Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 280 . mál.


469. Frumvarp til lagaum sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)1. gr.


    Óheimilt er að kveikja í sinu og brenna nema leyfi sýslumanns komi til og fylgt sé ákvæðum í reglugerð sem umhverfisráðherra setur skv. 3. gr.


2. gr.


    Ábúendur einstakra jarða og umráðamenn óbyggðra jarða geta einir fengið leyfi til að brenna sinu á jörðum sínum.
     Slíkt leyfi má því aðeins veita að eigi stafi af almannahætta, hætta á eyðingu náttúruminja, lyng- og trjágróðurs, mannvirkja o.s.frv.
     Leyfi skal bundið við ákveðinn einstakling sem ber þá alla ábyrgð á að farið sé að lögum við sinubrennu.

3. gr.


    Í reglugerð, sem umhverfisráðherra setur að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands og Náttúruverndarráðs, skal mælt fyrir um hver skilyrði leyfishafa skv. 2. gr. skuli sett, t.d. hvenær sinubrenna megi fara fram, um skyldu til að tilkynna hlutaðeigandi slökkviliðsstjóra, hvenær sinubrenna er fyrirhuguð, eftirlit með brennu og annað sem nauðsynlegt þykir.

4. gr.


    Óheimilt er að spilla gróðri, t.d. með því að kveikja í trjágróðri, kjarri, hrísi, lyngi eða mosa.
     Hverjum þeim, sem ferðast um, er skylt að sýna ýtrustu varkárni við hvers konar notkun elds þannig að gróðri eða dýralífi stafi ekki hætta af eða stefnt sé í almannahættu.
     Sá sem verður þess var að eldur er laus í gróðri skal, svo fljótt sem verða má, gera aðvart umráðamanni lands og/eða hlutaðeigandi yfirvaldi. Skylt er honum þó, eftir því sem honum er unnt sjálfum, að slökkva eld eða koma í veg fyrir útbreiðslu hans, þar á meðal kveðja aðra til aðstoðar.

5. gr.


    Sá sem veldur tjóni með sinubrennu eða meðferð elds á víðavangi þannig að saknæmt sé ber fébótaábyrgð á því tjóni sem hlýst af.

6. gr.


    Með mál út af brotum á lögum þessum eða reglugerð samkvæmt þeim skal farið að hætti opinberra mála.

7. gr.


    Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum.

8. gr.


    Lög þessi öðlast gildi þegar í stað og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 8/1966, um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Allt frá upphafi landnáms munu menn hafa brennt sinu, mosa og jafnvel lyng að vorlagi til að létta komandi gróðri leið og gera beit betri og notadrýgri. Þetta ásamt brennslu á kjarri, einkum til kolagerðar, sem lengi tíðkaðist hefur vafalítið átt sinn þátt í að breyta gróðurfari landsins, sérstaklega að því er tekur til skóg- og kjarrlendis.

     Þegar á þjóðveldistímanum voru fest í lög ákvæði um sinubrennslu. Til fróðleiks skulu þau rakin.
     Í Konungsbók Grágásar segir svo í Landbrigðaþætti:
     „Nv vill maðr brenna sino ísino landi þa scal hann biðia lofs þa er næstir bva oc lavnd eigo við fyrir utan oc b.ta þeim þo ef af geriz. En ef eldr rennr ihvs þeirra manna er eigi hafa lofat eða lönd eða brenna fyrir þeim scógar þa varðar fiorbavgs garð.“
     Í annarri gerð Grágásar (Staðarhólsbók) eru ákvæðin um sinubrennslu á þessa leið í Landbrigðisþætti:
     „Ef maðr vill brenna sino i lande sino. þa scal hann biðia lofs at. þa menn er næst bua. oc verþr hann þo utlagr iii. mörcom ef eldr rennr i lond þeirra. oc scal böta scaða. en fiorbavgs garð varðar ef hann brenner scóg. eða hús. þat varþar oc fiorbaugs garð ef hann bað eigi lofs at. ef eldrenn rennr i annara mana lond. en scogang ef þeim verðr kugildis scaðe at. Þat ero allt stefno sakar. oc scal queðia til heimilis bva ix. aþingi þess er sottr er til fior bavgs garðs en .v. til utlegðar.“
     Slík ákvæði hafa gilt uns Járnsíða var lögtekin á árunum 1271–1273 og þjóðveldislöggjöfin þar með afnumin. Samsvarandi ákvæði voru ekki tekin þar upp.
     Eins og kunnugt er var Járnsíða mjög sniðin eftir norskri löggjöf, lögbókum, sem kenndar voru við Gulaþing (1267) og Frostaþing (1269). Hvorki í þeim lögbókum né í landslögum Magnúsar konungs lagabætis, sem samin voru á árunum 1274–1277 er minnst sérstaklega á sinubrennslu. Má af því ætla að sinubrennsla hafi ekki tíðkast í Noregi a.m.k. ekki á þeirri tíð eða ekki þannig að ástæða þætti til að setja um slíkt sérstakar lagareglur.
     Traustar heimildir bera með sér að Járnsíða sætti töluverðri gagnrýni af hálfu Íslendinga. Var hún því tekin til endurskoðunar og ýmsu breytt til samræmis við þjóðveldislögin.
     Hin endurskoðaða lögbók, Jónsbók, sem lögtekin var á Alþingi 1281, hefur að geyma ákvæði um sinubrennslu í Landleigubálki 29. kap.
     Þar segir á þessa leið:
     „Brenna má maðr sinu af jorðu sinni, þar sem hann vill, ok bæta skaða þann allan, er oðrum monnum verðr af, ok landnám með, ef hann hefir þá eigi orlofs til beðit er næstir búa.“
     Þessi ákvæði reyndust harla endingargóð því að þau giltu nær 700 ár. Árið 1966 samþykkti Alþingi lög um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi sem enn gilda. Enn tíðkast það töluvert að sina, sem er visnaðar gróðurleifar frá fyrri tíð, sé brennd á vorin. Hér er einkum um að ræða gras- og stargróður á votlendi og mýrum, en algengastir eru taldir sinubrunar á Suður- og Vesturlandi. Sinubrennsla hefur bæði kost og galla. Hafa þeir verið raktir svo sem hér segir:
     Askan, sem myndast við brunann, hefur dálítið áburðargildi fyrir nýgræðing, einkum varðandi steinefni. Aftur á móti tapast eitthvað af köfnunarefni og öðrum efnum við brunann. Brennt land þiðnar heldur fyrr á vorin og fyrir bragðið getur gróður orðið nokkuð fyrri til en á óbrenndu landi. Á brenndu landi verður nýgræðingurinn aðgengilegri fyrir beitarféð, sérstaklega þar sem sina er mikil vegna lítillar eða engrar beitar árið áður. Í sumum tilvikum má bæta beitiland með sinubruna.
     Af brennslu getur hlotist varanlegur skaði á sumum tegundum gróðurs, einkum trjágróðri, lyngi og mosa. Á undanförnum árum hafa t.d. orðið skógarbrunar á ýmsum stöðum vegna ógætilegrar meðferðar elds. Hefur þá oft áratuga landgræðslustarf orðið eldi að bráð. Í kjölfar sinubruna eykst hætta á gróður- og jarðvegseyðingu sem kann að orsaka uppblástur á þurrlendi. Það getur tekið náttúruna hundruð ára að bæta slíka jarðvegseyðingu. Þess eru dæmi að kviknað hafi í þurrum móajarðvegi við sinubruna. Eftir að fuglar eru farnir að verpa á vorin er sinubrennsla mikill bölvaldur. Sömuleiðis er hætta á því að smádýralíf bíði tjón af þegar eldur svíður landið, einkum þegar það er mjög þurrt. Mikil sinubrennsla veldur reykmengun andrúmslofts og getur byrgt útsýni á vegum og þannig skapað slysahættu. Tjón getur hlotist á mannvirkjum, t.d. byggingum, girðingum, síma- og rafmagnsstaurum.
     Af þessu er ljóst að ókostir sinubrennslu virðast veigameiri en kostirnir.
     Sérfróðir menn hafa bent á að þótt viss ávinningur geti verið af sinubrennu á beitilandi, einkum á grasgefnum mýrum, sé hægt að ná sama árangri með hóflegri og skipulagðri beit. Það virðist á allan hátt skynsamlegra og geðfelldra að nýta gróður með þessu móti, en láta hann ganga upp í eldi.
     Full ástæða virðist til að þrengja verulega heimild og undanþágur til sinubrennu. Reynslan hefur sýnt að bæði almannahætta og verulegt tjón bæði á gróðurlendi og mannvirkjum getur leitt af sinubrennu eins og áður er nefnt.
     Þótt sinubrennur séu óheimilar í þéttbýli er varla vafi á því að vitneskjan um sinubrennur víða um land verður til þess að vekja áhuga á slíku „tómstundagamni“. Bæði af hálfu lögreglunnar í Reykjavík og slökkviliðs er sá brennufaraldur sem gengur yfir árlega töluvert vandamál. Með nýrri lagasetningu og markvissri framkvæmd lagaákvæða í kjölfar hennar um allt land ætti að vera hægt að hafa hemil á brennufaraldri sem einnig er vandamál utan Reykjavíkur þótt ástandið þar sé sérstaklega nefnt. Slökkvilið Hornafjarðar var t.d. kvatt út níu sinnum eitt árið, þar af sex sinnum vegna sinubruna í þrem hreppum. Fylgdi þessu mikill kostnaður. Á þessum vetri hafa borist kvartanir út af sinubrennum úti um land.
     Hinn 1. október 1991 var að tilhlutan umhverfisráðuneytis haldinn fundur um sinubruna. Fundinn sóttu auk fulltrúa ráðuneytisins fulltrúar frá Búnaðarfélagi Íslands, landbúnaðarráðuneyti, Landgræðslu ríkisins, Líffræðistofnun Háskólans, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarráði, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Stéttasambandi bænda.
     Fundurinn var sammála um eftirfarandi meginatriði:
    Full ástæða er til að takmarka sinubruna frá því sem verið hefur.
    Rétt er að banna sinubruna en hafa heimild til undanþágu á svæðum utan þéttbýlis og fjarri skógræktarsvæðum.
     Bent var á að nauðsynlegt er að fræða bændur um kosti og galla sinubrennslu og um leiðir til að draga úr sinumyndun. Í framhaldi af þessu er frumvarp þetta samið.
     Við samningu þessa frumvarps hefur verið stuðst við eftirfarandi heimildir:
    Frumvarp til laga um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi þskj. 56 á löggjafarþingi 1965–1966.
    Sinubrennur eftir Árna Snæbjörnsson, Búnaðarblaðið, 3. tbl. 1973.
    Sinubrunar eftir Andrés Arnalds og Ólaf Dýrmundsson, Freyr, 8. tbl. 1981.
    Kostir og gallar sinubrennslu eftir Pál og Ragnar Imsland, Eystrahorn, 26. mars 1987, og Austri, 7. maí 1987.
    Grágás, Konungsbók, Kaupmannahöfn 1852.
    Grágás, Staðarhólsbók, Kaupmannahöfn 1879.
    Jónsbók, Kaupmannahöfn 1907.
    Járnsíða, Kaupmannahöfn 1847.
    Ólafur Lárusson: Grágás og lögbækurnar, Reykjavík 1923.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Rétt þykir með vísun til þess sem fram kemur í greinargerð að leyfi til að brenna sinu sé háð undanþágum sem sýslumaður einn geti veitt samkvæmt ákveðnum reglum.
     Ástæðulaust þykir að setja í lög nákvæmar reglur um framkvæmd eins og gert er í núgildandi lögum heldur verði slíkt ákveðið í reglugerð.

Um 2. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu má eingöngu veita ábúendum einstakra jarða og umráðamönnum óbyggðra jarða leyfi til að brenna sinu. Rétt þykir að leyfi og þar með öll ábyrgð sé bundin við ákveðinn einstakling.

Um 3. gr.


    Eins og fram kemur í 1. gr. þykir eðlilegt að þau atriði, sem snerta framkvæmd sinubrennu, séu í reglugerð sem umhverfisráðherra setur. Þar þarf í senn að gæta landbúnaðarhagsmuna og náttúruverndarhagsmuna auk nauðsynlegra öryggisatriða. Vegna mismunandi staðhátta í landinu þykir varla rétt að lögbinda leyfi til sinubrennu við ákveðna mánaðardaga.
     Í reglugerð mætti ákveða að ábúandi (umráðamaður) tiltekinnar jarðar gæti fengið leyfi til lengri tíma en eins árs að öllum skilyrðum fullnægðum.

Um 4. gr.


    Ákvæði greinarinnar ganga í svipaða átt og ákvæði 7. og 8. gr. núgildandi laga. Nánar er þó kveðið á um skyldur einstaklinga en í þeim ákvæðum.

Um 5. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 9. gr. núgildandi laga.

Um 6. og 7. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um sinubrennur


og meðferð elds á víðavangi.    Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.