Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 280 . mál.


587. Breytingartillögur



við frv. til l. um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.

Frá Pálma Jónssyni.



    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  Óheimilt er að kveikja í sinu og brenna í þéttbýli eða á þéttbyggðum svæðum, svo sem í sumarbústaðahverfum. Þó getur lögreglustjóri veitt leyfi til sinubrennu á afmörkuðum svæðum innan slíkra staða ef sérstakar ástæður liggja til, enda verði öruggri gæslu við komið.
    Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                  Eigendum og umráðamönnum jarða utan þéttbýlissvæða er heimilt að brenna sinu á landi sínu með þeim takmörkunum sem lög þessi kveða á um. Þeir bera alla ábyrgð á að framkvæmd verksins sé í samræmi við lög.
    Við 3. gr. Greinin orðist svo:
                  Aldrei má kveikja í sinu þar sem hætta getur stafað af fyrir náttúruminjar, fuglalíf, lyng- og trjágróður eða mannvirki.
                  Skal sinubrenna því aðeins heimil að hindranir, svo sem árfarvegir, melar, skurðir, vegir eða votlendi, komi í veg fyrir að eldur geti breiðst út fyrir það land sem ætlunin er að brenna.
                  Óheimilt er að kveikja í sinu eftir 1. maí ár hvert. Þó getur sýslumaður að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið ákveðið aðra dagsetningu ef sérstakar veðurfarslegar aðstæður mæla með.
    Við 4. gr. 1. og 2. málsgr. orðist svo:
                  Skylt er hverjum þeim sem ferðast um að gæta ýtrustu varkárni við notkun elds og ganga tryggilega frá því að hann sé slökktur áður en eldstæði er yfirgefið.
                  Óheimilt er að kveikja eld á víðavangi þar sem hætta getur stafað af fyrir gróður, dýralíf, mannvirki eða almannaheill.