Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 464 . mál.


722. Frumvarp til laga



um yfirskattanefnd.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)


Upphafsákvæði.

1. gr.

    Ágreiningsmál um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna, þar með talin rekstrartöp, skulu úrskurðuð af sérstakri óháðri nefnd, yfirskattanefnd.

Gildissvið.


2. gr.

    Úrskurðarvald yfirskattanefndar tekur til ákvörðunar skatta og gjalda samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum um tekjustofna sveitarfélaga, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald, lögum um Iðnlánasjóð, lögum um iðnaðarmálagjald, lögum um Útflutningsráð Íslands, lögum um málefni aldraðra, lögum um skattskyldu innlánsstofnana, lögum um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, lögum um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, lögum um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga manna í atvinnurekstri, lögum um húsnæðissparnaðarreikninga, lögum um virðisaukaskatt, lögum um vörugjald, lögum um sérstakt vörugjald, lögum um bókhald, lögum um almannatryggingar er varða skattákvörðun og öllum öðrum lögum um skattákvörðun.
    Yfirskattanefnd skal úrskurða kærur um öll gjöld sem skattstjórar og ríkisskattstjóri úrskurða um skv. 1. mgr.
    Yfirskattanefnd skal úrskurða um sektir skv. 107. gr., sbr. 108. gr., laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skv. 30. gr., sbr. 31. gr., laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, og skv. 40. gr., sbr. 41. gr., laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Aðild.


3. gr.

    Skattaðilum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar kæruúrskurðum skattstjóra og ríkisskattstjóra um skattákvörðun og skattstofna.
    Ríkisskattstjóra er heimilt að kæra úrskurði skattstjóra til nefndarinnar með sama hætti og skattaðilar og að uppfylltum sömu skilyrðum.
    Ríkisskattstjóri skal koma fram gagnvart yfirskattanefnd fyrir hönd gjaldkrefjenda. Við ákvörðun sekta kemur skattrannsóknarstjóri fram sem kröfuaðili.

Lögsaga.


4. gr.

    Yfirskattanefnd hefur lögsögu á öllu landinu og hefur aðsetur í Reykjavík. Nefndinni er þó heimilt að ákveða málflutning og úrskurða um einstök ágreiningsmál annars staðar á landinu ef hún telur þörf á.

Kærufrestur.


5. gr.

    Kærufrestur skattaðila til yfirskattanefndar skal vera 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra eða ríkisskattstjóra. Þá hefur ríkisskattstjóri heimild til þess að skjóta úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar á næstu 30 dögum eftir að úrskurður skattstjóra berst ríkisskattstjóra.
    Kærur skattaðila skulu vera skriflegar og studdar nauðsynlegum gögnum. Heimilt er yfirskattanefnd að krefja skattaðila um frekari upplýsingar ef hún telur ástæðu til.

Gagnaöflun

.

6. gr.

    Yfirskattanefnd skal tafarlaust senda ríkisskattstjóra kæru skattaðila ásamt endurriti af þeim gögnum er kunna að fylgja kæru hans. Hafi ríkisskattstjóri kært úrskurð skattstjóra, sbr. 5. gr., skal yfirskattanefnd tafarlaust senda skattaðila endurrit kæru ásamt gögnum er henni fylgdu og gefa skattaðila kost á, innan hæfilegs frests, að koma með andsvör sín og gögn.
    Ríkisskattstjóri skal í tilefni af málsmeðferð fyrir yfirskattanefnd afla frumgagna skattstjóra varðandi hina kærðu ákvörðun skattstjóra.
    Ríkisskattstjóri skal hafa lagt fyrir yfirskattanefnd innan 45 daga, frá því að honum barst endurrit kæru, rökstuðning í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda og nauðsynleg gögn er hann hefur aflað frá skattstjóra.

Málflutningur.


7. gr.

    Skattaðila er heimilt að óska þess að hann eða umboðsmaður hans geti flutt mál munnlega fyrir yfirskattanefnd. Sömu óskir getur ríkisskattstjóri sett fram. Ósk skattaðila eða ríkisskattstjóra um munnlegan málflutning skal koma fram í rökstuðningi hans í kæru. Formaður yfirskattanefndar ákveður hvort munnlegur málflutningur fari fram og skal tilkynna skattaðila og ríkisskattstjóra um þá ákvörðun sína.
    Ef mál er flókið, hefur að geyma vandasöm úrlausnarefni, er sérlega þýðingarmikið eða varðar ágreining um grundvallaratriði í skattarétti eða reikningsskilum er yfirskattanefnd heimilt að ákveða sérstakan málflutning. Skal yfirskattanefnd þá afgreiða mál skv. 4. mgr. 9. gr. og eftir atvikum 10. gr.
    Sé eigi þörf á sérstökum málflutningi að mati formanns nefndarinnar skal taka mál til uppkvaðningar úrskurðar að fenginni skriflegri kæru skattaðila og umsögn ríkisskattstjóra.
    Ríkisskattstjóri skal rökstyðja kröfur sínar og rita greinargerð í málum fyrir yfirskattanefnd að því marki sem hann telur ástæðu til. Jafnframt skal ríkisskattstjóri senda viðbótarupplýsingar ef málavextir þykja vera þess eðlis að ástæða sé til þess að afla frekari gagna. Yfirskattanefnd er ætíð heimilt að afla frekari gagna eða upplýsinga máli til skýringa ef hún telur málið ekki nægilega upplýst.

Lok málsmeðferðar

.

8. gr.

    Yfirskattanefnd skal hafa lagt úrskurði á kærur þremur mánuðum eftir að henni hefur borist umsögn og greinargerð ríkisskattstjóra. Ef rökstuðningur hefur eigi verið nægjanlegur að mati nefndarinnar reiknast þriggja mánaða fresturinn frá þeim tíma er nægjanlegur rökstuðningur barst eða lokagagnaöflun lauk.
    Tímamörk 1. mgr. eiga þó ekki við ef yfirskattanefnd hefur ákveðið sérstakan málflutning skv. 2. mgr.

Nefndarmenn

.

9. gr.

    Í yfirskattanefnd skulu sitja sex menn sem skipaðir skulu til sex ára í senn er allir hafa starfið að aðalstarfi. Skulu nefndarmenn fullnægja skilyrðum, sem sett eru í 86. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, um embættisgengi skattstjóra. Fjármálaráðherra skipar einn nefndarmanna formann nefndarinnar og annan varaformann. Báðir skulu uppfylla skilyrði sem sett eru um embættisgengi héraðsdómara. Ætíð skal annaðhvort formaður eða varaformaður taka þátt í úrlausn hvers máls. Laun nefndarmanna skulu ákveðin af Kjaradómi.
    Formaður yfirskattanefndar hefur yfirstjórn hennar með höndum og ber á henni ábyrgð. Hann fer með fyrirsvar nefndarinnar út á við. Formaður úthlutar nefndarmönnum málum til meðferðar og skipar þeim í deildir ef yfirskattanefnd starfar deildaskipt. Varaformaður er staðgengill formanns og gegnir störfum hans þegar formaður er forfallaður eða fjarstaddur. Hann skipar forsæti þegar formaður situr eigi í nefnd.
    Í hverju máli skulu þrír nefndarmenn úrskurða eftir nánari ákvörðun formanns yfirskattanefndar.
    Hafi yfirskattanefnd ákveðið sérstakan málflutning, sbr. 2. mgr. 7. gr., skulu fimm nefndarmenn taka þátt í úrlausn máls.

Sérfróðir aðilar.


10. gr.

    Yfirskattanefnd er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á. Skulu þeir aðilar starfa með yfirskattanefnd eftir nánari ákvörðun formanns eða varaformanns.

Sératkvæði

.

11. gr.

    Formaður eða varaformaður stýrir störfum nefndarinnar. Þegar nefndarmenn eru eigi sammála um niðurstöðu ræður meiri hluti niðurstöðu máls. Ef nefndin þríklofnar í afstöðu sinni eða niðurstaða getur eigi ráðist af atkvæðamagni ræður atkvæði formanns eða varaformanns ef formaður situr ekki í nefndinni.

Skattframtal sem kæra.


12. gr.

    Berist yfirskattanefnd kæra sem rökstudd er með skattframtali sem ekki hefur sætt efnisúrlausn hjá skattstjóra skal nefndin senda kæruna til skattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar. Nefndin skal tilkynna skattaðila, umboðsmanni hans og ríkisskattstjóra um þá ákvörðun.
    Með slíkt mál skal skattstjóri fara skv. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og ljúka úrskurði innan tveggja mánaða frá því að honum barst málið til meðferðar frá yfirskattanefnd.

Rökstuðningur úrskurðar.


13. gr.

    Úrskurðir yfirskattanefndar skulu ítarlega rökstuddir þannig að í forsendum þeirra komi skýrt fram á hvaða málsástæðum, kæruefnum og skattheimildum sé byggt.

Útgáfa úrskurða.


14. gr.

    Yfirskattanefnd skal gefa út helstu úrskurði nefndarinnar árlega. Heimilt er að stytta úrskurði í þeirri útgáfu en tryggja ber að úrskurðir sem fordæmisgildi hafa birtist þar.

Málskot til dómstóla.


15. gr.

    Úrskurður yfirskattanefndar er fullnaðarúrskurður um skattfjárhæð. Ágreining um skattskyldu og skattstofna má þó bera undir dómstóla.

Vanhæfi nefndarmanns

.

16. gr.

    Skylt er nefndarmanni að víkja sæti úr nefndinni í máli ef honum hefði borið að víkja sæti sem héraðsdómari í málinu.
    Þá er nefndarmanni óheimilt að sitja í nefndinni til úrskurðar um kærumál skattaðila sem hann hefur haft afskipti af í fyrri störfum sínum og varðar skattákvörðun viðkomandi.

Starfsmenn yfirskattanefndar.


17. gr.

    Yfirskattanefnd er heimilt að ráða sér starfsmenn til undirbúnings úrlausna mála auk almennra skrifstofustarfa eftir nánari ákvörðun Alþingis á fjárlögum hverju sinni.

Gjaldabreytingar

.

18. gr.

    Þegar yfirskattanefnd hefur lokið úrskurði máls skal hún senda skattaðila og ríkisskattstjóra eintak úrskurðar og tilkynna innheimtumanni um gjaldabreytingu sem nefndin kann að ákveða samhliða því að endurrit úrskurðar er sent skattstjóra. Skattaðilum skal tilkynnt um niðurstöðu máls og breytingu gjalda í ábyrgðarbréfi.

Óheimil afskipti af skattframkvæmd.


19. gr.

    Yfirskattanefndarmönnum er óheimilt að hafa afskipti af skattframkvæmd á öðrum málsstigum eða fyrir einstaka skattaðila.

Reglugerð

.

20. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilt að kveða nánar á um starfshætti og störf yfirskattanefndar með reglugerð, þar með talið um réttarfarsreglur sem nefndin skal starfa eftir.

Eftirlit

.

21. gr.


    Fjármálaráðherra hefur eftirlit með störfum yfirskattanefndar og fylgist með að hún ræki skyldur sínar. Árlega skal yfirskattanefnd senda fjármálaráðherra skýrslu um störf sín.

Sektarmeðferð.


22. gr.

    Yfirskattanefnd úrskurðar um sektir fyrir brot á lögum þeim sem talin eru í 2. gr. laga þessara nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og dómsmeðferðar. Við meðferð máls skal gæta ákvæða laga um meðferð opinberra mála að því er varðar rétt sökunautar og varnir hans. Skattrannsóknarstjóri kemur fram af hálfu hins opinbera fyrir nefndinni við ákvörðun sekta og annast kröfugerð í sektarmálum. Úrskurðir nefndarinnar um sektarfjárhæð eru fullnaðarúrskurðir. Sektir skulu renna í ríkissjóð, nema vegna brota á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, en þá skal sektarfjárhæð renna í viðkomandi sveitarsjóð.
    Um innheimtu sekta gilda sömu reglur og um innheimtu vanskilafjár og álags samkvæmt lögum sem talin eru upp í 2. gr. laga þessara.

Gildistaka

.

23. gr.

    Yfirskattanefnd skal hefja störf 1. júní 1992. Skal hún þá taka við störfum ríkisskattanefndar og sektarnefndar staðgreiðslu. Frá sama tíma skulu ríkisskattanefnd, sbr. 89. og 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og sektarnefnd staðgreiðslu, sbr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, ljúka störfum.
    Yfirskattanefnd ber að taka við öllum óloknum ágreiningsmálum fyrir ríkisskattanefnd og sektarnefnd staðgreiðslu.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Ágreining, sem rís vegna ákvæða laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, skal yfirskattanefnd úrskurða um. Einnig skal yfirskattanefnd úrskurða skattsektir vegna sömu laga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum.

II.


    Í fyrsta sinn við skipun nefndarinnar skulu tveir menn skipaðir til fjögurra ára, tveir til sex ára og tveir til átta ára en eftir það skal hún skipuð skv. 1. mgr. 9. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi því, sem nú er lagt fyrir Alþingi um yfirskattanefnd, er gert ráð fyrir verulegri breytingu á störfum æðsta úrskurðaraðila á stjórnsýslustigi í skattamálum. Er gert ráð fyrir að ríkisskattanefnd og sektarnefnd staðgreiðslu verði lagðar niður og við störfum þeirra taki nýr úrskurðaraðili, yfirskattanefnd.
    Þegar ríkisskattanefnd var mynduð árið 1932 voru starfandi skattanefndir, nema í Reykjavík, sem sáu um álagningu opinberra gjalda. Þá voru jafnframt til yfirskattanefndir sem úrskurðuðu um ágreining milli skattaðila og framteljenda í hverju lögsagnarumdæmi. Það skipulag hélst fram til 1. október 1962 þegar skattanefndir og yfirskattanefndir voru aflagðar. Þá tóku í þess stað til starfa skattstjórar í níu skattumdæmum og embætti ríkisskattstjóra. Á sama tíma hættu störf ríkisskattanefndarmanna að vera aukastörf þar sem ríkisskattstjóri gegndi jafnframt formennsku í ríkisskattanefnd. Vararíkisskattstjóri gegndi á sama tíma starfi varaformanns ríkisskattanefndar í forföllum ríkisskattstjóra. Auk ríkisskattstjóra áttu þá sæti í ríkisskattanefnd tveir aðalmenn og tveir varamenn þeirra.
    Árið 1972 verður ríkisskattanefnd að sérstakri stofnun án tengsla við ríkisskattstjóraembættið. Þótt ekkert komi fram um það í þágildandi lögum, sem voru nr. 7/1972, var starf formanns ríkisskattanefndar talið hálft starf. Í þeim lögum voru ákvæði um að ekki mætti skipa þá menn í ríkisskattanefnd sem gegndu ábyrgðar- eða trúnaðarstöðum við stjórn samtaka atvinnurekenda, stéttarfélaga eða á sviði fjármála og skattheimtu hjá ríki og sveitarfélögum. Með lögum nr. 40/1978 er síðan skipuð sú ríkisskattanefnd sem tók til starfa á miðju ári 1980 og starfar enn. Féll þá niður umboð fyrri ríkisskattanefndar þar sem hin nýja ríkisskattanefnd skyldi skipuð þremur föstum starfsmönnum. Því ákvæði var síðar breytt með lögum nr. 7/1980 nokkru áður en nýja nefndin tók til starfa. Voru þá skipaðir í nefndina sex menn, þar af tveir sem skyldu hafa störfin að aðalstarfi en fjórir að hlutastarfi.
    Með frumvarpi þessu er nú lagt til að ríkisskattanefnd verði lögð niður og í hennar stað komi ný nefnd sem beri heitið yfirskattanefnd. Ástæða þess að hyggilegt er að skipta um nafn á nefndinni er of mikil samlíking ríkisskattanefndar við ríkisskattstjóraembættið og jafnframt til að undirstrika þá breytingu sem verið er að gera á starfsháttum nefndarinnar. Ríkisskattstjóri sat einnig í ríkisskattanefnd til að byrja með og of margir framteljendur tengja stofnanir þessar saman. Heiti ríkisskattanefndar er einnig villandi að því leyti til að ríkisskattanefnd úrskurðar einnig um öll sveitarsjóðsgjöld auk þinggjalda og annarra ríkisgjalda. Heitið yfirskattanefnd leysir úr þessu en undirstrikar einnig að nefndin sé æðsta úrskurðarvald á stjórnsýslustigi um ágreining í skattamálum á landinu öllu.
    Sektarnefnd staðgreiðslu var mynduð með lögum nr. 90/1987. Hlutverk hennar er að úrskurða um sektir vegna brota á staðgreiðslulögum. Í nefndinni hafa setið þrír menn í hlutastarfi, þar af einn sem ríkisskattstjóri tilnefnir. Fyrirkomulag þetta er um margt óhentugt og óeðlilegt; að fulltrúi ríkisskattstjóra, sem fer með framkvæmd á staðgreiðslu, sitji í nefndinni. Er með frumvarpi þessu gert ráð fyrir að nefndin verði lögð niður og störf hennar falin yfirskattanefnd.
    Ríkisskattanefnd hefur ekki tekist á þeim tólf árum sem hún hefur starfað að uppfylla þau ákvæði skattalaga er fjalla um greiða málsmeðferð. Ár hvert eru rekin fyrir nefndinni um og yfir 1.000 mál. Nú bíða afgreiðslu hjá nefndinni 1.400 mál og er það svipað og hefur verið undanfarin ár. Algengur biðtími frá því að kærandi leggur fram kæru er 1–2 ár en þó eru þess dæmi að gjaldandi hafi þurft að bíða í 3 1 / 2 ár þar til ríkisskattanefnd lagði úrskurð á deilumálið. Leita má skýringa á hægfara málsmeðferð m.a. til þess að í nefndinni sitji menn í hlutastarfi.
    Ástand þetta er með öllu óviðunandi og nauðsyn ber að efla starfsemi æðsta úrskurðarvaldshafa á stjórnsýslustigi í skattamálum með þeim hætti að tryggt sé að gjaldendur geti fengið úrlausn mála sinna með eðlilegum hætti á tilskildum tíma. Mikill dráttur á uppkvaðningu úrskurða dregur mjög verulega úr skilvirkni skattframkvæmdar og góðrar innheimtu. Þess gætir nokkuð að innheimta skattkrafna dragist vegna deilumála fyrir ríkisskattanefnd og þar með eykst hættan á tapi ríkissjóðs og sveitarfélaga á skattkröfum. Tafir í afgreiðslu skattamála draga einnig mjög verulega úr að réttaröryggi sé tryggt í stjórnsýslunni. Bæta þarf úr þessu ástandi með eflingu æðsta úrskurðaraðila á stjórnsýslustigi í skattamálum og tryggja þannig greiða skattframkvæmd.
    Með frumvarpi þessu er reiknað með að yfirskattanefnd starfi að mörgu leyti eins og dómstóll og verði með þeim hætti æðsta úrskurðarvald á stjórnsýslustigi um ágreining í skattamálum. Þá er einnig unnt að breyta ákvæðum laga um nefndina ef ástæða þykir til þannig að unnt verði að skjóta málum beint frá yfirskattanefnd til Hæstaréttar.
    Gert er ráð fyrir að í yfirskattanefnd sitji sex menn í föstu starfi. Verður að telja óeðlilegt með vísan til þess sem að framan er rakið að nefndin sé skipuð mönnum í hlutastarfi. Slíkt fyrirkomulag gæti aukið hættu á að vanhæfi myndaðist hjá nefndarmönnum í hlutastarfi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í ákvæði þessu er gert ráð fyrir því að hér á landi starfi sérstakur óháður úrskurðaraðili, yfirskattanefnd, sem úrskurða skal um ágreiningsmál um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna, þar með talið að úrskurða um rekstrartöp í atvinnurekstri. Enn fremur felst í þessu ákvæði að yfirskattanefnd skal úrskurða um rétt skattaðila til ýmissa bóta, svo sem vaxtabóta og afslátta eins og sjómannaafsláttar, heimilisfesti, samsköttunar o.fl.

Um 2. gr.


    Samkvæmt greininni er gert ráð fyrir því að úrskurðarvald yfirskattanefndar taki til ákvörðunar allra skatta og gjalda sem talin eru upp í frumvarpsgreininni. Enn fremur er það lagt á verksvið yfirskattanefndar að úrskurða um sektir samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatt. Jafnframt er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að nefndin ákvarði sektir um söluskatt meðan á þarf að halda. Samhliða því að yfirskattanefnd taki við að úrskurða um sektir vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda verður lögð niður sérstök nefnd, sektarnefnd staðgreiðslu, sem starfar samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Um 3. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um hvernig málskoti til nefndarinnar verði háttað. Er öllum skattaðilum (gjaldendum, framteljendum og sveitastjórum) heimilt að skjóta til nefndarinnar kæruúrskurðum skattstjóra og eftir atvikum ríkisskattstjóra um skattákvörðun og skattstofna. Einnig er sama heimild veitt ríkisskattstjóra sem getur þannig skotið málum til yfirskattanefndar ef hann sættir sig ekki við niðurstöðu skattstjóra. Þá er ríkisskattstjóra gert að koma fram gagnvart yfirskattanefnd fyrir hönd gjaldkrefjenda en við ákvörðun sekta komi skattrannsóknarstjóri fram sem kröfuaðili um sekt.

Um 4. gr.


    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að yfirskattanefnd hafi lögsögu fyrir allt landið. Nefndinni er ætlað aðsetur í Reykjavík en er þó heimilt að ákveða málflutning og úrskurða um einstök ágreiningsmál annars staðar á landinu ef sérstakar aðstæður krefjast eða hún telur þörf á.

Um 5. gr.


    Ákvæðið er sambærilegt lagaákvæðum um ríkisskattanefnd þar sem kærufrestur skattaðila til nefndarinnar er 30 dagar frá póstlagningu úrskurða skattstjóra eða ríkisskattstjóra.
    Þá hefur ríkisskattstjóri heimild til þess að skjóta úrskurði skattstjóra til nefndarinnar í 30 daga eftir að úrskurður skattstjóra berst ríkisskattstjóra. Þar er um að ræða breytingu frá núgildandi ákvæðum en samkvæmt þeim hefur ríkisskattstjóri heimild til þess í allt að þrjá mánuði að kæra úrskurð skattstjóra til ríkisskattanefndar. Nú er sú heimild þrengd niður í 30 daga eftir að úrskurður berst ríkisskattstjóra en skv. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal skattstjóri tafarlaust senda ríkisskattstjóra eintak úrskurðar síns eftir að hann hefur verið upp kveðinn. Verður að telja eðlilegt að jafnræði sé á milli aðila hvað þetta varðar og frestur ríkisskattstjóra því styttur verulega.
    Í ákvæðinu er einnig nýmæli þar sem yfirskattanefnd er heimilt að krefja skattaðila um frekari upplýsingar ef hún telur ástæðu til. Auk þess er í ákvæðinu sú almenna regla að kærur í skattamálum skuli vera skriflegar og studdar nauðsynlegum gögnum.

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um skyldu yfirskattanefndar til að senda ríkisskattstjóra tafarlaust kæru skattaðila ásamt endurriti af gögnum, svo og er gert ráð fyrir að yfirskattanefnd sendi skattaðila endurrit kæru ríkisskattstjóra. Í þessu ákvæði er nýmæli þar sem ríkisskattstjóri skal í tilefni af málsmeðferð fyrir yfirskattanefnd afla frumgagna skattstjóra varðandi hina kærðu ákvörðun skattstjóra. Þessa framkvæmd hefur ríkisskattstjóri haft með höndum undanfarin ár án þess að vera það skylt. Þykir sjálfsagt að lögfesta það og undirstrika þar með að yfirskattanefnd skal ekki sjálf afla gagna heldur sé það á verksviði aðila málsins, í þessu tilfelli ríkisskattstjóra, þar sem skattaðili hefur ekki aðstöðu til þess að fá frumgögn skattstjóra í sínar hendur.
    Þá er einnig í ákvæðinu fjallað um frest ríkisskattstjóra til þess að senda rökstuðning frá sér og er hann ákveðinn 45 dagar. Núverandi heimild í lögum um tekjuskatt og eignarskatt er 30 dagar en hefur í reynd verið allt upp undir eitt ár. Á því hefur reyndar orðið veruleg breyting á undanförnu einu ári en nú er algengt að mál séu u.þ.b. 30–60 daga í umsögn hjá ríkisskattstjóra áður en hann sendir málið til ríkisskattanefndar.

Um 7. gr.


    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að skattaðila sé heimilt að óska þess að hann eða umboðsmaður hans geti flutt mál munnlega fyrir yfirskattanefnd og að sömu óskir geti komið frá ríkisskattstjóra. Þá er einnig í ákvæðinu heimild fyrir nefndina ef mál er flókið, hefur að geyma vandasöm úrslausnarefni, er sérlega þýðingarmikið eða varðar ágreining um grundvallaratriði í skattarétti eða reikningsskilum að ákveða svokallaðan sérstakan málflutning. Með afgreiðslu skal þá fara skv. 5. mgr. 9. gr. og eftir atvikum 10. gr. Ef eigi fer fram munnlegur málflutningur eða sérstakur málflutningur er einnig í ákvæðinu fjallað um skyldur ríkisskattstjóra til að rökstyðja kröfur sínar og rita greinargerðir í málum fyrir yfirskattanefnd að því marki er hann telur ástæðu til. Jafnframt er sú skylda lögð á ríkisskattstjóra að senda viðbótarupplýsingar ef málavextir þykja vera þess eðlis að ástæða sé til þess að afla frekari gagna. Þá er yfirskattanefnd veitt almenn heimild til að afla viðbótarupplýsinga eða sérstakra gagna ef hún telur ástæðu til.

Um 8. gr.


    Með ákvæðinu er sú skylda lögð á yfirskattanefnd að hafa lagt úrskurði á kærur þremur mánuðum eftir að henni hefur borist umsögn og greinargerð ríkisskattstjóra. Núverandi frestur ríkisskattanefndar er sex mánuðir en er því miður einungis í örfáum tilfellum virtur eins og rakið var í almennum athugasemdum. Með því að setja aukinn kraft í afgreiðslu mála og fastari reglur er sá frestur sem hér er settur í ákvæðinu, þrír mánuðir, talinn hæfilegur. Í ljósi þess að nokkurn tíma getur tekið að afla frumgagna er talið eðlilegra að frestur nefndarinnar miðist við þann tíma er hún fær gögn málsins í hendur frá ríkisskattstjóra ásamt kröfugerð. Tímamörk ákvæðisins eiga þó ekki við ef ákveðinn er sérstakur málflutningur fyrir yfirskattanefnd.

Um 9. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að í yfirskattanefnd sitji sex menn er allir hafa starfið að aðalstarfi en skipaðir tímabundið. Skulu þeir fullnægja almennum skilyrðum sem sett eru um embættisgengi skattstjóra. Einn nefndarmanna skal gegna starfi formanns nefndarinnar og annar varaformanns, báðir skulu uppfylla skilyrði sem sett eru um embættisgengi héraðsdómara og að annaðhvort skuli formaður eða varaformaður taka þátt í úrlausn hvers máls. Í ákvæðinu er fjallað um að formaður yfirskattanefndar fari með yfirstjórn nefndarinnar og beri á henni ábyrgð. Hann skuli fara með fyrirsvar nefndarinnar út á við og úthluti málum til meðferðar. Með sex föstum nefndarmönnum er unnt að láta nefndina starfa deildaskipt þannig að þrír nefndarmenn starfi í hvorri deild. Gæti þá formaður stýrt annarri deildinni og varaformaður hinni. Er þess þá að vænta að mál safnist ekki fyrir eins og verið hefur á undanförnum árum og tryggja þar með greiða meðferð skattamála hjá æðsta úrskurðaraðila. Í ákvæðinu er fjallað um að fimm nefndarmenn taki þátt í úrslausn máls þegar sérstakur málflutningur er ákveðinn, sbr. 7. gr. Ætti það að stuðla enn frekar að vandaðri málsmeðferð við erfiðari mál.

Um 10. gr.


    Jafnframt því að fjölga nefndarmönnum þegar úrskurðað er um flókin og vandasöm deilumál er nefndinni jafnframt heimilað að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á. Yrði væntanlega um að ræða löggilta endurskoðendur eða aðra viðskiptamenntaða menn til þess að upplýsa um einstök atriði, veita almennar ráðleggingar eða kanna sjálfstætt einstök atriði eða málavexti í heild sinni, allt eftir ákvörðun yfirskattanefndar. Aðilar þessir skulu þannig vera nefndinni til ráðgjafar og aðstoðar um efnisatriði málsins eftir því sem tilefni þykir gefast til. Með þessum hætti er einnig hjá því komist að nefndarmenn séu í hlutastarfi í nefndinni sem dregur um leið úr hættu á ýmsum hagsmunaárekstrum.

Um 11. gr.


    Í greininni er fjallað um stjórnun nefndarinnar í einstökum ágreiningsmálum. Eðli máls samkvæmt er það formaður eða varaformaður sem stýrir störfum nefndarinnar. Í ákvæðinu er það nýmæli að þríklofni nefndin í afstöðu sinni og niðurstaða geti eigi ráðist af atkvæðamagni skuli atkvæði formanns eða eftir atvikum varaformanns ráða niðurstöðu.

Um 12. gr.


    Ákvæði þetta er sambærilegt við ákvæði sem nú gildir um ríkisskattanefnd að því fráskildu að skattstjóri fær nú tvo mánuði til þess að afgreiða málið í stað eins mánaðar. Eins mánaðar fresturinn er afar óraunhæfur og hefur í sárafáum tilfellum verið unnt að virða hann. Tveggja mánaða fresturinn þykir hæfilegur og er þess að vænta að um raunhæf tímamörk sé að ræða. Þá er þetta nú gert að skyldu en er í núgildandi lögum aðeins heimild þótt framkvæmdin hafi verið sú að mál eru undantekningarlaust, eða því sem næst, send til skattstjóra til uppkvaðningar úrskurðar.

Um 13. gr.


    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að úrskurðir yfirskattanefndar skuli ítarlega rökstuddir þannig að skýrt komi fram á hvaða kæruefnum, málsástæðum eða skattheimildum sé byggt. Á það hefur þótt verulega skorta í úrskurðum ríkisskattanefndar og því þykir nauðsyn að ákvæði þetta verði orðað mun skýrar í lögum um yfirskattanefnd. Grundvallaratriði er í stjórnsýslunni að úrskurðir æðsta úrskurðarvaldshafa í skattamálum séu ítarlega rökstuddir þannig að aðilar velkist ei í vafa. Er þetta til að mynda sérlega þýðingarmikið ef málsaðilar eru eigi sáttir við niðurstöðu nefndarinnar og málssókn fyrir almennum dómstólum stendur fyrir dyrum. Er þá nauðsynlegt að rök yfirskattanefndar fyrir skattákvörðun séu skýr og ótvíræð. Þá er það einnig mjög þýðingarmikið réttaröryggi að niðurstöður séu rökstuddar þannig að skattaðilar sjái ótvírætt á hverju sé byggt, svo og ekki síst að ljóst sé af úrskurði hvaða fordæmi felist í honum fyrir skattframkvæmd.

Um 14. gr.


    Sambærilegt ákvæði er nú að finna í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 15. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki sérstakra skýringa og er sambærilegt við ákvæði sem nú er í lögum um ríkisskattanefnd.

Um 16. gr.


    Ákvæðið er sambærilegt 103. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um vanhæfi skattyfirvalda til að ákvarða niðurstöðu í máli ef viðkomandi hefði borið að víkja sæti sem héraðsdómari í málinu.
    Þá er í ákvæðinu nýmæli þar sem er tekið fram að nefndarmanni sé óheimilt að sitja í nefndinni til úrskurðar um kærumál skattaðila sem hann hefur haft afskipti af í fyrri störfum og varða skattákvörðun viðkomandi. Er tilgangur þess að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra.

Um 17. gr.


    Með ákvæðinu er yfirskattanefnd heimilað að ráða sér starfsmenn til undirbúnings úrlausna mála og rekstur skrifstofu. Er það svipað eins og nú er hjá ríkisskattanefnd.

Um 18. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa og er sambærilegt því ákvæði sem nú er um ríkisskattanefnd.

Um 19. gr.


    Ákvæði þetta er nýmæli þar sem tekið er sérstaklega fram að yfirskattanefndarmönnum sé óheimilt að hafa afskipti af skattframkvæmd á öðrum málsstigum eða fyrir einstaka skattaðila. Í ríkisskattanefnd eiga nú sæti aðilar sem hafa m.a. atvinnu af framtalsgerð fyrir skattaðila. Þykir þetta afar óviðeigandi og andstætt almennum hæfissjónarmiðum. Með þessu ákvæði er komið í veg fyrir slík óeðlileg afskipti af skattframkvæmd fyrir einstaka skattaðila á öðrum málsstigum.

Um 20. gr.


    Með ákvæðinu er fjármálaráðherra heimilað að ákveða nánar um starfshætti og störf yfirskattanefndar með reglugerð, þar með talið um réttarfarsreglur sem nefndin skuli starfa eftir. Hefur fjármálaráðherra í hyggju að leita til lagadeildar Háskóla Íslands til að semja ásamt ráðuneytinu og væntanlegum formanni og varaformanni yfirskattanefndar, sem í nefndina verða skipaðir, reglugerð þar sem m.a. skal kveðið nánar á um þær réttarfarsreglur sem nefndinni er ætlað að starfa eftir.

Um 21. gr.


    Ákvæði þetta þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 22. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa. Með þessum hætti tekur yfirskattanefnd við störfum sektarnefndar staðgreiðslu og ríkisskattanefndar og úrskurðar um sektir og jafnframt er verið að halda óbreyttu því fyrirkomulagi að yfirskattanefnd geti ákvarðað, eins og ríkisskattanefnd áður, sektir fyrir undandrátt gjalda samkvæmt öðrum lögum sem vísa til sektarmeðferðar í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, ásamt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Um 23. gr.


    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að yfirskattanefnd hefji störf 1. júní 1992. Líkur þá störfum ríkisskattanefndar og sektarnefndar staðgreiðslu. Er í ákvæðinu gert ráð fyrir að yfirskattanefnd taki við öllum óloknum ágreiningsmálum fyrir þeim nefndum sem nú eru lagðar niður.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Ákvæðið lýtur að því að lög nr. 10/1960, um söluskatt, hafa eigi sérstaka þýðingu nema í gömlum deilumálum varðandi söluskatt. Því er ákvæðið haft bráðabirgðaákvæði en ekki í 2. gr. frumvarpsins.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Með ákvæði þessu er lagt til að í fyrsta sinn verði tveir nefndarmanna skipaðir til fjögurra ára, tveir til sex ára og tveir til átta ára. Þannig munu að fjögurra ára tíma liðnum tveir menn skipaðir í nefndina á tveggja ára fresti. Tilgangur þessa er m.a. að koma í veg fyrir mikla röskun á störfum nefndarinnar við mannabreytingar.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um yfirskattanefnd.


    Með frumvarpi þessu er áformað að setja á stofn yfirskattanefnd skipaða sex mönnum (1. og 9. gr.) og skal hún koma í stað ríkisskattanefndar og sektarnefndar staðgreiðslu (23. gr.).
    Ríkisskattanefnd fær 22,4 m.kr. fjárveitingu í fjárlögum 1992. Gera verður ráð fyrir að sú fjárveiting haldi áfram og gangi til að kosta starfsemi yfirskattanefndar. Kostnaðarauki við frumvarp þetta, verði það að lögum, felst í því að til þessa hafa fjórir menn af sex í ríkisskattanefnd verið lausir og komið inn í starf nefndarinnar eftir því sem tilefni hefur gefist til hverju sinni. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að allir sex nefndarmenn verði í föstu starfi. Laun nefndarmanna verða ákveðin af Kjaradómi og því ekki hægt að áætla þau með vissu, en með hliðsjón af hliðstæðum störfum hjá ríkinu má telja kostnaðaraukann liggja á bilinu 6–7 m.kr. Ekki er þá gert ráð fyrir að skrifstofukostnaður eða önnur hliðstæð gjöld aukist, enda mun yfirskattanefnd yfirtaka skrifstofuhald forvera sinna.