Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 22 . mál.


491. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um viðskiptabanka, nr. 86 4. júlí 1985.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fund nefndarinnar komu Þórður Ólafsson og Ragnar Hafliðason frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og Björn Líndal, aðstoðarbankastjóri Landsbanka Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá bankaeftirliti Seðlabankans, fjármálaráðuneytinu, Íslandsbanka hf., Sambandi íslenskra bankamanna, Sambandi íslenskra sparisjóða og Sambandi íslenskra viðskiptabanka.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að viðskiptaráðherra geti veitt erlendum hlutafélagsbönkum leyfi til að starfrækja útibú hér á landi og er þá gert ráð fyrir því að lög um viðskiptabanka gildi um starfsemi slíkra útibúa eins og við getur átt, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur á það mikla áherslu að starfsskilyrði íslenskra banka og útibúa erlendra banka verði þau sömu og íslensk lög og reglugerðir gildi einvörðungu á þessu sviði.
    Nefndin leggur til að gerðar verði tvær breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins, sem fjallar um eigið fé viðskiptabanka, verði skipt í þrjár málsgreinar og einnig að orðalagi verði breytt lítils háttar frá upphaflegu frumvarpi. Það sem áður hét „hreint eigið fé“ og „blandað eigið fé“ heitir nú „eiginfjárþáttur A“ og „eiginfjárþáttur B“ og er þar með komið til móts við athugasemdir sem komið hafa fram um að upphaflegar nafngiftir kunni að vera óheppilegar. Athygli skal vakin á því að þessi heiti á „eiginfjárþáttum“ verða einungis notuð við útreikning á eiginfjárhlutfalli en munu ekki verða notuð sem heiti efnahagsliða í efnahagsreikningi, enda teljast ekki allir þeir liðir, sem koma inn í eiginfjárútreikninginn, meðal eiginfjárliða í efnahagsreikningi, sbr. t.d. víkjandi lán. Afskriftareikningur almennrar útlánaáhættu hefur verið fluttur úr eiginfjárþætti B í eiginfjárþátt A til samræmis við breytingar sem nýlega voru gerðar á svonefndum BIS-reglum. Orðalagi þessa töluliðar hefur verið breytt lítillega til að gera það enn skýrara en áður að afskriftareikningur útlána sem á einhvern hátt endurspeglar rýrnun á verðmæti útlána á uppgjörsdegi skal ekki talinn með eigin fé við útreikning á eiginfjárhlutfalli.
    Í öðru lagi hefur orðalagi 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða verið breytt lítillega.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Guðmundur Stefánsson tók þátt í afgreiðslu málsins í stað Halldórs Ásgrímssonar og Magnús Jónsson í stað Rannveigar Guðmundsdóttur.

Alþingi, 4. mars 1992.



Matthías Bjarnason,

Magnús Jónsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Steingrímur J. Sigfússon.



Vilhjálmur Egilsson.

Ingi Björn Albertsson.

Guðmundur Stefánsson.