Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 444 . mál.


702. Frumvarp til laga



um að leggja niður Lífeyrissjóð ljósmæðra.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



1. gr.


    Lög um Lífeyrissjóð ljósmæðra, nr. 86/1938, með síðari breytingum, eru úr gildi felld.

2. gr.


    Allar skuldbindingar, sem á lífeyrissjóðnum hvíla, falla á ríkissjóð.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Það er að tillögu Ljósmæðrafélags Íslands að lagt er til með frumvarpi þessu að leggja niður Lífeyrissjóð ljósmæðra.
     Lífeyrissjóðurinn var stofnaður með lögum nr. 86/1938.
     Frumvarp um stofnun sjóðsins kom fyrst fram á Alþingi á árinu 1933, flutt af Vilmundi Jónssyni landlækni að beiðni Ljósmæðrafélags Íslands. Ekki náði það fram að ganga þá en var endurflutt á þingi árið 1938 af fyrrnefndum Vilmundi og Helga Jónassyni héraðslækni og þá lögfest.
     Á þeim tíma var lítið um lífeyrissjóði. Þó var til Lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra sem stofnaður var 1921 og nefndist síðar Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Einnig var til Lífeyrissjóður barnakennara og ekkna þeirra, stofnaður 1921, sem sameinaður var Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins 1980. Fátt var um aðra lífeyrissjóði. Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna var t.d. ekki stofnaður fyrr en árið 1943.
     Lögunum um Lífeyrissjóð ljósmæðra hefur ekki verið breytt frá setningu þeirra 1938 nema smávægilegar breytingar voru gerðar með lögum nr. 114/1940.
     Lífeyrissjóður ljósmæðra tók til allra lögskipaðra ljósmæðra, nema þeirra sem störfuðu í bæjum, og voru þeim tryggð þar sömu eftirlaun og öðrum föstum starfsmönnum bæjanna. Þá tók sjóðurinn heldur ekki til þeirra ljósmæðra sem störfuðu við fæðingardeild Landspítalans.
     Með lögskipuðum ljósmæðrum var átt við þær ljósmæður sem skipaðar voru til að gegna ljósmóðurumdæmum samkvæmt ljósmæðralögum, nr. 17/1933. Í öllum meginatriðum fylgdi skipting landsins í ljósmóðurumdæmi hreppa- og kaupstaðamörkum svo að segja má að ljósmóðir hafi verið í hverjum hreppi. Til þessara ljósmæðra var Lífeyrissjóðnum ætlað að taka. Í greinargerð með lífeyrissjóðsfrumvarpinu 1933 er talið að þær séu 198 talsins þá.
     Þetta ljósmóðurumdæmakerfi var lagt endanlega niður í árslok 1984 með lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 59/1983.
     Þessi starfsstétt, umdæmisljósmæður, sem ein skyldi eiga aðild að Lífeyrissjóði ljósmæðra, er ekki lengur til. Því er ekki lengur um það að ræða að iðgjöld séu greidd til sjóðsins eða neinn sjóðfélagi ávinni sér þar frekari rétt en orðið er.
     Réttindaákvæði laganna, óbreytt í meir en hálfa öld, eru með nokkuð öðru sniði en nú tíðkast. Fyrir það fyrsta ávannst ekki neinn réttur til lífeyris fyrr en eftir 15 ára starf sem umdæmisljósmóðir. Í öðru lagi fékkst þessi réttur því aðeins að ljósmóðirin hætti störfum af ástæðum sem sjóðstjórnin taldi lögmætar. Sjúkdómar og elli voru þær einu ástæður sem sjóðstjórnin mátti telja lögmætar. Lögin gera þó ráð fyrir að lögmæt elli gæti lagst á við 60 ára aldur. Í þriðja lagi var lífeyririnn ekki verðtryggður. Skyldi hann miðast við meðalárslaun hlutaðeigandi ljósmóður síðustu fimm árin í starfi og haldast óbreyttur að krónutölu til æviloka. Lífeyririnn hefur því fljótlega orðið lítils virði.
     Nokkuð hefur verið bætt við lífeyrinn með styrkveitingum til einstakra ljósmæðra á fjárlögum af þeim pósti sem til skamms tíma var kallaður 18. gr. Mun sá háttur hafa komist á árið 1926. Á fjárlögum fyrir árið 1938, árið sem lífeyrissjóðurinn var stofnaður, eru ljósmæðurnar 47 talsins. Þar af eru þrjár nefndar júbilljósmæður, en það sæmdarheiti fengu þær þegar þær höfðu gegnt ljósmóðurstarfinu í 50 ár. Þessi háttur hefur haldist alla tíð síðan og í mars 1992 eru þær 24 sem fá þetta framlag á fjárlögum. Þar af eru 18 sem einnig fá lífeyri úr sjóðnum. Hins vegar eru 14 ljósmæður sem lífeyri fá úr sjóðnum en fá ekki greiðslu á fjárlögum svo nokkuð ósamræmi virðist vera hér á.
     Engar eignir eru til í sjóðnum og minna en það því að í árslok 1990 skuldar sjóðurinn Tryggingastofnun ríkisins um 500.000 krónur.
     Rökin fyrir því að leggja Lífeyrissjóð ljósmæðra niður eru í stuttu máli þessi:
—    starfsstétt sú, sem lífeyrissjóðnum var ætlað að sinna, er ekki lengur til,
—    réttindareglur sjóðsins eru löngu úreltar,
—    sjóðurinn er tómur og
—    starfandi ljósmæður landsins eiga eðlilega aðild að öðrum almennum lífeyrissjóðum.
    Ljósmæðrafélag Íslands hefur gert tillögu um hvernig fara skuli með skuldbindingar sjóðsins þegar hann verður lagður niður og hvernig greiðslum til sjóðfélaga skuli háttað.
     Tillögur Ljósmæðrafélagsins eru í megindráttum þessar:
    Þær ljósmæður, sem nú fá lífeyri úr sjóðnum eða á fjárlögum ellegar hvoru tveggja, fái framvegis í eftirlaun frá ríkissjóði upphæð sem sé 27% af grundvallarlaunum umsjónarnefndar eftirlauna. Það er í dag um 12.300 kr. á mánuði. Sama gildi um ljósmæður sem eiga 10 ára réttindatíma í Ljósmæðrasjóðnum og eru orðnar 60 ára enda hafi þær ekki fengið iðgjöld sín endurgreidd eða þau flutt í aðra lífeyrissjóði. Niður falli greiðslur lífeyris úr sjóðnum og styrktarfé á fjárlögum.
    Þær ljósmæður, sem eiga skemmri réttindatíma en 10 ár og ekki greiddu iðgjöld til sjóðsins eftir gildistöku laga nr. 9/1974, um starfskjör launþega o.fl., fái iðgjöld sín endurgreidd, verðtryggð í samræmi við grundvallarlaun umsjónarnefndar eftirlauna, enda hafi þær ekki fengið iðgjöldin áður endurgreidd eða þau flutt í annan lífeyrissjóð.
    Inneign þeirra ljósmæðra, sem eiga skemmri réttindatíma í sjóðnum en 10 ár og greitt hafa iðgjöld í sjóðinn eftir gildistöku laga nr. 9/1974, um starfskjör launþega o.fl., verði flutt í annan lífeyrissjóð.
    Undir 1. lið munu falla um 65 ljósmæður. Þar af fá nú 38 greiðslur úr Lífeyrissjóðnum eða á fjárlögum ellegar hvoru tveggja en 27 mundu bætast í hópinn. Af þeim eru 18 með 15 ára sjóðsaldur eða lengri. Sex hafa 10–15 ára sjóðsaldur. Þrjár ná að vísu ekki 10 ára sjóðsaldri en þó meir en 10 ára starfsaldri sem umdæmisljósmæður. Þær komu til starfa fyrir 1938, eða áður en sjóðnum var komið á fót. Þessar þrjár eru á aldrinum 90–97 ára.
     Tillaga Ljósmæðrafélagsins gerir ráð fyrir að allar fái sömu eftirlaunagreiðslu. Ófært er annað því að mismunandi reglur mundu leiða til þess að margar fengju lítið en engin þó mikið.
     Af samþykkt frumvarpsins sjálfs leiðir ekki neinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð enda er sjóðurinn skv. 1. gr. gildandi laga eign ríkisins og ríkissjóður ábyrgist greiðslur úr honum skv. 3. gr. laganna og skuldbindingar sjóðsins óverulegar.
    Verði farið að tillögum Ljósmæðrafélagsins um greiðslur til sjóðfélaga má ætla að kostnaður ríkissjóðs verði um 9,5 m.kr. á ári fyrstu árin í stað 1,5 m.kr. sem nú eru greiddar úr sjóðnum og af fjárlögum. Til endurgreiðslu iðgjaldainneignar þeirra sem ekki fá lífeyri munu árlega fara um 0,5 m.kr. og annað eins til flutnings réttinda í aðra lífeyrissjóði. Framlög þessi yrðu ákveðin í fjárlögum hverju sinni.