Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 217 . mál.


460. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið en sökum þess að samkvæmt búvörusamningi er gert ráð fyrir að beinar greiðslur hefjist 1. mars nk. var umfjöllun hraðað eins og kostur var. Gafst því ekki ráðrúm til eins víðtæks samráðs við þá sem hér eiga hagsmuna að gæta eins og æskilegt hefði verið. Á fund nefndarinnar komu Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda, Gísli Karlsson, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins, og Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra. Þá barst nefndinni umsögn milliþinganefndar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda um búvörulög.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi að merking þeirra nýju hugtaka, sem notuð eru í þessu frumvarpi, verði skýrð og bætist við þá grein laganna sem fjallar um orðskýringar. Nánari merking hugtakanna kemur fram í viðeigandi greinum frumvarpsins. Eigi að síður er nauðsynlegt að hafa almenna skýringu fremst í lögunum þar sem hugtökin koma oft fyrir í texta frumvarpsins án frekari skýringa.
    Breytingar, sem lagðar eru til á 2. gr. frumvarpsins, varða ekki efni hennar. Í fyrsta lagi er lagt til að notuð verði eintala orðsins verð þegar rætt er um heimild verðlagsnefndar búvara til að breyta verði einstakra afurða. Í öðru lagi er lagt til að lokamálsliður 2. gr. falli brott. Verðlagsnefndinni er skv. 3. málsl. greinarinnar veitt heimild til að víkja frá ákvæðum 10. gr. og 1. mgr. 12. gr. laganna sé um það full samstaða í nefndinni. Er það næg heimild til að víkja frá ákvæðum umræddra greina um verðbreytingar og gildistíma þeirra. Því er um óþarfatvítekningu að ræða í lokamálslið 2. gr. frumvarpsins og eðlilegt að liðurinn falli brott.
    Meginefni frumvarpsins er í 6. gr. þess og gerir meiri hluti nefndarinnar nokkrar breytingartillögur við greinina. Í fyrsta lagi er texti 7. gr. frumvarpsins felldur inn í inngangsmálsgrein 6. gr., þ.e. að kafla- og greinatala frumvarpsins breytist í samræmi við það að bætt er nýjum kafla inn í lögin. Eðli málsins samkvæmt breytast tilvitnanir greina sem vísa til annarra greina laganna til samræmis við þetta. Vegna þessarar breytingar fellur 7. gr. frumvarpsins brott. Í öðru lagi er lögð til orðalagsbreyting á 1. mgr. a-liðar 6. gr. þar sem nákvæmara orðalag er notað, þ.e. að laga fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði í stað orðanna að laga framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði. Í þriðju breytingunni, sem lögð er til, er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra leiti eftir tillögum Stéttarsambands bænda áður en ákvörðun er tekin um að niðurfærsla fullvirðisréttar skuli vera mismunandi eftir landsvæðum. Í fjórða lagi er lögð til breyting á 2. mgr. c-liðar 6. gr. Hér er um að ræða hliðstætt ákvæði um greiðslumark og er fyrir hendi í frumvarpinu varðandi beinar greiðslur, sbr. síðasta málslið 2. mgr. e-liðar 6. gr. frumvarpsins. Að síðustu eru lagðar til breytingar á e-lið 6. gr. Vegna þeirra miklu breytinga sem nú verða á fullvirðisrétti (greiðslumarki) í sauðfjárrækt, bæði vegna uppkaupa og niðurfærslu á fullvirðisrétti einstakra framleiðenda, þykir eðlilegt að hafa samræmi á milli framleiðsluréttar og beinna greiðslna á þessu fyrsta framleiðsluári. Einnig er lagt til að heimilt verði að undanþiggja skerðingu þá framleiðendur sem hafa gert riðusamninga við ríkissjóð þótt framleiðslan nái ekki 80% af greiðslumarki, sbr. 3. mgr. e-liðar 6. gr. frumvarpsins. Þessar heimildir eru innan þeirra greiðslumarka beinna greiðslna til bænda sem miðast við 8.600 ærgildi, sbr. 1. mgr. b-liðar 6. gr. frumvarpsins.
    Við 8. gr. frumvarpsins eru lagðar til tvær breytingar. Lagt er til að 1. mgr. 37. gr. búvörulaganna haldi gildi sínu, en greinin kveður á um hvernig því fjármagni skuli varið sem ríkissjóður leggur í Framleiðnisjóð landbúnaðarins til að mæta áhrifum samdráttar í framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða samkvæmt viðauka II með búvörusamningnum frá 11. mars 1991. Þá er lagt til að eftir brottfall nokkurra greina laganna 1. september 1992 verði lögin endurútgefin í heild sinni vegna þeirra miklu breytinga sem nú eru gerðar á lögunum.
    Að lokum er lagt til að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Er þar gert ráð fyrir heimild til handa landbúnaðarráðherra að fresta allt að 1 / 6 hluta beinna greiðslna úr ríkissjóði fyrir þetta ár til janúar–febrúar 1993. Er þetta í samræmi við þær ákvarðanir um frestun á hluta af beinum greiðslum til bænda sem teknar voru við afgreiðslu fjárlaga. Um þetta efni komst milliþinganefnd bændasamtakanna að eftirfarandi niðurstöðu: „Verði þær leiðir valdar sem breyta samhljóða ákvæðum frumvarpsins og búvörusamningsins um skil á beinum greiðslum til bænda er það eindregin krafa að um þær leiðir verði samið við samtök bænda“. Sú áhersla sem fram kemur í breytingartillögu nefndarinnar að haft skuli samráð við Stéttarsamband bænda er til áréttingar þeim sjónarmiðum sem fram koma í framangreindri tilvitnun í umsögn bændasamtakanna.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. febr. 1992.



Egill Jónsson,

Sigbjörn Gunnarsson.

Eggert Haukdal.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Einar K. Guðfinnsson.