Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 430 . mál.


688. Frumvarp til laga



um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



Um gjaldtöku.


1. gr.


    Ólögmætur er sá sjávarafli eða hluti afla:
    sem ekki nær þeirri lágmarksstærð sem kveðið er á um í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða sérstökum veiðileyfum,
    sem er umfram þann hámarksafla sem veiðiskipi er settur,
    sem fenginn er utan leyfilegra sóknardaga,
    sem fenginn er með óleyfilegum veiðarfærum,
    sem fenginn er á svæði þar sem hlutaðeigandi veiðar eru bannaðar,
    sem fenginn er án þess að tilskilin veiðileyfi hafi verið fyrir hendi,
    sem 2. mgr. 7. gr. tekur til.
     Greiða skal sérstakt gjald samkvæmt fyrirmælum laga þessara fyrir veiðar, verkun, vinnslu eða viðskipti með ólögmætan sjávarafla.
     Gjald skv. 2. mgr. skal renna í sérstakan sjóð í vörslu sjávarútvegsráðuneytisins og skal verja fé úr honum í þágu hafrannsókna og eftirlits með fiskveiðum eftir nánari ákvörðun sjávarútvegsráðherra.
     Nú hefur verið lagt hald á afla og hann gerður upptækur eftir ákvæðum annarra laga og kemur þá ekki til greiðslu gjalds skv. 2. mgr.

Um greiðsluskyldu.


2. gr.


    Gjald skv. 1. gr. skal að jafnaði lagt á þann sem hefur gert út skip eða bát sem veitt hefur gjaldskyldan afla. Ef uppvíst verður um gjaldskyldan afla án þess að unnt reynist að ákvarða hver hafi veitt hann má þó leggja gjaldið á þann sem hefur tekið við aflanum til verkunar eða vinnslu eða hefur haft milligöngu um sölu hans eða afurða úr honum hvort sem er hér á landi eða erlendis, enda hafi þeir vitað eða mátt vita að um ólögmætan sjávarafla var að ræða.
     Gjald skv. 1. gr. verður aðeins lagt á einn þeirra sem taldir eru upp í 1. mgr. Aðrir þeir, sem þar eru taldir og sem uppvíst er að hafi átt þátt í veiðum, verkun, vinnslu eða viðskiptum með gjaldskyldan afla, ábyrgjast þó greiðslu gjaldsins sem eigin skuld með þeim sem gjald er lagt á ef ætla má að þeir hafi vitað eða mátt vita að um ólögmætan sjávarafla var að ræða.

3. gr.


    Gjald skv. 1. gr. skal nema andvirði gjaldskylds afla.
     Ef ekki verður staðreynt hver sú fjárhæð hefur verið skal gjaldið nema því verði sem fengist hefur fyrir samsvarandi afla á þeim stað og því tímabili sem hann barst að landi. Verði gjaldskyldur afli ekki heimfærður til ákveðins tímabils skal verðleggja hann á grundvelli meðalverðs fyrir samsvarandi afla á viðkomandi fiskveiðiári.
     Ef ekki verður staðreynt af fyrirliggjandi gögnum hvert hafi verið magn eða andvirði gjaldskylds afla skal það áætlað eftir því sem segir í 5. gr.

Um eftirlit.


4. gr.


    Að því leyti sem fyrirmæli laga fela það ekki öðrum stjórnvöldum hafa eftirlitsmenn Fiskistofu með höndum eftirlit með því hvort sjávarafli er gjaldskyldur samkvæmt lögum þessum. Er sjávarútvegsráðherra heimilt að kveða nánar á um eftirlit þetta í reglugerð.


     Sjávarútvegsráðherra er heimilt að kveða á í reglugerð um skyldu útgerðarmanna, fiskverkenda og fiskseljenda til að láta af hendi sérstakar skilagreinar um þann sjávarafla sem þeir hafa til umráða hverju sinni.

5. gr.


    Þeim sem hafa með höndum eftirlit skv. 1. mgr. 4. gr. er heimilt að krefja útgerðarmenn, skipstjórnarmenn, fiskverkendur, fiskseljendur og þá sem hafa haft milligöngu um viðskipti með sjávarafla eða afurðir um öll nauðsynleg gögn og upplýsingar sem þeir geta látið í té og varða, að mati eftirlitsmanna Fiskistofu, ákvörðun um hvort sjávarafli kunni að vera gjaldskyldur samkvæmt lögum þessum. Er þeim sem krafðir eru upplýsinga skylt að láta þær af hendi endurgjaldslaust og í því formi sem eftirlitsmenn mælast til. Eftirlitsmönnum er enn fremur heimilt í sama skyni að krefjast aðgangs að bókhaldsgögnum þeirra, sem áður er getið, samningum þeirra, verslunarbréfum og öðrum slíkum gögnum, svo og að skrifstofum þeirra, vinnustöðvum, vinnsluhúsum, vörugeymsluhúsum og öðrum slíkum stöðum til birgðakönnunar og annars eftirlits.
     Í sama tilgangi er þeim sem hafa með höndum eftirlit skv. 1. mgr. 4. gr. heimilt að krefjast upplýsinga af félögum og félagasamtökum útgerðarmanna, fiskverkenda, fiskseljenda og af félögum annarra sem hlut geta átt að máli, um viðskipti félagsmanna þeirra og aðra starfsemi sem þau hafa gögn eða upplýsingar um.
     Opinberum stofnunum, viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánastofnunum ber að veita þeim sem eftirlit hafa með höndum skv. 1. mgr. 4. gr. aðgang að öllum gögnum sem þeir telja nauðsynleg til eftirlits samkvæmt fyrirmælum laga þessara. Forstöðumönnum opinberra stofnana og starfsmönnum er enn fremur skylt að láta í té alla nauðsynlega aðstoð og upplýsingar sem eftirlitsmenn óska eftir og unnt er að veita.
     Ef eftirlitsmenn Fiskistofu telja fram komin gögn eða upplýsingar ófullnægjandi, óglögg, tortryggileg eða ekki látin í té í umbeðnu formi eða þeir telja frekari skýringa þörf á einhverju atriði skulu þeir skora skriflega á þann sem kann að verða krafinn um gjald skv. 1. gr. að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýrslur og þau gögn sem þeir telja þörf á. Ef ekki er bætt úr annmörkum, svar berst ekki innan tiltekins tíma, þau gögn eru ekki send sem óskað er eftir eða fram komin gögn eða upplýsingar eru ófullnægjandi eða tortryggileg að mati Fiskistofu skal hún áætla magn og andvirði sjávarafla eftir þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja.

Um úrskurðaraðila.


6. gr.


    Sjávarútvegsráðherra skipar þriggja manna nefnd til að úrskurða álagningu gjalds skv. 1. gr. og jafnmarga menn til vara. Aðalmenn og varamenn skulu skipaðir til þriggja ára í senn og skal einn nefndarmanna skipaður formaður hennar.
     Þeir menn, sem eru skipaðir í nefnd skv. 1. mgr., skulu fullnægja almennum skilyrðum laga til að fá skipun í stöðu í þjónustu ríkisins. Formaður nefndarinnar og varamaður hans, sem tekur sæti formanns í forföllum hans, skulu að auki fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.
     Um hæfi nefndarmanna til meðferðar einstakra mála skal farið eftir því sem við á eftir þeim lagareglum sem gilda um hæfi héraðsdómara. Ef nefndarmaður er vanhæfur kveður formaður nefndarinnar til varamann í hans stað.
     Afl atkvæða ræður niðurstöðum nefndar skv. 1. mgr.
     Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

7. gr.


    Ef rökstudd ástæða kemur fram við framkvæmd eftirlits til að ætla að einhver sá, sem fyrirmæli 2. gr. taka til, hafi haft gjaldskyldan sjávarafla til umráða skal Fiskistofa leggja gjald á hlutaðeigandi aðila skv. 1. gr.
     Nú sýna starfsmenn Fiskistofu fram á að verkun, vinnsla eða sala tiltekins aðila á sjávarafla eða afurða úr honum sé umfram uppgefin kaup hans eða aðföng og er þá heimilt að leggja á viðkomandi aðila gjald skv. 1. gr. um mismuninn enda þótt sjávaraflinn verði ekki rakinn til ákveðins veiðiskips eða tímabils.
     Vilji aðili eigi una ákvörðun Fiskistofu getur hann, innan tveggja vikna frá því að hann fékk vitneskju um álagninguna, kært hana til Fiskistofu sem þá skal, innan tveggja vikna frá lokum gagnaöflunar, leggja rökstuddan skriflegan úrskurð á málið. Nú vill kærandi eigi sætta sig við úrskurð Fiskistofu og getur hann þá skotið honum til nefndar skv. 6. gr., enda geri hann það innan tveggja vikna frá því að hann fékk vitneskju um úrskurðinn.
     Er formanni nefndarinnar hefur borist kæra skv. 1. mgr. skal hann þegar tilkynna það Fiskistofu með ábyrgðarbréfi eða á annan sannanlegan hátt. Tilkynningunni skulu fylgja samrit af kæru, greinargerð kæranda og önnur gögn er kunna að hafa fylgt kærunni. Skal Fiskistofu gefinn kostur á að koma kröfum sínum, athugasemdum og öðrum gögnum á framfæri við nefndina innan tiltekins frests. Fiskistofu er jafnframt rétt að krefjast þess að kveðið verði á um ábyrgð annarra á greiðslu gjaldsins skv. 2. mgr. 2. gr.

8. gr.


    Þegar frestur skv. 2. mgr. 7. gr. er á enda eða fram eru komnar athugasemdir eða gögn málsaðila skal formaður nefndar skv. 1. mgr. 6. gr. kalla hana saman til fundar til að fjalla um kröfuna. Að jafnaði skal reynt að ráða málefninu þegar til lykta á þeim fundi, en telji nefndin þörf frekari upplýsinga eða gagna getur hún gefið málsaðilum kost á öflun þeirra innan tiltekins frests. Heimilt er nefndinni að boða málsaðila eða talsmenn þeirra á sinn fund til að tjá sig nánar um málefnið ef hún telur ástæðu til áður en úrskurður gengur.

9. gr.


    Úrskurðir nefndar skv. 1. mgr. 6. gr. um álagningu gjalds skv. 1. gr. skulu vera rökstuddir og færðir í sérstaka gerðabók. Í þeim skal tekin afstaða til þess hvort afli sé gjaldskyldur, hver fjárhæð gjaldsins skuli vera og hverjum beri að greiða það. Hafi þess verið krafist skal jafnframt kveðið á um hvort aðrir ábyrgist greiðslu gjaldsins skv. 2. mgr. 2. gr. Heimild til álagningar gjalds nær til gjalds vegna afla síðustu fjögurra fiskveiðiára sem næst eru á undan því fiskveiðiári sem álagning Fiskistofu fer fram á.
     Þegar úrskurður hefur gengið skal formaður án tafar senda sjávarútvegsráðherra, Fiskistofu og þeim sem krafa hefur beinst að eintak úrskurðarins í ábyrgðarpósti eða á annan sannanlegan hátt.

Um innheimtu.


10. gr.


    Fiskistofa fer með innheimtu gjalds skv. 1. gr. Sjávarútvegsráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þess.
     Gjald skv. 1. gr. fellur í gjalddaga við álagningu. Ber það dráttarvexti samkvæmt ákvæðum vaxtalaga frá því 30 dagar eru liðnir frá gjalddaga þess.
     Álagning gjalds eða úrskurður um gjaldtöku skv. 1. gr. eru aðfararhæfar ákvarðanir, bæði gagnvart þeim sem gjald hefur verið lagt á og þeim sem bera ábyrgð á greiðslu þess samkvæmt úrskurði. Má Fiskistofa krefjast fullnustu með fjárnámi þegar liðnir eru 30 dagar frá dagsetningu álagningar eða uppkvaðningu úrskurðar.
     Ef gjald skv. 1. gr. hefur verið lagt á útgerðarmann skips og það er ógreitt og sá tími kominn að krefjast megi fullnustu þess með fjárnámi er ráðherra enn fremur heimilt að fella niður án frekari fyrirvara veiðiheimildir útgerðarmannsins eða skipa sem hann gerir út þar til skuldin greiðist.
     Ágreining um skyldu til greiðslu gjalds skv. 1. gr. eða um ábyrgð á greiðslu þess má bera undir dómstóla sé það gert innan 30 daga frá uppkvaðningu úrskurðar skv. 6. gr. Slíkt málskot frestar ekki fullnustu úrskurðar.

11. gr.


    Ef sjávarútvegsráðherra telur veiðar á gjaldskyldum afla samkvæmt lögum þessum brjóta gegn refsiákvæðum annarra laga er honum rétt að tilkynna það ríkissaksóknara. Slík tilkynning eða opinber rannsókn eða höfðun opinbers máls í tilefni hennar raskar því ekki að gjald verði lagt á eftir fyrirmælum þessara laga.

Um dagsektir.


12. gr.


    Hver sá, sem tregðast við að láta eftirlitsmönnum Fiskistofu í té upplýsingar er varða gjaldskyldu annarra eða tregðast við að veita aðgang að aðstöðu eða gögnum, sbr. 5. gr., skal sæta dagsektum. Sjávarútvegsráðherra kveður á um skyldu til greiðslu dagsekta og mega þær nema allt að 10.000 kr. á dag. Dagsektir má innheimta með fjárnámi.

Um gildistöku o.fl.


13. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. september l992.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 32 19. maí 1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, með áorðnum breytingum, ásamt stjórnvaldsfyrirmælum sem hafa verið sett á grundvelli þeirra.

14. gr.


    Heimilt er að leggja á gjald samkvæmt fyrirmælum laga þessara þótt sú háttsemi, sem leiðir til álagningar þess, kunni að hafa átt sér stað fyrir gildistöku þeirra ef heimilt hefði verið að gera viðkomandi afla upptækan samkvæmt fyrirmælum laga nr. 32/1976 og upptaka aflans eða andvirðis hans hefur ekki þegar farið fram.
     Sjávarútvegsráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan sjávarútvegsráðherra.
     Í lögum nr. 38 frá 15. maí 1990 var kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði VIII að sjávarútvegsráðherra skuli láta fara fram endurskoðun á lögum um upptöku ólöglegs sjávarafla, nr. 32 19. maí 1976, og leggja fram frumvarp að nýrri löggjöf um það efni fyrir Alþingi haustið 1990. Skuli sú endurskoðun m.a. beinast að því að aðskilja eftirlit og úrskurðarvald á þessum vettvangi.
     Með setningu laga nr. 32/1976 voru lögfest almenn ákvæði um upptöku ólöglegs sjávarafla án tillits til refsinæmis verknaðar. Lögfesting þeirra ákvæða réttlættist af ríkri nauðsyn á verndun fiskstofna. Markmið upptöku afla er að girða fyrir að farið sé fram hjá friðunarákvæðum sem gilda um friðun fiskstofna en á því er hætta ef upptaka er takmörkuð.
     Frumvarp þetta felur í sér endurskoðun á umræddum reglum laga nr. 32/1976. Í framkvæmd hefur sú upptaka ólögmæts sjávarafla, sem kveðið er á um í þeim lögum, aldrei beinst að aflanum sjálfum heldur hefur hún ávallt komið til eftir að afla hefur verið ráðstafað og þá beinst að því að sannanlegu eða áætluðu söluverðmæti hans verði skilað og innheimtu eftir atvikum beint að seljanda eða kaupanda afla.
     Þetta byggir á þeirri grundvallarreglu að enginn megi öðlast rétt yfir ólögmætum sjávarafla.
     Við endurskoðun laga nr. 32/1976 er gengið út frá því að lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, verði breytt þannig að sett verði á fót sérstök stofnun, Fiskistofa, er heyri undir sjávarútvegsráðherra og hafi m.a. það hlutverk að stjórna og hafa eftirlit með fiskveiðum.
     Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Fiskistofa geti krafið þann er brotlegur gerist um ólögmætan sjávarafla til þess að greiða gjald skv. 1. gr. er nemi andvirði hins ólögmæta sjávarafla. Vilji sá sem krafinn er ekki greiða getur hann kært álagninguna fyrst til Fiskistofu og síðan til sjálfstæðs úrskurðaraðila skv. 6. gr. frumvarpsins. Þannig er um hnútana búið að málsmeðferð á að ganga greiðlega fyrir sig og vilji menn eigi una úrskurði nefndarinnar geta þeir skotið málinu til dómstóla, enda sé það gert innan 30 daga frá uppkvaðningu úrskurðar. Með þessu móti er stefnt að tvennu, í fyrsta lagi skilvirkri málsmeðferð og í öðru lagi réttaröryggi er sjálfstæður úrskurðaraðili á að veita. Málskot til dómstóla er að sjálfsögðu tryggt skv. 60. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Settur er þó til þess skammur tími, en að því er ætla verður nægur málskotsfrestur, 30 dagar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um að veiði og meðferð afla sem veiðst hefur án veiðiheimildar eða andstætt friðunarreglum skapi gjaldskyldu samkvæmt lögunum. Í 1.–7. tölul. eru talin þau tilvik sem leitt geti til gjaldskyldu og eru þau óbreytt frá 1. gr. laga nr. 32/1976, nema ákvæði 7. tölul. sem er nýmæli. Rétt þykir að halda ákvæði um brot á reglum um sóknardaga, sbr. 6. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 38/1990, auk þess sem slíkt kerfi kann að verða tekið upp síðar.
     Í 4. mgr. eru tekin af tvímæli um að ekki komi til greiðslu sérstaks gjalds samkvæmt lögunum ef tekist hefur að koma við upptöku á aflanum sjálfum og undirstrikar það tengsl milli úrræða, sem að lögum eru til staðar, til að knýja fram skil á afla eða verðmæti hans hafi hann veiðst andstætt friðunarákvæðum.

Um 2. og 3. gr.


    Í þessum greinum kemur fram á hverjum skylda til greiðslu gjalds hvílir og um ákvörðun gjaldsins. Er meginreglan sú að leggja skal á þann sem gert hefur út skip eða bát ef upplýst er hver veiddi ólögmæta aflann.
     Ef það er eigi upplýst er þó heimilt að innheimta gjaldið hjá öðrum þeim sem upp eru taldir í 2. gr., enda hafi þeir vitað eða mátt vita að um ólögmætan sjávarafla var að ræða.
     Með orðinu „andvirði“ í 3. gr. er átt við heildarandvirði gjaldskylds afla án frádráttar kostnaðar vegna löndunar og sölu aflans.

Um 4. og 5. gr.


    Í þessum greinum er kveðið á um eftirlit með því hvort afli sé gjaldskyldur samkvæmt lögunum og ítarlegar reglur settar um framkvæmd eftirlitsins og heimildir þeirra sem með eftirlitið fara, m.a. til að krefja þá sem eftirlit beinist að og aðra sem taldir eru í 5. gr. upplýsinga og gagna er kunna að skipta máli um gjaldskyldu samkvæmt lögunum. Gefi sá er krafinn kann að verða um gjaldið ekki fullnægjandi skýringar og upplýsingar þrátt fyrir áskorun skal áætla magn og andvirði sjávarafla eftir þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja.

Um 6. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um stofnun og skipan sérstakrar óháðrar úrskurðarnefndar er hafi það hlutverk að leggja á hið sérstaka gjald skv. 1. gr. vegna ólögmæts sjávarafla, enda hafi sá er krafa beinist gegn eigi viljað una úrskurði Fiskistofu, sbr. 7. gr.

Um 7. og 8. gr.


    Í 7. og 8. gr. er kveðið á um málsmeðferð við álagningu gjaldsins. Vilji hlutaðeigandi ekki una álagningu eða úrskurði Fiskistofu getur hann vísað málinu til úrskurðarnefndar skv. 6. gr. Í þeim tilvikum, sem ágreiningur er um gjaldskyldu og magn, er gengið út frá því að greinargerðir fylgi frá málsaðilum og að nefndin geti, telji hún þörf á, kvatt aðila, eða talsmenn þeirra, á sinn fund til að tjá sig nánar um málefnið eftir að afstaða beggja liggur fyrir.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Úrskurðir nefndar skv. 6. gr. verða ekki kærðir til sjávarútvegsráðherra. Hins vegar verður þeim skotið til dómstóla út af ágreiningi um skyldu til greiðslu gjalds samkvæmt 1. gr. eða um ábyrgð á greiðslu þess. Málskotsfrestur er 30 dagar frá uppkvaðningu úrskurðar.
     Sama málskotsfrest er t.d. að finna í 150. gr. laga um hlutafélög, nr. 32 12. maí 1978, 100. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75 14. september 1981, og 101. gr. tollalaga, nr. 55 30. mars 1987.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.


    Gert er ráð fyrir að dagsektir verði meginúrræði til þess að knýja fram upplýsingar, gögn og aðgang að vettvangi hjá upplýsingaskyldum aðilum, sbr. 5. gr. Ákvæðinu er þó ekki ætlað að girða fyrir innsetningargerð í þessu skyni.

Um 13. gr.


    Ráðgert er að gildistaka þessara laga haldist í hendur við gildistöku þeirra breytinga er gera þarf á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, vegna stofnunar Fiskistofu.

Um 14. gr.


    Grein þessari er ætlað að taka af öll tvímæli um það að heimilt er að leggja á gjald þetta þótt háttsemi sú, sem liggur álagningu til grundvallar, hafi átt sér stað fyrir gildistöku laganna, enda hefði álagning verið heimil samkvæmt eldri lögunum.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.


    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að gjald verði lagt á ólögmætan sjávarafla eftir nánari skilgreiningu í 1. gr. þess. Engin tök eru á að ákveða hverjar tekjur verða af gjaldi þessu. Það fer bæði eftir fjölda brota fiskverði og framfylgd laganna. Í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að tekjunum verði ráðstafað í sérstakan sjóð í vörslu sjávarútvegsráðuneytisins og skuli verja fé úr honum í þágu hafrannsókna og eftirlits með fiskveiðum eftir nánari ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Hér er um sama sjóð að ræða og stofnað er til með 2. gr. l. nr. 32/1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, og er fyrirkomulag á ráðstöfun hans óbreytt í frumvarpi þessu frá þeim lögum. Gera verður ráð fyrir að fé úr sjóðnum muni að mestum hluta renna til Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu sem leiða mun til lækkunar á beinum fjárveitingum til þessara stofnana á fjárlögum.
     Í 6. gr. er gert ráð fyrir þriggja manna nefnd til að úrskurða álagningu gjalds skv. 1. gr. og jafnmörgum mönnum til vara. Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Sé tekið mið af ýmsum hliðstæðum fastanefndum í þjónustu ríkisins má ætla að nefndarlaun verði á bilinu 600–800 þús. kr. á ári eftir því hvert vinnumagn nefndarinnar mun reynast verða. Litið er svo á að gagnasöfnun og undirbúningur nefndarstarfsins verði unninn og fjármagnaður af Fiskistofu af því fé sem henni er ætlað nú þegar þannig að ekki verður gert ráð fyrir sérstökum kostnaði af þeim sökum.