um 40. Fundurinn stóð í fjórar klukkustundir.

2.2.4.
    Húsnæðismál Norrænu eldfjallastöðvarinnar
í Reykjavík voru til umræðu bæði á fundi Íslandsdeildar með Júlíusi Sólnes samstarfsráðherra og á öðrum fundum. Ástæður þess voru þær að forstöðumaður stöðvarinnar hafði lýst áhyggjum sínum yfir því að íslenska ríkið stæði ekki við þau loforð sem ráðherranefnd Norðurlanda hefðu verið gefin um hentugt húsnæði. Náðst hefði samkomulag um að eldfjallastöðin fengi aðstöðu í jarðfræðahúsi því sem til hefði staðið að hefja framkvæmdir við á árinu. Nú væri ljóst að framkvæmdir við jarðfræðahúsið drægjust og því engin lausn í sjónmáli á vanda eldfjallastöðvarinnar. Hætta gæti jafnvel verið á því að ráðherranefndin drægi til baka fjárveitingar vegna þessa. Íslandsdeild lagði áherslu á að ríkisstjórnin leysti vandamál þetta.

2.2.5.
     Túlkun af og á íslensku á fundum og þingum Norðurlandaráðs var til umræðu á fundum deildarinnnar á starfsárinu og voru fulltrúar sammála um að ekki væri rétt að taka upp þá almennu reglu að túlka af og á íslensku á þingum og fundum ráðsins en það ætti hins vegar að vera mögulegt hvenær sem þess væri óskað. Málið er nú komið í það horf að íslenska verður túlkuð verði þess óskað í tæka tíð fyrir þing ráðsins og gildir það sama væntanlega um nefndarfundi.

2.2.6.
    Fulltrúi frá Íslandsdeild sótti 16. maí 1991 fund sem haldinn var í Norræna húsinu til kynningar á starfsemi NORDJOBB árið 1991 hér á landi. 110 íslenskir unglingar fóru til annarra norrænna landa á síðasta ári og 101 unglingur kom hingað til starfa. Starfsemin gengur vel og er framkvæmdin á hendi Norræna félagsins, en norræna ráðherranefndin styrkir starfsemina með árlegum fjárframlögum auk þess sem fjárframlag er veitt á fjárlögum allra norrænu ríkjanna.

2.2.7.
    Til Íslandsdeildar sem og annarra landsdeilda Norðurlandaráðs var vísað tillögum, sem lagðar höfðu verið fyrir Norðurlandaráð, um nýjar reglur um ritstjórn tímaritsins Nordisk Kontakt. Eftir umfjöllun í landsdeildum var þó ákveðið að breyta í engu núverandi skipan þess efnis að landsdeildir ráði ritstjóra.

2.2.8.
    Þann 13. janúar 1992 bauð Eiður Guðnason, samstarfsráðherra Norðurlanda, Íslandsdeild Norðurlandaráðs til fundar til að ræða stöðu samstarfsins. Einnig sótti fundinn Matthías Á. Mathiesen sem er fulltrúi forsætisráðherra í nefnd skipaðri fulltrúum forsætisráðherra Norðurlanda sem á að gera úttekt á norrænu samstarfi í ljósi breyttra tengsla Norðurlandaríkjanna við Evrópubandalagið. Matthías skýrði frá því starfi sem þegar hefði verið unnið í nefndinni. Aðalumræðuefni fundarins var ráðherranefndartillagan „Norden efter 1992“ sem lögð verður fyrir næsta Norðurlandaráðsþing.
    Á fundinum kom einnig fram að norræn upplýsingaskrifstofa í Vilnius yrði opnuð formlega af Eiði Guðnasyni 23. janúar 1992. Þeirri hugmynd var hreyft að hagkvæmt gæti orðið fyrir Íslendinga að gera norrænu upplýsingaskrifstofurnar í Eystrasaltsríkjunum að sameiginlegum sendiráðum norrænu ríkjanna þar.

2.2.9.
    Norrænir fréttamannastyrkir
voru á starfsárinu veittir fréttamönnum á Norðurlöndum að venju. Úthlutað var til fréttamanna hér jafnvirði 70.000 SEK. Styrkirnir voru auglýstir í fréttabréfi Blaðamannafélagsins, Blaðamanninum. Eftirtaldir fréttamenn fengu styrki: Ragnar Karlsson 18.000 SEK, Ágúst Ingi Jónsson 20.000 SEK, Sævar Guðbjörnsson 13.000 SEK og Árni Þórður Jónsson 13.000 SEK.

2.2.10.
    Í tilefni 40 ára afmælis Norðurlandaráðs á árinu 1992 var ákveðið að gera sameiginlegt kynningarátak í skólunum í samstarfi við samtök sem starfa í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og hafa það markmið að auka notkun dagblaða við kennslu í skólum. Þar sem slík samtök eru ekki til á Íslandi hefur skrifstofa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tekið upp samstarf um verkefni þetta við nýskipaðan norrænan skólaráðgjafa sem starfar í Norræna húsinu. Verkefnið hefur þegar verið kynnt fræðslustjórum landsins og í vor, þegar efnið liggur fyrir, verður farið í öll fræðsluumdæmi landsins og kennurum kynnt notkun þess.

2.2.11.
    Á starfsárinu leituðu kennarar og aðrir nokkuð til skrifstofu Íslandsdeildar um námsgögn um ýmsa þætti norræns samstarfs og um almennar upplýsingar, aðallega varðandi norrænar styrkveitingar. Það háir upplýsingastarfinu helst að framleiðsla upplýsingagagna hjá aðalskrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi er ekki nægileg. Leitað er og til skrifstofunnar um fyrirlestrahald bæði fulltrúa og starfsfólks Íslandsdeildar og er slíkum umleitunum sinnt eftir bestu getu. Ritari Íslandsdeildar tók þátt í kynningu á norrænu samstarfi og starfsemi Norðurlandaráðs á vegum stjórnsýslufræðslunnar 7. nóvember sl. Þar var jafnframt stutt kennsla í notkun dönsku, norsku og sænsku í norrænu samstarfi.

2.2.12.
    Tvær fastanefndir héldu fundi á Íslandi sumarið 1991, efnahagsmálanefnd í Vestmannaeyjum dagana 25.–28. júní og menningarmálanefnd á Akureyri 6.–10. ágúst.
    Skrifstofa Íslandsdeildar undirbjó og skipulagði fundi þessa.

2.2.13.
    Í byrjun febrúar 1992 var gefinn út lítill kynningarbæklingur um Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Honum verður m.a. dreift til þeirra aðila sem fá námsefni það sem útgefið er sem hluti þess sameiginlega norræna kynningarátaks sem fjallað er um undir lið 2.2.11.

2.2.14.
    Dagana 22. og 23. janúar 1992 hélt dómnefnd um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fund á Íslandi til að ákveða hver hlyti verðlaunin árið 1992. Ákveðið var að Fríða Á. Sigurðardóttir rithöfundur hlyti verðlaunin fyrir bók sína „Meðan nóttin líður“. Var sá fundur einnig skipulagður af skrifstofu Íslandsdeildar.
    Íslensku fulltrúarnir í dómnefndinni, sem báðir eru skipaðir af menntamálaráðherra, voru Dagný Kristjánsdóttir lektor og Sigurður A. Magnússon rithöfundur.
    Verðlaunin verða afhent af forseta Norðurlandaráðs við hátíðlega athöfn í tengslum við 40. þing Norðurlandaráðs.

3. Störf Norðurlandaráðs árið 1991.
3.1. Inngangur.
    Umræður um Evrópumálin og áhrif þróunarinnar í Evrópu á framtíð Norðurlandaráðs hafa einkennt störf ráðsins öðru fremur á árinu 1991. Tengsl Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðlegar stofnanir hafa aukist. Forsætisnefnd gerði starfsáætlun um samstarfið við Eystrasaltsríkin og Austur-Evrópu og var sú áætlun lögð fyrir 39. þing ráðsins í Kaupmannahöfn. Fyrir 4. aukaþing ráðsins í nóvember 1991 lagði forsætisnefnd fram tillögur sínar um framtíðarverkefni Norðurlandaráðs. Þær tillögur lágu til grundvallar almennu umræðunum á aukaþinginu.

3.2. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs.
3.2.1.
    Í forsætisnefnd Norðurlandaráðs sátu 10 fulltrúar síðasta ár, tveir frá hverri landsdeild. Síðan á 38. þingi ráðsins hefur einnig átt þar sæti áheyrnarfulltrúi frá flokkahópi vinstri sósíalista.
    Á 39. þingi ráðsins í Kaupmannahöfn var Anker Jørgensen kjörinn forseti Norðurlandaráðs. Þar voru og Páll Pétursson og Ólafur G. Einarsson kjörnir í forsætisnefnd í samræmi við tilnefningu Íslandsdeildar. Aðrir í forsætisnefnd voru Ivar Hansen frá Danmörku, Elsi Hetemäki-Olander og Mats Nyby frá Finnlandi, Kirsti Kolle Grøndahl og Jan P. Syse frá Noregi, Grethe Lundblad og Karin Söder frá Svíþjóð. Sumarið 1991 tók Geir H. Haarde við sæti Ólafs og Halldór Ásgrímsson við sæti Páls, sjá nánar um það í lið 1.1.
    Forsætisnefnd hélt 13 fundi á árinu 1991. Auk þess tók nefndin þátt í tveimur fundum með forsætisráðherrum Norðurlanda, þeim fyrri í tengslum við 39. þing ráðsins og þeim síðari í tengslum við 4. aukaþing þess í Mariehamn. Aðalefni fundanna var þróunin í Evrópu og áhrif hennar á norrænt samstarf. Á síðari fundinum tilkynntu forsætisráðherrarnir að þeir mundu skipa nefnd til að kanna og leggja fram tillögur um framtíð norræns samstarfs. Fulltrúi forsætisráðherra Íslands í nefndinni er Matthías Á. Mathiesen fyrrv. utanríkisráðherra og fyrrv. forseti Norðurlandaráðs.

3.2.2.
    Forsætisnefnd áréttaði á starfsárinu bæði bréflega og munnlega á fundum með samstarfsráðherrum og forsætisráðherrum þörf þess að í drögin að samningi um Evrópskt efnahagssvæði yrðu sett ákvæði sem tryggðu að norrænt samstarf yrði mögulegt þrátt fyrir samningana um Evrópskt efnahagssvæði. Forsætisnefnd átti á starfsárinu þrjá fundi með norrænu samstarfsráðherrunum. Á þeim var að venju fjallað um þær samþykktir sem ráðið gerði á síðasta þingi og um undirbúning þess næsta. Á þessum fundum var einnig lögð rík áhersla á Evrópumálin, framtíð norræns samstarfs, samstarf við Eystrasaltsríkin og framtíðarskipan Norðurlandaráðs.

3.2.3.
    Fyrir aukaþing Norðurlandaráðs í Mariehamn samþykkti forsætisnefnd ályktun um norrænt samstarf eftir 1992. Þessi ályktun lá ásamt nokkrum tillögum til grundvallar umræðnanna á aukaþinginu þar sem samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um Norðurlönd eftir 1992 var ekki fram komin. Það mat forsætisnefndar kom fram í samþykktinni að eitt meginmarkmið norræns samstarfs ætti að vera að skapa sameiginlegan norrænan heimamarkað á sviði efnahags- og orkumála og samgöngumála, auk menningar- og menntamála í þeim tilgangi að styrkja Norðurlönd inn á við. Þar kom og fram að markmið norræns samstarfs ætti að vera að auka áhrif Norðurlanda á þróun mála í Evrópu. Forsætisnefnd telur því að sérstaka áherslu beri að leggja á samstarf um menningarmál, réttindi norrænna borgara, stefnu í Evrópumálum, atvinnumál og umhverfismál. Rík áhersla er lögð á að norrænu ríkin hafi sameiginlega afstöðu á alþjóðavettvangi og auki samstarf sitt við önnur svæði í Evrópu, t.d. Eystrasaltsríkin, nyrstu svæði Evrópu og Ameríku og Benelúx-löndin. Til að ná þessum markmiðum taldi forsætisnefnd nauðsynlegt að norrænu fjárlögin yrðu hækkuð. Forsætisnefnd taldi og nauðsynlegt að forsætisráðherrar norrænu ríkjanna tækju meiri þátt í norræna samstarfinu og héldu reglubundið sameiginlega fundi. Forsætisnefnd beindi þeim tilmælum til forsætisráðherranna að þeir tækju afstöðu til þess hvernig koma ætti í framkvæmd þeim tilmælum ráðsins að utanríkis- og utanríkisviðskiptaráðherrar landanna héldu fundi sem norræn ráðherranefnd. Forsætisnefnd taldi og eðlilegt að samræma starf skrifstofu forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda í Kaupmannahöfn. Í áðurnefndri ályktun kom fram sú skoðun forsætisnefndar að Norðurlandaráð ætti að hafa ákvörðunarvald um skiptingu norrænu fjárlaganna innan þess ramma sem ráðherranefndin setti. Forsætisnefnd telur í ályktuninni að utanríkis- og varnarmál, að því marki sem hagsmunir ríkjanna falla saman, skuli vera norræn samstarfsmál. Forsætisnefnd telur eðlilegt að þær tillögur, sem hún lagði fram í ályktuninni, leiði til breytinga á Helsinki-samningnum.

3.2.4.
    Dagana 14. og 15. október 1991 hélt forsætisnefnd Norðurlandaráðs alþjóðlega þingmannaráðstefnu um orkumál Evrópu, m.a. með þátttöku frá Austur-Evrópuríkjunum. Ráðstefnan var haldin í Ósló. Hana sóttu fulltrúar 20 þjóðþinga auk fulltrúa ýmissa alþjóðastofnana. Meðal umræðuefna ráðstefnunnar var sameiginlegur orkumarkaður í Evrópu, umhverfisáhrif orkunotkunar og evrópsk orkuáætlun. Samþykkt var ítarlegt lokaskjal frá ráðstefnunni.
    Af hálfu Íslands sóttu alþingismennirnir Hjörleifur Guttormsson og Tómas Ingi Olrich ráðstefnuna. Hjörleifur flutti á ráðstefnunni tillögu um að horfið yrði frá framleiðslu og notkun kjarnorku í orkubúskap fyrir árið 2020, en hún fékk ekki hljómgrunn meiri hluta á ráðstefnunni.

3.2.5.
    Á starfsárinu jukust alþjóðleg samskipti forsætisnefndar og var það í samræmi við starfsáætlun forsætisnefndar um alþjóðlegt samstarf ráðsins 1990–1992.
    Í febrúar og mars 1991 voru fulltrúar frá Norðurlandaráði í Eystrasaltsríkjunum þegar þjóðaratkvæðagreiðslur fóru þar fram um sjálfstæði ríkjanna.
    Í september 1991 hitti forsætisnefnd fulltrúa þjóðþinga Eystrasaltsríkjanna. Voru þar m.a. ræddir möguleikar þess að stofna Eystrasaltsríkjaráð sem þingmenn ættu sæti í.
    Ákveðið var að stofnaður yrði sameiginlegur vinnuhópur til að undirbúa samstarf Norðurlandaráðs og hins fyrirhugaða Eystrasaltsríkjaráðs.
    Í maí 1991 var haldinn fundur forsætisnefndar og fulltrúa nefndar Evrópuþingsins um samstarf við Ísland, Svíþjóð, Finnland og Norðurlandaráð.
    Í júní 1991 stóðu Norðurlandaráð og Evrópuráðið sameiginlega að ráðstefnu um byggðamál.
    Í janúar 1992 sóttu fulltrúar Norðurlandaráðs stofnfund hins nýja Eystrasaltsríkjaráðs í Riga. Fulltrúar ráðsins voru þingmennirnir Halldór Ásgrímsson og Jan P. Syse.

3.2.6.
     Fjárveitingar til skrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi námu árið 1991 u.þ.b. 34 milljónum sænskra króna. Þar eru nú 34 starfsmenn. Greiðslur landanna fara eftir hlutdeild þeirra í vergri þjóðarframleiðslu landanna í heild. Hlutdeild Íslands var árið 1991 1,1%.

3.3.
    Þingmenn í Norðurlandaráði starfa flestir í norrænum þingflokkum eða flokkahópum. Þessir norrænu flokkahópar eru nú fimm talsins, hópur sósíaldemókratískra flokka, hópur miðflokka, hópur íhaldsflokka, hópur vinstri sósíalista og flokkahópur frjálslyndra. Flokkahóparnir fá fjárveitingar af fjárlögum Norðurlandaráðs, annars vegar ákveðna grunnupphæð á hvern hóp og hins vegar upphæð í hlutfalli við fjölda fulltrúa. Hver flokkahópur hefur ritara sér til aðstoðar.

3.4. Nefndir ráðsins.
3.4.1. Laganefnd.
    Í laganefnd sitja 13 fulltrúar. Formaður nefndarinnar til loka 39. þings ráðsins var Sighvatur Björgvinsson alþingismaður og varaformaður danski þingmaðurinn Helge Adam Møller. Á 39. þingi var Helge Adam Møller kosinn formaður og sænski þingmaðurinn Lennart Andersson varaformaður. Lahja Exner tók við varaformennsku af Lennart Andersson í nóvember 1991 þar eð hann lét af þingmennsku.
    Að loknum alþingiskosningum í apríl 1991 tók Rannveig Guðmundsdóttir sæti Sighvats í nefndinni.
    Laganefnd hélt sjö fundi á starfsárinu auk eins fundar með norrænu dómsmálaráðherrunum. Á þeim fundi, sem haldinn var 12. nóvember 1991, var m.a. rætt um aðgerðir til að halda norræna samningnum um frjálsa för án vegabréfs milli Norðurlanda í gildi eftir að landamærin milli Evrópubandalagsríkjanna hafa verið opnuð. Einnig var rætt um hvaða áhrif samningur um Evrópskt efnahagssvæði hefði fyrir norrænt löggjafarsamstarf og kynntu dómsmálaráðherrar áætlun sína um fyrirhugað löggjafarsamstarf næstu ár. Einnig tók nefndin til umræðu hvert væri skipulag samstarfs lögregluyfirvalda á Norðurlöndum þegar slys bæri að höndum sem tengdust fleiri löndum en einu eða við leit að brotamönnum sem komist hefðu til annars lands en þess sem brotið hefði verið framið í. Þar kom fram að samstarf lögreglunnar byggðist m.a. á samningi milli norrænu ríkjanna frá 1972 og að það væri víðtækt og gengi vel. Samkvæmt samningnum væri heimilt að lögreglan í viðkomandi umdæmi hefði beint samband við lögregluna í umdæmi annars lands. Á fundinum með dómsmálaráðherrunum var einnig fjallað um möguleika þess að samræma löggjöf landanna um aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart börnum. Það var samdóma álit að frekari aðgerða væri þörf til að sporna við ofbeldi gagnvart börnum og að gæta þyrfti þess að öll börn án tillits til þjóðernis hlytu sams konar vernd. Umfjöllun um tillögur skipulagsnefndar Norðurlandaráðs var aðalverkefni nefndarinnar fram að 39. þingi ráðsins. Nefndin lagði m.a. til að áhrif Norðurlandaráðs á fjárlögin yrðu aukin, ákvæði um alþjóðlegt samstarf yrðu færð inn í Helsinki-samninginn og að embætti norræns umboðsmanns yrði stofnað.
    Eftir 39. þing ráðsins hefur aukið alþjóðastarf Norðurlandaráðs einnig mótað störf laganefndar. Nefndin hefur fylgst með samningaviðræðunum um Evrópskt efnahagssvæði að því marki sem þær hafa verið innan starfsvettvangs nefndarinnar. Þróunin í Eystrasaltsríkjunum hefur og verið ofarlega á baugi.
    Nefndin fjallaði á starfsárinu m.a. um þingmannatillögur um skipulag samstarfsins, um að halda skyldi tvö regluleg þing á ári, um barnavernd á Norðurlöndum, um aðild Eystrasaltsríkjanna að Norðurlandaráði og um að Norðurlönd tækju upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin, um norrænt samstarf á sviði gentækni og um norrænan milliríkjasamning um líf- og gentækni og um að norrænir ríkisborgarar fengju rétt til að taka þátt í þingkosningum í því norræna landi þar sem þeir eru búsettir.
    Á dagskrá nefndarinnar voru tvær ráðherranefndartillögur sem hlutu stuðning nefndarinnar. Önnur var um stofnun rannsóknaráðs á sviði Evrópuréttar og hin um að haldið yrði norrænt kvennaþing, NORDISK FORUM, árið 1994.
    Formaður og varaformaður laganefndar heimsóttu skrifstofur Evrópuþingsins í Brussel í janúar 1991 til að kynna sér hvernig nefndastörf Evrópuþingsins færu fram.
    Í desember 1991 heimsóttu formaður og varaformaður nefndarinnar þjóðþing Eystrasaltsríkjanna og áttu fundi með löggjafarnefndum þingsins. Þingmenn í Eystrasaltsríkjunum höfðu mikinn áhuga á samstarfi um löggjafarmál.

3.4.2. Menningarmálanefnd.
    Í menningarmálanefnd sitja 13 fulltrúar. Formaður nefndarinnar til loka 39. þings ráðsins var danski þingmaðurinn J.K. Hansen og Jón Kristjánsson varaformaður. Þá tók norski þingmaðurinn Thea Knutzen við formennsku og sænski þingmaðurinn Gunnar Björk við varaformennsku. Í nóvember tók Marianne Andersson við varaformennsku er Gunnar Björk varð staðgengill samstarfsráðherra Svíþjóðar. Sigríður Anna Þórðardóttir tók sæti Jóns Kristjánssonar í nefndinni 5. nóvember 1991.
    Menningarmálanefnd hélt sjö fundi á starfsárinu auk eins fundar með menningar- og menntamálaráðherrum Norðurlanda. Á fundi nefndarinnar hafa einnig komið sérfræðingar sem gefið hafa upplýsingar um ýmis verkefni og áætlanir bæði á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og Evrópubandalagsins. Á fundi nefndarinnar í september bauð nefndin fulltrúum allmargra norrænna stofnana sem kynntu starfsemi sína.
    Í samræmi við efni tillögu frá Norðurlandaráði samþykkti ráðherranefndin á árinu 1991 samstarfsáætlun um breytingar á fjármögnun og skipulagi norrænna stofnana o.fl. Samkvæmt áætluninni mun Norðurlandaráð fylgjast með starfinu og fær m.a. til umfjöllunar skýrslu þá sem gerð verður um allt tímabilið 1991–1994. Leiði starfið til þess að ákvörðun þurfi að taka um að leggja niður einhverjar norrænar stofnanir verður tillaga þess efnis lögð fyrir Norðurlandaráð sem ráðherranefndartillaga.
    Á fundi nefndarinnar með menntamálaráðherrum landanna lagði nefndin til að í stað nýrrar áætlunar um menningarmál, þegar sú áætlun, sem nú er starfað eftir, rennur út 1992, yrði gerður forgangslisti um þau verkefni sem unnið yrði að. Á árinu 1991 hefur ráðherranefndin unnið að gerð skýrslu um framkvæmd menningarmálaáætlunarinnar og forgangslista sem síðan verður unnið eftir.
    Menningarmálanefnd ákvað á sumarfundi sínum á Íslandi að skipta sér í þrjá vinnuhópa og skyldi einn þeirra kynna sér sérstaklega samstarfsmöguleika við þær nefndir Evrópuþingsins sem fjalla um sömu málaflokka og menningarmálanefnd, annar skyldi kynna sér störf Evrópuráðsins á sviði menningar, rannsókna, menntunar og fjölmiðla og sá þriðji samstarf við Eystrasaltsríkin. Vinnuhóparnir skulu hafa lokið starfi sínu í janúar 1993. Sá vinnuhópur, sem skyldi kynna sér störf Evrópuþingsins, fór í kynnisför til höfuðstöðva Evrópubandalagsins og ræddi hópurinn m.a. við menningarmálanefnd Evrópuþingsins og fulltrúa annarra nefnda þess sem fara með sömu mál og menningarmálanefnd. Einnig ræddi hópurinn við sendiherra Íslands, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hjá Evrópubandalaginu. Sigríður Anna Þórðardóttir, sem starfar í vinnuhópnum um samstarf við nefndir Evrópuþingsins, tók þátt í ferðinni.
    Menningarmálanefnd lagði á starfsárinu eins og undanfarin ár áherslu á mikilvægi norræns samstarfs um sjónvarpssendingar milli landanna. Nefndin lýsti eftir pólitískum vilja menntamálaráðherra landanna til að leysa þau vandamál, sérstaklega varðandi höfundarétt, sem koma í veg fyrir að unnt sé að senda sjónvarpsefni í einhverjum mæli milli landanna. Því var haldinn í janúar 1992 samráðsfundur sem fulltrúar sjónvarpsstöðva, höfundaréttarhafa, embættismannanefndarinnar sem fjallar um mál þessi og menningarmálanefnd sátu til að varpa ljósi á við hvaða vanda væri að etja.
    Nefndin fjallaði um sex þingmannatillögur á starfsárinu. Efni þeirra varðaði m.a. samstarf náttúrufræðisafna á Norðurlöndum, markvissari umferðarfræðslu í grunnskólum, höfundarétt við sjónvarpssendingar milli Norðurlanda og auknar sjónvarps- og útvarpssendingar milli Norðurlanda. Til nefndarinnar var vísað einni ráðherranefndartillögu og var hún um aukna fullorðinsfræðslu.

3.4.3. Félagsmálanefnd.
    Nafn nefndarinnar breyttist í maí 1991 úr félags- og umhverfismálanefnd í félagsmálanefnd samhliða því sem meðferð umhverfismála fluttist frá henni til þeirrar nefndar sem fram að þeim tíma hafði heitið samgöngumálanefnd, en fékk þá nafnið umhverfismálanefnd. Voru þessar breytingar hluti þeirra tillagna skipulagsnefndar Norðurlandaráðs sem samþykktar voru á 39. þingi ráðsins. Í nefndinni sitja 13 þingmenn. Formaður nefndarinnar til loka 39. þings ráðsins var finnski þingmaðurinn Marjatta Väänänen en þá tók sænski þingmaðurinn Lena Öhrsvik við. Varaformaður allan tímann var norski þingmaðurinn Svein Alsaker.
    Páll Pétursson sat í nefndinni fram að 17. maí 1991 þegar Sigríður Anna Þórðardóttir tók við sæti hans. Þann 5. nóvember sama ár tók síðan Halldór Ásgrímsson við sæti Sigríðar Önnu í nefndinni.
    Nefndin hélt fjóra fundi á árinu 1991 auk eins fundar með umhverfisráðherrum Norðurlanda og eins með atvinnumálaráðherrum.
    Nefndin lauk umfjöllun sinni um umhverfismál með því að leggja til að þing Norðurlandaráðs samþykkti þingmannatillögur sem legið höfðu fyrir nefndinni um m.a. aukið norrænt samstarf um tölfræði á sviði umhverfismála og um mat á þjóðarframleiðslu með tilliti til umhverfisþátta og náttúruauðlinda. Fyrsti flutningsmaður tillögu þessarar var Hjörleifur Guttormsson. Nefndin lagði og til við þingið samþykkt fimm tillagna um skuldbindandi samstarf um umhverfismál á Eystrasaltssvæðinu. Þessar tillögur áttu að stórum hluta rót sína að rekja til ferðar sem fulltrúar nefndarinnar fóru í nóvember 1990 til Eystrasaltsríkjanna og svæðisins kringum Sankti Pétursborg. Á sumarfundi sínum í júní 1991 fór öll nefndin í stutta heimsókn til Kólaskaga þar sem hún kynnti sér þau skaðlegu áhrif á heilsu og umhverfi sem námagröftur þar hefur.
    Nefndin hefur og beitt sér fyrir auknu samstarfi við Eystrasaltsríkin og Austur-Evrópu á sviði félags- og heilbrigðismála og fjallaði á árinu um þingmannatillögu þar sem m.a. var lagt til að Norðurlönd gerðust sameiginlega aðilar að starfsáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, EUROHEALTH, og að þau stuðluðu með beinum aðgerðum að nauðsynlegum fjárfestingum á heilbrigðissviði í Eystrasaltsríkjunum og Austur-Evrópu.
    Á 39. þingi ráðsins voru samþykkt tilmæli um staðla fyrir lágmarksþjónustu við fatlaða, norrænt gigtarár 1992 og sameiginlegar norrænar reglur um brunavarnir.
    Nefndin starfar eftir eigin starfsáætlun um þjónustu við fatlaða og á í því sambandi samstarf við samtök fatlaðra á Norðurlöndum. Á fyrsta ársfjórðungi 1992 stendur til að nefndin eigi fundi með öðrum nefndum ráðsins til að fjalla sameiginlega um þær tillögur varðandi fatlaða sem heyra undir fleiri nefndir en félagsmálanefnd.
    Á 40. þingi ráðsins leggur nefndin m.a. fram tillögu um stofnun fyrir rannsóknir um kynhverfa.
    Nýtt svið, sem færðist til félagsmálanefndar samtímis því sem nafn hennar breyttist, var húsnæðissvið. Ráðherranefnd hefur lagt fram samstarfsáætlun um húsnæðis- og byggingarmál sem er til umfjöllunar í félagsmálanefnd en verður lögð fyrir 40. þing ráðsins í Helsinki. Tvær þingmannatillögur, sem liggja fyrir nefndinni, önnur um norrænt samstarf um stefnu í húsnæðismálum og hin um úttekt á húsnæðismálum og samkeppni á byggingarmarkaðnum á Norðurlöndum, verða lagðar fyrir 40. þing ráðsins.
    Á sumarfundi nefndarinnar var kynning á málefnum varðandi atvinnumarkaðinn á Norðurlöndum og var þá sérstök áhersla lögð á upplýsingar um atvinnuleysi meðal ungs fólks. Á fundi nefndarinnar með atvinnumálaráðherrum Norðurlanda var rætt sérstaklega um atvinnuleysi meðal ungs fólks og vandamál samfara langvarandi atvinnuleysi. Þeirri spurningu var þá beint til ráðherranna hvort aðgerðir gegn atvinnuleysi á Norðurlöndum drægjust ekki saman þegar norræna samstarfsáætlunin um efnahagsmál félli úr gildi 1992. Af hálfu ráðherranna var því svarað til að fjárveitingum til slíkra aðgerða yrði þá fundinn staður á norrænu fjárlögunum 1993.
    Þingmannatillaga um „gott atvinnulíf“, sem hefur verið til umfjöllunar hjá nefndinni, kemur til afgreiðslu á 40. þingi ráðsins. Í tillögunni er m.a. lagt til að réttur til þátttöku í fullorðinsfræðslu o.fl. verði felldur inn í samninginn um norrænan vinnumarkað. Einnig er lagt til að fengnar verði sameiginlegar tölfræðiupplýsingar um atvinnusjúkdóma, veikindaforföll, eftirlaunamál o.fl. í þeim tilgangi að unnt verði að bregðast sameiginlega við þeim vandamálum. Tvær aðrar tillögur á þessu sviði koma fyrir þingið.
    Þingmannatillaga um að styrkja norræna velferðarkerfið, sem nefndin hefur fjallað um á árinu, verður lögð fyrir 40. þing ráðsins. Þar er lagt til að norrænt samstarf um félags- og heilsuverndarmál, atvinnumarkaðsmál og aðbúnað á vinnustöðum verði styrkt í þeim tilgangi að hafa áhrif á þróunina í Evrópu á þessum sviðum. Jafnframt er lagt til í þingmannatillögunni að ráðherranefnd leggi fram samstarfsáætlun um réttindi Norðurlandabúa. Nefndin styður tillögu þessa. Fyrir nefndinni liggur og tillaga um réttindi Norðurlandabúa. Þar er lagt til að ráðherranefndin láti gera lista yfir réttindi Norðurlandabúa, geri könnun á samstarfi yfir landamæri ríkjanna og vinni að því að rutt sé úr vegi hindrunum fyrir slíku samstarfi. Nefndin hefur ekki lokið umfjöllun um þessa tillögu.
    Eitt af mikilvægari málum 40. þings ráðsins verður nýr Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi sem ætlunin er að komi í stað samningsins frá 1981 um sama mál. En endurskoðun hans hefur verið gerð með tilliti til fyrirhugaðra samninga um Evrópskt efnahagssvæði.

3.4.4. Umhverfismálanefnd.
    Nafn nefndarinnar breyttist í maí 1991 úr samgöngumálanefnd í umhverfismálanefnd samhliða því að meðferð umhverfismála fluttist til hennar frá nefnd þeirri sem þá hét félags- og umhverfismálanefnd. Umhverfismálanefnd fjallar eftir sem áður um umferðar-, öryggismál og samgöngu- og fjarskiptamál. Samfara umhverfismálunum fluttust til nefndarinnar landbúnaðar-, fiskveiði- og byggðamál. Fjöldi fulltrúa í nefndinni er 13.
    Nefndin hélt sex fundi á starfsárinu. Formaður fram til 1. mars var sænski þingmaðurinn Elver Jonsson og varaformaður finnski þingmaðurinn Sakari Knuuttila, en þá tók danski þingmaðurinn Dorte Bennedsen við formennsku og Elver Jonsson við varaformennsku.
    Hreggviður Jónsson sat í nefndinni fram í apríl er hann lét af þingmennsku og 17. maí tók Páll Pétursson við sæti hans þar. Kristín Einarsdóttir tók síðan sæti í nefndinni 1. nóvember 1992.
    Á 39. þingi ráðsins voru afgreiddar átta tillögur sem nefndin hafði fjallað um. Þær voru m.a. um bætta samskiptamöguleika heyrnarskertra, norrænar járnbrautarsamgöngur, strangari reglur um varnir gegn mengun frá umferð, samræmda stefnu Norðurlanda í samgöngumálum og samstarf á sviði samgangna við Eystrasaltsríkin. Allar ofangreindar tillögur voru samþykktar.
    Nefndin bauð á árinu ýmsum sérfræðingum og forsvarsmönnum norrænna stofnana til funda sinna og ræddi m.a. við þá um samgöngur yfir Stórabelti, járnbrautarsamgöngur, hreinsun skolps og hafrannsóknastofnunina í Hirtshals.
    Í janúar hitti nefndin fulltrúa Helsinki-nefndarinnar sem fer með sáttmála um málefni Eystrasalts, en umhverfismálanefndin hefur ákveðið að mengunarvarnir þar verði forgangsverkefni á umhverfissviði næsta starfsár. Nefndin hélt einnig fundi með umhverfis- og sjávarútvegsráðherrum Norðurlanda í sameiningu þar sem rædd voru ýmis mál sem skarast á þessum tveimur málasviðum. Umhverfisnefndin hefur lagt áherslu á samvinnu milli þessara tveggja ráðherranefnda varðandi verndun og nýtingu auðlinda hafsins. Á sérstökum fundi með umhverfisráðherrunum var rætt m.a. um mengunarvarnir í Eystrasalti og framkvæmdaáætlun ráðherraráðsins um mengun andrúmslofts. Á fundi með sjávarútvegsráðherrunum var samvinnuáætlun ráðherranna rædd en hana á að leggja fyrir þingið í Helsinki í mars. Samgönguráðherrar Norðurlanda héldu einnig fund með nefndinni og voru rædd ýmis samgöngumál, m.a. um hvernig draga mætti úr mengandi áhrifum umferðar.
    Af þingmannatillögum, sem nefndin hefur fjallað um á árinu, koma m.a. til afgreiðslu á 40. þingi ráðsins tillögur um aukna áherslu á svæðisbundið samstarf, um fleiri fríhafnarsvæði á Norðurlöndum og um framtíð Eystrasaltsins. Einnig kemur til afgreiðslu ráðherranefndartillaga um endurskoðaða samstarfsáætlun um sjávarútveg.

3.4.5. Efnahagsmálanefnd.
    Samfara þeim breytingum, sem urðu í maí á skiptingu málefna á nefndir ráðsins, fluttust landbúnaðar- og skógræktarmál, sjávarútvegsmál, byggðamál og húsnæðismál frá efnahagsmálanefnd og fulltrúum fækkaði úr 21 í 13. Formaður nefndarinnar fram að lokum 39. þings ráðsins var norski þingmaðurinn Anders Talleraas og varaformaður sænski þingmaðurinn Hans Gustavsson. Þá tók við formennsku finnski þingmaðurinn Gustav Björkstrand og við varaformennsku norski þingmaðurinn Thor-Erik Gulbrandsen. Þann 25. apríl tók finnski þingmaðurinn Anneli Jäätteenmäki við formennsku. Fulltrúar Íslands í nefndinni voru Þorsteinn Pálsson og Hjörleifur Guttormsson. Fulltrúum Íslands fækkaði í einn með þeim skipulagsbreytingum sem gengu í gildi 1. maí og síðan þá hefur Hjörleifur Guttormsson verið fulltrúi landsins þar.
    Nefndin hefur nú m.a. það verkefni að fjalla um og samræma sjónarmið ráðsins um Evrópumálin. Umræður um framtíð norræns samstarfs í ljósi þróunarinnar í Evrópu hafa því verið umfangsmiklar á starfsárinu.
    Önnur mál, sem hafa verið ofarlega á baugi, eru samstarfið við Eystrasaltsríkin, orkumál og efnahagssamstarf Norðurlanda.
    Á fundi nefndarinnar í Vestmannaeyjum í júní 1992 var settur á fót fimm manna vinnuhópur, skipaður einum fulltrúa frá hverju landi og jafnmörgum flokkahópum, til að undirbúa tillögu um eflingu norræns samstarfs eftir 1992. Að loknu umfangsmiklu undirbúningsstarfi lögðu fjórir úr hópnum fram þingmannatillögu um þetta efni. Tillaga þessi lá ásamt nokkrum öðrum tillögum til grundvallar umræðunum á 4. aukaþingi ráðsins í Mariehamn um framtíð norræns samstarfs.
    Í janúar 1992 lagði ráðherranefndin fram tillögu um Norðurlönd eftir 1992 og er hún nú til umfjöllunar í efnahagsmálanefnd og öðrum nefndum ráðsins. Skoðanir eru skiptar í efnahagsnefnd um Evrópumálin, áhrif þeirra á norrænt samstarf og viðbrögð Norðurlanda. Í umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram sú skoðun að nota ætti hið sameiginlega norræna gildismat og hina löngu samstarfsreynslu til að styrkja stöðu Norðurlanda í breyttri Evrópu. Eins ætti að styrkja efnahagslegt samstarf landanna því að sterk efnahagsleg staða sé forsenda styrkrar stöðu gagnvart ríkjum meginlandsins. Taka beri meira tillit til umhverfismála, félagsmála og neytendamála við þróun efnahagslífsins en hingað til. Rannsóknir og efling innra skipulags norrænna stofnana, sem starfa á sviði efnahagsmála, séu mikilvægar til að ná settum markmiðum.
    Nefndin hefur talið mikilvægt að Norðurlandaráð tæki utanríkismál, þar á meðal markaðsmál, á dagskrá. Því hefur hún lagt til að á þingum ráðsins verði hér eftir sérstakar utanríkismálaumræður sem færu fram á grundvelli skýrslu ráðherranefndar um þau mál.
    Efnahagsnefnd hélt á starfsárinu fund með utanríkisviðskiptaráðherrum Norðurlanda og ræddi þá um áhrif samnings um Evrópskt efnahagssvæði á Norðurlönd.
    Hjörleifur Guttormsson var annar af tveimur fulltrúum nefndarinnar sem heimsóttu Evrópuþingið og framkvæmdanefnd Evrópubandalagsins á starfsárinu sem fulltrúi nefndarinnar.
    Nefndin ræddi á fundi með fjármálaráðherrum Norðurlanda efnahagsástand á Norðurlöndum og framtíð efnahagssamstarfs landanna. Fjármálaráðherrarnir skýrðu frá því að efnahagssamstarfið mundi í framtíðinni ekki byggjast á samstarfsáætlunum heldur verða óformlegt og sveigjanlegt. Áhersla yrði lögð á vandamál sem t.d. varða uppbyggingu atvinnumarkaðsins, rannsóknir og landbúnað.
    Nefndin hefur stutt hækkun stofnfjár Norræna fjárfestingarbankans.
    Nefndin ræddi á fundi með orkumálaráðherrum landanna í janúar 1991 stefnu í orkumálum. Þar komu bæði til umræðu notkun jarðgass og fjármálahlið orkusamstarfsins.
    Nefndin tók þátt í alþjóðaráðstefnu forsætisnefndar um orkumál Evrópu í október 1991, sjá einnig lið 3.2.4.
    Fram að 39. þingi ráðsins hafði nefndin til meðferðar nokkrar þingmannatillögur um samstarf við Eystrasaltsríkin. Nefndin studdi tillögur um aukið samstarf við þau á sviði landbúnaðar-, menningar- og efnahagsmála. Hún taldi og rétt að samþykkt væri starfsáætlun um umhverfismál fyrir Eystrasaltsríkin og að kannað yrði hvernig Norðurlönd gætu tekið þátt í að styðja fjárfestingar þar.
    Nefndin studdi tillögu sem lá fyrir um að Norðurlandaríkin beittu sér fyrir stofnun fjárfestingarbanka fyrir Eystrasaltsríkin (BIB). Á áðurnefndum fundi nefndarinnar með fjármálaráðherrunum kom fram að ráðherrarnir hefðu að svo stöddu fallið frá áformum um stofnun slíks banka, en frekari kannanir færu fram. Fyrir nefndinni liggur enn þá þingmannatillaga um fjárfestingarbankann og kemur hún til afgreiðslu á 40. þingi ráðsins.
    Samþykkt var á 39. þingi ráðsins með naumum meiri hluta þingmannatillaga um samræmda norræna löggjöf um norrænt samstarf stéttarfélaga hjá fyrirtækjum sem hafa starfsemi í fleiri en einu Norðurlandaríki. Um tillögu þessa hafa staðið flokkspólitískar deilur og á fundi nefndarinnar í janúar 1992 var samþykkt með naumum meiri hluta að leggja til við 40. þing ráðsins að ekki verði fleira aðhafst á grundvelli samþykktar síðasta þings í þessu efni og tillagan afskrifuð.
    Nefndin hefur haldið fimm fundi á starfsárinu.

3.4.6. Fjárlaganefnd.
    Fjárlaganefnd hélt tíu fundi á starfsárinu auk fundar með fulltrúum hinna fastanefnda ráðsins og tveggja funda með fulltrúum samstarfsráðherra Norðurlanda. Sænsku þingmennirnir Viggo Komstedt og Per Olof Håkansson voru formaður og varaformaður fram að 1. mars 1991, en þá tók finnski þingmaðurinn Lauri Metsämäki við formennsku og norski þingmaðurinn Pål Atle Skjervengen við varaformennsku. Ólafur G. Einarsson sat í nefndinni til 17. maí 1991 en þá tók Árni M. Mathiesen sæti hans þar. Í nefndinni sitja 13 fulltrúar.
    Á starfsárinu hefur nefndin haft til meðferðar ársskýrslu ráðherranefndar (C1/1991) og áætlun ráðherranefndar um störfin næstu ár (C2/1991).
    Í nefndaráliti sínu um C2/1991 lagði nefndin m.a. áherslu á mikilvægi samstarfs við Eystrasaltsríkin, umhverfismálasamstarf, að starfsáætlun ráðherranefndar næði til lengri tíma en hingað til og að ljóst væri af starfsáætluninni hvaða verkefni hefðu forgang.
    Á fyrra fundi nefndarinnar með fulltrúum samstarfsráðherra Norðurlanda 27. febrúar var m.a. rætt um meðferð norrænu fjárlagatillagnanna, norrænu stofnanirnar, samnorræn verkefni og skráningu þeirra. Á fundi nefndarinnar 27. september með fulltrúa samstarfsráðherranna var rætt um fjárlagatillögurnar, meðferð starfsáætlunar ráðherranefndarinnar, nýmæli í norrænni fjárlagagerð og úttekt á árangri samstarfsins.
    Nefndin bauð sérfræðingi til fundar í september til umræðu um norrænt samstarf eftir 1992. Þann 12. nóvember hélt nefndin fund með fulltrúa í nefnd þeirri hjá Evrópuráðinu sem fer með mannréttindamál og lagaleg mál. Rætt var um störf nefndarinnar og meðferð fjárlaga Evrópuráðsins.
    Auk norrænu fjárlaganna heyrir undir nefndina eftirlit með starfsemi ráðherranefndarinnar. Hún velur sér árlega afmörkuð verkefni og lætur gera sérstaka könnun á þeim. Árið 1991 gerði nefndin sérstaka úttekt á verkefni ráðherranefndarinnar sem nefnt hefur verið „Brjótum múrana“ og á ábyrgð ráðherranefndar sem vinnuveitanda gagnvart starfsmönnum aðalskrifstofu sinnar í Kaupmannahöfn og starfsmönnum annarra norrænna stofnana. Skýrslur nefndarinnar um úttektirnar verða lagðar fyrir 40. þing ráðsins.
    Nefndin fjallaði á árinu sérstaklega um forgangsröðun norrænna samstarfsverkefna. Álit nefndarinnar var að norrænt samstarf yrði mikilvægt í framtíðinni en augljóst væri að þróunin í Evrópu hefði í för með sér breytingar á samstarfinu og mundi mikilvægi sumra sviða aukast og annarra minnka. Nefndin taldi að ríkasta áherslu ætti að leggja á þau svið þar sem Norðurlönd gætu sameiginlega haft áhrif á þróunina í Evrópu og þar sem samstarf þeirra styrkir þau í alþjóðlegri samkeppni.

4. Þing Norðurlandaráðs.
4.1. 39. þing Norðurlandaráðs.
4.1.1. Almennu umræðurnar.
    Norðurlandaráð hélt 39. þing sitt í Kaupmannahöfn dagana 26. febrúar til 1. mars. Það hófst að venju með almennum umræðum sem stóðu í átta og hálfa klukkustund. Að þeim loknum tóku við umræður og atkvæðagreiðslur um málefni fastanefndanna. Fráfarandi forseti, Páll Pétursson, setti þingið. Því næst var kosið í forsætisnefnd og Anker Jørgensen kosinn forseti næsta starfsár. Hann þakkaði í upphafi þann trúnað sem nýkjörnum fulltrúum í forsætisnefnd hefði verið sýndur, þakkaði Páli Péturssyni fyrir forsetastörf á árinu sem vissulega hefðu oft verið erfið en Páll hefði sinnt þeim af lipurð og samstarfsvilja, og bauð síðan þingfulltrúa, ráðherra, heiðursgesti, starfsmenn og fréttamenn velkomna. Hann tók fram að það væri sérstök ánægju að hafa í fyrsta sinn sem heiðursgesti fulltrúa frá Eystrasaltsríkjunum þremur, en þeir voru forsetar Eistlands og Lettlands, Arnold Rüüttel og Anatolij Gorbunovs, og varaforseti Litáens, Bornisolvas Kuzmikas. Anker Jørgensen kvað Norðurlandaráð styðja af alhug þá sem ynnu að því að efla lýðræði og þingræði í Eystrasaltsríkjunum og annars staðar og fordæma alla valdbeitingu og hótanir. Hann kvað þróunina á alþjóðavettvangi hafa verið hraða undanfarið og sá hraði hefði endurspeglast í störfum ráðsins sem hefði sýnt að þegar þörf væri á og pólitískur vilji fyrir hendi gæti það tekið skjótar ákvarðanir. Síðan tóku við kosningar og að þeim loknum tók til máls Thor Pedersen, formaður ráðherranefndar Norðurlanda, samstarfsráðherranna, og hafði framsögu um ársskýrslu nefndarinnar (C1/1991), en hún liggur ásamt áætlun ráðherranefndarinnar næstu ár (C2/1991) og ársskýrslu forsætisnefndar til grundvallar almennu umræðunum.
    Að lokinni ræðu Thor Pedersens tók til máls Páll Pétursson sem talaði fyrir hönd forsætisnefndar. Hann hóf ræðuna með því að minna á að alþjóðamál hefðu verið ofar á baugi í Norðurlandaráði síðasta ár en nokkru sinni, enda væri það eðlilegt í ljósi þeirra hröðu breytinga sem nú ættu sér stað í Evrópu. Þannig hefði hluti þeirra breytinga, sem skipulagsnefnd Norðurlandaráðs undir formennsku Bjarne Mørk Eidem hefði lagt til, þegar komist til framkvæmda. Hann kvað það brýnt að halda áfram að gera starfsreglur ráðsins þannig að starfið yrði skilvirkara og pólitískur vilji þess næði betur fram að ganga. Hann harmaði að ráðherranefndin hefði ekki viljað taka þátt í starfi skipulagsnefndar og að hún hefði svo neikvæða afstöðu sem raun bæri vitni til tillagna hennar, t.d. varðandi skiptingu norrænu fjárlaganna. Hann kvað skiljanlegt að ráðherranefndin vildi ákveða upphæð fjárlaganna, en eiga erfiðara með að skilja af hverju hún vildi ekki láta ráðinu eftir skiptingu fjárlaganna innan setts ramma.
    Hann kvað Evrópuþróunina hafa sett mark sitt á norrænt samstarf og hugsanagang á árinu. Óljóst væri hver tengsl Norðurlandaþjóðir mundu hafa við aðrar Evrópuþjóðir en þeim mun ljósara að norræns samstarfs væri og yrði þörf. Tími væri kominn til að bæta inn í Helsinki-samninginn ákvæðum sem kvæðu skýrt á um að alþjóðamál væru eitt samstarfssviða ráðsins. Hann kvað það miður að ríkisstjórnir landanna hefðu efasemdir um það en vonaðist til að þær endurskoðuðu afstöðu sína.
    Hann kvað þróunina í Austur-Evrópu hafa verið í brennidepli og þá sérstaklega þróunina í Eystrasaltsríkjunum. Engin vafi væri á að þjóðir Eystrasaltsríkjanna vildu sjálfstæði og því ættu norrænu ríkin að styðja þær eftir allrabestu getu. Norðurlandaráð hefði hafið samstarf við Eystrasaltsríkin og aflað upplýsinga til að geta lagt grunn að styrku samstarfi við þau. Hann kvað það vera heiður fyrir ráðið að taka á móti þeim virtu gestum frá Eystrasaltsríkjunum sem sætu þingið.
     Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra kvað Norðurlandaráð standa á mikilvægum krossgötum og það væri skiljanlegt þar sem eins væri ástatt um öll ríki Evrópu. Þó að utanríkismál hefðu ekki formlega heyrt undir Norðurlandaráð hefðu þau verið þar til umræðu árum saman og því mundi hann skýra afstöðu Íslands til þeirra mála sem nú væru að gjörbreyta Evrópu. Hann kvað Íslendinga leggja á það áherslu að samningar næðust um Evrópskt efnahagssvæði. Hve vel samstarfsformið hentaði færi að vísu eftir því hvort fríverslunarsamningar næðust um fisk og fiskafurðir. Hann kvað Íslendinga þegar vera farna að undirbúa sig, m.a. með því að lögleiða reglur sem veittu mun meira frelsi en áður hefði verið um fjármagnsflutninga milli Íslands og annarra landa. Þó yrði þess gætt að sjávarútvegur og orkulindir yrðu áfram á hendi Íslendinga. Hann kvað það álit Íslendinga að full aðild að Evrópubandalaginu hentaði þeim ekki og fyrir því lægju margar ástæður.
    Hann fjallaði um atburðina í Austur-Evrópu, þar á meðal sjálfstæðisbaráttu þjóða Eystrasaltsríkjanna og tengsl þeirra við Ísland. Hann kvaðst vonast til að Norðurlönd gætu starfað áfram saman í Norðurlandaráði þó að þau veldu mismunandi leiðir varðandi tengsl við Evrópubandalagið. Hann kvað þó ljóst að Norðurlandaráð þyrfti að breytast. Einnig þyrftu þjóðirnar, sem byggja löndin í Norðvestur-Atlantshafi, að standa saman enda væri aðstaða þeirra um margt lík.
    Að lokinni ræðu forsætisráðherra gerði Sighvatur Björgvinsson þá athugasemd að þó aðild Íslands að Evrópubandalaginu væri ekki á dagskrá væru þau sjónarmið til á Íslandi, t.d. í sínum flokki, að kanna bæri kosti og galla aðildar og ekki bæri að útiloka að til aðildar gæti komið síðar. Þá gerði Hjörleifur Guttormsson þá athugasemd að það hafi vakið furðu sína að forsætisráðherra hefði ekki gert ákveðnari fyrirvara um þann samning um Evrópskt efnahagssvæði sem gæti orðið vegna þeirra ákveðnu fyrirvara sem Evrópubandalagið hefði gert um sjávarafurðir.
     Hjörleifur Guttormsson benti í ræðu sinni á að eftir þá jákvæðu þróun, sem átt hefði sér stað fyrri hluta ársins 1990 á sviði alþjóðastjórnmála, hefði lýðræðisþróunin í Sovétríkjunum staðnað og vopnavaldi verið beitt í Eystrasaltsríkjunum auk þess sem stríðsástand ríkti við Persaflóa. Hann kvað ábyrgð Norðurlanda þunga og kvað menn biðja um frumkvæði norrænu ríkisstjórnanna þegar á þinginu. Hann lýsti ánægju með tengsl Norðurlandaráðs við Eystrasaltsríkin og að heiðursgestir þaðan sætu þingið. Hann fór hörðum orðum um árásina á Írak 16. janúar 1991 og taldi að eðlilegra hefði verið að beita efnahagsþvingunum og pólitískum aðgerðum þó að sjálf árás Íraks á Kúvæt hefði verið ófyrirgefanleg.
    Hann kvað stöðu Norðurlanda gagnvart þróuninni í Vestur-Evrópu enn mjög óvissa. Samningaviðræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið hefðu ekki leitt til niðurstöðu og væri ástandið nú enn óvissara en fyrr þar sem Svíar hefðu ákveðið að sækja um aðild að EB. Hann kvað samning um Evrópskt efnahagssvæði aldrei hafa verið girnilegan kost fyrir Ísland og bein aðild að Evrópubandalaginu jafngilti efnahagslegu sjálfsmorði fyrir Ísland. Þess í stað ættu Íslendingar að ganga til tvíhliða viðræðna. Ísland ætti ekki að gerast aðili að efnahagsbandalögum heldur eiga góð samskipti við ríki Evrópu, Ameríku og annarra heimshluta.
     Jón Kristjánsson kvað Norðurlönd standa frammi fyrir vali í samskiptum við aðrar þjóðir Evrópu og því hefðu utanríkismál verið meira til umræðu í Norðurlandaráði en fyrr og nú væru uppi tillögur um stofnun ráðherranefndar utanríkisráðherra landanna. Sameiginleg afstaða landanna til þróunarinnar í Evrópu væri ekki auðveld því að taka þyrfti tillit til ólíkrar aðstöðu ríkjanna. Í þessu efni ætti Norðurlandaráð að vísa veginn. Í samstarfi þess hefðu ríkin haldið fullu sjálfstæði og því mætti ekki breyta. Jafnframt því sem Norðurlönd þyrftu að hafa vakandi auga með þróuninni þyrfti að standa vörð um grunn samstarfsins, samstarfið á sviði menningar og menntunar, þó að ný verkefni bætist við.
    Hann minnti á að Íslendingar eru evrópsk þjóð og menning þeirra stendur á evrópskum grunni þótt þeir byggi meira á auðlindum sjávar en aðrir Evrópubúar og þurfi að hafa full yfirráð yfir þeim og til þessa þurfi að taka tillit í samningum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Hann minnti og á mikilvægi norræns samstarfs um umhverfismál. Það þyrfti að muna að jafnvægi í náttúrunni væri mikilvægt og náttúrufriðunarsjónarmið mættu ekki leiða til röskunar á samspili mannsins við náttúruna. Hann áréttaði mikilvægi þess að norræna samstarfsáætlunin um umhverfismál tæki til rannsókna á hafinu og andrúmsloftinu á Norður-Atlantshafssvæðinu. Eins væri mikilvægt að afvopnun í Evrópu leiddi ekki til aukins magns vopna í Norður-Atlantshafi.
     Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra minnti í upphafi ræðu sinnar á það óvissuástand sem ríkti vegna Persaflóastríðsins og þróunarinnar í Austur-Evrópu og kvað engan eiga að vera í vafa um að Eystrasaltsríkin ættu stuðning Norðurlandabúa.
    Hann rakti stuttlega sögu vestnorræns samstarfs, stofnun Vestnorræna þingmannaráðsins, vestnorrænu nefndarinnar og vestnorræna sjóðsins. Hann skýrði frá því að eftir ráðstefnu, sem norræna nefndin um rannsóknir á hagkvæmni samgangna (NKTF) hefði haldið í Nuuk 1988, hefðu samgönguráðherrar vestnorrænu ríkjanna ákveðið að styrkja samstarf sitt um samgöngur og ferðamál, m.a. með því að skiptast á sérþekkingu og upplýsingum. Brýnust væri þörfin á sviði flugsamgangna. Ákveðið hefði verið af samgönguráðherrum Danmerkur, Færeyja, Grænlands og Íslands að stofna embættismannanefnd skipaða átta mönnum til að vinna að bættum samgöngum á Vestur-Norðurlöndum. Steingrímur kvaðst þess fullviss að þetta samstarf styrkti ekki bara samgöngur á Vestur-Norðurlöndum heldur einnig við önnur svæði Norðurlanda.

4.1.2. Samþykktir þingsins.
    Samþykktum þingsins verður útbýtt með þessari skýrslu.

4.2. Fjórða aukaþing Norðurlandaráðs.
4.2.1. Almennar umræður þingsins.

    Norðurlandaráð hélt 4. aukaþing sitt 13. nóvember 1991 í Mariehamn á Álandseyjum. Þingið var haldið til að ræða um framtíð norræns samstarfs og stóð í átta klukkustundir. Eins og fram hefur komið áður í skýrslu þessari lágu til grundvallar umræðum þingsins samþykkt forsætisnefndar og þingmannatillögur þær sem lagðar höfðu verið fram um framtíð norræns samstarfs og þróunina í Evrópu. Forsætisráðherrar Norðurlanda héldu fund með forsætisnefnd ráðsins daginn fyrir þingið og lögðu þá fram yfirlýsingu um framtíð norræns samstarfs og var efni hennar einnig grundvöllur umræðnanna. Þar upplýstu forsætisráðherrarnir og að þeir mundu skipa nefnd náinna samstarfsmanna sinna sem legðu fram tillögur um framtíð norræns samstarfs. Þar yrði m.a. fjallað um hvernig norrænt samstarf gæti orðið þegar fleiri ríki hefðu gengið í Evrópubandalagið.
    Á þinginu töldu margir að taka yrði tillit til breyttra aðstæðna í Evrópu við uppbyggingu og innihald norræns samstarfs. Því þyrfti að gera róttækar breytingar á grunni samstarfsins með það í huga að gera Norðurlandaráð hæfara til að takast á við ný vandamál og afgreiða mál á mun skilvirkari hátt en fyrr. Aðrir töldu að með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og inngöngu einstakra Norðurlanda í EB á næstu árum væri verið að kippa grundvellinum undan norrænu samstarfi. Ýmsir þingfulltrúar lögðu áherslu á nauðsyn þess að ráðið gæti tekist á við alþjóðleg mál, þar á meðal utanríkis- og varnarmál. Einnig töldu ýmsir að samræma ætti störf skrifstofu forsætisnefndar í Stokkhólmi og skrifstofu ráðherranefndar í Kaupmannahöfn.
    Tillögur ráðherranefndar um norræn fjárlög 1992 lágu fyrir þinginu og verða fjárlögin fyrir 1992 627,3 milljónir sænskra króna. Formaður fjárlaganefndar hélt því fram í ræðu sinni að fjárlögin hefðu í raun lækkað frá árinu áður en ekki staðið í stað eins og komið hefði fram af hálfu ráðherranefndar.
    Fyrir þinginu lágu einnig sex þingmannatillögur, fjórar þeirra voru felldar en hinar tvær leiddu til samþykktar tvennra tilmæla. Auk þess voru fjárlagatillögurnar samþykktar. Samþykktir þingsins fylgja með þessari skýrslu.
    Íslensku ráðherrarnir Ólafur G. Einarsson og Eiður Guðnason og þingmennirnir Geir H. Haarde, Hjörleifur Guttormsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Halldór Ásgrímsson og Kristín Einarsdóttir tóku þátt í almennu umræðunum.
     Geir H. Haarde kvað óvissu ríkja um framtíð samstarfsins sem um árabil hefði skilað góðum árangri, ekki síst vegna þess að ljóst væri að Norðurlönd mundu velja mismunandi leiðir varðandi tengsl sín við Evrópubandalagið. Hann kvað ríkin hafa náð það góðum árangri í samstarfi sínu innbyrðis að nú þyrfti í ríkara mæli að beina sjónum út á við. Samræmingarstörf á sviði verslunar og atvinnulífs færu í framtíðinni vonandi fram innan Evrópska efnahagssvæðisins og þar yrði ekki þörf á samnorrænum lausnum, heldur aðlögun og samræmingu. Þetta geta orðið krefjandi verkefni fyrir Norðurlandaráð.
    Stöðuna kvað hann þannig að í fyrsta lagi þyrftum við að standa vörð um hið hefðbundna samstarf sem byggði á traustum grunni þó að ætíð væri nauðsynleg endurskoðun vissra þátta. Í öðru lagi þyrftu þau ríki, sem yrðu aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, að leysa þau vandamál, sem kæmu upp þar, á þeim vettvangi því að það yrði ekki gert á norrænum vettvangi eingöngu. Í þriðja lagi hefði þetta í för með sér að Norðurlönd þyrftu sameiginlega að beina kröftum sínum meira út á við en gert hefði verið, ekki bara í evrópsku samstarfi heldur einnig annars staðar á alþjóðlegum vettvangi, þar á meðal gagnvart Eystrasaltsríkjunum. Utanríkismál þyrftu því mun nánari umræðu við í Norðurlandaráði og innan ráðherranefndar Norðurlanda. Það þyrfti að stofna ráðherranefnd utanríkisráðherra landanna. Utanríkisráðherrar eða forsætisráðherrar eiga að bera meiri ábyrgð á norrænu samstarfi. Um þau svið, þar sem leiðir landanna munu skilja, kvað hann ekki síður þörf á samráði og samræmingu.
    Norrænu þjóðirnar hafa haft mikið gagn af norrænu samstarfi, en það er skylda okkar að bæta það og gera störfin skilvirkari. Eðlilegt er að Norðurlandaráð hafi ákvörðunarvald um skiptingu norrænu fjárlaganna innan þess ramma sem ráðherranefndin setti. Hins vegar kvaðst hann ekki styðja þær hugmyndir að ráðherranefndin gæti tekið bindandi meirihlutaákvarðanir. Aðalatriðið kvað hann vera að þeir sem kostuðu samstarfið, borgarar landanna, gætu treyst að það fleytti þeim áleiðis í því gjörbreytta samfélagi þjóðanna sem fram undan er.
     Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra minnti á að í þau átta ár, sem hann hefði setið í Norðurlandaráði, hefðu þrjár umfangsmiklar skýrslur verið gerðar um breytingar á samstarfinu.
    Aðalmarkmið nefndastarfanna hefði verið að koma á flokkspólitísku jafnvægi og styrkja flokkastarfið á kostnað landsdeildanna. Fulltrúar í Norðurlandaráði væru kosnir hver af sínu þjóðþingi og í samræmi við styrkleikahlutföll flokkanna þar. Þetta væri sá lýðræðisgrundvöllur sem samstarfið byggði á og þannig teldi hann að það ætti að vera.
    Hann minnti og á að innan Evrópubandalagsins og hins fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæðis væru áhrif þjóðþinganna lítil. Skilvirkni og hraði væru keypt því verði að lýðræðið væri takmarkaðra en við ættum að venjast. Norrænt samstarf byggði hins vegar á lýðræði og þingræði og því væri það seinvirkara en við óskuðum. Þingfulltrúar í Norðurlandaráði ættu að koma þar sjónarmiðum á framfæri við fulltrúa ríkisstjórnanna um stefnu í Evrópumálunum. Ef endurskoðun Helsinki-sáttmálans leiddi til að heilu samstarfssviðin féllu út væri það skaði. Gera þyrfti nákvæma könnun á því hvort fyrirhugaðir samningar um Evrópskt efnahagssvæði hindruðu norrænt samstarf á einhverjum sviðum. Að því loknu væri hægt að mynda sér skoðun um nýtt form og innihald starfsins. Hann kvaðst efins um að til bóta væri að innleiða meirihlutaákvaðanir hjá ráðherranefndinni en vildi þó ekki útiloka það.
     Hjörleifur Guttormsson kvað þingið standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort þau spor, sem ríkisstjórnir landanna væru að stíga í Evrópumálunum, leiddu til þess að Norðurlandaráð ætti sér enga framtíð. Fyrirhugaðir samningar um Evrópskt efnahagssvæði hefðu það í för með sér að allar meiri háttar ákvarðanir yrðu teknar í Brussel. Fara þyrfti í gegnum alla norræna samninga til að kanna hvort evrópskum þegnum væri þar mismunað. Það bryti í bága við fyrirhugaða EES-samninga að hluti aðildarríkjanna stæði saman um sérhagsmuni. Markmið Maastricht-samninganna væri að gera Evrópubandalagið að pólitísku stórveldi. Þróunin innan Evrópubandalagsins mun hafa víðtæk áhrif á forsendur samstarfs norrænu ríkjanna, ekki síst þar sem ljóst er að þau munu velja mismunandi leiðir. Oft heyrist að best væri að öll norrænu ríkin gengju í bandalagið því að þá mundi svæðisbundið samstarf þeirra blómstra. Hann kvað svo ekki vera og benti á að samstarf Benelúx-landanna væri nú hverfandi. Hann kvað menn þó ekki mega missa vonina um norrænt samstarf sem hefði sannað að unnt væri að starfa vel saman án yfirþjóðlegs valds. Nú væri nauðsyn á að styrkja það sem við hefðum á grundvelli þess sem væri pólitískt mögulegt. Þingmannatillögu þá um eflingu norræns samstarfs, sem liggur fyrir þinginu frá vinnuhópi efnahagsmálanefndar, þar sem hann er einn af flutningsmönnum, kvað hann vera málamiðlunartillögu sem efnahagsmálanefnd leggi til að ráðherranefndin byggi á við gerð ráðherranefndartillögu um Norðurlönd eftir 1992. Þar er lagt til að efnahagssamstarfið verði aukið en einnig að áhersla verði lögð á samstarf á sviði menningar, rannsókna og umhverfismála. Líta bæri á fjárframlög í norrænu fjárlögunum sem fjárfestingu í framtíðarvelferð íbúa Norðurlanda.
     Eiður Guðnason, samstarfsráðherra Norðurlanda, lýsti ánægju með þróunina í Eystrasaltsríkjunum og minnti á að Ísland hefði verið í fararbroddi þeirra ríkja sem viðurkennt hefðu sjálfstæði þeirra. Hann minnti á þá ákvörðun ráðherranefndar að stofna upplýsingaskrifstofur í ríkjunum þremur. Einnig ítrekaði hann nauðsyn þess að starfa með Eystrasaltsríkjunum að umhverfismálum. Hann kvað þó mikilvægt að vestnorræna samstarfið félli ekki í skuggann. Ríkin í útnorðri væru fámenn og þjóðir þeirra útverðir í norðri og vestri. Tillit þyrfti að taka til þeirra erfiðleika sem fjarlægð þeirra hefði í för með sér, ella væri hætta á einangrun þeirra og það skaðaði norrænt samstarf bæði inn og út á við. Norrænu húsin á Íslandi og í Færeyjum ásamt norrænu stofnuninni á Grænlandi væru dæmi um mikilvæg spor sem stigin hefðu verið. Eins væri vert að nefna vestnorræna sjóðinn, vestnorrænu nefndina o.fl. Hann minnti og á hugmyndir um að stofna sérstaka vestnorræna skrifstofa í einu landanna og upplýsingaskrifstofur í hinum til að breikka og dýpka samstarfið.
    Hann kvað nauðsynlegt að leggja ríkari áherslu á samstarf um umhverfismál og sjávarútvegsmál, ekki síst í Norður-Atlantshafi þar sem ríkustu fiskimið jarðar væru.
     Rannveig Guðmundsdóttir kvað Norðurlandabúa snúa sér til Evrópu og leita svara um það hverja stefnu norrænt samstarf ætti að taka. Svarið væri það sama og svar við því hvort norrænt samstarf sé til gagns fyrir ríkin bæði sameiginlega og hvert fyrir sig. Því lengra í vestur sem haldið er þeim mun veikari verði böndin við Evrópu, en það sama gilti ekki um hin norrænu bönd því að þau byggist á sameiginlegum menningararfi. Sterkt norrænt samstarf geti haft mikil áhrif í Evrópu. Norðurlönd hefðu oft verið fyrirmynd annarra ríkja og nú væri talað um Evrópu þegnanna, en það væri einmitt á Norðurlöndum sem áherslan hefði verið ríkust á félags- og neytendamál, menningu og umhverfismál. Grasrótarsamstarf það, sem á sér stað á Norðurlöndum milli fjölmargra norrænna hópa, styrkti og grunn samstarfsins.
    Rannveig kvað vert að spyrja hvers vegna umræðan um breytt hlutverk Norðurlandaráðs komi nú fremur en þegar Danmörk gekk í Evrópubandalagið. Þá voru ekki uppi efasemdir um réttmæti samstarfsins og sama ætti að gilda nú þegar sterkt norrænt samstarf gæti haft mikil áhrif á Evrópumálin. Meirihlutaákvarðanir hjá ráðherranefnd Norðurlanda kvað hún vera óæskilegar. Samfara nánara samstarfi við Eystrasaltsríkin þyrfti að efla vestnorræna samstarfið.
     Sigríður Anna Þórðardóttir kvað gagnrýnendur norræns samstarfs gjarnan segja að það sýndi þreytumerki og fulltrúar í Norðurlandaráði og embættismenn þess þeystust milli landanna til að ræða eigin hlutverk og fullvissa hver annan um mikilvægi sitt. Hún kvað gagnrýnendurna kannski hafa eitthvað til síns máls, en reynslan af samstarfinu sl. áratug væri góð og það hefði haft í för með sér margvíslegan árangur, svo sem sameiginlegan vinnumarkað og aukna ferðamöguleika, og styrkt mannleg tengsl á ýmsum sviðum. Sigríður lagði sérstaka áherslu á menningarsamstarfið sem hefði lengi verið með blóma og benti á norrænar stofnanir víðs vegar um Norðurlönd sem dæmi. Hún kvað nauðsynlegt að finna lausn á höfundaréttarvandamálinu sem stæði í vegi fyrir æskilegri dreifingu sjónvarpsefnis um Norðurlönd. Hún minnti einnig á sameiginlega menningararfleifð Norðurlandaþjóðanna og taldi að leggja bæri áherslu á að norrænu þjóðirnar stæðu saman sem sterk heild í gjörbreyttu samfélagi Evrópuþjóða.
    Hún taldi að vinna bæri markvisst að sameiginlegum hagsmunum Norðurlandanna í Evrópu og setja þar skýr og háleit markmið. Norrænu þjóðirnar yrðu að finna að þær hefðu hag af slíku samstarfi annars hefði það engan tilgang.
     Halldór Ásgrímsson minnti á að þjóðir Norðurlanda væru smáar og samstarf þeirra væri mikilvægt, ekki bara vegna sameiginlegs menningararfs heldur ekki síður til að styrkja þær út á við, á alþjóðavettvangi. Þörf væri þó á að breyta formi samstarfsins. Hann kvað rétt að líta á Norðurlönd sem eitt svæði og sagði þróun efnahagsmála vera háða því hver þróunin yrði innan þess svæðis. Í umræðunni kvað hann oft gleymast að þörf væri á að styrkja samstarfið til norðurs og vesturs. Hann kvað líklega þörf á sérstakri norrænni Evrópustofnun til að sinna rannsóknum og menntunarmálum. Eins þyrfti að fela einni núverandi nefnda eða nýrri nefnd meðferð Evrópumála og málefna Evrópsks efnahagssvæðis. Styrkja þyrfti samstarfið við heimskautssvæðið og koma á fót stofnun fyrir það samstarf. Stór svæði á Norðurlöndum væru innan þessa svæðis. Styrkt samstarf á þessu svæði, ekki síst með tengsl við Kanada, Bandaríkin og Rússland í huga, gæti gefið mikla möguleika.
    Halldór sagði öryggi Norðurlanda vera sameiginlegt hagsmunamál og nú væri svo komið að ekki yrði komist hjá því að fjalla um það í Norðurlandaráði. Sú umræða krefðist breytinga á formi samstarfsins. Einnig þyrfti að auka möguleika á rannsóknum og samræmingu, t.d. með stofnun norrænnar öryggismálastofnunar.
    Hann kvað kominn tíma til að styrkja norrænt samstarf, ekki með nýjum könnunum og skýrslugerðum, heldur með pólitískum ákvörðunum sem byggðust á þeim nýja raunveruleika sem blasti við m.a. í Norður-Atlantshafsbandalaginu, Evrópubandalaginu, Evrópska efnahagssvæðinu og Sameinuðu þjóðunum.
     Kristín Einarsdóttir áréttaði að þegar talað væri um Norðurlönd sem hluta Evrópu væri gengið út frá að þau stæðu saman. Spurningin væri hins vegar um hvað þau stæðu saman og hve lengi. Líklegt er að þau ríki, sem ganga í Evrópubandalagið, eigi ekki eins hægt með þátttöku í norrænu samstarfi og margir hafa haldið vegna andstöðu annarra aðildarríkja. Norrænt samstarf má ekki verða að einhvers konar undirleik við Evrópubandalagsmarsinn um að Norðurlönd skuli öll gerast aðilar bandalagsins.
    Framtíð Evrópu er óviss sé litið til næstu aldamóta og óvíst að stefnan í átt að stórum ríkjaheildum verði eins skýr og nú virðist. Það er óskynsamlegt að endurskoða Helsinki-samninginn fyrr en ljóst verður hvað næsta framtíð ber í skauti sér varðandi tengsl norrænu ríkjanna við Evrópubandalagið. Raunin gæti orðið sú að flestöll ríkin gengju í Evrópubandalagið innan örfárra ára og þá yrðu möguleikar á norrænu samstarfi mjög takmarkaðir nema á afmörkuðum sviðum. Gæta þarf þess að halda í sem mest af því sem hefur gengið vel því að sá tími kemur að pendúllinn sveiflast til baka.

4.2.2. Samþykktir þingsins.
    Samþykktum þingsins verður útbýtt með þessari skýrslu.

5.    Tillögur lagðar fram af fulltrúum í Íslandsdeild á tímabilinu frá lokum 39. þings Norðurlandaráðs og fram í febrúar 1992.
     Hjörleifur Guttormsson er einn af fjórum flutningsmönnum þingmannatillögu um eflingu norræns samstarfs.
     Rannveig Guðmundsdóttir er meðflutningsmaður þingmannatillögu sem varðar réttindi Norðurlandabúa.
     Hjörleifur Guttormsson er fyrsti flutningsmaður þingmannatillögu um þjóðfélagshópa sem standa höllum fæti á Norðurlöndum.
     Halldór Ásgrímsson er einn flutningsmaður þingmannatillögu um samstarf á norðurheimskautssvæðinu.
     Hjörleifur Guttormsson er fyrsti flutningsmaður þingmannatillögu um sjálfbæra skipulagningu í orkumálum á Norðurlöndum.
     Hjörleifur Guttormsson er meðflutningsmaður þingmannatillögu um hækkað hitastig á jörðinni og tækni til bættrar orkunýtingar og um endurnýjanlega orkugjafa.
     Árni M. Mathiesen og Geir H. Haarde eru meðflutningsmenn tillögu um alþjóðlegar reglur um aðgerðir til umhverfisverndar.
     Sigríður Anna Þórðardóttir er meðflutningsmaður þingmannatillögu um aðgerðir til að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu.

6. Fyrirspurnir íslenskra fulltrúa á 39. og 40. þingi ráðsins.
    Á 39. þingi ráðsins bar Hjörleifur Guttormsson fram fyrirspurn til ráðherranefndar um flutninga á notuðu geislavirku eldsneyti.
    Fyrir 40. þingi ráðsins liggja þegar þrjár fyrirspurnir íslenskra fulltrúa. Tvær þeirra eru bornar fram af Hjörleifi Guttormssyni, önnur um að hætta notkun á ósoneyðandi efnum, hin um þýskar tillögur um að geyma notað geislavirkt eldsneyti í Dounreay. Frá Kristínu Einarsdóttur er fyrirspurn um losum klórsambanda í hafið.

Alþingi, 14. febr. 1992.



Geir H. Haarde,

Hjörleifur Guttormsson,

Halldór Ásgrímsson.


form.

varaform.



Rannveig Guðmundsdóttir.

Árni M. Mathiesen.

Sigríður Anna Þórðardóttir.



Kristín Einarsdóttir.