Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 83 . mál.


480. Nefndarálit



um till. til þál. um þorskeldi.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og er sammála um að þar sé tekið á mikilvægu máli sem nauðsynlegt er að gefa gaum.
    Eldi á seiðum laxfiska hefur verið stundað hér á landi áratugum saman og með góðum árangri. Matfiskeldi til útflutnings hófst svo um miðbik síðasta áratugar. Erlendis hefur tilraunaeldi verið hafið síðustu árin á fjölmörgum tegundum fiska, hryggleysingja og þörunga og í kjölfarið hefur kviknað áhugi hér á landi á eldi annarra tegunda en laxfiska eingöngu. Þannig hófst lúðueldi á tilraunastigi á Akureyri og Reykjanesi síðla síðasta áratugar. Tilraunir með krækling í Hvalfirði skiluðu mjög góðum árangri og hafnar eru tilraunir með ræktun hörpudisks í Breiðafirði. Enn má nefna að kannanir hafa verið gerðar á eldi hryggleysingjans sæeyra í heitu vatni og nú eru fyrirhugaðar tilraunir með eldi annarra heitsjávartegunda á Íslandi.
    Ísland á aðild að samnorrænu verkefni um hafbeit á þorski en tilraunir með þorskeldi í Noregi og Danmörku þykja lofa góðu. Því telja nú margir vænlegt að hefja tilraunir með eldi á þorski hér á landi. Á nokkrum stöðum á landinu eru fiskeldisfyrirtæki sem hafa hætt starfsemi og ef til vill er möguleiki á að nýta þá aðstöðu sem þau fyrirtæki hafa skilið eftir sig. Mundi sú nýting e.t.v. geta orðið framlag þeirra opinberu sjóða sem aðstöðuna eiga.
    Í ljósi þess sem að ofan greinir og aðhafst hefur verið og í trausti þess að möguleikar á eldi þorsks og annarra sjávarfiska verði kannaðir áfram leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Anna Ólafsdóttir Björnsson, fulltrúi Samtaka um kvennalista, hefur setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti nefndarinnar. Árni R. Árnason og Guðmundur Hallvarðsson voru fjarstaddir afgreiðslu málsins. Magnús Jónsson sat fund nefndarinnar þegar málið var afgreitt í stað Össurar Skarphéðinssonar.

Alþingi, 26. febr. 1992.



Matthías Bjarnason,

Halldór Ásgrímsson.

Jóhann Ársælsson.


form., frsm.



Magnús Jónsson.

Stefán Guðmundsson.

Steingrímur J. Sigfússon.



Vilhjálmur Egilsson.