Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 217 . mál.


466. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á þremur fundum. Farið hefur verið yfir frumvarpið með fulltrúum Stéttarsambandsins og landbúnaðarráðuneytis o.fl.
    Minni hlutinn er samþykkur meginefni frumvarpsins. Efnislega fjallar það um að breyta búvörulögunum til samræmis við búvörusamninginn frá síðasta ári. Minni hlutinn styður þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur fram að undanskildu heimildarákvæði um að fresta 1 / 6 af beinum greiðslum til sauðfjárbænda fram í janúar–febrúar 1993.
    Minni hluti bendir á að sú frestun brýtur í bága við búvörusamninginn frá mars 1991. Verið er að svipta sauðfjárbændur launalið sínum á tveimur síðustu mánuðum ársins. Minni hlutinn bendir auk þess á að þarna er ekki um að ræða sparnað fyrir ríkissjóð. Einungis er verið að fresta lögboðnum greiðslum um nokkra mánuði. Að mati minni hlutans er hér ekki um að ræða ákvæði sem skiptir höfuðmáli fyrir ríkissjóð en kemur mjög illa við þá bændur sem fyrir þessu verða.
    Þá minnir minni hlutinn á margítrekaðar yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar um að staðið verði við samninginn. Minni hlutinn mun því greiða atkvæði gegn frestunarákvæðinu en lýsir um leið yfir vonbrigðum sínum að ekki reyndist unnt að ná samstöðu um málið í heild. Enn fremur bendir minni hlutinn á að ekkert liggur fyrir um að málið verði leyst með lántöku þannig að hægt væri að standa við gerðan samning.

Alþingi, 27. febr. 1992.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson,

Ragnar Arnalds.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.


frsm.



Þuríður Bernódusdóttir.